Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

96 og 97/2018 Borgartún

Árið 2019, föstudaginn 19. júlí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Ómar Stefánsson varaformaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 96/2018, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221 vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2018, er barst nefndinni sama dag, kærir Smith & Norland hf., Nóatúni 4, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221 vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 13. júlí 2018, sem barst úrskurðarnefndinni sama dag, kæra íbúar og eigendur fasteigna að Mánatúni 7-17, einnig fyrrgreinda ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur með kröfu um ógildingu hennar. Verður það kærumál, sem er nr. 97/2018, sameinað kærumáli þessu þar sem sama ákvörðun er kærð í báðum málunum, kröfugerð er samhljóða og hagsmunir kærenda þykja ekki standa því í vegi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 23. janúar 2019.

Málavextir: Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag staðgreinireits 1.221, sem tekur til svæðis sunnan Borgartúns, milli Höfðatúns og Nóatúns, sem samþykkt var í október 1973 og var síðast breytt varðandi lóðina nr. 24 við Borgartún í maí 2001. Hinn 7. júní 2017 samþykkti umhverfis- og skipulagsráð að auglýsa tillögu um breytingu á nefndu deiliskipulagi fyrir lóðina nr. 24 við Borgartún. Í tillögunni fólst að byggingarmagn yrði aukið og gert ráð fyrir allt að 65 íbúðum, atvinnuhúsnæði á fyrstu hæð og bílastæðum í kjallara. Húsið á lóðinni yrði allt að 7 hæðir og nýtingarhlutfall lóðarinnar færi úr 0,83 í 1,96. Borgarráð samþykkti tillöguna til auglýsingar á fundi sínum 15. júní 2017 og var tillagan kynnt á tímabilinu frá 20. s.m. til 15. september s.á. Athuga­­­semdir bárust á kynningartíma, þ. á m. frá kærendum. Skipulagsfulltrúi brást við athugasemdum kærenda með umsögn, dags. 20. nóvember 2017. Umhverfis- og skipulagssvið vísaði tillögunni til afgreiðslu borgarráðs 7. desember s.á. sem samþykkti deiliskipulagsbreytinguna á fundi sínum 20. febrúar 2018.

Með erindi og viðbótargögnum, dags. 26. febrúar og 15. mars 2018, sendi Reykjavíkurborg Skipulagsstofnun deiliskipulagstillöguna til lögboðinnar umfjöllunar. Með bréfi, dags. 11. apríl s.á., tilkynnti Skipulagsstofnun að hún gerði athugasemd við að auglýsing um gildistöku deiliskipulagsbreytingarinnar yrði birt í B-deild Stjórnartíðinda. Stofnunin vakti m.a. athygli á að deiliskipulagsbreytingin næði eingöngu til einnar lóðar á reit 1.221. Hún fæli í sér verulegar breytingar frá gildandi deiliskipulagi, núverandi byggðamynstri reitsins og þeim upp­byggingaráformum sem fram komu í lýsingu frá 2014 vegna deiliskipulagstillögu. Stofnunin hvatti borgaryfirvöld til að ljúka endurskoðun deiliskipulags fyrir götureitinn í heild. Þá væri í umfjöllun um umhverfisáhrif ekki bornir saman og metnir ólíkir uppbyggingarkostir á lóðinni, þ.e. til hvaða valkosta væri litið s.s. varðandi útsýni, skuggavarp og ónæði, sbr. inn- og útkeyrslu úr bílakjallara gegnt íbúðum við Mánatún. Skipulagsfulltrúi tók fyrir athugasemdir stofnunarinnar með bréfi, dags. 11. maí 2018. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 6. júní s.á. var deiliskipulagstillagan tekin fyrir og í kjölfarið vísað til borgarráðs sem samþykkti hana 7. s.m. Deiliskipulagsbreytingin tók gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018.

Málsrök kærenda: Kærendur vísa til þess að grenndaráhrif fyrirhugaðrar byggingar að Borgartúni 24 séu óviðunandi og valdi því að hin kærða deiliskipulagsbreyting sé ólögmæt. Gerðar séu athugasemdir við þann fjölda íbúða og þá miklu þéttingu byggðar sem fyrirhuguð sé í námunda við fasteignir kærenda, að ráðist sé í svo umfangsmiklar framkvæmdir í þegar grónu hverfi án þess að rík skipulagsrök búi að baki og að þegar kærendur hafi fest kaup á íbúðum sínum hafi þeir gert ráð fyrir því, í samræmi við þágildandi skipulagsáætlanir, að á svæðinu væri fyrirhuguð tiltölulega hófleg uppbygging sem myndi ekki hafa í för með sér umtalsverð grenndaráhrif.

Ekki sé verið að deiliskipuleggja svæði sem myndi heildstæða einingu, en í 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 segi að gera skuli deiliskipulag fyrir afmarkað svæði eða reit innan sveitarfélags. Þá komi m.a. fram í gr. 5.3.1. skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 að færð skuli rök fyrir afmörkun skipulagssvæðisins. Í málinu liggi fyrir lýsing vegna áforma um breytingar á deiliskipulagi Borgartúns 18-24 og Nóatúns 4, dags. 10. nóvember 2014. Í lýsingunni komi m.a. fram með skýrum hætti að eitt af meginmarkmiðum fyrirhugaðrar skipulagsgerðar sé að „flétta byggðina innan reitsins sem eina heild við byggðina við Borgartún og aðliggjandi byggð ekki síst í suður þar sem reiturinn snúi að smágerðri íbúðarbyggð“. Sé litið til framangreindra meginreglna og þeirra stefnumiða sem lagt hafi verið af stað með í upphafi skipulagsvinnunnar sé ljóst að ekki hafa verið færð fram fullnægjandi rök sem geti réttlæt að vikið sé frá megin­reglum skipulagsréttar.

Kærendur byggi á því að hið kærða deiliskipulag sé í svo hróplegu ósamræmi við skipulags­lýsingu frá 10. nóvember 2014 að ógildingu hljóti að varða. Ekki hafi verið haft samráð við þá eða aðra hagsmunaaðila þegar ákveðið hafi verið einhliða að hverfa frá þegar kynntri og lög­mæltri skipulagslýsingu og markmiðum hennar. Ljóst sé að skipulagslýsingin frá 10. nóvember 2014 geti ekki talist lögmætur grundvöllur deiliskipulagsbreytingarinnar og að Reykjavíkur­borg hafi þar af leiðandi ekki verið stætt á því að samþykkja deiliskipulagstillöguna, sbr. áskilnað 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga.

Skort hafi á fullnægjandi samanburði valkosta og rannsókn við meðferð skipulags­breytingarinnar. Samkvæmt 5. mgr. 12. gr. skipulagslaga sé við gerð skipulagsáætlana skylt að gera grein fyrir áhrifum áætlunar og einstakra stefnumiða, m.a. með samanburði þeirra kosta sem til greina komi og eftir atvikum umhverfismati áætlunarinnar. Þessi skylda sé jafnframt áréttuð í 5. mgr. gr. 2.7 skipulagsreglugerðar. Þrátt fyrir ótvíræða skyldu að þessu leyti hafi sjáanlega ekki verið gerður sérstakur samanburður á þeim kostum sem til greina komi við uppbyggingu á lóð Borgartúns 24. Telji kærendur einkum og sér í lagi ástæðu til að taka til nánari skoðunar og samanburðar hvort fækka megi íbúðum og lækka hæðafjölda byggingarinnar. Þá hafi alfarið skort á að metin hafi verið líkleg áhrif uppbyggingarinnar á útsýni frá Mánatúni 7-17 og verulega skort á að skuggavarp hafi verið metið með fullnægjandi hætti. Nánast ekkert sé fjallað um áhrif uppbyggingarinnar á umferð, staðbundin áhrif og flæði á einstökum götum, hljóðvist og loftgæði í greinargerð deiliskipulagsbreytingarinnar. Þá sé fjarri að gerð sé fullnægjandi grein fyrir því hvaða áhrif fyrirhugaðar breytingar muni hafa á umferð og flutningsgetu gatnakerfis á svæðinu. Að sama skapi hafi ekki verið metin áhrif ljósmengunar vegna inn- og útkeyrslu úr bílakjallara gegnt íbúðum við Mánatún. Kærendur bendi jafnframt á að engin tilraun hafi verið gerð til að meta áhrif loftmengunar sem hljótist af inn- og útkeyrslu í fyrirhugaðan bílakjallara Borgartúns 24.

Ekki hafi verið gætt meðalhófs við útfærslu Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Í ágúst 2017 hafi verið gerðar breytingar á aðalskipulaginu sem hafi falið í sér að Borgartúnsreitur 26 hafi verið stækkaður og nái nú yfir svæði beggja vegna Borgartúns frá Katrínartúni/Höfða að Kringlumýrarbraut, auk þess sem svigrúm fyrir íbúðir á svæðinu öllu sé aukið úr 200 í 350 íbúðir. Neðanmáls segi að vikmörk geti verið 10-20% fyrir heildarsvæðið. Með deiliskipulagi fyrir Borgartún 24 hafi verið skipulagðar 396 íbúðir fyrir reitinn og því gengið afar langt á vikmörk svæðisins alls, án þess að það sé rökstutt sérstaklega. Samkvæmt deiliskipulagi Borgartúns sé gert ráð fyrir 65 íbúðum á lóð Borgartúns 24. Það sé nálægt helmingur allra þeirra íbúða sem bættust við sem heimild fyrir allt svæðið milli Katrínartúns/Höfða og Kringlumýrar­brautar samkvæmt áðurnefndri skipulagsbreytingu. Í ljósi þess hve íþyngjandi áhrif fyrirhuguð uppbygging muni koma til með að hafa gagnvart kærendum og öðrum hagsmunaaðilum, hafi Reykjavíkurborg, með hliðsjón af meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar, sbr. 12. gr. stjórnsýslulaga, verið óheimilt að nýta svo stóran hluta af framangreindri heimild á einungis einum reit, þ.e. Borgartúni 24.

Einn kærenda bendi á að hann reki umsvifamikla starfsemi á reitnum. Auk húsakynna á lóð nr. 4 við Nóatún sé skemman á baklóð Borgartúns 22 í hans eigu og sé ómissandi þáttur í rekstri hans. Skemman sé því ekki föl til niðurrifs. Núverandi skipulag lóða leyfi nokkuð greiða aðkomu með vörur að og frá húsakynnum kæranda og hana megi hvergi skerða. Auglýst skipulagsbreyting vegna Borgartúns 24 byggi á rammaskipulagi en þeir þættir skipulagsins, sem gagnast eigi viðkomandi lóð, standist ekki nánari skoðun. Lóðin sjálf verði því að bera þá starfsemi sem þar fari fram en það sem kunni að skorta til þess að uppfylla markmið skipulags­breytingarinnar verði ekki sótt á nágrannalóðir eigendum þeirra til tjóns. Í þessu samhengi virðist fyrirhugað nýtingarhlutfall lóðarinnar Borgartúns 24 allt of hátt. Tvöföldun núverandi húsakynna væri kannski algjört hámark. Þá sé aðkoma að neðanjarðar bílageymslu sett næst lóðarmörkum við Nóatún 4, eða við hlið inn- og útkeyrslu þeirrar lóðar sem þar hafi verið frá fyrstu tíð. Öndvert séu gatnamót Nóatúns og Sóltúns með vaxandi umferð en með hóflegri stækkun mannvirkja að Borgartúni 24 ætti að vera unnt að koma innkeyrslunni betur fyrir.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er kröfum og málatilbúnaði kærenda hafnað með vísan til þess sem fram komi í umsögn skipulagsfulltrúa frá 20. nóvember 2017 og í svarbréfi Skipulagsstofnunar, dags. 11. maí 2018.

Bent sé á að þróun á reitnum Borgartún 18-24/Nóatún 4 hafi staðið yfir með hléum í meira en fjögur ár. Forsaga málsins sé sú að lóðarhafar á lóð númer 24 hafi óskað eftir því við Reykjavíkurborg að breyta deiliskipulagi á sinni lóð og breyta starfsemi þar úr atvinnustarfsemi í blandaða byggð með íbúðum og atvinnustarfsemi. Þetta verkefni sé í góðu samræmi við markmið borgarinnar um þéttari og betri borgarbyggð í samræmi Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030. Ákveðið hafi verið að í stað þess að horfa aðeins á eina lóð væri réttara að skoða götureitinn allan til þess að heildræn hönnun væri í fyrirrúmi. Ekki væri verið að vinna „bútasaumsskipulag“ þar sem ákvæði gætu stangast á.

Í nóvember 2014 hafi umhverfis- og skipulagssvið unnið lýsingu sem hafi verið kynnt á opnum vettvangi. Í kjölfar þess hafi Reykjavíkurborg farið í hugmyndaleit vegna fyrirhugaðrar deili­skipulagsvinnu á reitnum og fundur haldinn með öllum eigendum á reitnum. Að fundi loknum hafi fulltrúar borgarinnar hitt alla eigendur, hvern í sínu lagi og farið yfir þeirra hugmyndir um framtíðaruppbyggingu. Niðurstaða þessara viðræðna milli borgarinnar og lóðareigenda hafi verið sú að einungis eigendur Borgartúns 24 hafi verið á þessum tímapunkti tilbúnir til þess að breyta skipulagi á sinni lóð. Í ljósi þeirra stöðu hafi verið ákveðið að vinna sérstakt ramma­skipulag fyrir reitinn sem lýsi heildarsýn á reitinn með tilliti til byggðamynsturs opinna svæða, atvinnuhúsnæðis, blöndun byggðar og samgöngumáta í samræmi við áherslur og stefnu í aðalskipulagi Reykjavíkur. Samhliða því hafi verið breytt gildandi deiliskipulagi fyrir lóðina Borgartún 24 í samræmi við þá sýn sem sé lýst í rammaskipulaginu. Ástæða þess að breytt sé deiliskipulagi á lóðinni Borgartún 24 frekar en að vinna nýtt deiliskipulag fyrir allan reitinn sé sú að eigendur 80% lóða á reitnum óski ekki eftir því að breyta skipulagi á sínu svæði.

Við gerð deiliskipulagsins hafi verið metin líkleg áhrif af fyrirhuguðum framkvæmdum og starfsemi á aðliggjandi svæði, bæði er varði ásýnd, útsýni, hljóðvist, loftgæði, hagkvæmni, veðurfar, varðveislugildi og svipmót byggðar og einstakra bygginga. Þessir þættir hafi m.a. verið vegnir og metnir í rammaskipulaginu en taki jafnframt mið af þeim markmiðum sem sett hafi verið fram í aðalskipulagi Reykjavíkur. Mikil áhersla hafi verið lögð á að tengja þau ólíku byggðamynstur sem umlyki reitinn. Með ákvæði 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 um að deiliskipulag skuli taka til svæða sem mynda heildstæða einingu er ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þó að slíkt geti stundum átt við. Hér sé verið að breyta deiliskipulagi en ekki að gera nýtt. Rétt sé að breytingin taki mið af rammaskipulagi, en vinna við það hafi einmitt miðað að því að gefa hugmynd af uppbyggingu á reitnum öllum og hafi mikið samráð verið haft við lóðareigendur á nálægum lóðum vegna þess sem hafi skilað sér í því að einungis einn lóðareigandi hafi verið tilbúinn í uppbyggingu.

Vegna athugasemda Skipulagsstofnunar, er varði samræmi við aðal- og deiliskipulag, sé tekið fram að samkvæmt heimildum í aðalskipulagi sé gert ráð fyrir 420 íbúðum að hámarki á reit 1.221 (350 íbúðir, vikmörk -10/+20%), en á svæðinu þurfi að nýta vikmörk til hækkunar. Á svæðum þar sem byggð sé blönduð og auðvelt að sé að þjóna með góðum almenningssamgöngum séu góð rök fyrir því að nýta vikmörk til hækkunar. Staða á húsnæðismarkaði og þörfin fyrir smærri íbúðir styðji einnig við það að vikmörkin séu nýtt.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti deiliskipulagsbreytingar sem felur í sér heimild fyrir uppbyggingu og notkun húsnæðis á lóðinni Borgartúni 24 í Reykjavík.

Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er vald til að skipuleggja land innan marka sveitarfélags í höndum sveitarstjórnar, sem annast og ber ábyrgð á gerð aðal- og deiliskipulags í sínu umdæmi, sbr. 29. og 38. gr. laganna. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitarfélagsins, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr. nefndra laga. Þá ber við gerð deiliskipulags að byggja á stefnu aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga, en í 7. mgr. 12. gr. laganna er gerð krafa um að gildandi deiliskipulag rúmist innan heimilda aðal­skipulags. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga, sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýslu­réttarins, er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lögmætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum og markmiðum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deili­skipulagi skuli háttað.

Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er lóðin nr. 24 við Borgartún á miðsvæði M6a og þróunarsvæði Þ42. Um miðsvæði M6a segir m.a. að þar sé einkum gert ráð fyrir skrifstofum á sviði fjármála, ráðgjafar og stjórnsýslu. Íbúðir séu heimilar á svæðinu, einkum á efri hæðum bygginga. Um þróunarsvæði Þ42 er tekið fram að þar sé gert ráð fyrir skrifstofum og fjölþættri verslun og þjónustu. Áætluð aukning atvinnuhúsnæðis sé um 50 þúsund m² á skipulagstímabilinu. Með breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur sem gerð var í ágúst 2017 var umrætt svæði fært undir svokallaðan Borgartúnsreit 26, en um þann reit segir að afmörkun reitsins sé endurskilgreind þannig að hann nái til Borgartúnssvæðis milli Katrínartúns og Kringlumýrarbrautar. Reiturinn sé stækkaður um 12,4 ha og heimild um fjölda íbúða á svæðinu rýmkuð úr 200 í 350 íbúðir. Vikmörk á fjölda íbúða geti verið −10/+20% sem geri að hámarki 420 íbúðir á reitnum. Er þar og tekið fram að fjölgun íbúða á svæðinu, sem sé í samræmi við markmið um blöndun byggðar, stafi bæði af aukningu byggingarmagns og breytingu atvinnuhúsnæðis í íbúðarhúsnæðis. Á árinu 2017 var samþykkt rammaskipulag fyrir umrætt svæði sem miðar að því að lóðir geti byggst upp á mismunandi tíma en allar samkvæmt sama skipulagi.

Með hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu er gert ráð fyrir byggingu 65 íbúða á lóðinni Borgartúni 24, sem er nálægt helmingur þeirra íbúða sem bættust við með framangreindri aðalskipulagsbreytingu. Líta ber til þess að á lóðinni er gert ráð blandaðri landnotkun íbúða- og atvinnuhúsnæðis og á svæðinu er greiður aðgangur að almenningssamgöngum. Þá getur staðan á húsnæðismarkaði og þörfin fyrir smærri íbúðir einnig stutt við það sjónarmið að −10/+20% vikmörk í aðalskipulagi séu nýtt til hækkunar. Með hliðsjón af framangreindu fer hin kærða deiliskipulagsbreyting ekki í bága við markmið og stefnu aðalskipulags, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga, og er skilyrði 7. mgr. 12. gr. laganna um innbyrðis samræmi skipulagsáætlana uppfyllt. Þá hafa efnisleg rök verið færð fram sem ástæður fyrir breytingunni.

Samkvæmt 2. mgr. 37. gr. skipulagslaga skal gera deiliskipulag fyrir einstök svæði eða reiti þar sem framkvæmdir eru fyrirhugaðar og skal jafnan miða við að það taki til svæða sem mynda heildstæða einingu. Í athugasemdum við nefnt ákvæði í greinargerð frumvarps þess sem varð að skipulagslögum er kveðið á um að með því sé ætlunin að koma í veg fyrir að skipulagðar séu einstakar lóðir þótt slíkt geti stundum átt við. Ákvæðið ber að skilja á þann veg að það taki til þess þegar unnið er skipulag á ódeiliskipulögðu svæði enda ótvírætt skv. 43. gr. sömu laga að sveitarstjórnir hafa heimild til breytinga á samþykktu deiliskipulagi sem eðli máls samkvæmt geta verið misjafnlega víðtækar og náð eftir atvikum aðeins til einnar lóðar. Var því heimilt að láta umdeilda skipulagsbreytingu ná til einnar lóðar.

Deiliskipulagsbreytingin var auglýst til kynningar í samræmi við reglur skipulagslaga um almenna meðferð breytinga á deiliskipulagi skv. 1. mgr. 43. gr. laganna og áttu kærendur kost á að koma á framfæri athugasemdum sínum vegna hennar, sem þeir og gerðu. Samþykkt tillaga, ásamt samantekt um málsmeðferð, athugasemdir og svör við athugasemdum, var send Skipulagsstofnun til lögboðinnar afgreiðslu í samræmi við 1. mgr. 42. gr. skipulagslaga. Stofnunin gerði athugasemdir við deiliskipulagsbreytinguna, sem borgaryfirvöld brugðust við og tóku afstöðu til. Deiliskipulagsbreytingin öðlaðist gildi með birtingu auglýsingar þar um í B-deild Stjórnartíðinda 15. júní 2018. Liggur því ekki annað fyrir en að málsmeðferð skipulags­breytingarinnar hafi verið í samræmi við ákvæði skipulagslaga.

Í greinargerð hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar er fjallað um að aðkoma ökutækja að lóðinni við Borgartún 24 sé góð, en aðkoman sé bæði frá Borgartúni og Nóatúni. Umferðaspá fyrir árið 2024 geri ráð fyrir 5.000 bílum á sólarhring í Borgartúni norðan við reitinn og 4.000 bílum á sólarhring í Nóatúni austan við reitinn. Ekki liggja fyrir upplýsingar um hvað umferð aukist mikið við uppbyggingu lóðarinnar. Ljóst er þó að umdeild breyting getur haft umtalsverð áhrif gagnvart grannlóðum, s.s. vegna aukinnar umferðar. Að mati úrskurðarnefndarinnar ræður það atriði þó ekki úrslitum um gildi hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar en getur eftir atvikum leitt til bótaskyldu skv. 51. gr. skipulagslaga. Á hinn bóginn verður ekki séð að aðkoma til og frá vörugeymslu á baklóð Borgartúns 22 verði skert. Þá verður ekki séð að hæð og umfang heimilaðrar byggingar samkvæmt umdeildri skipulagsbreytingu fari á svig við byggðamynstur Borgartúns þegar litið er til hæðar og legu bygginga við þá götu og vestan megin Kringlumýrarbrautar. Á næsta skipulagsreit er átta hæða verslunar- og skrifstofu­húsnæði að Borgartún 26 og er nýtingarhlutfall hennar  3,36. Á sama reit er jafnframt að finna tíu hæða hús við Mánatún og er nýtingarhlutfall þeirrar lóðar 2,79. Þá verður ráðið af gögnum um skuggavarp fyrirhugaðrar byggingar að það sé ekki umfram það sem gerist og gengur á svæðinu.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 7. júní 2018 um breytingu á deiliskipulagi staðgreinireits 1.221, vegna lóðarinnar nr. 24 við Borgartún í Reykjavík.