Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

95/2017 og 113/2017 Skotæfingasvæði á Blönduósi

Árið 2017, fimmtudaginn 12. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir voru tekin mál nr. 95 og 113/2017, kæra á samþykkt sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017 á deiliskipulagi fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi og kæra vegna leyfis frá 26. september s.á. til framkvæmda við riffilbraut, bogfimibraut og trap völl.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfur kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 25. ágúst 2017, sem barst nefndinni sama dag, kæra þinglýstir eigendur jarðarinnar Hjaltabakka í Húnavatnshreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Blönduósbæjar frá 11. apríl 2017, að samþykkja deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Jafnframt er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á skotæfingasvæðinu þar sem fyrirhugað sé að gera riffilbraut.

Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 5. október 2017, sem móttekið var sama dag, kæra sömu aðilar veitingu leyfis, dags. 26. september 2017, til framkvæmda á grundvelli hins kærða deiliskipulags. Krefjast kærendur ógildingar leyfisins og þess að framkvæmdir verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Verður nú tekin afstaða til framkominna stöðvunarkrafna kærenda.

Málsatvik og rök: Hinn 11. apríl 2017 samþykkti sveitarstjórn Blönduósbæjar deiliskipulag fyrir skotæfingasvæði á Blönduósi og var auglýsing um gildistöku þess birt í B-deild Stjórnartíðinda 27. júlí s.á. Framkvæmdaleyfi var gefið út 26. september 2017. Eru þar heimilaðar framkvæmdir við riffilbraut, bogfimibraut og trap völl. Lengd og botnbreidd brautanna er lýst og er svo tekið fram um riffilbrautina að hún verði grafin niður um 2 m. Botnbreidd hennar verði um 6 m og veggir með 50 gráðu halla. Efni sem komi upp úr brautinni verði nýtt í manir sitthvoru megin og við enda hennar. Heildardýpt brautarinnar verði um 3,5-4 m og hærri fyrir austurenda hennar.

Kærendur byggja m.a. á því að sveitarstjórn hafi verið óheimilt að samþykkja hið kærða deiliskipulag þar sem það taki til svæðis utan sveitarfélagsins. Óásættanlega hávaðamengun stafi af skotsvæðinu sem geti fælt búfénað í landi kærenda. Þá sé óásættanlegt af öryggisástæðum að skotsvæðið sé á opnu svæði nálægt byggð og umferð bæði gangandi og ríðandi. Skurður á skotæfingasvæðinu muni leiða til óafturkræfra breytinga á landinu.

Af hálfu Blönduósbæjar er á það bent að bærinn hafi ráðstafað og skipulagt umrætt svæði í 86 ár án mótmæla frá eigendum Hjaltabakka. Því sé hafnað að stjórnsýslumörk sveitarfélagsins og Húnavatnshrepps séu óljós, enda hafi sveitarfélögin komið sér saman um mörkin, sbr. t.d. samþykkt aðalskipulag 1993-2013, 2010-2030 og svæðisskipulag 2004-2016. Blönduósbær hafi vandað til skipulagsferilsins, tekið tillit til umsagna eins og kostur hafi verið og bætt við mótvægisaðgerðum. Framkvæmdum við gerð og undirbúning riffilbrautarinnar sé að mestu/öllu lokið og sé ekki gert ráð fyrir frekari framkvæmdum á svæðinu fyrr en næsta vor. Stöðvun framkvæmda nú þjóni því engum tilgangi.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta þeim til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu, sem skýra ber þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Krafa kærenda um stöðvun framkvæmda var fyrst sett fram í kæru vegna deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun, sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, og síðan útgáfa á byggingar- eða framkvæmdaleyfi í skjóli slíkrar ákvörðunar. Af þessu leiðir að jafnaði að ekki er tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Kærendur komu sams konar kröfu að í kærumáli vegna framkvæmdaleyfis. Samkvæmt upplýsingum frá sveitarfélaginu mun framkvæmdum vera lokið að mestu eða öllu leyti. Þá liggur fyrir að framkvæmdir þær sem útgefið framkvæmdaleyfi tekur til fela einungis í sér jarðvegs- og yfirborðsframkvæmdir, sem einar og sér hafa óveruleg grenndaráhrif. Eru nefndar framkvæmdir þess eðlis að unnt er að koma umræddu svæði í fyrra horf.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða, atvika málsins, auk eðlis, umfangs og áhrifa umdeildra framkvæmda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kærenda um stöðvun þeirra. Verður kröfu þeirra þar að lútandi hafnað en bent er á að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða framkvæmdarleyfi eru á ábyrgð og áhættu leyfishafa.

Úrskurðarorð:

Kröfum kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða er hafnað.

___________________________
Nanna Magnadóttir

___________________________                     _________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Þorsteinn Þorsteinsson