Ár 1998, miðvikudaginn 22. apríl kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Laugavegi 59 í Reykjavík. Mættir voru allir aðalmenn; Ingimundur Einarsson, hæstaréttarlögmaður, Þorsteinn Þorsteinsson, byggingarverkfræðingur og Hólmfríður Snæbjörnsdóttir, lögfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 09/1998/ 98040001
Ágreiningur milli húseigenda að Háeyrarvöllum 2, Eyrarbakka, og byggingaryfirvalda um breytingu á þaki spennistöðvar.
Á málið er nú lagður svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 31. mars 1998, kærir Sigurður Jónsson hrl., f. h. MÞ og MÖ, húseigenda að Háeyrarvöllum 2 , Eyrarbakka, ákvörðun Eyrarbakkahrepps um að heimila breytingu á þaki spennistöðvar vestan við hús þeirra.
Þess er krafist að heimild byggingaryfirvalda til breytinga á þaki hússins verði felld úr gildi og lagt verði fyrir eiganda að færa það í upprunalegt horf.
Um kæruheimild er vísað til 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Málsatvik: Samkvæmt gögnum málsins eru helstu atvik þess þau að í nóvember sl. urðu kærendur þess varir að framkvæmdir voru hafnar við að breyta þakinu á spennistöðinni, sem er í 13 metra fjarlægð frá húsi þeirra. Hið nýja þak er allt annarar gerðar en hið fyrra, skyggir á útsýni frá kærendum og lokar fyrir útsýni út á götuna. Þeir kvörtuðu þá þegar munnlega til hreppsnefndar en kvörtunum þeirra og kröfum um stöðvun framkvæmda var ekki sinnt. Þeir fengu engin gögn í hendur fyrr en erindi þeirra var synjað með bréfi oddvita, dags. 23. febrúar 1998.
Niðurstaða: Kærufrestur er einn mánuður frá því að kærendum varð kunnugt um þá samþykkt sem hann kærir, sbr. 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 621/1997. Bréf kærenda til nefndarinnar er dags. 31. mars sl. og verður því að telja að kærufrestur hafi verið liðinn þegar nefndinni barst erindi kærenda. Þegar af þeirri ástæðu, svo og með vísan til 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, brestur úrskurðarnefnd lagaheimild til að taka mál kærenda til efnislegrar meðferðar. Verður því að vísa máli þeirra frá úrskurðarnefnd.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefnd.