Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

9/1999 Kirkjuteigur

Ár 1999, fimmtudaginn 27. maí kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík.  Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 9/1999; kæra Bewal ehf, Kirkjuteigi 13, Reykjavík á ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 28. janúar 1999 um að synja umsókn um leyfi til að hækka þak og setja kvisti á húsið nr. 13 við Kirkjuteig í Reykjavík.

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 25. febrúar 1999, sem barst nefndinni hinn 2. mars 1999, kærir S f.h. Bewal ehf., Kirkjuteigi 13, Reykjavík ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 28. janúar 1999 um að synja umsókn um leyfi til að reisa þak um 158 cm og setja kvisti á húsið nr. 13 við Kirkjuteig í Reykjavík.  Hin kærða ákvörðun var staðfest í borgarstjórn Reykjavíkur hinn 4. febrúar 1999.

Málavextir:  Með bréfi dags. 30. desember 1997 gerði umboðsmaður kæranda fyrirspurn til byggingarnefndar Reykjavíkur um það hvort leyft yrði að stækka íbúð efri hæðar hússins nr. 13 við Kirkjuteig með því að hækka valmaþak hússins og nýta þannig þakrými þess.  Fyrirspurn þessari var svarað neikvætt með bréfi byggingarfulltrúa hinn 9. janúar 1998.  Var í bréfinu vísað til bókunar byggingarnefndar þess efnis að ekki væri ástæða til þess að hrófla um of við götumynd neðri hluta Kirkjuteigs, sem enn væri að mestu óbreytt frá upphafi.  Hinn 25. mars 1998 ritaði umboðsmaður kæranda bréf til skipulags- og umferðarnefndar Reykjavíkur þar sem hann óskaði svara um það hvort húsið að Kirkjuteigi 13 væri friðað, hvort fyrir lægi deiliskipulag sem kæmi í veg fyrir fyrirhugaðar breytingar á húsinu og hvort það samræmdist lögum að einum borgara leyfðist það sem öðrum væri óheimilt.  Var vísað til þess í bréfinu að leyfi fyrir sambærilegum breytingum á nærliggjandi húsum hefði nýlega verið veitt.  Skipulags- og umferðarnefnd aflaði umsagnar Borgarskipulags um málið.  Kemur fram í umsögninni að húsið sé ekki friðað en að unnið sé að deiliskipulagi hverfisins.  Samhliða því sé unnið að húsakönnun og varðveislumati á vegum Árbæjarsafns, þar sem lagt sé til að vernda götumyndir og hús með umhverfislegt gildi.  Þar sé t.d. lagt til að vernda Kirkjuteig 7-15.  Marki húsaröðin á mjög áberandi hátt rými Laugarneskirkju.  Beri að vernda húsin sérstaklega vegna upprunaleika þeirra.  Þá er vísað til þess að byggingarnefnd hafi áður svarað fyrirspurn um hækkun á þaki hússins neitandi.  Þá er í umsögninni bent á nýlega synjun byggingarnefndar vegna beiðni eiganda Kirkjuteigs 9 um leyfi til hækkunar á þaki þess húss.  Hafi synjun byggingarnefndar í því máli verið kærð til umhverfisráðuneytisins sem hafi staðfest ákvörðun byggingarnefndar og ekki fallist á að jafnræðisregla stjórnsýslulaga hafi verið brotin með ákvörðun byggingarnefndar í málinu.  Var kæranda send umsögn Borgarskipulags, með bréfi dags. 6. maí 1998, ásamt útskrift úr gerðabók skipulags- og umferðarnefndar þar sem erindi kæranda um stækkun þakrýmis er hafnað.  Kærandi vísaði framangreindum ákvörðunum til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, með bréfi dags. 18. maí 1998, en dró þá kæru sína til baka, þar sem ekki lá fyrir formleg synjun byggingarnefndar á umsókn um byggingarleyfi og ályktun skipulags- og umferðarnefndar í málinu var ekki talin kæranleg ein og sér.  Kærandi ítrekaði eftir þetta fyrirspurn sína til byggingarnefndar og var síðari fyrirspurnin afgreidd neikvætt á fundi nefndarinnar hinn 30. júlí 1998 með vísun til bókunar með afgreiðslu nefndarinnar þann 8. janúar 1998.

Kærandi sótti hinn 20. janúar 1999 með formlegum hætti um byggingarleyfi fyrir svipuðum breytingum á þaki hússins og áður höfðu verið gerðar fyrirspurnir um og fjallað hafði verið um í skipulags- og umferðarnefnd Reykjavíkur.  Var umsókn hans synjað á fundi byggingarnefndar hinn 28. janúar 1999 með vísan til áðurgreindrar umsagnar Borgarskipulags og bókunar skipulags- og umferðarnefndar.  Var ákvörðun byggingarnefndar staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 4. febrúar 1999.  Skaut kærandi þessum ákvörðunum til úrskurðarnefndar með bréfi dags. 25. febrúar 1999, eins og að framan er rakið.

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er á því byggt að þar sem hliðstæðar framkvæmdir hafi nýlega verið leyfðar á umræddu svæði beri að fella hina kærðu ákvörðun byggingarnefndar úr gildi.  Kærandi hafi keypt eignina snemma á árinu 1997 og hafi hún verið seld með ,,byggingarrétti” en síðar á því ári hafi verið veitt leyfi til þess að byggja ofan á og setja kvisti á húsið nr. 14 við Kirkjuteig, beint á móti húsi kæranda.  Þá er það skoðun kæranda að rökstuðningur fyrir áliti Borgarskipulags og skipulags- og umferðarnefndar sé ófullnægjandi og byggist þar að auki á ómálefnalegum sjónarmiðum.  Engar upplýsingar eða tilkynningar hafi borist kæranda um varðveisluáhuga borgaryfirvalda fyrr en sótt hafi verið um leyfi til breytinga á þaki hússins.  Hafi kærandi orðið fyrir kostnaði og fyrirhöfn af þessum sökum og vilji hann fá úr því skorið hvort geðþóttaákvarðanir sem þessar geti talist eðlileg vinnubrögð í lýðræðisríki.  Kærandi telur málið ekki snúast um það hvort umrætt hús líti betur út með ofanábyggingu eða ekki, eða hvort það sé fremur við kirkjutorgið en húsið nr. 14, heldur snúist málið um það að skipulags- og byggingaryfirvöldum hefði borið að tilkynna eigendum þá ákvörðun sína að varðveita umrædd hús, en svo hafi ekki verið gert.  Því hafi húseigendum verið rétt að líta svo á að þeim væri heimilt að byggja ofan á hús sín til jafns við og á sama hátt og aðrir húseigendur hafi gert á sama tíma og við sömu götu.  Það að tveir fulltrúar í byggingarnefnd sátu hjá við afgreiðslu málsins telur kærandi benda til að málið sé engan veginn einhlítt.

Málsrök byggingarnefndar:  Leitað var afstöðu byggingarnefndar Reykjavíkur til kæruefnis málsins.  Í greinargerð byggingarnefndar, sem barst úrskurðarnefndinni með bréfi dags. 3. maí 1999, er rakinn aðdragandi hinnar kærðu ákvörðunar.  Vísað er til greinargerðar aðalskipulags Reykjavíkur 1996 – 2016, þar sem fram kemur að stefnt skuli að varðveislu staðbundinna og listrænna sérkenna í húsagerð og skipulagi, sem gefi Reykjavík sérstöðu meðal borga og séu á þann hátt mikilvægur hluti af ímynd hennar.  Þá segir í greinargerðinni að á Borgarskipulagi sé nú verið að vinna að deiliskipulagi fyrir Teigahverfi sunnan Sundlaugavegar, staðgreinireit 1.36, sem afmarkist af Kringlumýrarbraut, Sundlaugavegi, Reykjavegi og Sigtúni.  Í samræmi við þjóðminjalög hafi Borgarskipulag óskað eftir því við Árbæjarsafn að gerð yrði húsakönnun í Teigahverfi og mat á varðveislugildi byggðarinnar.  Þessi könnun hafi nú verið gerð (dags. 1998) og afhent Borgarskipulagi.  Í skýrslunni sé gerð grein fyrir niðurstöðum könnunarinnar, ásamt tillögu um verndun götumynda og einstakra húsa.  Þar sé m.a. lagt til að varðveita götumynd Kirkjuteigs 7-15 og eru tilfærð rök skýrsluhöfundar fyrir þeirri tillögu.

Við afgreiðslu erindis kæranda kveðst byggingarnefnd ennfremur hafa haft hliðsjón af úrskurði umhverfisráðuneytisins frá 19. mars 1998 í máli vegna kæru eiganda hússins nr. 9 við Kirkjuteig, en í því máli hafi ráðuneytið fallist á þau sjónarmið byggingarnefndar sem liggi til grundvallar hinni kærðu ákvörðun. Með þeim úrskurði ráðuneytisins sé því hafnað að jafnræðisregla hafi verið brotin, heldur beri að líta á hverja umsókn fyrir sig með tilliti til mismunandi og ólíkra þátta sem áhrif hafi á ákvarðanatökuna og sé ekki fallist á að breytingar einstakra húsa, þó leyfðar hafi verið, geti skapað fordæmi eða mótað reglu sem ekki verði breytt.  Engu breyti þótt kærandi hafi keypt eign sína með ,,byggingarrétti”, í því felist það eitt að honum sé heimilt að hagnýta sér leyfi til ofanábyggingar á húsið verði slíkt leyfi veitt.

Hvað varðar tilvísun kæranda til breytinga á húsinu nr. 14 við Kirkjuteig, sem samþykktar hafi verið á fundi nefndarinnar hinn 25. nóvember 1997, tekur byggingarnefnd fram, að samkvæmt upphaflegri teikningu þess húss frá árinu 1945 hafi áætluð mænishæð verið 3,2 metrar og hafi einungis verið samþykkt 30 cm. hækkun frá þeirri hæð, ásamt nýjum kvistum.  Eftir breytinguna hafi húsið sama útlit og næsta hús, sem sé á lóðinni nr. 1 við Silfurteig.  Fyrirhuguð breyting á Kirkjuteigi 13 hafi hins vegar verið áætluð 158 cm. hækkun og kvistir með ólíku formi.  Ef breytingin hefði verið leyfð, hefði húsið skorið sig verulega úr annars stílhreinu yfirbragði næstu húsa í sömu húsaröð, þ.e. nr. 7-15 við Kirkjuteig.

Vísað er til þess að sveitarstjórn sé heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi í allt að tvö ár, sbr. 6. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997, að fullnægðum tilgreindum skilyrðum.  Byggingarnefnd hafi hins vegar talið rétt að synja umsókn kæranda með vísun til fyrirhugaðrar verndunar götumyndar og áðurnefnds úrskurðar umhverfisráðuneytisins og firra kæranda með því óvissu um framhald málsins.

Umsögn Skipulagsstofnunar:  Úrskurðarnefndin leitaði álits Skipulagsstofnunar um kæruefni máls þessa.  Í umsögn stofnunarinnar, dags. 3. maí 1999, er gerð grein fyrir erindinu en síðan segir:  ,,Til stuðnings ákvörðunar sinnar vísar byggingarnefnd til umsagnar Borgarskipulags dags. 22. apríl 1998 og skipulags- og umferðarnefndar dags. 27. apríl 1998. Í umsögn Borgarskipulags kemur fram, að deiliskipulag hverfisins sé í vinnslu og samhliða því sé unnið að húsakönnun og varðveislumati á vegum Árbæjarsafns. Í því mati sé lagt til að vernda götumyndir og hús með umhverfislegt gildi. Þar sé m.a. lagt til að vernda Kirkjuteig 7-15 með þessum rökstuðningi:  ,,Húsaröðin markar á mjög áberandi hátt rými Laugarneskirkju. Þau ber að vernda sérstaklega vegna upprunaleika þeirra…” Þá vísar Borgarskipulag einnig til úrskurðar umhverfisráðuneytisins dags. 19. mars 1998, þar sem umsókn fasteignareiganda að Kirkjuteigi 9 um byggingarleyfi, vegna fyrirhugaðra breytinga á húsi sínu var hafnað. Í úrskurði ráðuneytisins segir að ,,…taka verði tillit til þess að götumynd neðri hluta Kirkjuteigs sé að mestu óbreytt frá upphafi…” auk þess sem litið er til þess að götumyndum nálægra gatna hafi verið raskað verulega með ofanábyggingum og breytingum á húsum. Með vísan til þessa staðfesti umhverfisráðuneytið niðurstöðu byggingarnefndar Reykjavíkur þess efnis að hafna umsókn eiganda Kirkjuteigar 9 um byggingarleyfi. Deiliskipulag er ekki til staðar í því hverfi Reykjavíkur þar sem hús það, sem mál þetta snýst um, er staðsett. Slíkt skipulag verður að telja skilyrði fyrir því, að byggingareiganda sé synjað um byggingarleyfi á grundvelli slíkra varðveislusjónarmiða, sem koma fram í fyrrnefndum úrskurði umhverfisráðuneytis og umsögn Borgarskipulags, en í 6. mgr. 9. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 segir:  ,,Ef innan skipulagssvæðis eru einstakar […] húsaþyrpingar […] sem æskilegt er talið að varðveita vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis, án þess að um lögformlega friðun sé að ræða, skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd.” Í 2. gr. sömu laga er hugtakið hverfisvernd skilgreint á eftirfarandi hátt: ,,Ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja.”  Ekki verður talið að kvaðir verði lagðar á eignir manna, án þess að lagaheimild þess efnis sé fyrir hendi, en heimild fyrir þeim kvöðum sem lagðar voru á eignarrétt kæranda í þessu máli, verður ekki talin fyrir hendi í þessu máli, þar sem deiliskipulag fyrir hverfið vantar. Hér verður þó að benda á, að skv. 6. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga er sveitarstjórn heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til breytinga á húsi, í allt að tvö ár frá því að umsókn berst. Slík frestun er m.a. heimil ef deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt eða ef setja á ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag. Því verður að líta svo á að skv. þessu hafi sveitarstjórn heimild til að leggja kvaðir á eignarréttindi fasteignareigenda innan viðkomandi sveitarfélags hagi hún málsmeðferð sinni í samræmi við gildandi lög. Í ljósi þessa er það álit Skipulagsstofnunar, að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarnefnd Reykjavíkur að taka málið upp að nýju.”

