Árið 2018, fimmtudaginn 13. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 91/2017, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðanna Hólmaþings 5 og 5b, Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 18. ágúst 2017, er barst nefndinni sama dag, kærir lóðarhafi Gulaþings 60, Kópavogi, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna Hólmaþings 5 og 5b. Verður að skilja málskot kæranda svo að þess sé krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Kópavogsbæ 18. september 2017.
Málavextir: Á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 16. janúar 2017 var tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings. Í breytingunni fólst að lóðinni Hólmaþingi 5 yrði skipt í tvær lóðir, Hólmaþing 5 og 5b. Hólmaþing 5 yrði 2.020 m2 með óbreyttum byggingarrétti en aðkoma myndi færast frá Hólmaþingi að Gulaþingi. Lóðin Hólmaþing 5b yrði 1.145 m2 þar sem gert yrði ráð fyrir einbýlishúsi á einni hæð auk kjallara en aðkoma yrði óbreytt samkvæmt þágildandi deiliskipulagi, þ.e. á milli Hólmaþings 3 og 7. Samþykkti nefndin að auglýsa tillöguna og vísa henni til bæjarráðs og bæjarstjórnar. Á fundum bæjarráðs 19. janúar 2017 og bæjarstjórnar 24. s.m. var afgreiðsla nefndarinnar samþykkt. Athugasemdir bárust á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kæranda.
Deiliskipulagstillagan var lögð fram að nýju á fundi skipulagsráðs Kópavogsbæjar 29. maí 2017 ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar sveitarfélagsins um athugasemdir og ábendingar. Samþykkti skipulagsráð deiliskipulagsbreytinguna með vísan til niðurstöðu fyrrgreindrar umsagnar og var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 13. júní 2017. Tók skipulagsbreytingin gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 19. júlí s.á.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir í fyrsta lagi á að með breyttu deiliskipulagi sé verið að auka verulega við íbúðarhúsnæði í „bakgarðinum“. Í öðru lagi hafi skýringarmynd sem fylgt hafi dreifibréfi vegna deiliskipulagsbreytingarinnar ekki sýnt hvaða áhrif breytingin hefði á útsýni frá Gulaþingi 60. Í þriðja lagi hafi breytingin í för með sér óþægindi fyrir kæranda vegna breyttrar aðkomu að Hólmaþingi 5, sem leiði til aukinnar umferðar um götuna, en ekki komi nákvæmlega fram á skýringarmynd hvernig aðkomunni verði háttað. Í fjórða lagi muni notkunarmöguleikar og gæði fasteignar hans breytast verulega þar sem innkeyrsla Hólmaþings 5 verði rétt við lóðarmörk og svefnherbergisálmu Gulaþings 60. Útsýni úr stofuglugga sé beint á bílastæði Hólmaþings. Muni breytingin rýra verulega verðmæti fasteignar hans.
Málsrök Kópavogsbæjar: Bæjaryfirvöld taka fram að fyrir lóðina Hólmaþing 5 sé í gildi deiliskipulagið Vatnsendi – Þing frá árinu 2005. Á svæðinu sé fyrirhuguð blönduð íbúðabyggð þar sem aðallega sé gert ráð fyrir einnar til tveggja hæða sérbýli. Þá sé gert ráð fyrir að meðalnýtingarhlutfall fyrir einbýlishúsalóðir verði 0,3. Fyrir umrædda skipulagsbreytingu hafi lóðin Hólmaþing 5 verið töluvert stærri en aðrar lóðir á svæðinu, eða um 3.165 m2, og hafi nýtingarhlutfall miðað við byggingarrétt samkvæmt gildandi deiliskipulagi verið 0,12. Eftir breytingu sé nýtingarhlutfallið 0,19 fyrir lóðina Hólmaþing 5 og 0,23 fyrir lóðina Hólmaþing 5b. Það sé vel undir meðalnýtingarhlutfalli svæðisins. Að gera ráð fyrir einbýlishúsum á lóðunum sé í fullu samræmi við gildandi deiliskipulag.
Hin kærða deiliskipulagsbreyting feli aðeins í sér að bætt sé við einu einbýlishúsi á einni hæð sem staðsett verði neðar í landi en lóð kæranda. Verði ekki séð að fyrirhuguð mannvirki muni skerða útsýni kæranda verulega. Þá sé á það bent að réttur til útsýnis sé ekki lögbundinn. Íbúar í þéttbýli geti átt von á breytingu á sínu nánasta umhverfi, ekki síst þar sem gert sé ráð fyrir þéttingu byggðar í markmiðum Aðalskipulags Kópavogs 2012-2024. Deiliskipulagsbreytingin muni ekki hafa í för með sér aukna umferð vegna eins einbýlishúss. Grenndaráhrif umræddrar deiliskipulagsbreytingar séu óveruleg og raski ekki gildi ákvörðunarinnar sem hafi sætt málsmeðferð í samræmi við ákvæði laga og reglna.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er vísað til umsagnar Kópavogsbæjar í máli þessu en á það bent að varla sé hægt að sjá á milli lóðanna Gulaþings 60 annars vegar og Hólmaþings 5 og 5b hins vegar þar sem á milli sé þéttur trjáveggur, aðallega hávaxið greni.
Niðurstaða: Í hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu felst að lóðinni Hólmaþingi 5 er skipt upp í tvær lóðir, nr. 5 og 5b, og verður aðkoma að Hólmaþingi 5b frá Gulaþingi. Kærandi er lóðarhafi Gulaþings 60, sem liggur að lóðarmörkum Hólmaþings 5 að vestanverðu.
Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 38. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 annast sveitarstjórnir og bera ábyrgð á gerð aðalskipulags og deiliskipulags í sínu umdæmi. Í skipulagsvaldi sveitarstjórna felst m.a. heimild til breytinga á gildandi deiliskipulagi eins og kveðið er á um í 43. gr. laganna, en þess ber að gæta að breytingin rúmist innan heimilda aðalskipulags, sbr. 7. mgr. 12. gr. sömu laga. Hin kærða deiliskipulagsbreyting var kynnt með almennri auglýsingu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. laganna. Þar að auki var nágrönnum Hólmaþings 5, m.a. kæranda, sent dreifibréf þar sem athygli var vakin á því að skipulagsráð hefði samþykkt að auglýsa breytt deiliskipulag fyrir Hólmaþing 5. Deiliskipulagstillagan var svo afgreidd í skipulagsráði, þar sem framkomnum athugasemdum kæranda var svarað í samræmi við 3. mgr. 41. gr. skipulagslaga. Að lokum var breytingin samþykkt í bæjarráði Kópavogsbæjar lögum samkvæmt.
Samkvæmt Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 er lóðin Hólmaþing 5 á skilgreindu íbúðarsvæði, ÍB-5. Þar er svæðinu lýst sem blandaðri byggð einbýlishúsa, raðhúsa og fjölbýlishúsa. Í aðalskipulaginu kemur fram varðandi markmið byggðar að horft sé í ríkari mæli til þéttingar hennar. Er því skipting lóðarinnar samkvæmt hinni kærðu deiliskipulagsbreytingu í samræmi við aðalskipulag, svo sem áskilið er í fyrrnefndri 7. mgr. 12. gr. skipulagslaga.
Nýtingarhlutfall umræddra lóða eftir hina kærðu breytingu er sambærilegt við aðrar lóðir í götunni og fordæmi eru fyrir því á skipulagssvæðinu að stærri lóðum hafi verið skipt í tvær eða fleiri lóðir. Verður ekki ráðið að skipulagsbreytingin raski grenndarhagsmunum kæranda að marki, en allnokkur fjarlægð er á milli húss kæranda og hinu nýja húsi auk þess sem hið nýja hús er staðsett neðar í landi en hús kæranda. Þrátt fyrir að ný aðkoma að Hólmaþingi 5 feli í sér aukna umferð í nágrenni við hús kæranda er um óverulega breytingu að ræða í ljósi þess að sú aukning er einungis vegna einbýlishússins að Hólmaþingi 5.
Með vísan til þess sem að framan er rakið er hin kærða ákvörðun ekki haldin ágöllum sem áhrif geta haft á gildi hennar og verður ógildingarkröfu kæranda því hafnað.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda og umfangs mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Kópavogs frá 13. júní 2017 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Vatnsenda – Þings vegna lóðanna Hólmaþings 5 og 5b í Kópavogi.