Ár 2007, fimmtudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ásgeir Magnússon héraðsdómari.
Fyrir var tekið mál nr. 93/2006, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. júlí 2006 um að veita byggingarleyfi fyrir breytingu á innréttingum til reksturs spilasalar í húsnæði að Álfabakka 14A í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 8. desember 2006, er barst nefndinni hinn 11. sama mánaðar, kærir H, formaður íbúasamtakanna Betra Breiðholts, f.h. samtakanna, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 25. júlí 2006 að veita byggingarleyfi fyrir breytingum á innréttingu til reksturs spilasalar í húsnæði að Álfabakka 14A í Reykjavík. Borgarráð staðfesti hina kærðu ákvörðun hinn 27. júlí 2006. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinu kærða byggingarleyfi.
Málsatvik og rök: Hinn 25. júlí 2006 samþykkti byggingarfulltrúinn í Reykjavík umsókn um innréttingu spilasalar í húsinu að Álfabakka 14A í Reykjavík, sem tilheyrir verslunarkjarnanum í Mjódd. Óánægju mun hafa gætt meðal íbúa hverfisins vegna fyrirhugaðs spilasalar og mun hafa verið fallið frá áformum um slíkan rekstur og borgaryfirvöld keypt umrætt húsnæði.
Kærandi vísar til þess að umrætt svæði, þar sem blómleg verslun fari fram, hafi verið íbúum til mikillar ánægju. Þar hafi verið haldnar sýningar frá leikskólum og skólum hverfisins ásamt fjölskylduhátíðum. Ekki yrði unnt að halda þeirri starfsemi áfram eftir að opnaður yrði spilasalur sem opinn yrði öllum og hvetti fólk til að fara inn og jafnvel fórna eignum sínum. Ekkert samráð hafi verið haft við íbúa vegna fyrirhugaðrar starfsemi en brugðist hafi verið við er kunnugt hafi orðið um hana og hafi fjöldi íbúa ritað undir mótmælaskjöl af þessu tilefni.
Niðurstaða: Kæra í máli þessu er sögð stafa frá íbúasamtökunum Betra Breiðholt, sem munu vera frjáls samtök er láti sig varða hagsmunamál er snerta íbúa Breiðholts. Virðist kærandi byggja á gæslu almannahagsmuna en ekki liggur fyrir að fyrrgreind samtök eigi einstaklega og lögvarða hagsmuni er tengjast hinni kærðu ákvörðun er geti veitt samtökunum stöðu málsaðila að stjórnsýslurétti. Þá er ekki til að dreifa heimild í lögum er veiti félagasamtökum eins og hér um ræðir sjálfstæða kæruaðild á þessu sviði.
Verður kærandi af framangreindum sökum ekki talinn eiga kæruaðild og verður máli þessu því, þegar af þeirri ástæðu, vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
___________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson.