Ár 2007, fimmtudaginn 22. febrúar, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 95/2006, kæra á bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til Skipulagsstofnunar, dags. 12. desember 2006, er barst stofnuninni hinn 13. sama mánaðar, kærir V, Holtagötu 11, Súðavík, bókun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 7. desember 2006 um minningarskjöld á steini að Laugabóli í Súðavíkurhreppi. Með bréfi, dags. 18. desember 2006, var kæran framsend úrskurðarnefndinni.
Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að hin kærða bókun verði felld úr gildi.
Málsatvik og rök: Kærandi máls þessa ritaði bréf til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps, dags. 22. september 2006, í kjölfar þess að eigandi jarðarinnar Laugabóls í Súðavíkurhreppi hafði sett upp minningarskjöld um látna niðja sína á stein einn er þar stendur. Á minningarskildi þessum eru myndir og nöfn fjögurra látinna barna og barnabarna eigandans, þar á meðal af syni kæranda er lést á árinu 2001. Í fyrrnefndu bréfi kæranda til byggingarnefndar var óskað eftir því að nefndin léti fjarlægja af steininum nafn og mynd af syni hennar enda hafi hún, sem nánasti aðstandandi, aldrei veitt samþykki sitt fyrir uppsetningu skjaldarins á steininn. Byggingarnefnd tók erindi kæranda fyrir á fundi hinn 7. desember 2006 þar sem eftirfarandi var fært til bókar: „Byggingarnefnd telur að þau ákvæði byggingarreglugerðarinnar sem bréfritari vísar til eigi frekar við um auglýsingaspjöld heldur en minningarsteina o.þ.h. Byggingarnefnd telur sig ekki geta hlutast til um uppsetningu eða fyrirkomulag minningarspjalda sem einstaklingar setja upp á einkalóðum sínum. Það er og álit nefndarinnar að það eigi ekki það sama við og ef minningarsteinninn væri á vegum opinberra aðila utan einkalóðar.“ Í bréfi byggingarfulltrúa til kæranda, dags. 8. desember 2006, var greint frá þeirri niðurstöðu byggingarnefndar að minningarsteinar á einkalóðum féllu ekki undir reglugerð nr. 441/1998 og væru nefndinni því óviðkomandi.
Framangreindri bókun byggingarnefndar hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kveði upp úrskurð í ágreiningsmálum um skipulags- og byggingarmál samkvæmt lögunum og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Í 5. mgr. sömu greinar er áréttað að almennt taki úrskurðarvald nefndarinnar til stjórnvaldsákvarðana þótt frá því sé vikið í einstökum tilvikum sem greind eru í lögunum. Uppsetning minningarskjaldar á stein á einkalóð getur hvorki talist vera mannvirki eða bygging né meiri háttar framkvæmd í skilningi skipulags- og byggingarlaga og því ekki háð leyfi byggingaryfirvalda eða sveitarstjórnar. Þar sem hin kærða bókun verður ekki talin stjórnvaldsákvörðun er sæti endurskoðun úrskurðarnefndarinnar verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson