Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

68/2006 Heiðarvegur

Ár 2007, fimmtudaginn 29. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 68/2006, kæra á afgreiðslu umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja frá 26. júlí 2006 á erindi um aðgerðir vegna hávaða milli Heiðarvegs 1 og 3 í Vestmannaeyjum.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. ágúst 2006, er barst nefndinni 25. sama mánaðar, kærir Jón Hauksson hdl., f.h. Þ, vegna Gistiheimilisins Heimis, Heiðarvegi 1, Vestmannaeyjum synjun umhverfis- og skipulagsráðs bæjarins frá 26. júlí 2006 á erindi kæranda um aðgerðir vegna hávaða milli Heiðarvegar 1 og 3. Bæjarstjórn samþykkti greinda afgreiðslu hinn 24. ágúst 2006.

Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.

Málsatvik og rök:  Í húsinu að Heiðarvegi 1 er starfrækt Gistiheimilið Heimir.  Um er að ræða steinsteypt hús og hefur það sameiginlegan gafl við húsið að Heiðarvegi 3 til suðurs.  Á Heiðarvegi 3 er veitinga- og skemmtistaðurinn Prófasturinn.  Hefur kærandi í nokkur ár krafist úrbóta, m.a. af hálfu byggingaryfirvalda, vegna hávaða frá skemmtistaðnum.

Hinn 29. júní 2006 ritaði kærandi bréf til umhverfis- og skipulagsráðs Vestmannaeyja í tilefni þess að útvega þurfti gestum gistiheimilisins gistingu annars staðar sökum hávaða sem stafaði frá rokktónleikum sem haldnir voru í húsinu að Heiðarvegi 3.  Í erindinu sagði m.a. svo:  „Heilbrigðiseftirlit Suðurlands hefur alfarið neitað að taka á þessum hávaðamálum og segir Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyjabæjar fara með mál sem þetta og óska ég því eftir að nú verði tekið á þessu máli, þannig að Gistiheimilið Heimir þurfi ekki að líða fyrir og bera fjárhagslegan skaða af lögbrotum eiganda Prófastsins.  Hjálagt fylgir lögregluskýrsla, sem sýnir hversu gífurlegur hávaði var framleiddur þarna inni og var hann, eins og svo oft áður, langt yfir leyfilegum mörkum.“

Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs, hinn 26. júlí 2006, var ofangreint erindi tekið fyrir og eftirfarandi bókað: „Ráðið getur ekki orðið við erindinu og vísar í fyrri bókanir bæjaryfirvalda um þetta mál.  Afgreiðsla þessi er skv. skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997.“
 
Kærandi bendir á að honum sé nánast ókleift að reka atvinnustarfsemi sína vegna hljóðmengunar frá skemmtistaðnum Prófastinum.  Málaleitanir, sem t.d. hafi beinst að opinberum aðilum og leitt gætu til úrbóta, hafi reynst árangurslausar.  Ljóst sé að umhverfis- og skipulagsráð hafi ekki gætt réttra sjónarmiða við úrlausnir sínar og sé einkum vísað til heimilda vegna breytinga á skemmtistaðnum árið 2001.  Þá sé vísað til umsagna vegna starfsleyfa skemmtistaðarins sem sífellt hafi verið rekinn á bráðabirgðaleyfum sem sé andstætt skipulagslögum og 10. gr. reglugerðar nr. 933/1999 um hávaða.

Bæjaryfirvöld telja að kæran lúti að öðrum atriðum en erindi kæranda hafi fjallað um og því leiki vafi á því hvort efnislega sé unnt að kveða upp úrskurð í málinu. Kærufrestir vegna eldri samþykkta byggingaryfirvalda í máli þessu séu löngu útrunnir.  Þá telji Vestmannaeyjabær að málið sem slíkt falli ekki undir verksvið umhverfis- og skipulagsráðs heldur Heilbrigðiseftirlit Suðurlands.

Niðurstaða:  Erindi kæranda, dags. 29. júní 2006, sem hin kærða synjun lýtur að, fól í sér ósk um úrbætur vegna hávaða frá starfsemi sem leyfi hafði fengist fyrir nokkrum árum áður.  Hefur kærandi komið slíkum óskum á framfæri við bæjaryfirvöld um nokkurra ára skeið.  Fyrir liggur að við endurnýjun starfsleyfis umrædds veitingastaðar á árinu 2005 taldi Heilbrigðiseftirlit Suðurlands að kröfur um hljóðeinangrun hefðu verið uppfylltar með úrbótum sem þá hefðu verið gerðar á húsnæði staðarins.

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 kveður úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála upp úrskurði um ágreiningsmál um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og er kærufrestur einn mánuður frá því að kæranda varð eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra á, sbr. 5. mgr. fyrrnefnds ákvæðis.  Kæranda hefur verið kunnugt um heimilaða notkun umrædds húsnæðis um árabil og var kærufrestur vegna þeirrar notkunar húsnæðisins því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni í máli þessu.  Skapar hin kærða synjun umhverfis- og skipulagsráðs ekki nýjan kærufrest þar sem afgreiðslan fól ekki í sér nýja ákvörðun heldur aðeins áréttingu á fyrri afstöðu bæjaryfirvalda til erindis kæranda.  Rétt þykir að benda á að um byggingarleyfi fyrir breyttri notkun húss, t. d. fyrir veitinga- og skemmtistarfsemi, fer eftir skipulags- og byggingarlögum og er eftir atvikum kæranlegt til úrskurðarnefndarinnar, en starfsleyfi slíkra staða verða ekki borin undir nefndina enda fer um veitingu þeirra eftir öðrum lögum.

Að þessu virtu og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________                   ______________________________
Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson