Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

90/2007 Hesteyri

Ár 2008, miðvikudaginn 2. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 90/2007, kæra á samþykkt skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 um breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðárkróki er felur m.a. í sér sameiningu lóða nr. 2 við Hesteyri og nr. 3 við Vatneyri.  Jafnframt er kærð ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar frá 5. júní 2007 um að veita leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 31. ágúst 2007, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Njarðargötu 29, Reykjavík, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar frá 22. maí 2007 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins á Sauðarkróki.  Sveitarstjórn samþykkti fyrrgreinda ákvörðun á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Skilja verður málatilbúnað kæranda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu ákvörðun.  Jafnframt er þess krafist að leyfi frá 5. júní 2007 til byggingar verkstæðishúss á lóðinni verði fellt úr gildi.  Þá fór kærandi fram á að umræddar framkvæmdir á lóðinni yrðu stöðvaðar. 

Úrskurðarnefndin hefur tekið sérstaklega til athugunar álitaefni um lögvarða hagsmuni kæranda í máli þessu og aðild hans að því.  Af þeirri ástæðu hefur krafa kæranda um stöðvun framkvæmda ekki verið tekin til sjálfstæðrar úrlausnar.  Er málið nú tekið til endanlegrar afgreiðslu.

Málavextir:  Á svæði því sem hin kærða deiliskipulagsbreyting varðar er í gildi deiliskipulag hafnarsvæðis sem samþykkt var á árinu 1995.  Samkvæmt greinargerð með hinni kærðu ákvörðun var árið 1975 byggt hús á lóðinni nr. 2 við Hesteyri fyrir rekstur útgerðar, skrifstofur og verkstæði og er þar nú starfrækt vélaverkstæði.  Á lóð nr. 3 við Vatneyri var fyrir hálfum öðrum áratug hins vegar byggður sökkull fyrir verksmiðju til pökkunar á vatni til útflutnings sem hefur nú verið fjarlægður.

Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Skagafjarðar hinn 22. maí 2007 var tekin fyrir áður auglýst tillaga að breytingu á deiliskipulagi hafnarsvæðisins er náði til fyrrgreindra lóða og opins svæðis á uppfyllingu neðan við Gránumóa við Hesteyri og Vatneyri og var tillagan samþykkt óbreytt.  Á fundinum kom jafnframt fram að borist hefðu athugasemdir við tillöguna frá kæranda máls þessa og þættu svör skipulags- og byggingarfulltrúa við þeim fullnægjandi.  Samþykkti sveitarstjórn Skagafjarðar fyrrgreinda tillögu að breyttu deiliskipulagi hafnarsvæðisins á fundi sínum hinn 24. maí 2007.  Felur breytingin í sér að lóð nr. 2 við Hesteyri er stækkuð þar sem lóð nr. 3 við Vatneyri er lögð undir hana.  Var jafnframt fyrirhugað að reisa á svæðinu byggingu fyrir bílaverkstæði og fleiri þjónustuþætti.  Var umsókn um leyfi til byggingar verkstæðishúss á lóðinni samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 5. júní 2007.  Sveitarstjórn Skagafjarðar samþykkti fundargerð nefndarinnar á fundi sínum 7. júní 2007. 

Hefur kærandi skotið ofangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.

Málsrök kæranda:  Kærandi, sem hefur skráð lögheimili við Aðalgötu 20 á Sauðárkróki,  bendir á að framkvæmdir við byggingu bílaverkstæðis séu hafnar og þær beri að stöðva þar sem ekki sé búið að staðfesta breytingu á deiliskipulagi svæðisins í B-deild Stjórnartíðinda.

Telji kærandi m.a. að með úthlutun lóðarinnar til reksturs bílaverkstæðis felist skipulagsslys sem eigi að afturkalla.  Með ólíkindum sé að sveitarstjórnarmenn sjái ekki þá meinbugi sem umrædd starfsemi muni hafi í för með sér á þessu svæði og bendi kærandi á að seint verði talið að þörf sé á hafnaraðstöðu í tengslum við rekstur bílaverkstæðis.

Málsrök sveitarfélagsins Skagafjarðar:  Sveitarfélagið tekur fram að markmið með breytingu á deiliskipulagi svæðisins hafi verið að fá fram lögformlegan grunn til að breyta mörkum lóðanna Hesteyrar 2 og Vatneyrar 3 svo að starfsemi á svæðinu geti þróast.  Framkvæmdir við byggingu húss á lóðinni hafi verið heimilaðar að fenginni brunatæknilegri hönnun byggingarinnar, skriflegri umsögn frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands vestra og á grundvelli svarbréfs Skipulagsstofnunar frá 29. júní 2007.  Þá sé því mótmælt að kærandi máls þessa geti talist aðili að málinu enda vandséð með hvaða hætti deiliskipulagsbreytingin geti skaðað hagsmuni hans eða haft áhrif á þá.

Niðurstaða:  Kærandi mun vera búsettur í Reykjavík en hefur skráð lögheimili að Aðalgötu 20 á Sauðárkróki.  Er sú fasteign í talsverðri fjarlægð frá lóðum þeim sem hin kærða ákvörðun tekur til.  Þegar litið er til þessarar fjarlægðar og innbyrðis afstöðu umræddra eigna verður hvorki séð að breyting sú á deiliskipulagi hafnarsvæðisins, sem samþykkt var á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 22. maí 2007, né framkvæmdir þær er heimilaðar voru á lóðinni með samþykkt skipulags- og byggingarfulltrúa hinn 5. júní 2007, raski til muna lögvörðum rétti kæranda.  Verður hann því ekki talinn eiga þá einstaklegu og lögvörðu hagsmuni í máli þessu sem eru skilyrði aðildar kærumáls fyrir úrskurðarnefndinni, sbr. 5. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, og verður máli þessu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

_____________________________              _________________________________
Ásgeir Magnússon                                              Þorsteinn Þorsteinsson