Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

64/2006 Þvervegur

Ár 2007, fimmtudaginn 6. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 64/2006, kæra eiganda fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík, á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 2. ágúst 2006, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kærir S, eigandi fasteignar að Vesturhúsum 2, Reykjavík þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 28. febrúar 2006 að veita byggingarleyfi fyrir þjónustubyggingu við Gufuneskirkjugarð með kirkju, kapellu, bænahúsi, bálstofu, líkhúsi og starfsmannaaðstöðu, að hluta til á tveimur hæðum, ásamt einnar hæðar erfidrykkjuhúsi á lóðinni nr. 1-7 við Þverveg. 

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar hinnar kærðu ákvörðunar og var jafnframt krafist bráðabirgðaúrskurðar um stöðvun framkvæmda.  Ekki þótti tilefni til að taka stöðvunarkröfu kæranda til úrskurðar þar sem ekki var fyrirhugað að hefja framkvæmdir við heimilaða bálstofu sem kærandi setur einkum fyrir sig.

Málsatvik og rök:  Byggingarfulltrúinn í Reykjavík veitti byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hinn 28. febrúar 2006 að undangenginni umsókn Kirkjugarða Reykjavíkur.   Borgarráð staðfesti þá afgreiðslu byggingarfulltrúa hinn 2. mars 2006.  Hinn 11. júlí 2006 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn byggingarleyfishafa um að skipta byggingu umræddrar þjónustubyggingar Gufuneskirkjugarðs í áfanga þannig að fyrsti áfangi yrði bygging starfsmannahúss með sorpgeymslu og rafmagnsbílageymslu.  Var byggingarleyfi skv. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 síðan gefið út hinn 20. júlí 2006 fyrir framkvæmdum skv. fyrsta áfanga verksins.

Kærandi bendir á að ekki hafi farið fram grenndarkynning eða umhverfismat á líkbrennslu þeirri sem fyrirhuguð sé inni í miðri íbúðarbyggð, innan við 800 metra frá grunnskóla, tveimur barnaheimilum, opinni sundlaug, keppnis- og æfingavöllum fyrir knattspyrnu, íþróttahúsi og elli- og hjúkrunarheimili.  Veruleg sjónmengun verði af fyrirhuguðum byggingum sem muni blasa við úr stofugluggum nágranna.  Þá muni fylgja starfseminni reyk- og lyktarmengun.  Furðu veki staðsetning duftgarðs á dýrustu byggingarlóð Reykjavíkur og að flytja eigi lík til brennslu í Grafarvog og síðan til baka, í stað þess að finna hvoru tveggja stað í útjaðri byggðar og spara útfararkostnað.  Jafnframt megi benda á tækniframfarir í nágrannalöndum þar sem lík séu frostþurrkuð og síðan duftuð.

Af hálfu byggingarleyfishafa er á það bent að umdeildar framkvæmdir eigi stoð í deiliskipulagi Gufuneskirkjugarðs sem öðlast hafi gildi á árinu 2000.  Fullyrðingum um sjón-, lyktar- og reykmengun sé vísað á bug en bálstofur séu algengar í þéttbýli erlendis og mengun frá þeim sé hverfandi.  Raunar leiki vafi á um það hvort kærandi eigi lögvarinna hagsmuna að gæta í máli þessu enda sé fasteign hans í nokkurri fjarlægð frá fyrirhuguðum mannvirkjum.

Af hálfu Reykjavíkurborgar er gerð krafa um frávísun málsins en ella að ákvarðanir Reykjavíkurborgar varðandi umdeild mannvirki standi óraskaðar.  Kæran sé of seint fram kominn en kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar sé einn mánuður skv. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga.  Breyting á deiliskipulagi Grafarvogskirkjugarðs hafi tekið gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 26. janúar 2006 og byggingarleyfi fyrir umdeildum mannvirkjum hafi verið samþykkt af byggingarfulltrúa hinn 28. febrúar sama ár.  Að öðru leyti sé vísað til þess að kærandi hafi ekki fært fram efnisleg rök fyrir ógildingarkröfu sinni.

Niðurstaða:  Byggingarleyfi samkvæmt 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 fyrir starfsmannahúsi með sorpgeymslu og bílgeymslu var gefið út hinn 20. júlí 2006 og hafa framkvæmdir því ekki hafist fyrr en eftir þann tíma.  Eins mánaðar kærufrestur samkvæmt 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga reiknast frá þeim tíma sem aðila var eða mátti vera ljóst að hin kærða ákvörðun var tekin.  Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið tilkynnt um veitingu umdeilds byggingarleyfis á sínum tíma og gat honum því ekki verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun fyrr en framkvæmdir hófust eftir 20. júlí 2006.  Verður af þessum sökum ekki fallist á að kæra í máli þessu, sem barst úrskurðarnefndinni hinn 10. ágúst 2006, hafi borist að liðnum kærufresti.

Með hinni kærðu ákvörðun frá 28. febrúar 2006 var veitt leyfi fyrir tilteknum mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð.  Síðar var samþykkt umsókn byggingarleyfishafa um að skipta framkvæmdum upp í áfanga og með útgáfu byggingarleyfisins hinn 20. júlí 2006 mátti hefja byggingu fyrrgreinds starfsmannahúss.  Þessi bygging, sem mun vera á einni hæð, verður í töluverðri fjarlægð frá fasteign kæranda sem stendur mun hærra í landi en hún. Eins og aðstæður eru getur umrædd bygging ekki skert útsýni frá fasteign kæranda eða snert grenndarhagsmuni hans með öðrum hætti.  Verður kærandi því ekki talinn eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna byggingarleyfis nefndrar byggingar.

Samkvæmt 1. tl. 1. mgr. 44. gr. skipulags- og byggingarlaga má gefa út byggingarleyfi þegar sveitarstjórn hefur staðfest samþykkt um veitingu leyfisins að öðrum skilyrðum uppfylltum.  Í 2. mgr. ákvæðisins er heimilað að veita leyfi til einstakra þátta byggingarframkvæmda þegar sérstaklega stendur á en leyfið takmarkast þá hverju sinni við samþykkt hönnunargögn.  Eins og áður er að vikið takmarkaðist hið útgefna byggingarleyfi við þann hluta heimilaðra mannvirkja sem þar eru tilgreind. 

Hafi byggingarleyfi ekki verið gefið út innan árs frá staðfestingu sveitarstjórnar fellur staðfestingin úr gildi samkvæmt 5. mgr. 44. gr. laganna.  Staðfesting borgarráðs hinn 2. mars 2006 á afgreiðslu byggingarfulltrúa um veitingu byggingarleyfis fyrir mannvirkjum við Gufuneskirkjugarð er því brott fallin að öðru leyti en því sem útgefið byggingaleyfi frá 20. júlí 2006 tekur til.  Hefur kærandi af þeim sökum ekki lengur hagsmuni af því að fá skorið úr um lögmæti þess hluta byggingarleyfisákvörðunarinnar.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið verður máli þessu í heild vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                  ______________________________
            Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson