Ár 2007, þriðjudaginn 4. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Aðalheiður Jóhannsdóttir dósent.
Fyrir var tekið mál nr. 96/2006, kæra á afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 20. desember 2006, er barst nefndinni hinn 21. sama mánaðar, kærir A, f.h. stjórnar ByggáBIRK, Skýli 21, Fluggörðum, Reykjavíkurflugvelli, afgreiðslu skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 varðandi austursvæði Vatnsmýrar í Reykjavík. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu.
Málsatvik og rök: Hin kærða aðalskipulagstillaga fólst meðal annars í því að landnotkun á hluta austursvæðis Vatnsmýrarinnar var breytt og byggingarsvæði milli flugvallar og Öskjuhlíðar stækkað til suðurs um 20 hektara. Þá var gert ráð fyrir samgöngumiðstöð og lóð fyrir Háskólann í Reykjavík á svæðinu. Skipulagsráð samþykkti tillöguna hinn 27. september 2006 og staðfesti borgarráð þá afgreiðslu hinn 5. október sama ár. Umhverfisráðherra staðfesti aðalskipulagsbreytinguna hinn 18. maí 2007 og tók breytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 22. maí 2007.
Skírskotar kærandi til þess að fjöldi mótmæla við umdeilda skipulagstillögu, sem hafi byggst á framtíðarhorfum Reykjavíkurflugvallar og flugstarfsemi þar, hafi verið virtur að vettugi. Telja verði að niðurstaða í málinu hafi verið fyrirfram gefin í samræmi við pólitíska stefnu um brotthvarf flugvallarins úr Vatnsmýrinni.
Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er kveðið á um að aðalskipulag eða breyting á því sé háð staðfestingu ráðherra. Verður ákvörðunum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, sem sæta skulu slíkri staðfestingu, ekki skotið til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga svo sem henni var breytt með 21. gr. laga nr. 74/2005.
Samkvæmt framansögðu á mál þetta ekki undir úrskurðarnefndina. Verður málinu því vísað frá.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna anna hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ___________________________ Þorsteinn Þorsteinsson Aðalheiður Jóhannsdóttir