Árið 2013, fimmtudaginn 12. desember, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson, settur forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 94/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Gámaþjónustan ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014.
Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að fyrirtækinu verði veittur rúmur frestur til að hætta umdeildri starfsemi. Þá er gerð krafa um að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Er málið nú tekið til meðferðar hvað varðar kröfuna um frestun réttaráhrifa.
Málsatvik og rök: Hinn 7. september 2010 sótti kærandi um starfsleyfi fyrir eftirmeðferð á moltu og var umsóknin samþykkt hinn 6. maí s.á. Starfsemin hófst ekki fyrir alvöru á umræddu svæði fyrr en um áramótin 2012-2013 að sögn kæranda. Kvartanir vegna starfseminnar bárust heilbrigðiseftirliti svæðisins í ágúst 2013 og í bréfi eftirlitsins til kæranda, dags. 16. s.m., var á það bent að starfsemin uppfyllti ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og þess krafist að allur úrgangur sem dreifst hafi um nærliggjandi umhverfi yrði fjarlægður. Af því tilefni sendi kærandi heilbrigðiseftirlitinu bréf, dags. 30. ágúst s.á. þar sem sjónarmið hans voru reifuð og þess óskað að umrædd starfsemi fengi að halda áfram að uppfylltum reglum sem heilbrigðiseftirlitið kynni að setja starfseminni. Starfsleyfið var hins vegar afturkallað, svo sem að framan greinir.
Kærandi bendir á að eftirmeðferð moltugerðar sem hér um ræði sé í samræmi við aðferðir sem áratuga reynsla sé af bæði hérlendis og erlendis. Engar athugasemdir hafi verið gerðar vegna starfseminnar fyrr en í ágúst sl. og hafi þegar verið brugðist við þeim. Framganga heilbrigðiseftirlitsins í málinu fari gegn ákvæðum 18. kafla reglugerðar nr. 941/2002 og 6. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og sé sérstaklega skírskotað til 5. mgr. 26. gr. laganna.
Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurlands er vísað til þess að í ljós hafi komið að moltuvinnslan hafi verið komin langt inn á vatnsverndarsvæði án heimildar og vitneskju eftirlitisins. Mikill óþrifnaður hafi verið á svæðinu, plastdræsur fokið þar um svæðið og matarleifar í moltuhaugum dregið að sér rottur og vargfugl. Forsenda fyrir starfsleyfinu kæranda hafi verið að moltan væri án matarleifa og plasts en kærandi hafi ekki getað komið í veg fyrir slíkt. Í ljósi þess hafi verið talið tilgangslaust að gefa kæranda frest til úrbóta og því hafi sá einn kostur verið fyrir hendi að afturkalla leyfið.
Niðurstaða: Í máli þessu liggur fyrir að verði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar ekki frestað verði kærandi að hafa hætt starfsemi og vikið af umræddu athafnasvæði fyrir 1. janúar 2014.
Kærandi hefur nýtt sér þann rétt að bera afturköllun umrædds starfsleyfis undir úrskurðarnefndina og er um verulega íþyngjandi ákvörðun gagnvart honum að ræða. Ekki liggja fyrir svo knýjandi ástæður að ekki megi bíða efnisniðurstöðu í kærumálinu og verður því, með hliðsjón af atvikum, fallist á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Frestað er réttaráhrifum ákvörðunar Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Patterson flugvelli frá og með 1. janúar 2014.
____________________________________
Ómar Stefánsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson