Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri, og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 93/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 um að synja um beitingu þvingunarúrræða og um ógildingu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vegna Selvogsgötu 16a í Hafnarfirði.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 22. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir eigendur, Holtsgötu 13, Hafnarfirði, þá ákvörðun byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar frá 22. júní 2021 að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafi verið á Selvogsgötu 16a og ógildingu teikninga sem samþykktar hafi verið á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa 23. september 2015. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé ógildingar ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 og ákvörðunar um að synja um beitingu þvingunarúrræða frá 22. júní 2021.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Hafnarfjarðarbæ 5. júlí 2021.
Málsatvik og rök: Árið 2015 sóttu fyrri eigendur Selvogsgötu 16a, Hafnarfirði, um byggingarleyfi til þess að gera tvöfalda svaladyr með útgengi í garð í stað eldra gluggaops á bakhlið hússins. Á uppdrætti er fylgdi umsókn um byggingarleyfi voru jafnframt færðar inn áður gerðar breytingar á húsinu án þess að þær væru sérstaklega tilgreindar, en í þeim fólst að á bílskúr í horni lóðarinnar, við lóðamörk Selvogsgötu 16b og Holtsgötu 13, höfðu verið gerðar þaksvalir, handrið og stigi. Uppdrættirnir voru samþykktir á afgreiðslufundi skipulags- og byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar hinn 23. september 2015. Að sögn fyrri eiganda höfðu framangreindar breytingar þegar verið tilkomnar við kaup hans á húsinu árið 2014. Þá er í gögnum málsins vísað til þess að nágranni hefði greint frá því að þegar hann keypti sína eign fyrir 15 árum hefðu svalirnar þegar verið til staðar.
Með bréfi til byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar, dags. 22. júní 2021, fór kærandi fram á að teikningar frá árinu 2015 vegna Selvogsgötu 16a yrðu ógiltar og að beitt yrði þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 vegna framangreindra framkvæmda. Byggingarfulltrúi sveitarfélagsins svaraði kæranda sama dag með þeim hætti að ákvörðunin stæði, teikningarnar hefðu verið samþykktar í september árið 2015 og að framkvæmdir hefðu þegar farið fram.
Kærandi telur teikningar af þeim breytingum sem varði þaksvalir hvorki vera í samræmi við lög né byggingarreglugerð. Þá hafi nágrannar ekki veitt samþykki sitt fyrir þeim. Af svölunum sé fallhætta, þær varpi skugga á næstu lóðir og valdi ónæði. Handrið sé 85 cm á hæð en það sé ekki á stiganum líkt og skylt sé.
Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að hinar umdeildu breytingar hefðu verið til komnar þegar samþykkt var að breyta gluggaopi í dyraop árið 2015. Ekki séu til teikningar af þessari breytingu en oft og tíðum sé áður gerðri framkvæmd bætt inn á teikningar. Þá er vísað til þess að skv. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála sé eins mánaðar kærufrestur til nefndarinnar liðinn.
Af hálfu eiganda Selvogsgötu 16a er bent á að kærandi hafi keypt eign sína árið 2020 og hafi honum því verið kunnugt um hinar umdeildu þaksvalir og stiga en engar athugasemdir gert fyrr en árið 2021.
Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Fyrir liggur að á þeim tíma er kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni voru tæp sex ár liðin frá því að byggingarfulltrúi Hafnarfjarðar veitti samþykki fyrir hinni kærðu framkvæmd, sem mun þó vera eldri. Var kærufrestur því löngu liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni 22. júní 2021.
Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Tiltekið er í athugasemdum með 28. gr. í frumvarpi því sem varð að stjórnsýslulögum að við mat á því hvort skilyrði séu til að taka mál til meðferðar að loknum kærufresti þurfi að líta til þess hvort aðilar að málinu séu fleiri en einn og með andstæða hagsmuni. Sé svo sé rétt að taka mál einungis til kærumeðferðar að liðnum kærufresti í algjörum undantekningartilvikum. Skilyrði 28. gr. stjórnsýslulaga fyrir töku máls til efnismeðferðar að liðnum kærufresti þykja ekki uppfyllt í máli þessu.
Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar um samþykkt byggingarleyfis frá 23. september 2015 vísað frá úrskurðarnefndinni.
Það er hlutverk byggingarfulltrúa að hafa eftirlit með mannvirkjagerð í sínu umdæmi, sbr. 2. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 8. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Í því hlutverki felst m.a. að taka afstöðu til beitingar þvingunarúrræða þeirra sem mælt er fyrir um í 55. og 56. gr. sömu laga. Í 1. mgr. 55. gr. er m.a. tekið fram að sé byggingarleyfisskyld framkvæmd skv. 9. gr. hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða byggt á annan hátt en leyfi stendur til geti byggingarfulltrúi stöðvað slíkar framkvæmdir tafarlaust og fyrirskipað lokun mannvirkisins. Sama gildi ef ekki sé að öðru leyti fylgt ákvæðum laganna eða reglugerða sem settar séu samkvæmt þeim við byggingarframkvæmdina. Þá er kveðið á um í 2. mgr. 55. gr. laganna að ef byggingarframkvæmd sé hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða hún brjóti í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt, jarðrask afmáð eða starfsemi hætt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu sé heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Þá er í 56. gr. laganna fjallað um aðgerðir til að knýja fram úrbætur. Er þar m.a. tekið fram í 1. mgr. að sé ásigkomulagi, frágangi, umhverfi eða viðhaldi húss, annars mannvirkis eða lóðar ábótavant að mati byggingarfulltrúa eða frágangur ekki samkvæmt samþykktum uppdráttum, lögum, reglugerðum og byggingarlýsingu, skuli gera eiganda eða umráðamanni eignarinnar aðvart og leggja fyrir hann að bæta úr því sem áfátt sé. Sé það ekki gert sé heimilt að beita dagsektum eða láta vinna verk á kostnað þess sem vanrækt hafi að vinna verkið, sbr. 2. og 3. mgr. sama ákvæðis.
Ákvörðun um beitingu þvingunarúrræðis er háð mati stjórnvalds hverju sinni en tekið er fram í athugasemdum við 55. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 160/2010 að eðlilegt sé að hvert tilvik sé metið, m.a. með tilliti til meðalhófs. Fyrrgreind ákvæði 55. og 56. gr. laganna gefa sveitarfélögum kost á að bregðast við ef byggingarleyfisskyld framkvæmd gengur gegn almannahagsmunum, þ. á m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum, og eiga einstaklingar því ekki lögvarinn rétt til þess að knýja fram beitingu nefndra þvingunarúrræða vegna einkaréttarlegra hagsmuna sinna. Við mat stjórnvaldsins þarf þó sem endranær að fylgja megin reglum stjórnsýsluréttarins, s.s. um rannsókn máls og að baki ákvörðun búi málefnaleg sjónarmið.
Í hinni kærðu ákvörðun um að aðhafast ekki vegna umdeildra framkvæmda var vísað til þess að teikningarnar hefðu verið samþykktar árið 2015 og þess að framkvæmdum væri lokið. Þá upplýsti sveitarfélagið hinn 12. október 2021 um að þvingunarúrræðum væri ekki beitt nema þegar um ólöglegar framkvæmdir væri að ræða og að í umræddu tilviki hefði verið veitt byggingarleyfi fyrir þeim. Með hliðsjón af því og þar sem ekki liggur fyrir að almannahagsmunum hafi verið raskað með hinum umdeildu framkvæmdum liggja ekki fyrir þær ástæður sem leitt geta til þess að hin kærða ákvörðun byggingarfulltrúa að synja um beitingu þvingunarúrræða verði hnekkt.
Úrskurðarorð:
Kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa frá 23. september 2015 um samþykkt byggingarleyfis vegna Selvogsgötu 16a er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar um að synja um beitingu þvingunarúrræða vegna breytinga sem gerðar hafa verið á Selvogsgötu 16a.