Ár 2007, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 86/2005, kæra á frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi eigenda fasteignar í landi Birnustaða í Súðavíkurhreppi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 9. nóvember 2005, er barst nefndinni hinn 10. sama mánaðar, kæra M og Þ fyrir sína hönd og G og Á, eigenda fasteignar í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé ógildingar á hinni kærðu afgreiðslu byggingarnefndar Súðavíkurhrepps.
Málsatvik og rök: Kærendur máls þessa munu hafa sent erindi til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps á vordögum 2005 í tilefni af girðingarframkvæmdum og gerð hliðs af hálfu eigenda Birnustaða í grennd við fasteign kærenda. Á fundi sínum hinn 20. maí 2005 afgreiddi nefndin erindið með svofelldri bókun: „Rætt um bréf og myndir Margrétar og Þóru Karlsdætra vegna lóðamála og ýmissa annarra mála sumarhúss hennar í landi Birnustaða. Byggingarnefnd er sammála um að þessi málefni heyri ekki undir byggingarnefnd og landeigendur verði að leysa sín á milli.“ Virðist kærendum ekki hafa verið gert kunnugt um þessa afgreiðslu. Var erindi kærenda tekið fyrir að nýju á fundi byggingarnefndar hinn 6. október 2005 þar sem fyrri afstaða var ítrekuð og byggingarfulltrúa falið að kynna aðilum þá niðurstöðu og skutu kærendur þessari afgreiðslu byggingarnefndar til úrskurðarnefndarinnar.
Byggja kærendur á því að með umdeildum framkvæmdum sé gengið á þinglýstan umferðarrétt þeirra að umræddri fasteign í landi Birnustaða og umsaminn rétt til bílastæða og rýmis til að snúa við bílum. Núverandi eigendur Birnustaða hafi ráðist í nefndar framkvæmdir án samráðs við kærendur og engin grenndarkynning hafi farið fram af hálfu opinberra aðila vegna þeirra.
Ekki hafa borist gögn frá Súðavíkurhreppi og hefur sveitarfélagið ekki tjáð sig um kæruefnið.
Niðurstaða: Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að kærendur hafi leitað til byggingarnefndar Súðavíkurhrepps vegna uppsetningar girðingar og hliðs í landi Birnustaða. Ekki liggur fyrir í málinu hve há umdeild girðing er og hvort hún sé á mörkum lóðar kærenda og Birnustaðalands.
Ekki hafa verið færð fram rök fyrir hinni kærðu afstöðu byggingaryfirvalda Súðavíkurhrepps þess efnis að umdeildar framkvæmdir heyri ekki undir nefndina eða sú afstaða með öðrum hætti skýrð svo sem skylt er samkvæmt 2. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997. Þykir þessi annmarki á afgreiðslu erindis kærenda þess eðlis að leiða eigi til ógildingar á frávísun málsins frá byggingarnefnd hreppsins.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Frávísun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 6. október 2005 á erindi varðandi girðingarframkvæmdir og gerð hliðs í grennd við nefnda fasteign er felld úr gildi.
__________________________
Hjalti Steinþórsson
__________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson