Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

20/2015 Mosgerði

Árið 2015, fimmtudaginn 28. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 20/2015, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. mars 2015, sem barst nefndinni sama dag, kærir Guðmundína Ragnarsdóttir hdl., f.h. S, Mosgerði 7, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 4. febrúar 2015 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi en að auki er þess krafist að framkvæmdir verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.

Þykir málið nægilega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar. Er því ekki tilefni til að taka afstöðu til stöðvunarkröfu kærenda.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 20. apríl 2015.

Málavextir: Haustið 2013 sendu kærendur kvörtun til byggingarfulltrúans í Reykjavík vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði og fjöleignarhúsi sem þar stendur. Í framkvæmdinni fólst að grafið var frá sökklum hússins og lagnir lagðar upp að því, auk þess sem steyptar tröppur á lóðinni voru brotnar niður og lóð lækkuð. Í kjölfar vettvangsskoðunar af hálfu embættis byggingarfulltrúa voru framkvæmdirnar stöðvaðar 3. október 2013 þar sem byggingarleyfi lá ekki fyrir. Bárust athugasemdir frá framkvæmdaraðila 7. nóvember s.á. þar sem því var lýst að um væri að ræða viðhald á fasteigninni en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Dróst afgreiðsla málsins og 11. september 2014 beindu kærendur þeirri kröfu til byggingarfulltrúans að beita þvingunarúrræðum vegna framkvæmdanna. Var sú beiðni ítrekuð reglulega af hálfu kærenda allt fram til 30. janúar 2015 þegar dráttur á afgreiðslu málsins var kærður til úrskurðarnefndarinnar. Með úrskurði uppkveðnum í dag vísaði úrskurðarnefndin því máli frá.

Byggingarfulltrúi tilkynnti framkvæmdaraðila með bréfi, dags. 4. febrúar 2015, að fallist væri á sjónarmið hans um að um viðhald væri að ræða fremur en byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Væri málinu lokið af hálfu embættisins. Tilkynnti framkvæmdaraðili kærendum málalok á húsfundi 19. s.m. og barst þeim umrætt bréf með tölvupósti 25. s.m. Hafa kærendur kært þær lyktir mála til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur skírskota til þess að annmarkar séu á málsmeðferð og efni hinnar kærðu ákvörðunar. Málsmeðferðin hafi dregist verulega og hafi engar skýringar verið gefnar á ástæðum tafanna.

Byggingarfulltrúi hafi tekið ákvörðun í málinu án þess að rannsaka það nægilega og sé ákvörðunin ekki byggð á réttum upplýsingum um málsatvik. Byggingarfulltrúi hafi því ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ákvörðun byggingarfulltrúa um að fella málið niður sé einungis studd þeim rökum að í kjölfar skýringa leyfishafa hafi embættið tekið málið til ítarlegri skoðunar sem hafi leitt í ljós að hægt væri að fallast á að um viðhald á fasteign væri að ræða en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Hafi byggingarfulltrúa borið að koma á verkstað og ganga úr skugga um að skýringar leyfishafa væru marktækar. Mat byggingarfulltrúa hafi verið byggt á vettvangsskoðun eftirlitsfulltrúa sem hafi talið að um byggingarleyfisskyldar framkvæmdir væri að ræða. Þetta mat hafi leitt til þess að framkvæmdir hafi verið stöðvaðar. Enginn rökstuðningur hafi fylgt hinni kærðu ákvörðun sem skýri af hverju og með hvaða hætti byggingarfulltrúi hafi komist að annarri niðurstöðu 16 mánuðum eftir stöðvun framkvæmdanna.

Hinar umdeildu framkvæmdir séu byggingarleyfisskyldar og hafi ekki verið gert ráð fyrir þeim í upphafi eða á samþykktum teikningum. Hafi því þurft samþykki allra eigenda hússins, sbr. 1. mgr. 30. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994. Hafi aldrei verið fjallað um framkvæmdirnar á húsfundum.

Augljóst sé að málsmeðferðin hafi verið haldinn verulegum annmörkum og ekki verið í samræmi við lög. Sé hin ólögmæta ákvörðun byggingarfulltrúa til þess fallin að valda kærendum tjóni, sem m.a. birtist í því að eigandi kjallaraíbúðar hafi haldið áfram með framkvæmdir óáreittur og að kærendur hafi þurft að leita aðstoðar lögmanns í samskiptum við embættið.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er þess krafist að kærunni verði vísað frá úrskurðarnefndinni þar sem ekki sé um stjórnvaldsákvörðun að ræða en að öðrum kosti að kröfum kærenda verði hafnað.

Ekki hafi verið tekin nein stjórnvaldsákvörðun í málinu. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2015, hafi framkvæmdaraðila einungis verið kynnt niðurstaða í málinu vegna kvörtunar meðeigenda en ekki hafi verið tekin formleg stjórnvaldsákvörðun. Ljóst sé að ágreiningsefni málsins varði m.a. deilu um hvort hinar umdeildu framkvæmdir hafi flokkast undir viðhald á húseigninni eða ekki. Byggingarfulltrúi hafi farið í vettvangsskoðun og fengið skýringar hjá framkvæmdaraðila og komist að þeirri niðurstöðu að um viðhald væri að ræða en ekki framkvæmdir sem flokkist undir byggingarleyfisskyldar framkvæmdir, sbr. 9. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010.

Málsrök framkvæmdaraðila: Framkvæmdaraðili bendir á að málatilbúnaður kærenda sé á röngum forsendum reistur. Eigi ágreiningurinn hvorki undir úrskurðarnefndina né byggingarfulltrúa. Sé ætlan kærenda að reyna að koma í veg fyrir að hægt sé að sinna nauðsynlegu viðhaldi til að forða séreign framkvæmdaraðila, sem og sameign allra, frá tjóni. 

Allar framkvæmdir á lóðinni hafi verið miðaðar við að forða frekara tjóni. Engar breytingar hafi verið unnar á eigninni, útliti hennar, formi eða notkun. Þá sé lagnakerfi eignarinnar og burðarvirki hennar óbreytt. Fullyrðingum um annað sé mótmælt sem röngum og ósönnuðum. Framkvæmdir sem miði að því að stöðva tjón á eignum geti ekki talist til leyfisskyldra athafna.

Þurfi framkvæmdaraðili ekki að búa við að eign hans rýrni og skemmist vegna vanrækslu annarra eigenda. Ákvæði 38. gr. fjöleignarhúsalaga nr. 26/1994 áskilji eiganda rétt til að bregðast við og framkvæma nauðsynlegar viðgerðir á sameign á kostnað allra liggi sameignin eða séreignarhlutar undir skemmdum. Kærendur hafi ekki komið með aðrar tillögur um hvernig hægt sé að forða frekara eignartjóni. Hafi framkvæmdirnar verið nauðsynlegar og ekki verið hægt að ráðast í aðrar og umfangsminni framkvæmdir.

Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði. Frestur til að kæra ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hana nema á annan veg sé mælt í lögum, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Eins og nánar er lýst í málavöxtum fengu kærendur bréf byggingarfulltrúa, dags. 4. febrúar 2015, ekki í hendurnar fyrr en 25. s.m. og gátu því ekki kynnt sér efni þess fyrr en á þeim tímapunkti. Þá blasir við að með nefndu bréfi var tekin ákvörðun í málinu sem batt á það enda og varð þvingunarúrræðum ekki beitt að því óbreyttu. Er sú ákvörðun kæranleg til úrskurðarnefndarinnar skv. 59. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Verður kæran því tekin til efnislegrar meðferðar.

Kærendur gera þá kröfu að þvingunarúrræðum samkvæmt 56. gr. mannvirkjalaga og gr. 2.9.2. í byggingarreglugerð nr. 112/2012 verði beitt vegna þeirra framkvæmda sem hafa átt sér stað á lóðinni Mosgerði 7. Þá er þess krafist að framkvæmdaraðila verði gert að koma lóðinni í fyrra horf enda liggi ekki fyrir samþykki kærenda fyrir framkvæmdunum. Lóðin er í sameign kærenda og framkvæmdaraðila. Það er í höndum byggingarfulltrúa, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnunar, að meta hvort tilefni sé til beitingar þvingunarúrræða samkvæmt nefndum ákvæðum. Til að slíkt mat teljist málefnalegt verður það að byggja á almannahagsmunum þeim er búa að baki laga- og reglugerðarsetningu á þessu sviði, t.a.m. skipulags-, öryggis- og heilbrigðishagsmunum. Verður ekki talið að greindu ákvæði laganna sé ætlað að tryggja lögvarinn rétt einstaklings til að knýja byggingaryfirvöld til beitingar þvingunarúrræða enda eiga önnur réttarúrræði að tryggja slíka vernd á einstaklingsbundnum hagsmunum. Byggingarfulltrúinn í Reykjavík lauk málinu með rökstuðningi þess efnis að við ítarlegri skoðun hans á hinum umdeildu framkvæmdum hafi verið hægt að fallast á að um viðhald á fasteign væri að ræða en ekki byggingarleyfisskyldar framkvæmdir. Verður ekki annað séð en að sú ákvörðun, sem fól í sér að fallið var frá stöðvun framkvæmda á grundvelli 55. gr. mannvirkjalaga og að þvingunarúrræðum 56. gr. laganna yrði ekki beitt, hafi verið málefnaleg og studd nægilegum rökum. Þá verður ekki séð að rannsókn málsins hafi verið ábótavant, þrátt fyrir að vettvangsskoðun hafi áður leitt til stöðvunar framkvæmda, heldur verður að líta svo á að fyrir byggingarfulltrúa hafi legið gögn um þá vettvangsskoðun og aðrar þær upplýsingar sem máli skiptu við ákvörðunartökuna.

Með vísan til alls framangreinds verður kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að fella úr gildi þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda á lóð nr. 7 við Mosgerði.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson