Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

94/2013 Moltugerð Patterson flugvelli

Árið 2014, fimmtudaginn 13. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 94/2013, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 3. október 2013, er barst nefndinni sama dag, kærir Gámaþjónustan ehf. þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

Af hálfu kæranda er gerð sú krafa að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en til vara að fyrirtækinu verði veittur rúmur frestur til að hætta umdeildri starfsemi. Þá var gerð krafa um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvörðunar á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og var fallist á þá kröfu kæranda með bráðabirgðaúrskurði uppkveðnum hinn 12. desember 2013.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Suðurnesja 10. október 2013.

Málavextir: Hinn 7. apríl 2010 sótti kærandi um starfsleyfi fyrir meðhöndlun moltu og var umsóknin samþykkt hinn 6. maí s.á. Starfsemin hófst hins vegar ekki að ráði á umræddu svæði fyrr en um áramótin 2012-2013, að sögn kæranda. Kvartanir vegna starfseminnar bárust heilbrigðiseftirliti svæðisins í ágúst 2013 og í bréfi eftirlitsins til kæranda, dagsettu 16. ágúst s.á., var á það bent að starfsemin uppfyllti ekki skilyrði 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og að moltuvinnslan væri á fjarsvæði vatnsverndar. Var þess krafist að allur úrgangur sem dreifst hefði um nærliggjandi umhverfi yrði fjarlægður. Kærandi sendi heilbrigðiseftirlitinu svarbréf, dagsett 30. ágúst s.á., þar sem sjónarmið hans voru reifuð og þess óskað að umrædd starfsemi fengi að halda áfram að uppfylltum reglum sem heilbrigðiseftirlitið kynni að setja starfseminni. Starfsleyfið var hins vegar afturkallað 5. september 2013, svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að eftirmeðferð moltugerðar sem hér um ræði sé í samræmi við aðferðir sem áratuga reynsla sé af bæði hérlendis og erlendis. Engar athugasemdir hafi verið gerðar vegna starfseminnar fyrr en í ágúst 2013 og hafi þegar verið brugðist við þeim.

Framganga heilbrigðiseftirlitsins í málinu fari gegn ákvæðum 18. kafla reglugerðar nr. 941/2002 og 6. kafla laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Sé sérstaklega skírskotað til 2. mgr. 26. gr. laganna.

Málsrök Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja er vísað til þess að í ljós hafi komið að moltuvinnslan hafi án heimildar og vitneskju eftirlitsins verið komin langt inn á vatnsverndarsvæði í nágrenni við borholur sem notaðar séu sem varavatnsból. Við jarðgerð myndist mikið af köfnunarefnissamböndum sem skolist að hluta með rigningarvatni ofan í grunnvatn og spilli þar með vatnsgæðum. Mikill óþrifnaður hafi verið á svæðinu, plastdræsur hafi fokið þar um og matarleifar í moltuhaugum dregið að sér rottur og vargfugl. Forsenda fyrir starfsleyfi kæranda hafi verið að moltan væri án matarleifa og plasts en kærandi hafi ekki getað komið í veg fyrir slíkt. Í ljósi þess hafi verið talið tilgangslaust að gefa kæranda frest til úrbóta og því hafi sá einn kostur verið fyrir hendi að afturkalla leyfið.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um afturköllun starfsleyfis til að meðhöndla moltu á malbikuðu svæði á svonefndum Pattersonflugvelli. 

Heilbrigðisnefnd gefur út starfsleyfi skv. heimild í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, en um starfsleyfi gildir reglugerð nr. 785/1999, um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun. Auglýsing nr. 582/2000, um lista yfir mengandi starfsemi þar sem ekki er krafist ítarlegrar starfsleyfisgerðar, er gefin út skv. 3. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar og er endurvinnsla úrgangs og önnur sambærileg starfsemi meðal þess sem ekki kallar á ítarlega starfsleyfisgerð. Þess í stað eru í auglýsingu nr. 582/2000 starfsreglur sem starfseminni ber að fylgja. Auk reglugerðar nr. 785/1999 er nánar kveðið á um starfsleyfi vegna meðhöndlunar úrgangs í reglugerð nr. 805/1999 um úrgang. Þá fellur starfsemin í eftirlitsflokk 5 skv. lið 8.5 í fylgiskjali 2 með reglugerðinni. Felur sú flokkun í sér að mengunarvarnaeftirlit heilbrigðisnefndar þurfi ekki að fara fram á tilteknum fresti sem mælt er fyrir um í reglugerðinni, heldur skuli vera samkvæmt ákvörðun, sbr. 2. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 786/1999 um mengunarvarnaeftirlit, og fór slíkt eftirlit fram 14. ágúst 2013.

Til að knýja á um framkvæmd ráðstöfunar samkvæmt lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, reglugerðum settum samkvæmt þeim, samþykktum sveitarfélaga eða samkvæmt eigin fyrirmælum, getur heilbrigðisnefnd í alvarlegri tilvikum afturkallað starfsleyfi skv. 2. mgr. 26. gr. laga nr. hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 34. gr. reglugerðar nr. 785/1999, 6. mgr. 23. gr. reglugerðar nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs og 31. gr. reglugerðar nr. 786/1999. 

Fyrir liggur að umrædd meðhöndlun moltu er inni á fjarsvæði vatnsverndar skv. svæðisskipulagi Suðurnesja, en ekki var gert ráð fyrir því við útgáfu starfsleyfis að starfsemin yrði staðsett á því svæði. Á verndarsvæðum vatnsbóla er heilbrigðisnefnd heimilt að banna framkvæmdir og geymslu efna og úrgangs ef hætta er á að slíkt geti spillt vatninu, sbr. 13. og 14. gr. reglugerðar nr. 796/1999 um varnir gegn mengun vatns, eins og henni var breytt með reglugerð nr. 533/2001. Það er mat heilbrigðiseftirlitisins að köfnunarefnissambönd skolist ofan í grunnvatn og spilli vatnsgæðum og að athafnasvæðið hafi farið út fyrir heimiluð mörk og inn á vatnsverndarsvæði Suðurnesja. Þá kemur fram í svæðisskipulagi Suðurnesja, bls. 11, að lek jarðlög geri svæðið viðkvæmt fyrir mengun og kalli á takmörkun landnotkunar á tiltölulega stóru svæði. Loks er það mat heilbrigðiseftirlitsins að óþrifnaður af starfseminni sé meiri en búist var við, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 737/2003.

Að öllu framangreindu virtu verður að telja umdeilda afturköllun starfsleyfis kæranda lögmæta og studda málefnalegum rökum. Verður kröfu um ógildingu ákvörðunarinnar því hafnað. Úrskurðarnefndin hefur ekki heimild að lögum til að taka ákvörðun um tiltekinn frest til handa kæranda til að hætta umdeildri starfsemi, en með vísan til þess að um íþyngjandi ákvörðun er að ræða er rétt, með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að hann fái hæfilegan frest í því skyni miðað við eðli og umfang starfseminnar. 

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar heilbrigðisnefndar Suðurnesja frá 5. september 2013 um að fella niður starfsleyfi kæranda til að meðhöndla moltu á Pattersonflugvelli frá og með 1. janúar 2014.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

____________________________              ___________________________
Ásgeir Magnússon                                        Þorsteinn Þorsteinsson