Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

97/2011 Ánabrekka

Árið 2012, fimmtudaginn 1. mars, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 97/2011, kæra vegna dráttar á afgreiðslu erindis um að Borgarbyggð hlutist til um að vegur í sumarhúsabyggð í landi Ánabrekku, verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. nóvember 2011, er barst nefndinni 30. sama mánaðar, kæra J og E, eigendur lóðar að Selási 7 í landi Ánabrekku, Borgarbyggð, drátt á afgreiðslu erindis, dags. 19. maí 2010, þar sem krafist var að Borgarbyggð hlutist til um að vegur í sumarhúsabyggð á nefndri jörð verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag.  Þess er krafist að lagt verði fyrir sveitarfélagið að taka nú þegar áðurgreint erindi til efnislegrar afgreiðslu. 

Málsatvik og rök:  Í júnímánuði 2010 fjölluðu skipulagsyfirvöld Borgarbyggðar tvívegis um erindi kærenda, dags. 19. maí s.á., þar sem krafist var atbeina skipulagsyfirvalda sveitarfélagsins að því að vegir í sumarhúsahverfi Seláss yrðu lagðir í samræmi við gildandi deiliskipulag svæðisins frá árinu 1990.  Var leitað umsagnar lögmanns vegna erindis kærenda og með bréfi, dags. 26. ágúst 2010, var landeigandi umrædds sumarhúsasvæðis upplýstur um málið.  Kærendur ítrekuðu erindi sitt í maí 2011 og kvörtuðu yfir aðgerðarleysi sveitarfélagsins í málinu.  Með bréfi, dags. 27. júní s.á., leitaði byggðarráð Borgarbyggðar álits Skipulagsstofnunar á því hvað sveitarfélaginu bæri að gera í tilefni af málinu og svaraði stofnunin því erindi með bréfi, dags. 18. júlí 2011.  Hinn 4. ágúst s.á. var málið til umfjöllunar á fundi byggðarráðs sem ákvað að fela umhverfis- og skipulagssviði að funda með málsaðilum.  Sá fundur var haldinn af hálfu bæjaryfirvalda hinn 6. september 2011 þar sem reynt var að leita lausna í málinu og m.a. lagt til að tilnefndir yrðu þrír aðilar af hálfu sveitarfélagsins, kærenda og landeiganda í því skyni, en það gekk ekki eftir.  Í kjölfarið var unnið að lausn málsins án þess að niðurstaða fengist.  Byggðarráð tók síðan málið fyrir á fundi 10. nóvember 2011 og bókaði að reynt yrði að ná sátt í málinu sem allra fyrst.  Umhverfis- og skipulagsnefnd fjallaði einnig um málið á fundi hinn 14. nóvember s.á. þar sem kynnt var tillaga landeiganda að breyttu skipulagi Seláss.  Fundargerðir þessara funda voru lagðar fram á fundi sveitarstjórnar hinn 17. nóvember s.á. 

Kærendur vísa til þess að vegur sem liggja eigi austan megin við umrædda sumarhúsabyggð samkvæmt gildandi deiliskipulagi hafi aldrei verið lagður.  Vegur sem liggi frá norðri til suðurs á svæðinu, milli lóða nr. 5, 7, 9 og 11 annars vegar og nr. 6, 8, 10 og 12 hins vegar, hafi aftur á móti verið ruddur af hálfu landeiganda í bága við skipulagið.  Liggi sá vegur innan marka lóðar kærenda og hafi í för með sér skerðingu eignarréttinda.  Þá hafi hann í för með sér bílaumferð við lóðina sem ekki hafi verið gert ráð fyrir í skipulagi, en eina aðkoma að lóðum nr. 8, 9, 10, 11 og 12 sé um hinn ólögmæta veg.  Þrátt fyrir ítrekuð tilmæli kærenda hafi landeigandi ekki fengist til að fara að gildandi skipulagi og leggja veginn austan við byggðina.  Hafi kærendur því leitað til Borgarbyggðar til að knýja á um nauðsynlegar úrbætur og að farið yrði að gildandi deiliskipulagi.  Hafi sú krafa kærenda fengið stuðning í fyrirliggjandi álitum lögmanns bæjarins og Skipulagsstofnunar.  Erindi kærenda hafi borist bæjaryfirvöldum í maí 2010 og hafi enn ekki verið afgreitt.  Telja verði þetta óhæfilegan drátt á afgreiðslu málsins og því sé sú krafa gerð að lagt verði fyrir Borgarbyggð að taka erindið án tafar til efnislegrar afgreiðslu. 

Af hálfu Borgarbyggðar er á það bent að sveitarfélagið hafi hvatt til þess að málsaðilar leituðu lausna í málinu og hafi Skipulagsstofnun einnig gert tillögu í þá átt.  Það hafi valdið vonbrigðum að kærandi hafi neitað að taka þátt í hópi til lausnar á málinu eins og lagt hafi verið til á fundi aðila í september 2011.  Í kjölfar þess hafi landeigandi óskað eftir því að leggja fram hugmynd að lausn málsins og hafi verið ákveðið að hann kynnti hana fyrir lóðarhöfum við Selás.  Sátta hafi verið leitað en auk funda vegna málsins hafi aðilar verið í samskiptum allt fram í nóvember 2011.  Málið hafi síðan verið til umfjöllunar á fundum byggðarráðs og umhverfis- og skipulagsnefndar í nóvember s.á. þar sem lögð hafi verið áhersla á að ná sátt í málinu sem fyrst.  Þá hafi verið kynnt tillaga landeiganda að breyttu skipulagi Seláss.  Hafi sveitarstjórn ekki gert athugasemdir við greindar bókanir en haldið áfram að vinna að lausn málsins.  Sé þess vænst að unnt verði að leggja fram tillögu í því skyni innan skamms. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er unnt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.  Mál þetta snýst um kröfur á hendur Borgarbyggð um töku ákvarðana gagnvart þriðja aðila um beitingu ákvæða í skipulagslögum nr. 123/2010 og gæti ákvörðun við afgreiðsla þess eftir atvikum átt undir úrskurðarnefndina skv. 52. gr. skipulagslaga.  Er máli þessu því réttilega beint til úrskurðarnefndarinnar. 

Þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni hinn 30. nóvember 2011 var um eitt og hálft ár liðið frá því að umrætt erindi kærenda barst Borgarbyggð.  Erindið, sem dagsett er 19. maí 2010, var tekið til umfjöllunar hjá skipulagsyfirvöldum Borgar-byggðar í júní sama ár.  Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að síðan hafi sveitar-félagið unnið að málinu með samskiptum við málsaðila, öflun umsagna og sátta-umleitunum og var það til meðferðar á fundum skipulagsyfirvalda í nóvember 2011. 

Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að viðhlítandi skýringar séu fyrir þeim drætti sem orðinn var á afgreiðslu erindis kærenda þegar kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni.  Samkvæmt því, og með tilliti til eðlis erindis kærenda, verður dráttur sá sem orðinn var á afgreiðslu þess ekki talinn óhæfilegur.  Hins vegar er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki liggi fyrir ástæður sem réttlæti frekari drátt á afgreiðslu málsins og beri því að taka það til efnislegrar afgreiðslu. 

Úrskurðarorð

Lagt er fyrir Borgarbyggð að taka til efnislegrar afgreiðslu, án ástæðulauss dráttar, erindi kærenda, dags. 19. maí 2010, þess efnis að hlutast verði til um að vegur í sumarhúsabyggð á nefndri jörð verði lagður í samræmi við gildandi deiliskipulag. 

______________________________
Hjalti Steinþórsson

____________________________   ___________________________
Ásgeir Magnússon                            Þorsteinn Þorsteinsson