Ár 2008, þriðjudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 88/2006, kæra á samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 um að synja um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 3. nóvember 2006, er barst nefndinni samdægurs, kærir Þorsteinn Einarsson hrl., f.h. L ehf., Holtsgötu 7b, Reykjavík, þá samþykkt skipulagsráðs Reykjavíkurborgar frá 4. október 2006 að synja um breytingu á deiliskipulagi svokallaðs Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b.
Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá er þess krafist að ákvörðun skipulagsráðs verði breytt á þá leið að umsókn kæranda verið tekin til greina og til vara að skipulagsráði verði gert að taka umsóknina til lögmætrar afgreiðslu að nýju.
Málavextir: Á embættisafgreiðslufundum skipulagsstjóra 19. maí 2006 og 1. september sama ár var lögð fram, af hálfu lóðarhafa, tillaga að breyttu deiliskipulagi Holtsgötureits, frá árinu 2005. Var fært til bókar að kynna ætti formanni skipulagsráðs tillöguna. Fól hún í sér að byggt yrði við núverandi hús á lóðinni, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir. Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm. Skipulagsráð tók tillöguna fyrir á fundi sínum 6. september 2006 þar sem samþykkt var að kynna hana fyrir hagsmunaaðilum á reitnum og í næsta nágrenni hans.
Að lokinni kynningu, er stóð yfir frá 14. til 28. september 2006, var tillagan tekin fyrir á embættisafgreiðslufundi skipulagsstjóra 29. september 2006. Var þar fjallað um athugasemdir er borist höfðu vegna kynningarinnar þar sem m.a. var lýst andstöðu við frekari þéttingu byggðar á svæðinu og athugasemdir gerðar við það að til stæði að breyta nýlega samþykktu deiliskipulagi. Var bókað á fundinum að kynna ætti málið formanni skipulagsráðs. Á fundi skipulagsráðs 4. október 2006 var tillögunni synjaði með vísan til þeirra athugasemda sem borist hefðu.
Hefur kærandi kært þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar svo sem að framan greinir.
Málsrök kæranda: Af hálfu kæranda er vísað til þess að synjun skipulagsráðs á tillögu um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötureits vegna lóðarinnar nr. 7b við Holtsgötu hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og reglugerða samkvæmt þeim lögum. Málefnaleg rök styðji ekki hina kærðu ákvörðun. Ekki verði séð að skipulagsráð hafi tekið efnislega afstöðu til athugasemda sem fram hafi komið í kjölfar kynningar. Kærandi telji m.a. framkomnar athugasemdirnar þess eðlis að ekki hafi borið að taka tillit til þeirra við afgreiðslu málsins. Málefnaleg rök standi ekki til synjunar á umsókn kæranda sem sé í samræmi við skipulagsskilmála og yfirlýsta stefnu borgaryfirvalda um þéttingu byggðar.
Hafa beri í huga meginreglu eignarréttarins sem byggi m.a. á 72. gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni hafi menn ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum. Takmörkun á þeim rétti beri að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem takmarkanirnar beri að skýra þröngt.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Reykjavíkurborgar er því mótmælt að synjun skipulagsráðs hafi verið í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga, skipulags- og byggingarlaga og reglugerða samkvæmt þeim lögum. Sé sú fullyrðing með öllu órökstudd. Ljóst sé að meðferð breytingartillögunnar hafi verið að öllu leyti í samræmi við skipulags- og byggingarlög. Bent sé á að skipulagsráð hafi samþykkt að kynna hagsmunaaðilum tillöguna en ekki hafi verið um lögformlega grenndarkynningu að ræða. Þær athugasemdir sem fram hafi komið hafi verið kynntar skipulagsráði er tekið hafi afstöðu til þeirra og synjað tillögunni með vísan til þeirra. Sú fullyrðing að skipulagsráð hafi ekki tekið efnislega afstöðu til tillögu kæranda sé með öllu röng. Skipulagsráð hafi þekkt vel til Holtsgötureits vegna umtalsverðrar vinnu og mikilla samskipta við íbúa við gerð deiliskipulags svæðisins nokkru áður. Í ljósi þeirrar vinnu og athugasemda nágranna í kjölfar kynningar meðal hagsmunaaðila hafi erindi kæranda verið synjað. Samkvæmt gildandi deiliskipulagsskilmálum fyrir Holtsgötu 7b sé lóðin fullbyggð. Tilvísun kæranda til þess að umsóknin sé í samræmi við skipulagsskilmála fái því ekki staðist. Vissulega sé það yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að þétta byggð og telji borgin umrætt deiliskipulag í samræmi við þá stefnu þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir auknu byggingarmagni á lóð kæranda.
Sú málsástæða að hin kærða synjun brjóti í bága við stjórnarskrá, og þá einkum 72. gr. hennar, sé háð þeim annmörkum að vera bæði óljós og órökstudd og því sé vísað á bug að umrædd synjun hafi falið í sér takmörkun á eignarrétti lóðarhafa. Deiliskipulag Holtsgötureits hafi verið samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005. Samþykkt þess hafi kærandi kært til úrskurðarnefndarinnar, sbr. úrskurð nefndarinnar í máli nr. 22/2005, frá 28. september 2006. Hafi kærandi talið nýtingarhlutfall lóðar sinnar of lágt miðað við nærliggjandi lóðir og að jafnræðis hafi ekki verið gætt við setningu skipulagsins hvað nýtingarhlutfall lóðarinnar varði. Fram hafi komið í niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar að uppbygging svæðisins sé svokölluð randbyggð og að lóðin við Holtsgötu 7b sé mjög stór baklóð sem ekki falli að randbyggð. Leiði það til þess að nýtingarhlutfall lóðarinnar sé lægra en t.d. lóðanna nr. 1 og 3 við Holtsgötu og skýrist það af fyrrgreindum ástæðum. Einnig segi í úrskurðinum að þegar hafðar séu í huga þær aðstæður á skipulagssvæðinu sem framar greini í úrskurðinum sé ekki hægt að fallast á að lóðarhöfum hafi verið mismunað við ákvörðun um byggingarrétt á einstökum lóðum. Það sé ljóst, sbr. nefndan úrskurð, að hin kærða synjun feli ekki í sér skerðingu eignarréttar eins og hann sé verndaður af stjórnarskrá nr. 33/1944.
Auk þess sé vakin athygli á því að síðari liðir kæru eigi ekki undir úrskurðarnefndina en nefndin geti einungis fellt ákvarðanir skipulagsráðs úr gildi eða staðfest þær og eigi því krafan ekki undir nefndina, sbr. almennar reglur íslensks stjórnsýsluréttar.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulagsráðs að synja beiðni um breytt deiliskipulag Holtsgötureits. Fól beiðnin í sér að deiliskipulagi svæðisins yrði breytt þannig að heimilað yrði að byggja við núverandi hús á lóðinni nr. 7b við Holtsgötu, þar sem rekinn hefur verið leikskóli, og því breytt í íbúðir. Með stækkuninni yrðu íbúðir á lóðinni samtals fimm. Skipulagsráð ákvað að kynna beiðnina þeim er hagsmuna áttu að gæta á svæðinu en synjaði henni síðar með vísan til athugasemda er bárust.
Á umræddu svæði er í gildi deiliskipulag fyrir Holtsgötureit, samþykkt í borgarráði hinn 17. febrúar 2005. Samkvæmt því er lóðin að Holtsgötu 7b 1.107 fermetrar að stærð, húsið á lóðinni 420,7 fermetrar og nýtingarhlutfall 0,38. Er sérstaklega tekið fram að lóðin sé fullbyggð.
Á svæðinu er svokölluð randbyggð, en lóðin að Holtsgötu 7b er stór baklóð og falla mannvirki á henni ekki að randbyggðinni. Leiðir þetta til þess að nýtingarhlutfall hennar er lægra en annarra lóða á reitnum.
Almennt geta einstakir lóðarhafar ekki vænst þess að skipulagi verði breytt varðandi nýtingu og fyrirkomulag bygginga á svæði sem nýlega hefur verið deiliskipulagt. Verða borgarar að geta treyst því að ekki sé ráðist í breytingar á skipulagi nema veigamiklar ástæður eða skipulagsrök mæli með því. Verður því að gjalda varhug við því, m.a. með tilliti til fordæmis, að ráðist sé í breytingar á nýlegu deiliskipulagi eftir óskum einstakra lóðarhafa og var skipulagsráði því rétt að hafna erindi kæranda.
Með vísan til framangreindra sjónarmiða verður ekki fallist á kröfur kæranda í máli þessu.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 4. október 2006 um breytingu á deiliskipulagi Holtsgötusreits vegna lóðarinnar að Holtsgötu 7b.
___________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ ______________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson