Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2021 Traðarreitur eystri

Árið 2021, föstudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, fyrrverandi dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 112/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri.

 Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 5. júlí 2021, kærir eigandi, Digranesvegi 38, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi. Með bréfum til úrskurðarnefndarinnar, dags. 7. júlí 2021, fara 76 tilgreindir aðilar fram á að þeim verði heimilað að gerast meðkærendur í málinu. Með bréfi, dags. 7. júlí 2021, var þess jafnframt krafist að réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar yrði frestað til bráðabirgða á meðan málið væri til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þeirri kröfu var hafnað með úrskurði nefndarinnar uppkveðnum 22. s.m.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 29. júlí 2021.

Málavextir: Upphaf máls þess má rekja til ársins 2019 þegar skipulagsráð Kópavogsbæjar samþykkti á fundi sínum 29. apríl skipulagslýsingu fyrir svæðið. Var sú afgreiðsla staðfest á fundi bæjarstjórnar 14. maí s.á. Var skipulagslýsingin auglýst í Fréttablaðinu 22. maí 2019 og var hún aðgengileg á heimasíðu Kópavogsbæjar með athugasemdafresti til 27. júní s.á. Á fundi skipulagsráðs 2. september s.á. var lögð fram vinnslutillaga að deiliskipulagi svæðisins. Var hún auglýst í fjölmiðlum 14. desember 2019 með athugasemdafresti til og með 16. janúar 2020. Þann dag var jafnframt haldinn kynningarfundur fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila. Á fundi skipulagsráðs 3. febrúar 2020 var samþykkt að hefja vinnu við deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri á grundvelli framlagðrar vinnslutillögu. Samþykkti ráðið á fundi sínum 16. mars s.á.  að auglýsa framlagða deiliskipulagstillögu og var sú samþykkt staðfest af bæjarráði 19. s.m. og bæjarstjórn 24. s.m.

Deiliskipulagstillagan var auglýst í fjölmiðlum 23. maí 2020 með athugasemdafresti til og með 20. júlí sá. Samhliða var auglýst opið hús 25. júní 2020 og 9. júlí s.á. þar sem íbúum og öðrum hagsmunaaðilum var gefinn kostur á að koma að athugasemdum og fá svör við spurningum. Á fundi skipulagsráðs 17. ágúst s.á. var tillagan tekin fyrir að nýju og þar sem athugasemdir bárust var málinu vísað til umsagnar skipulags- og byggingardeildar. Á fundi skipulagsráðs 7. september s.á. var deiliskipulagstillagan tekin fyrir og samþykkt ásamt umsögn, dags. 2. s.m. Var sú afgreiðsla skipulagsráðs staðfest í bæjarráði 19. nóvember s.á og í bæjarstjórn 24. s.m. Tók deiliskipulagið gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2021.

Samhliða þessari málsmeðferð deiliskipulagstillögunnar fyrir Traðarreit eystri var auglýst breyting á aðalskipulagi fyrir umrætt svæði. Var aðalskipulagsbreytingin samþykkt á fundi skipulagsráðs 7. september 2020. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarráði 17. s.m. og í bæjarstjórn 22. s.m. Samkvæmt aðalskipulagsbreytingunni verður landnotkun svæðisins áfram skilgreind sem íbúðarsvæði en það jafnframt skilgreint sem þróunarsvæði. Tók aðalskipulagsbreytingin gildi með auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda 2. nóvember 2020.

Hið kærða deiliskipulag nær til 8.300 m2 reits sem markast af Digranesvegi í suður, lóðar­mörkum Kópavogsskóla í vestur, Hávegi í norður og Álftröð í austur. Gert er ráð fyrir blandaðri íbúðarbyggð með möguleika á þjónustustarfsemi. Samkvæmt deiliskipulaginu er gert ráð fyrir því að núverandi hús verði rifin og reist verði fjölbýlishúsabyggð á tveimur til fjórum hæðum með inndreginni þakhæð og að þar verði allt að 180 íbúðir. Þá er gert ráð fyrir niðurgrafinni bílageymslu með 1,3 stæðum fyrir hverja íbúð og einu stæði á hverja 50 m2 atvinnuhúsnæðis.

 Málsrök kærenda: Kærendur telja að Kópavogsbær hafi ekki farið eftir gr. 5.2.1. í skipulags­reglugerð nr. 90/2013 þar sem fram komi m.a. að við gerð deiliskipulags skuli eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa, umsagnaraðila og annarra þeirra sem hagsmuna eigi að gæta. Það skuli gert með virkri samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila gegnum allt skipulagsferlið. Kærendur búi í nágrenni við skipulagsreitinn.

 Samkvæmt auglýsingu í Stjórnartíðindum komi fram að íbúðarfjöldi á viðkomandi reit muni aukast úr átta einbýlishúsum í 180 íbúðir, eða um 2.250%. Þyki nærliggjandi íbúum sú aukning vera allt of mikil og hafi þeir, á flestum stigum vinnslutillögunnar, komið með athugasemdir þess efnis. Um sé að ræða stórkostlegar breytingar á yfirbragði hverfisins. Hverfið sé gamalt og gróið og sé í dag engin blokk austan megin við Kópavogsskóla, eingöngu einbýli, tvíbýli, hæðir og raðhús, sem ekki séu hærri en þrjár hæðir. Samkvæmt hinu kærða deiliskipulagi sé gert ráð fyrir allt að fimm hæða blokkum á umræddum skipulagsreit.

Sveitarfélög hafi getað í nafni þéttingarstefnu breytt skipulagi á slíkum reitum og þjappað mörgum íbúðum saman, en einhverjar reglur eða kvaðir hljóti að gilda um hve mikið megi þétta. Ættu sveitarfélög að þurfa að skoða og taka tillit til nærliggjandi byggðar, m.t.t. tegunda bygginga og þéttleika byggðar. Með hinu kærða deiliskipulagi sé verið að margfalda byggingarmagn og það í sérbýlishverfi. Telji íbúar í nágrenninu það óviðunandi aukningu.

Í gildandi aðalskipulagi komi fram að við gerð deiliskipulags skuli taka mið af þörfum og óskum íbúa sem og annarra hagsmunaaðila. Einnig komi þar fram: „Fyrirhugaðar breytingar, á einstökum lóðum eða hluta götureita í eldri hverfum bæjarins, skulu ekki raska yfirbragði aðliggjandi byggðar þar sem m.a. er gætt samræmis hvað varðar götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlist. Stuðla skal að verndun og viðhaldi þess menningarsögulega arfs sem fólginn er í sögu og þróun byggðar í Kópavogi á þann hátt að einstök hús, húsaraðir og götumyndir verði vernduð með bæjarvernd.“ Með hliðsjón af framangreindu fari hið samþykkta deiliskipulag gegn markmiðum Aðalskipulags Kópavogs 2021-2024.

Með því að samþykkja einhliða að breyta sérbýlishúsahverfi í hverfi með fimm hæða blokkum sé verið að breyta stórkostlega forsendum íbúa í nágrenninu sem hafi talið sig vera að kaupa eignir í gamalgrónu sérbýlis-, hæða- og/eða raðhúsahverfi. Byggi kærendur á því  að það hljóti því að vera skylda bæjarins og/eða byggingarverktaka að bjóða nærliggjandi íbúum, sem augljóslega verði fyrir áhrifum af viðkomandi breytingu, að selja byggingaraðilum eign sína með í það minnsta 50% álagi eða að hlusta á vilja kærenda, sem vilji sjá uppbyggingu sem nemi 40 íbúðum í formi hæða eða raðhúsa á viðkomandi reit sem yrðu ekki hærri en þrjár hæðir og í samræmi við götumynd, hlutföll bygginga og byggingarlist. Í þéttingarstefnu Kópavogsbæjar eða annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki fundist neinar skilgreiningar sem takmarki áðurnefnt byggingarmagn á reit eða hæð húsa innan um sérbýli, rað- eða parhús. Það megi hins vegar gera ráð fyrir að í þéttingarstefnu felist ekki að byggt sé fjölbýlishús á mörgum hæðum innan um einbýlishúsalóðir án þess að nærliggjandi íbúar samþykki slíkt eða fái þar til gerðar bætur frá sveitarfélaginu.

Nú þegar sé mikill umferðarþungi á Digranesvegi og eftir 2.250% íbúðaaukningu á svæðinu verði erfitt, ef ekki ómögulegt, að draga úr umferðarþunga þarna með nokkru móti. Megi gera ráð fyrir að fleiri og stærri umferðarstíflur myndist með tilheyrandi hættu fyrir börn sem gangi í skólann. Samkvæmt deiliskipulaginu sé gert ráð fyrir 1,3 bílastæðum á hverja íbúð. Þá sé fjallað um að gestastæði séu við götu utan lóðar, en litlu meira fjallað um fjölda þeirra eða staðsetningu. Kærendur telji bílastæðaþörf vanmetna á svæðinu og séu sterkar líkur á að gestir viðkomandi bygginga muni leggja í bílastæði íbúa í nágrenni umrædds reits.

Samkvæmt reglugerð nr. 724/2008 um hávaða séu viðmiðunarmörk hávaða á íbúðarsvæðum 55 dB(A). Miðað við fyrirliggjandi útreikninga fari hávaði yfir þau  mörk. Með aukinni bílaumferð og íbúafjölda megi gefa sér að hljóðmengun muni aukast og vera meiri en íbúar geti sætt sig við.

Einnig standi til að þétta byggð á Traðarreit vestri þar sem gert sé ráð fyrir að íbúðum muni fjölga um 550 og að börn á þeim reit muni ganga í Kópavogsskóla, rétt eins og þau börn sem komi til með að búa á Traðarreit eystri. Þá sé einnig gert ráð fyrir leikskóla á sama svæði. Núverandi stærð Kópavogsskóla rúmi ekki þessa aukningu og þurfi því að stækka hann, sem aftur minnki þá leiksvæði sem þar sé í kring.

Í vinnslutillögunum sé fjallað mikið um Borgarlínu og að íbúðarfjöldinn verði að vera mikill og þéttur þar sem Borgarlínan keyri í gegn og stoppi. Þessu sé mótmælt. Að því er kærendur best viti sé „Borgarlínan“ ennþá á teikniborðinu og ekkert hafi enn verið samþykkt. Þá eigi eftir að leysa fjármögnun og önnur vandamál áður en Borgarlínan muni hefja akstur. Þá sé kærandi að Digranesvegi 38(, sá sem skrifað hafi kæruna,) í níu mínútur að ganga að strætóskýli þar sem leið 1 stoppi í átt að miðbæ Reykjavíkur. Sé varla hægt að kalla það „spölkorn frá Hamraborginni“.

Sá tími sem verktaki virðist fá til að byggja upp á svæðinu, þ.e. 10-15 ár, sé óviðunandi. Framkvæmdatími ætti aldrei að vera meira en 2-3 ár og muni varla verða íbúðarhæft á svæðinu þegar byrjað verði að sprengja, fleyga og flytja jarðveg af svæðinu.

Í nefndri aðalskipulagsbreytingu og hinu kærðu deiliskipulagi sé ekki minnst á skipulagsmál norðan Hávegar en kærendur telji að heildstætt skipulag vanti fyrir það svæði. Öll einbýlis­húsin norðan Hávegar séu í eigu sama verktaka og meiri líkur en minni séu á að í framhaldinu verði óskað eftir því að byggja fimm hæða hús þar.

 Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar kemur fram að hin kærða ákvörðun sé í samræmi við stefnu og markmið Kópavogsbæjar í gildandi aðalskipulagi um þéttingu byggðar og góða nýtingu lands og landgæða, með umhverfis- og verndarsjónarmið að leiðarljósi. Þá sé tillagan einnig í takt við þær áherslur sem gerðar séu varðandi byggð með fjölbreyttu framboði húsnæðis og þjónustu.

 Málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið viðamikil og ítarleg. Í skipulagsferlinu hafi legið fyrir húsakönnun, samþykkt af Minjastofnun, þar sem niðurstaðan hafi verið sú að engin hús, húsaraðir eða götumyndir á reitnum gæfu tilefni til verndunar vegna byggingarlistarlegrar, menningarsögulegrar og/eða umhverfislegrar sérstöðu. Það sé því ekki sjálfgefið að rótgróin byggð njóti verndar heldur sé það metið sérstaklega hverju sinni. Jafnframt hafi legið fyrir minnisblöð varðandi umferð og hljóðvist þar sem uppbyggingin sé ekki talin líkleg til að hafa mikil áhrif á gatnakerfið. Þá séu í hinu kærða deiliskipulagi gerðar kröfur til hljóðvarna með hliðsjón af niðurstöðu greinds minnisblaðs varðandi hljóðvist.

Í skipulagsferlinu hafi íbúar, sem og aðrir hagsmunaaðilar, jafnframt fengið tækifæri til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Á kynningartíma tillögunnar hafi aðilum verið gefinn kostur á að senda inn athugasemdir og mæta á kynningarfund þar sem tillagan hafi verið kynnt. Þá hafi í tvígang verið haldin opin hús á vegum skipulags- og byggingardeildar á kynningartíma deiliskipulagstillögunnar sjálfrar og að sama skapi hafi aðilum verið gefinn kostur á að senda inn athugasemdir á kynningartíma. Sé því ekki tekið undir sjónarmið kærenda um að skort hafi á samráð. Í því samhengi megi nefna að með hliðsjón af innsendum athugasemdum og umsögnum hafi verið gerðar breytingar að lokinni kynningu á vinnslutillögunni og hún síðar orðið að endanlegri deiliskipulagstillögu.

Hin kærða ákvörðun taki til svæðis sem í aðalskipulagi sé skilgreint sem ÍB-2 Digranes. Sé því lýst sem nokkuð fastmótaðri byggð, sem sé jafnframt þéttasta byggð Kópavogs, með mjög blönduðum húsagerðum, þó mest fjölbýli. Þá segi jafnframt að gert sé ráð fyrir fjölgun íbúða á svæðinu. Sé það mat Kópavogsbæjar að hin kærða deiliskipulagstillaga sé í fullu samræmi við svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins, sem og Aðalskipulag Kópavogs 2021-2024, og hafi innbyrðis samræmis skipulagsáætlana því verið gætt, sbr. 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Samhliða hinni kærðu deiliskipulagsákvörðun hafi verið gerð aðalskipulagsbreyting fyrir svæðið og sé það nú skilgreint sem þróunarsvæði. Liggi fyrir framkvæmdaáætlun þar sem gert sé ráð fyrir að uppbygging skipulagsvæðisins taki um fimm ár en ekki 10-15 ár, líkt og kærendur haldi fram. Þá hafi verið gert sérstakt samkomulag við verktaka uppbyggingarverkefnisins þar sem framkvæmdatími, framkvæmdasvæðið og umgengnisreglur á framkvæmdatíma sé sérstaklega tilgreint, með áherslu á að ónæði í nærliggjandi byggð verði sem minnst á framkvæmdatíma. Hafi greint samkomulag verið samþykkt á fundi bæjarráðs 3. júní 2021 og í kjölfarið hafi auglýsing um gildistöku deiliskipulagstillögunnar verið birt.

Á það skuli bent að skipulagsvaldið sé í höndum viðkomandi sveitarstjórnar, sbr. 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. og hafi sveitarstjórn talsvert svigrúm við þróun byggðar og umhverfis eftir því sem talin sé þörf á hverju sinni. Fasteignaeigendur og aðrir hagsmunaaðilar geti því ekki gengið út frá því að skipulag haldist óbreytt um ókomna tíð.

Sé það mat Kópavogsbæjar að málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið að fullu í samræmi við gildandi lög og reglur.

 Viðbótarathugasemdir kærenda: Kærendur gera athugasemd við að hvorki hafi farið fram íbúakosning né hugarfar íbúa gagnvart skipulagsbreytingunni kannað með öðrum hætti áður en skipulagslýsing hafi verið auglýst. Bent sé á að ekkert í lögum eða reglugerðum heimili sveitarfélögum að setja skipulagsbreytingar upp í svokallað „vinnslutillögu ferli“. Ef  slík ákvæðu væru til mætti gera ráð fyrir að (nærliggjandi íbúar) sjónarmið íbúa í nágrenninu/húsa í nágrenninu fengju meira vægi í upphafi ákvörðunarferlisins.

Þá vanti í greinargerð bæjarins að tilgreina að athugasemdafrestur vegna skipulagstillögunnar hefði verið veittur frá 16. janúar 2020 til 29. s.m. og að fjöldinn allur af athugasemdum hefði borist. Ljóst þyki að bærinn hafi lítið eða ekkert tekið þær athugasemdir til greina, en fimm dögum eftir lok frestsins hafi skipulagsráð samþykkt að hefja vinnu að deiliskipulagi fyrir Traðarreit eystri.

Augljóst sé að þarna verði alltof þétt byggt og um sé að ræða forsendubrest fyrir kærendur sem hafi talið sig vera að flytja á rólegt svæði með litlum fjölbýlishúsum, raðhúsum og einbýlum. Þá sé villandi að tala um að byggðin á svæðinu einkennist af fjölbýli, enda geti fallið undir það hugtak allt frá parhúsum og hæðum til 15 hæða skýjablokka. Á reitnum séu ekki blokkir heldur raðhús, parhús, einbýlishús og hæðir.

 Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvörðun til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda ákvörðun sem kæra á. Að stjórnsýslurétti hefur skilyrðið um lögvarða hagsmuni fyrir kæruaðild verið túlkað svo að þeir einir teljist aðilar kærumáls sem eigi einstaklegra hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Kærendur í máli þessu eru 77 talsins. Til þess að hafa lögvarða hagsmuni þarf hin kærða ákvörðun að snerta hagsmuni þeirra beint, til að mynda vegna útsýnisskerðingar eða skuggavarps. Við mat á því hvort kærendur eigi lögvarinna hagsmuna að gæta af hinni kærðu ákvörðun verður því að líta til staðhátta allra. Þarf þannig meðal annars að kanna hvar hús þeirra standa með tilliti til hins umþrætta skipulagsreits og fyrirhugaðrar uppbyggingar þar.

Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður ráðið að kærendur máls þessa séu búsettir í grennd við hið umþrætta skipulagssvæði. Hins vegar teljast þeir ekki allir eiga lögvarða hagsmuni þegar litið er til staðhátta. Húsnæði kærenda í Bræðratungu 12 og 28, Hrauntungu 29, 62 og 81, Víðihvammi 36, Reynihvammi 7 og Lindarhvammi 11, svo og að Hlíðarvegi 48, liggja sunnan Digranesvegar og neðar í landi en umræddur götureitur, sem er norðan Digranesvegar. Á milli eigna nefndra kærenda og framkvæmdasvæðisins eru hús, allmikill gróður og í flestum tilvikum fleiri götur en Digranesvegur. Húsnæði kærenda við Digranesveg 61 og 63, Meltröð 2 og 4, Víghólastíg 6 og Bjarnhólastíg 24 eru í a.m.k. 200 m fjarlægð frá framkvæmdasvæðinu og er húsnæði Menntaskólans í Kópavogi þar á milli. Húsnæði kærenda að Álfhólsvegi 16, 16a, 18, 18a, 20, 20a, 43a og 89 er norðan við framkvæmdasvæðið, neðar í landi, og eru hús, gróður og götur þar á milli. Vegna greindra staðhátta teljast framangreindir kærendur ekki eiga lögvarinna hagsmuna að gæta með tilliti til grenndaráhrifa. Hús kærenda að Álfhólsvegi 22b og að Skólatröð 1, 5, 7, 9 og 11 eru nær framkvæmdasvæðinu, eða í um 40-70 m fjarlægð, en liggja eilítið neðar í landi og eru mannvirki og gróður þar á milli. Þykja þeir kærendur því ekki heldur eiga lögvarinna hagsmuna að gæta vegna grenndar þótt einhverjir þeirra í þessum húsum muni geta eygt þau hús sem fyrirhugað er að reisa. Sama á við um hús kærenda að Digranesvegi 18 og 22, gegnt Kópavogsskóla, og að Digranesvegi 50, 52, 54 og 56, gegnt Menntaskólanum í Kópavogi. Þar að auki hafa tveir kærenda að Digranesvegi 54 selt íbúð sína og afhent samkvæmt þinglýstum kaupsamningi. Verður kröfum framangreindra kærenda því vísað frá úrskurðarnefndinni, svo sem nánar er tilgreint í úrskurðarorði. Öðrum kærendum er hins vegar játuð kæruaðild vegna grenndar, en hús þeirra að Digranesvegi 32, 36, 38, 40, 42, 44, 46 og 48 eru sunnan götunnar gegnt framkvæmdasvæðinu, sem er í ríflega 20 m fjarlægð norðan götu.

Skipulagsvald innan marka sveitarfélags er í höndum sveitarstjórnar skv. 3. mgr. 3. gr. skipulags­laga. Í aðalskipulagi er sett fram stefna sveitarstjórnar um þróun sveitar­félags, m.a. varðandi landnotkun, sbr. 1. mgr. 28. gr., en við gerð deiliskipulags ber að byggja á stefnu aðalskipulags auk þess sem deiliskipulag skal rúmast innan heimilda aðalskipulags, sbr. 2. mgr. 37. gr. og 7. mgr. 12. gr. nefndra laga. Við beitingu skipulagsvalds ber enn fremur að fylgja markmiðum skipulagslaga sem tíunduð eru í 1. gr. þeirra. Sveitarstjórn er einnig bundin af lögmætisreglu stjórnsýsluréttarins er felur m.a. í sér að með ákvörðun sé stefnt að lög­mætum markmiðum. Að gættum þessum grundvallarreglum hefur sveitarstjórn mat um það hvernig deiliskipulagi skuli háttað.

Í samræmi við 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga var tekin saman lýsing fyrir hið kærða deiliskipulag og hún kynnt fyrir almenningi og umsagnaraðilum ásamt því að leitað var umsagnar Skipulags­stofnunar, sbr. 3. mgr. 40. gr. Þá var tillaga að deiliskipulagi auglýst í samræmi við 41. gr. laganna, frá 23. maí til 20. júlí 2020. Að lokinni auglýsingu var tekin afstaða til þeirra athugasemda sem bárust skv. 3. mgr. 41. gr. laganna. Var málsmeðferð deiliskipulagsins þannig í samræmi við ákvæði skipulagslaga. Þrátt fyrir að hugtakið vinnslutillaga sé ekki að finna í skipulagslögum er ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarfélög gangi lengra í kynningu skipulagsáætlana en lögin gera ráð fyrir, svo sem hér var gert með auglýsingu slíkrar tillögu á árinu 2019. Þá voru haldnir kynningarfundir og opin hús, eins og fram kemur í málavaxtalýsingu. Að mati úrskurðarnefndarinnar var þannig viðhaft það samráð sem skipulagslög og skipulags­reglugerð mæla fyrir um, en  tekið skal fram að lögbundið samráð leiðir ekki endilega til þess að fallist verði á öll sjónarmið íbúa.

Samkvæmt 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga skulu gildandi skipulagsáætlanir vera í innbyrðis sam­ræmi. Svæðisskipulag er rétthærra en aðalskipulag og aðalskipulag rétthærra en deiliskipulag. Við gerð nýrra skipulagsáætlana eða breytinga á skipulagsáætlunum skulu sveitarstjórnir taka mið af gildandi landsskipulagsstefnu. Bæjarstjórn nýtti sér heimild 2. mgr. 41. gr. og var aðalskipulagi breytt samhliða hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu. Var viðkomandi svæði breytt í þróunasvæði og settir sérstakir skilmálar um þéttingu byggðar á reitnum. Kemur fram í aðalskipulagsbreytingunni að meginmarkmið hennar sé að afmarka nýtt svæði fyrir þéttingu byggðar í nánd við miðbæ Kópavogs. Breytingin felist í því að heimila enduruppbyggingu á reitnum fyrir fjölbýlishús. Eftir þá breytingu er hin kærða deiliskipulagsákvörðun í samræmi við gildandi aðalskipulag.

Í samræmi við 5. mgr. 37. gr. skipulagslaga var unnin húsakönnun og lagt mat á varðveislugildi byggðarinnar og einstakra bygginga sem fyrir voru á svæðinu. Niðurstaða húsakönnunar var sú að á reitnum væru engin einstök hús, húsaraðir eða götumyndir sem gæfu tilefni til verndunar. Þá væru heldur engar samstæður húsa eða heildir sem lagt væri til að vernda vegna umhverfislegrar sérstöðu. Einnig liggur fyrir minnisblað um hljóðvist. Samkvæmt því eru nokkur hús, bæði innan skipulagsreitsins og utan hans, þar sem hljóðstig mun fara yfir mörk reglugerðar nr. 724/2008 um hávaða við framhlið, þ.e. þeirri sem snýr út að götu. Er tekið fram í minnisblaðinu að þau hús utan skipulagsreitsins þar sem það eigi við hafi þó öll hljóðláta hlið og uppfylli þannig skilyrði reglugerðarinnar. Ef einhverjar íbúðanna á skipulagsreitnum muni ekki hafa hljóðláta hlið sem snúi inn í garð þurfi að huga sérstaklega að hljóðvist í þeim með byggingartæknilegum lausnum við hönnun. Er í hinu kærða deiliskipulagi vísað til nefndrar reglugerðar og tekið fram að á öllum íbúðarlóðum verði hljóðvist í samræmi við 5. gr. hennar um hávaða innan viðmiðunarmarka við að minnsta kosti eina húshlið samkvæmt ÍST 45:2011, en nefnt reglugerðarákvæði heimilar skipulagsyfirvöldum að ákveða að í stað marka hljóðstigs í viðauka reglugerðarinnar gildi greindur staðall um íbúðarhúsnæði. Liggur því ekki annað fyrir en að rannsókn málsins og málsmeðferð hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið lögum samkvæmt.

Að framangreindu virtu er ekki að finna neina þá form- eða efnisannmarka á hinni kærðu ákvörðun er raskað geta gildi hennar og verður kröfu kærenda þar um því hafnað.

Rétt þykir þó að benda á að geti kærendur sýnt fram á tjón vegna hins kærða deiliskipulags geta þeir eftir atvikum átt rétt á bótum af þeim sökum, sbr. 51. gr. skipulagslaga. Það álitaefni á hins vegar ekki undir úrskurðarnefndina heldur dómstóla.

 Úrskurðarorð:

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu kærenda að Bræðratungu 12 og 28, Hrauntungu 29, 62 og 81, Víðihvammi 36, Meltröð 2 og 4, Hlíðarvegi 48, Reynihvammi 7, Víghólastíg 6, Lindarhvammi 11, Bjarnhólastíg 24, Skólatröð 1, 5, 7, 9 og 11, Álfhólsvegi 16, 16a, 18, 18a, 20, 20a, 22b, 43a og 89 og  Digranesvegi 18, 22, 50, 52, 54, 56, 61 og 63.

Hafnað er kröfu kærenda að Digranesvegi 32, 36, 38, 40, 42, 44, 46 og 48 um að felld verði úr gildi ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri.