Ár 2007, mánudaginn 25. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson, forstöðumaður, Ásgeir Magnússon, héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 88/2005, kæra eiganda húss að Hraukbæ, Hörgárbyggð á ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 4. október 2005 um að synja um endurskoðun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við umrætt hús kæranda.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 14. sama mánaðar, kærir A, f.h. föður síns K, eiganda hússins að Hraukbæ, Hörgárbyggð, þá ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðar frá 4. október 2005 að synja um endurskoðun á afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi fyrir viðbyggingu við umrætt hús kæranda. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Málavextir: Á fundi byggingarnefndar Eyjafjarðar hinn 5. júlí 2005 var tekin fyrir umsókn kæranda um leyfi til að byggja við og endurinnrétta gamalt íbúðarhús úr steinsteypu á lögbýlinu Hraukbæ í Hörgárbyggð. Var afgreiðslu málsins frestað en bent á að gæta þyrfti vel að útliti þegar byggt væri við gömul hús. Taldi nefndin ekki við hæfi að byggja við núverandi hús eftir framlögðum teikningum og var byggingarfulltrúa falið að koma ábendingum um breytingar og lagfæringar á framfæri við umsækjanda. Hinn 17. ágúst 2005 var umsóknin tekin fyrir hjá sveitastjórn Hörgárbyggðar og hún samþykkt með fyrirvara um samþykki byggingarnefndar. Á fundi byggingarnefndar næsta dag vísaði nefndin til fyrri afstöðu nefndarinnar til málsins og þess að ekki hafi af hálfu kæranda verið tekið tillit til ábendinga nefndarinnar um breytingar og lagfæringar á teikningum. Byggingarnefnd vísaði til gr. 8.2 í byggingarreglugerð þar sem segði að byggingarnefnd skyldi m.a. meta útlitshönnun bygginga hvað varðaði form, hlutföll, efni og næsta umhverfi. Áréttaði byggingarnefndin að þau áform sem sýnd væru á teikningum teldust ekki ásættanleg og benti m.a. á að bygging vestan við núverandi hús með tengibyggingu á milli væri betri kostur en framlagðar teikningar gerðu ráð fyrir.
Hinn 31. ágúst 2005 var tekin fyrir í sveitastjórn Hörgárbyggðar ofangreind afgreiðsla byggingarnefndar. Féllst sveitastjórn ekki á höfnun nefndarinnar og samþykkti fyrir sitt leyti framlagðar teikningar vegna byggingarframkvæmda við gamla húsið í Hraukbæ. Í fundargerð kemur fram að skipulagsnefnd hafi jafnframt lagt til að umsókn kæranda yrði samþykkt.
Í kjölfar þessa sendi sveitastjórn byggingarnefnd bréf, dags. 23. september 2005, þar sem þess var farið á leit að afstaða nefndarinnar vegna erindis kæranda yrði endurskoðuð. Byggingarnefnd tók tilmælin fyrir á fundi hinn 4. október 2005 þar sem bókað var að ekki hafi komið fram nein ný efnisatriði í málinu og þar af leiðandi engin rök fyrir breyttri afgreiðslu. Það væri skylda byggingarnefndar að meta tiltekin atriði og það hafi hún gert ásamt því að benda á hugsanlega leið til úrlausnar í málinu. Afstaða nefndarinnar byggðist á því að framlagðar tillögur væru ekki ásættanlegar.
Á fundi sveitastjórnar hinn 6. október 2005 var nefnd afgreiðsla byggingarnefndar frá 4. október tekin fyrir og eftirfarandi m.a. bókað: „Sveitarstjórn harmar að byggingarnefnd hafi ekki farið að vilja sveitarstjórnar Hörgárbyggðar og bendir Kristni Björnssyni því á að leita réttar síns hjá úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála.“
Málsrök kæranda: Í kæru kemur fram að gamla húsið í Hraukbæ hafi verið notað sem geymsla síðustu 25 ár. Ástand hússins sé nokkuð gott og búið sé að skipta um þak og glugga á húsinu. Tilgangur kæranda með viðbyggingu við húsið sé að auka rými og gera húsið íbúðarhæft. Bent sé á að synjun á umsókn kæranda sé byggð á huglægu mati en hafa beri í huga að áður hafi staðið og standi enn viðbyggingar við norður og vesturhlið gamla hússins. Tillögur byggingarnefndar um breytingar séu afar ólíkar hugmyndum kæranda og óframkvæmanlegar þar sem gamla húsið standi á gilbarmi. Ekki sé á verksviði nefndarinnar að hanna hús og tekið sé fram að enginn úr byggingarnefnd hafi kynnt sér aðstæður á staðnum. Að lokum sé bent á að synjun á viðbyggingu geti leitt til þess að nauðsynlegt verði að rífa gamla húsið sem búið sé að vera í eigu ættarinnar allt frá 1957.
Málsrök byggingarnefndar: Af hálfu byggingarnefndar er vísað til fyrri afgreiðslu nefndarinnar um umsókn kæranda. Því sé mótmælt að nefndarmenn hafi ekki kynnt sér aðstæður og á það bent að þeir þekki til staðhátta. Kæranda hafi verið bent á leiðir til úrlausnar og þannig hafi verið leitast við að leiða málið til farsælla lykta á grundvelli þeirrar reynslu og þekkingar sem byggingarnefndarmenn búi yfir. Skírskotað sé til framlagðrar umsagnar Árna Ólafssonar, arkitekts, dags. 6. febrúar 2006, en þar komi fram faglegt álit sem nýta megi sem gagnlegar upplýsingar við úrlausn málsins.
Niðurstaða: Samkvæmt ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal sveitarstjórn afgreiða byggingarleyfisumsóknir, sbr. t.d. 2. mgr. 38. gr., 2. mgr. 39. gr. og 1. mgr. 43. gr. laganna, og fer byggingarnefnd með byggingarmál undir yfirstjórn sveitarstjórnar samkvæmt 2. mgr. 6. gr. greindra laga. Af ákvæðum þessum leiðir að sveitarstjórn tekur lokaákvörðun um það hvort byggingarleyfi verði veitt eður ei.
Fyrir liggur í málinu að byggingarnefnd hefur ítrekað lýst andstöðu sinni við að samþykkja umsókn kæranda um umrædda viðbyggingu við hús hans í Hraukbæ óbreytta og verður að líta svo á að með því hafi nefndin synjað umsókn kæranda. Hinn 31. ágúst 2005 hnekkti sveitarstjórn Hörgárbyggðar hins vegar synjun byggingarnefndar frá 18. ágúst sama ár á umræddri umsókn og samþykkti umbeðnar framkvæmdir. Lá þá fyrir endanleg stjórnvaldsákvörðun um afgreiðslu umsóknar kæranda um nefnda viðbyggingu samkvæmt fyrrgreindum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga og ekki er kunnugt um að sú ákvörðun sveitarstjórnar hafi verið endurupptekin eða afturkölluð.
Kærumál þetta lýtur að ákvörðun byggingarnefndar frá 4. október 2005 um að verða ekki við tilmælum sveitarstjórnar um endurskoðun á afstöðu nefndarinnar til umsóknar kæranda eftir að sveitarstjórn hafði afgreitt þá umsókn eins og fyrr greinir. Sveitarstjórn hefur ekki tekið afstöðu til þeirrar afgreiðslu byggingarnefndar með öðrum hætti en þeim að harma afstöðu byggingarnefndar og benda kæranda á að leita réttar síns hjá úrskurðarnefndinni.
Hin kærða ákvörðun byggingarnefndar Eyjafjarðarsveitar verður ekki talin fela í sér nýja lokaákvörðun um byggingarleyfisumsókn kæranda, enda hefur hún ekki hlotið staðfestingu sveitarstjórnar í samræmi við fyrrnefnda 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga. Verður ákvörðunin því ekki borin undir úrskurðarnefndina, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Með vísan til þess er að ofan greinir er hinni kærðu ákvörðun byggingarnefndar því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson