Mál nr. 9/2015, kæra á drátt á afgreiðslu máls hjá byggingarfulltrúanum í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði, Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. janúar 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundína Ragnarsdóttir hdl., f.h. S, Mosgerði 7, Reykjavík, drátt á afgreiðslu máls er varðar framkvæmdir á lóð nr. 7 við Mosgerði. Er þess krafist að byggingarfulltrúinn taki málið til efnislegrar meðferðar.
Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 3. febrúar 2015.
Málsatvik og rök: Haustið 2013 sendu kærendur kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði og á fjöleignarhúsi sem þar stendur. Í framkvæmdinni fólst að grafið var frá sökklum hússins og lagnir lagðar upp að húsinu auk þess sem steyptar tröppur á lóðinni voru brotnar niður og lóð lækkuð. Í kjölfar vettvangsskoðunar af hálfu embættis byggingarfulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 3. október 2013, þar sem byggingarleyfi lá ekki fyrir. Bárust mótbárur frá framkvæmdaraðila 7. nóvember s.á. þar sem því var lýst að um væri að ræða viðhald á fasteigninni en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Dróst afgreiðsla málsins og 11. september 2014 beindu kærendur þeirri kröfu til byggingarfulltrúans að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna. Var sú beiðni ítrekuð af hálfu kærenda allt fram til 30. janúar 2015 þegar dráttur á afgreiðslu málsins var kærður til úrskurðarnefndarinnar.
Hinn 4. febrúar 2015 tók byggingarfulltrúinn ákvörðun í málinu. Féllst hann á að um viðhald á fasteign væri að ræða og taldi málinu lokið af hálfu embættisins.
Kærendur skírskota til þess að málið hafi verið til meðferðar hjá embætti byggingarfulltrúans í Reykjavík í 15 mánuði. Séu málsatvik og rök aðila löngu orðin ljós og því sé ekkert því til fyrirstöðu að málið sé afgreitt efnislega. Starfsmenn embættisins hafi ekki gefið neinar skýringar á töfum málsins. Kærendur hafi lögvarða hagsmuni á því að málið sé tekið til efnislegrar afgreiðslu en einnig hafi kærendur brýna hagsmuni af því að málið hljóti hraða afgreiðslu hjá stjórnvöldum. Sé málsmeðferð ekki í samræmi við lög. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, beri stjórnvaldi skylda til að taka ákvarðanir í málum svo fljótt sem unnt sé og hafi afgreiðsla hins umdeilda máls dregist óhæfilega.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er skírskotað til þess að samkvæmt 1. mgr. og 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sbr. 59. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010, sæti stjórnvaldsákvörðun stjórnsýslu sveitafélaga kæru til úrskurðarnefndarinnar enda hafi hún bundið enda á meðferð máls, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í málinu sé ekki að finna slíka ákvörðun og beri því að vísa málinu frá nefndinni.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um drátt á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík á máli er varðar framkvæmdir á lóð og fjölbýlishúsi nr. 7 við Mosgerði.
Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er meginreglan sú að ákvörðun sem ekki bindur enda á mál verður ekki kærð fyrr en málið hefur verið til lykta leitt. Á því er þó að finna tilteknar undantekningar og er í 4. mgr. 9. gr. laganna að finna slíka undantekningu. Samkvæmt nefndri grein er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til æðra stjórnvalds og ber að beina henni til þess stjórnvalds sem stjórnvaldsákvörðun í málinu verður kærð til. Í 59. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er kveðið svo á um að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna sæti kæru til úrskurðar-nefndarinnar.
Fyrir liggur að byggingarfulltrúinn tók ákvörðun í greindu máli 4. febrúar 2015. Þar sem málinu er því lokið af hálfu embættisins er ekki lengur tilefni til að taka kæru um drátt á afgreiðslu þess til efnislegrar meðferðar. Af þeim sökum verður kröfu kærenda vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kröfu kærenda um að byggingarfulltrúinn í Reykjavík taki mál til efnislegrar meðferðar er vísað frá nefndinni.
Nanna Magnadóttir