Niðurstaða:  Af hálfu kæranda er á því byggt í málinu að breytingar, sambærilegar þeim sem hann hugðist gera á þaki húss síns, hafi lengi verið leyfðar víða í Teigahverfi.  Meðal annars hafi nýlega verið leyft að gera slíkar breytingar á þaki hússins nr. 14 við Kirkjuteig, á móti húsi hans.  Feli synjun byggingarnefndar á umsókn hans því í sér mismunun, sem sé ólögmæt og feli í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga.

Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur hefur verið bent á að samkvæmt teikningu frá árinu 1945 hafi verið gert ráð fyrir hærra þaki á húsinu nr. 14 við Kirkjuteig en því sem byggt var og sé sú hækkun, sem leyfð var á þaki hússins hinn 25. nóvember 1997, aðeins 30 cm meiri en sú mænishæð, sem upphaflega hafi verið samþykkt. 

Úrskurðarnefndin telur að ekki verði litið til þess við úrlausn þessa máls að byggingarleyfi frá árinu 1945 hafi gert ráð fyrir hærra þaki á húsinu nr. 14 við Kirkjuteig en byggt var, enda er leyfi fyrir upphaflega áformaðri þakhæð þess húss löngu fallið úr gildi. Álítur úrskurðarnefndin að breyting sú sem leyfð var á þaki hússins í nóvember 1997 hafi verið umfangsmikil og sambærileg við þá breytingu, sem fólst í umsókn kæranda, sem synjað var. Að mati úrskurðarnefndarinnar fór synjun á umsókn kæranda því í bága við  jafnræðisreglu stjórnsýslulaga ef litið er til þeirra breytinga, sem leyfðar hafa verið á þökum húsa í næsta nágrenni og þá einkum hússins nr. 14.  Það er hins vegar sjálfstætt úrlausnarefni hvort fyrir hendi hafi verið sérstakar lögmætar ástæður þess að víkja jafnræðisreglunni til hliðar við afgreiðslu umsóknar kæranda.

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur var á því byggð að ástæða þætti til að vernda götumyndina við neðri hluta Kirkjuteigs, þ.e. húsin á lóðunum nr. 7-15. Heimilt er að ákveða friðun einstakra húsa með stoð í þjóðminjalögum, svo og verndun einstakra götumynda eða húsaraða með stoð í  6. mgr. 9. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 að fullnægðum lagaskilyrðum.  Ákvarðanir stjórnvalda um friðun eða verndun af þessum toga takmarka heimildir eigenda til ýmissa rástafana hinna friðuðu eða vernduðu eigna.  Leiðir m.a. af  þessum takmörkunum að lögmætt getur verið að neita eigendum verndaðra fasteigna um leyfi til breytinga á þeim án tillits til þess hvaða breytingar eigendum annarra fasteigna í nágrenninu kann að hafa verið leyft að gera á fasteignum sínum.  Geta sérstök verndarsjónarmið þannig leitt til þess að víkja megi almennum jafnræðissjónarmiðum til hliðar við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi.  Til þess að svo sé verður þó að vera fullnægt lagaskilyrðum fyrir slíkri ákvörðun.

Í frumvarpi til skipulags- og byggingarlaga, sem síðar varð að lögum nr. 73/1997, var lagt til að sett yrðu í lögin ákvæði um svonefnda hverfisvernd.  Var í frumvarpinu áformað að setja mætti í deiliskipulag sérstök ákvæði til að vernda sérkenni eldri byggðar og tryggja að breytingar og framkvæmdir féllu vel að þeirri byggð sem fyrir væri.  Var gert ráð fyrir því í frumvarpinu að deiliskipulag, sem hefði að geyma ákvæði um hverfisvernd, væri háð staðfestingu ráðherra.  Með nefndaráliti umhverfisnefndar Alþingis voru gerða fjölmargar breytingartillögur við lagafrumvarpið.  Var m.a. lagt til að kveða mætti á um hverfisvernd í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi og að ekki væri áskilið að deiliskipulag, sem hefði að geyma ákvæði um hverfisvernd, skyldi hljóta staðfestingu ráðherra svo sem ráðgert hafði verið í frumvarpi til laganna.  Eru ákvæði um hverfisvernd í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997 í samræmi við breytingartillögur umhverfisnefndar.  Umhverfisnefnd lagði ennfremur til að sett yrði í lögin ákvæði um að byggingarnefnd væri heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar um leyfi til niðurrifs eða breytinga á húsi í allt að tvö ár ef deiliskipulag væri ekki fyrir hendi, breytingar á því stæðu yfir eða ef setja ætti ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag.  Síðar kom fram breytingartillaga þess efnis að vald til þess að taka ákvörðun um slíka frestun yrði í höndum sveitarstjórnar en ekki byggingarnefndar.  Voru tillögur þessar teknar upp í lögin og er ákvæði um heimild sveitarstjórnar til þess að fresta afgreiðslu umsóknar við framangreindar kringumstæður í 6. mgr. 43. greinar skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.

Þau ákvæði sem lögfest voru um hverfisvernd með setningu skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 eru nýmæli í íslenskum lögum.  Er kveðið á um skilgreiningu hugtaksins í 2. grein laganna en í 6. mgr. 9. greinar er efnisregla um hverfisvernd. Segir í skilgreiningu  í 2. gr. laganna að hverfisvernd sé „ákvæði í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi um verndun sérkenna eldri byggðar eða annarra menningarsögulegra minja.”  Í  6. mgr. 9. gr. laganna segir hins vegar svo: „Ef innan marka skipulagssvæðis eru einstakar byggingar, mannvirki, húsaþyrpingar, náttúruminjar eða trjágróður, sem æskilegt er talið að varðveita vegna sögulegs, náttúrulegs eða menningarlegs gildis, án þess að um lögformlega friðun sé að ræða, skal setja í viðkomandi skipulagsáætlun ákvæði um hverfisvernd.”

Samkvæmt tilvitnuðum lagagreinum verða ákvæði um hverfisvernd að vera sett fram í svæðis-, aðal- eða deiliskipulagi.  Engin ákvæði hafa verið sett um hverfisvernd Teigahverfis í gildandi aðalskipulag Reykjavíkur og ekki er í gildi deiliskipulag fyrir hverfið.  Verður heldur ekki séð af málsgögnum að borgarstjórn hafi tekið um það formlega ákvörðun að gert verði þar deiliskipulag en það er í valdi sveitarstjórnar að taka slíka ákvörðun sbr. 1. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1997.  Hins vegar bera gögn málsins það með sér að skipulags- og umferðarnefnd og Borgarskipulag hafa hafist handa um undirbúning að gerð deiliskipulags fyrir hverfið og að Árbæjarsafn hefur að beiðni Borgarskipulags unnið húsakönnun og mat á varðveislugildi byggðarinnar í hverfinu.  Koma fram í skýrslu safnsins tillögur um verndun götumynda og húsaraða sem taldar eru hafa umhverfislegt gildi.  Er þar á meðal húsaröðin nr. 7-13 (eða 7-15) við Kirkjuteig.  Er augljóst að tillögur þessar voru ekki lögmætur grundvöllur synjunar byggingarnefndar Reykjavíkur á umsókn kæranda.

Með heimild í 6. mgr. 43. greinar laga nr. 73/1997 getur sveitarstjórn ákveðið að fresta umsókn um niðurrif eða breytingar á húsi þegar deiliskipulag hefur ekki verið samþykkt, breytingar á því standa yfir eða ef setja á ákvæði um hverfisvernd í deiliskipulag.  Skilja verður ákvæði þetta svo að byggingarnefnd sé, að öðrum skilyrðum uppfylltum, ekki heimilt að synja umsókn um niðurrif eða breytingar á húsi með vísun til áforma um skipulagsgerð eða hverfisvernd, heldur sé einungis heimilt að fresta afgreiðslu umsóknar, enda taki sveitarstjórn um það ákvörðun.  Bar byggingarnefnd því að vísa því til borgarstjórnar að taka ákvörðun um það hvort fresta bæri afgreiðslu umsóknar kæranda eða að öðrum kosti að afgreiða hana án þess að tillit væri tekið til áforma um deiliskipulag og hverfisvernd.  Bar í því tilviki að vísa erindi kæranda til skipulags- og umferðarnefndar til grenndarkynningar  skv. 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997.

Af hálfu byggingarnefndar Reykjavíkur hefur verið vísað til úrskurðar umhverfisráðherra frá 19. mars 1999 í kærumáli um synjun á umsókn um leyfi til þess að reisa þak hússins nr. 9 við Kirkjuteig.  Úrskurðarnefndin hafnar því að litið verið til þess úrskurðar í máli því sem hér er til úrlausnar.  Telur nefndin tilvikin efnislega ekki sambærileg þar sem afstaða Kirkjuteigs nr. 13 til Laugarneskirkju og aðliggjandi torgs er gerólík afstöðu hússins nr. 9, en það hús stendur fyrir kirkjutorginu miðju að norðanverðu. Meiru varðar þó að við úrlausn kærumálsins um Kirkjuteig 9 áttu við eldri skipulagslög nr. 19/1964 með síðari breytingum og byggingarlög nr. 54/1978 með síðari breytingum.  Voru engin ákvæði um hverfisvernd í nefndum lögum né um réttarúrræði sem sveitarstjórn gæti gripið til ef tryggja ætti að ráðrúm gæfist til þess að ljúka gerð deiliskipulags eða til þess að setja ákvæði um hverfisvernd í skipulag á tilteknu svæði.

Samkvæmt framansögðu er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur hafi ekki verið reist á viðhlítandi lagagrundvelli og því verið ólögmæt. Verður hin kærða ákvörðun því felld úr gildi og er lagt fyrir byggingarnefnd að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og ljúka afgreiðslu málsins með tilliti til þeirra sjónarmiða sem að framan eru rakin.

Við úrlausn máls þessa kynnti úrskurðarnefndin sér aðstæður á umræddu svæði, án þess að um formlega vettvangsgöngu væri að ræða.  Jafnframt lágu fyrir nefndinni ljósmyndir og uppdrættir af þeim húsaröðum sem um er fjallað í málinu.

Nokkur dráttur hefur orðið á uppsögu úrskurðar í máli þessu, bæði vegna sérstöðu málsins og mikilla anna nefndarmanna.  Var umboðmanni kæranda gerð grein fyrir því að uppsaga úrskurðar myndi dragast og jafnframt hvenær úrskurðar væri að vænta í málinu.

Úrskurðarorð:

Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Reykjavíkur frá 28. janúar 1999, um að synja umsókn kæranda um leyfi til breytinga á þaki hússins nr. 13 við Kirkjuteig, er felld úr gildi.  Lagt er fyrir bygginarnefnd Reykjavíkur að taka umsókn kæranda til meðferðar að nýju og gæta við afgreiðslu umsóknarinnar þeirra sjónarmiða, sem rakin eru í forsendum úrskurðar þessa.