Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2006 Lokastígur

Ár 2007, fimmtudaginn 25. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2006, kæra eiganda fasteignarinnar að Lokastíg 28, Reykjavík á synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á umsókn um leyfi til að innrétta kaffihús á annarri hæð hússins að Lokastíg 28, Reykjavík. 

Í málinu er kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 26. október 2006, er barst nefndinni hinn 27. sama mánaðar, kærir Ólafur Örn Svansson hdl., f.h. Loka ehf., eiganda fasteignarinnar að Lokastíg 28, Reykjavík synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á umsókn um að innrétta kaffihús á annarri hæð hússins að Lokastíg 28.  Framangreind ákvörðun var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 3. október 2006. 

Er þess krafist að framangreind synjun verði felld úr gildi.  Þá gerir og kærandi þá kröfu að úrskurðarnefndin úrskurði um heimild til breytinga á nýtingu fasteignarinnar að Lokastíg 28 í samræmi við umsókn þar að lútandi en ella að skipulagsráði verði gert að taka málið að nýju til lögmætrar afgreiðslu. 

Málavextir:  Mál þetta á sér nokkra forsögu en í febrúar árið 2006 sótti kærandi máls þessa um leyfi til að innrétta verslun á fyrstu hæð hússins að Lokastíg 28 ásamt því að koma fyrir kaffihúsi á fyrstu til þriðju hæð þess.  Var umsóknin grenndarkynnt hagsmunaaðilum.  Á fundi skipulagsráðs hinn 28. júní 2006 var erindið tekið fyrir og því synjað. 

Í ágúst 2006 lagði kærandi inn nýja byggingarleyfisumsókn þar sem sótt var um leyfi til að innrétta kaffihús á annarri hæð hússins en þriðja hæð þess yrði áfram nýtt til íbúðar.  Var umsóknin tekin fyrir á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. ágúst 2006.  Henni fylgdu undirskriftir 34 nágranna þar sem þeir gáfu yfirlýsingu um að þeir væru því ekki mótfallnir að kaffihúsi yrði komið fyrir á miðhæð hússins að Lokastíg 28.  Var afgreiðslu erindisins frestað og því vísað til skipulagsfulltrúa til ákvörðunar um grenndarkynningu.  Á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa hinn 18. sama mánaðar var samþykkt að grenndarkynna erindið hagsmunaaðilum að Lokastíg 25, 26, 28a, Þórsgötu 27 og 29 ásamt Njarðargötu 61.  Að lokinni grenndarkynningu var erindið tekið fyrir á fundi skipulagsráðs hinn 27. september 2006 og því synjað með eftirfarandi bókun: „Synjað með fjórum atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, með vísan til fyrri málsmeðferðar, framkominna athugasemda og meginatriða fyrri bókunar frá 28. júní 2006. Endurskoðuð bókun er eftirfarandi: „Ráðið gerir ekki athugasemd við að verslun verði áfram starfrækt á 1. hæð hússins en umsókn um breytta notkun úr íbúðarhúsnæði í kaffihús á 2. hæð er synjað. Lokastígur er á íbúðarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur og því aðeins er unnt að veita leyfi til reksturs veitingahúsa á slíkum svæðum að starfsemin valdi ekki óþægindum fyrir nágranna. Með vísan til þess og þeirra fjölmörgu athugasemda sem frá íbúum hafa borist, telur ráðið að þeim skilyrðum verði ekki fullnægt svo unnt sé að una við.“  Fundargerð skipulagsráðs var staðfest á fundi borgarstjórnar hinn 3. október 2006. 

Framangreindri ákvörðun skipulagsráðs hefur kærandi skotið til úrskurðarnefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Málsrök kæranda:  Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi í nóvember 2005 keypt fasteignina að Lokastíg 28.  Í kjölfarið hafi verið lögð fram fyrirspurn til borgaryfirvalda um breytt not fasteignarinnar, nánar tiltekið að á fyrstu hæð hússins yrði verslun líkt og verið hefði en á annarri og þriðju hæð þess yrði kaffihús með útsýni yfir torgið.  Skólavörðuholtið væri vinsæll áningarstaður ferðamanna og hafi hugmyndin verið sú að auka þjónustu við torgið.  Fyrirspurn kæranda hafi verið svarað á þá leið að ekki væri gerð athugasemd við erindið og að byggingarleyfisumsókn yrði grenndarkynnt er hún bærist.  Í janúar 2006 hafi byggingarleyfisumsókn verið lögð fram og hún grenndarkynnt.  Sextán aðilar hafi fengið málið til kynningar og hafi nokkrar athugasemdir borist en mesta athygli hafi vakið undirskriftalisti með 32 nöfnum, sem safnað hafi verið bæði utan og innan grenndarkynningarsvæðisins.  Hafi byggingarleyfisumsókn kæranda verið hafnað á fundi skipulagsráðs hinn 28. júní 2006.  

Hinn 3. júlí 2006 hafi kærandi sent formanni skipulagsráðs bréf varðandi nýja hugmynd um nýtingu fasteignarinnar þannig að starfsemin á fyrstu hæð yrði óbreytt, kaffihús yrði eingöngu á annarri hæð og opnunartími til kl. 22:00 á kvöldin og að íbúð yrði áfram á þriðju hæðinni.  Hafi kærandi talið að með framangreindu væri verulega komið til móts við athugasemdir þær er borist hefðu á fyrri stigum málsins.  Hafi kærandi safnað undirskriftum 34 einstaklinga búsettra í næsta nágrenni.  Margir þeirra er áður hefðu verið andsnúnir áformum kæranda hafi nú lýst sig samþykka hinni nýju hugmynd um not fasteignarinnar.  Hafi hin nýja umsókn verið grenndarkynnt og af því tilefni hafi kærandi boðið íbúum hverfisins til „opins húss“ til kynningar á fyrirhuguðum breytingum.  Enginn hafi mætt og hafi það staðfest að íbúar í næsta nágrenni hafi í raun haft litla skoðun á umsókninni.

Þrjár athugasemdir hafi borist vegna grenndarkynningarinnar en viðhengi einnar þeirrar hafi innhaldið undirskriftir 44 aðila, þ.á.m. frá aðilum langt frá hugsanlegu „grenndarsvæði“.  Athugasemdir þær sem komið hafi fram að öðru leyti hafi ekki verið þess efnis að koma ætti í veg fyrir útgáfu leyfis.  Af þessu tilefni hafi kærandi gert fulltrúum í skipulagsráði grein fyrir nauðsyn þess að undirskriftirnar yrðu metnar sérstaklega, enda hafi sumar undirskriftirnar bæði verið á lista kæranda er fylgt hafi umsókn hans um byggingarleyfi og þeim lista sem lagður hafði verið fram vegna grenndarkynningarinnar.  Undirskriftum virðist hafa verið safnað í þeim tilgangi að hafa sem flesta á þeim lista og hafi herferðin tekið til neðri hluta Lokastígs, Týsgötu og Skólavörðustígs. 

Á því sé byggt að ekki hafi verið þörf á grenndarkynningu þar sem ekki sé um að ræða ytri breytingu á húsnæðinu heldur einvörðungu óverulega breytingu á notkun fasteignarinnar.  Vakin sé á því athygli að fasteignin hafi verið nýtt sem verslunarhúsnæði í tugi ára sem í eðli sínu sé mjög sambærileg notkun og kaffihús en ekki sé verið að sækja um vínveitingaleyfi.

Þá sé á því byggt að grenndarkynning geti aðeins tekið til næstu húsa og til þeirra sem beinna hagsmuna eigi að gæta.  Verði því að vega og meta sérstaklega hverja og eina athugasemd, þ.á.m. hvort athugasemdin stafi raunverulega frá íbúa í nágrenni við umsækjanda, hvort hún hafi komið frá eiganda fasteignar, leigjanda eða öðrum o.s.frv.  Þetta hafi alls ekki verið gert enda megi finna á umræddum lista kennitölur sem á engan hátt séu tengdar hverfinu.  Jafnt tillit hafi verið tekið til undirskrifta þeirra sem búi utan svæðis sem innan.  Sé lögð á það áhersla að undirskriftarlistar geti ekki haft sama vægi og beinar athugasemdir þeirra sem sendi rökstudd mótmæli sem þeir sjálfir semji og varði skýra hagsmuni viðkomandi af umræddri umsókn.  Þá virðist sem grenndarkynning sé komin langt út fyrir tilgang sinn og orðin keppni í undirskriftasöfnun þar sem undirskriftum sé safnað á grundvelli rangtúlkana þess sem þeim safni en sá er það hafi gert sé ekki sjálfur eigandi fasteignar í nágrenninu.  Sé á því byggt að úrvinnsla grenndarkynningarinnar hafi verið ólögmæt enda farið bæði gegn ákvæðum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þ.m.t. 10. gr. laganna, en samkvæmt ákvæðinu beri stjórnvaldi að gæta að því að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun sé tekin.

Ekki sé að finna umsögn skipulagsfulltrúa líkt og við afgreiðslu fyrri umsóknar kæranda en hin síðari hafi verið önnur en hin fyrri.  Sé á því byggt að afgreiðsla erindisins hafi þannig verið í andstöðu við lög auk þess að vera í andstöðu við það verklag sem Reykjavíkurborg hafi unnið eftir.

Þá séu þau rök skipulagsráðs ósannfærandi sem vísi til ætlaðrar andstöðu þeirra sem hagsmuna eigi að gæta.  Sérstaklega í ljósi þeirrar staðreyndar að þeir sem hafi sérfræðiþekkinguna, þ.e. skipulagsfulltrúi, hverfisarkitekt og lögfræðingar borgarinnar, hafi gefið umsókninni jákvæða umsögn og hrakið þær athugasemdir sem færðar hafi verið fram.  Sé á því byggt að afstaða skipulagsráðs feli í sér valdníðslu sem leiða eigi til ógildingar ákvörðunarinnar.

Þá sé á því byggt að synjun skipulagsráðs feli í sér brot á jafnræðisreglu.  Fyrir liggi að fjöldi veitingastaða hafi fengið leyfi til sölu veitinga auk vínveitinga, sem kærandi hafi ekki sótt um, í nágrenni Lokastígs bæði fyrir og eftir gerð þróunaráætlunar miðborgarinnar, innan og utan skilgreindra íbúðarsvæða.  Þá sé við Hallgrímskirkjutorg kirkjan sjálf, listasafn, hótel og skólar á ýmsum skólastigum.  Íbúðarhús sem snúi að torginu séu einungis þrjú auk Lokastígs 28 sem umrædd starfsemi hafi átt að fara fram í.  Í synjun skipulagsráðs sé í engu horft til þeirra leyfa sem þegar hafi verið gefin út á svæðinu og þeirra óverulegu breytinga sem hefðu orðið á starfsemi þeirri er fram fari í húsnæðinu.  Þá sé ekki litið til þeirrar starfsemi sem fyrir sé á svæðinu.  Sé því á því byggt að synjun skipulagsráðs byggi á ómálefnalegum sjónarmiðum auk þess að fela í sér augljóst brot á jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrárinnar.

Þá megi augljóst vera að ekki sé unnt að byggja synjun á þeim röksemdum að starfsemi veitingastaða geti valdið nágrönnum hans röskun þegar litið sé til þess að fjöldi veitingastaða, gististaða og hótela sé í næsta nágrenni við kæranda.  Sé á því byggt að hér sé farið út fyrir það meðalhóf sem stjórnsýslulögin kveði á um.  Taka verði tillit til þess hvers konar rekstur um sé að ræða, en í tilviki kæranda sé verið að óska eftir heimild til að hafa kaffihús innan verslunar með listmuni og vinnustofu.  Á því sé byggt að rangt sé og andstætt jafnræðisreglu að hafna umsókn kæranda á þessum grunni.

Kærandi telji að málefnaleg sjónarmið hafi ekki ráðið afgreiðslu umsóknar hans og því beri að fella úr gildi hina kærðu synjun skipulagsráðs. 

Hafa beri sérstaklega í huga meginreglu eignaréttarins sem byggi m.a. á 72 gr. stjórnarskrárinnar en samkvæmt henni hafi menn ákveðinn rétt til hagnýtingar á eigin eignum.  Takmörkun á þeim rétti beri að byggja á málefnalegum sjónarmiðum auk þess sem takmarkanir beri að skýra þröngt.

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Af hálfu borgaryfirvalda er vísað til þess að skipulagsráði hafi verið fullkomlega heimilt að afgreiða málið með þeim hætti sem gert hafi verið.  Fyrir liggi að hin kærða umsókn hafi fengið meðferð í samræmi við ákvæði skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Umsóknin hafi verið kynnt þeim aðilum sem hagsmuna hafi átt að gæta á svæðinu í samræmi við ákvæði laga.  Því sé vísað á bug að ekki hafi verið þörf grenndarkynningar vegna breyttrar notkunar húsnæðisins.  Það sé viðtekin venja hjá Reykjavíkurborg að grenndarkynna fyrir hagsmunaaðilum breytta notkun á húsnæði ekki síst þegar um veitinga- og kaffihús sé að ræða.  Slíkri starfsemi fylgi oft aukin umferð, hávaði og önnur óþægindi fyrir íbúa í næsta nágrenni.  Borgaryfirvöldum sé því heimilt að ákveða grenndarkynningar í slíkum tilfellum, þyki ástæða til, enda sé það stefna borgaryfirvalda að hafa samráð við borgarbúa þegar komi að breytingum í borginni.  Skipulagsyfirvöld þurfi alltaf að líta til þeirra áhrifa sem fylgt geti starfsemi af þessu tagi við mat á umsóknum.

Leyfisumsóknin hafi verið grenndarkynnt þeim aðilum sem talið hafi verið að hagsmuna ættu að gæta, þ.e. fyrir hagsmunaaðilum að Lokastíg 25, 26 og 28, Þórsgötu 26 og 29 ásamt Njarðargötu 61.  Hafi það verið metið svo að þeir aðilar ættu mestra hagsmuna að gæta varðandi leyfisumsóknina.  Því sé mótmælt sem ósönnu og ósönnuðu að þeir aðilar sem grenndarkynning hafi beinst að hafi ekki átt hagsmuna að gæta.  Íbúum sé frjálst að safna undirskriftum annarra aðila og leggja fram, en það sé ávallt á valdi borgaryfirvalda að meta slíka undirskriftalista hverju sinni.  Fráleitt sé að halda því fram að reglur stjórnsýslulaga hafi verið brotnar á þeim grundvelli að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst, m.a. með vankönnun á því hvort undirskriftalistar hafi verið fengnir með óeðlilegum hætti eða rangtúlkunum af hálfu þess er safni undirskriftum.  Verði sú krafa ekki gerð til borgaryfirvalda að þau kanni þátt hvers og eins aðila sem nafn sitt riti á lista.

Við grenndarkynningu hafi komið fram athugasemdir er lotið hafi m.a. að ónæði, óþrifnaði, bílastæðaskorti og hávaða.  Í umsögn skipulagsfulltrúa við athugasemd, dags. 8. maí 2006, hafi komið fram að um væri að ræða matskennd atriði þar sem pólitísk ákvörðun réði hverju sinni hvernig metin yrðu.

Bent skuli á að í þróunaráætlun vegna íbúðarsvæðis miðborgar, sem umrætt hús tilheyri, komi fram að við mat á tillögum um stækkun og breytingar á húsnæði sem ekki sé notað til íbúðar verði metin m.a. áhrif á yfirbragð svæðis, framboð bílastæða, fyrirkomulag þjónustu og almenn þörf fyrir uppbygginguna.

Við afgreiðslu máls þessa hafi komið fram ólík sjónarmið fulltrúa skipulagsráðs eins og sjá megi af bókunum ráðsins í málinu.  Það breyti þó ekki því að meirihluti hinna kjörnu fulltrúa skipulagsráðs hafi ákveðið að synja leyfisumsókninni.  Skipulagsvaldið liggi hjá sveitarfélögunum í landinu.  Skipulagsyfirvöldum sé ekki skylt að fara eftir þeim umsögnum sem embættismenn borgarinnar leggi til í hvert sinn.  Það sé því ítrekað að ákvörðun um grenndarkynningu sé tekin af skipulagsyfirvöldum borgarinnar lögum samkvæmt í því skyni að afla gagna sem veita megi leiðbeiningu um afstöðu annarra íbúa og nágranna til umsókna um byggingarleyfi í borginni og sé það skipulagsráðs að meta athugasemdir í hverju tilfelli fyrir sig.  Það hafi verið ákvörðun skipulagsyfirvalda með vísan m.a. til fyrri málsmeðferðar að synja kæranda um veitingu leyfis til að innrétta kaffihús á 2. hæð hússins á lóðinni nr. 28 við Lokastíg.  Hafi kærandi ekki fært rök fyrir því að borgaryfirvöldum hafi verið óheimilt að synja leyfisbeiðninni.

Verði ekki séð að kærandi hafi átt lögvarinn rétt til þess að borgaryfirvöld létu honum í té umrætt leyfi og að synjunin hafi verið reist á málefnalegum grundvelli. 

Þá sé því einnig mótmælt að synjun borgaryfirvalda hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu.  Borgaryfirvöldum beri í hverju tilviki að meta sjálfstætt umsóknir sem berist með hagsmuni borgarbúa að leiðarljósi og með tilliti til almennra grenndarreglna.  Borgarbúar eigi ekki stjórnarskrárvarinn rétt til að hefja atvinnurekstur hvar sem þeim henti. 

Kröfum kæranda þess efnis að úrskurðarnefndin breyti ákvörðun skipulagráðs í málinu ellegar leggi fyrir ráðið að taka umsóknina fyrir á ný til lögmætrar afgreiðslu sé mótmælt þar sem ekki séu heimildir til staðar fyrir úrskurðarnefndina til að breyta ákvörðunum skipulagsráðs eða leggja fyrir borgaryfirvöld að taka mál til afgreiðslu.

Aðilar hafa komið á framfæri við úrskurðarnefndina frekari röksemdum sem óþarft þykir að rekja frekar en úrskurðarnefndin hefur haft öll þau sjónarmið til hliðsjónar við úrlausn málsins. 

Vettvangur:  Úrskurðarnefndin kynnti sér óformlega aðstæður á vettvangi mánudaginn 8. október 2007.  

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr., sbr. 1. mgr., 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 er m.a. óheimilt að breyta húsi eða notkun þess nema framkvæmdin sé í samræmi við staðfest aðalskipulag og samþykkt deiliskipulag.  Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024 er svæði það sem húsið að Lokastíg 28 stendur á skilgreint sem íbúðarsvæði og þar er ekki í gildi deiliskipulag.

Er borgaryfirvöldum barst umsókn um byggingarleyfi vegna umrædds kaffihúss hófst undirbúningur að ákvörðun um afgreiðslu umsóknarinnar og var hún grenndarkynnt svo sem heimilt er samkvæmt 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. 7. mgr. 43. gr. laganna.  Var grenndarkynningin lögbundið skilyrði þess að unnt væri að taka afstöðu til umsóknar kæranda, sbr. 3. mgr. 26. gr. skipulags- og byggingarlaga, og verður því ekki fallist á þá málsástæðu hans að grenndarkynning hafi verið að óþörf og verður hin kærða ákvörðun því ekki ógilt af þeim sökum.

Hin kærða synjun skipulagsráðs er studd þeim rökum að Lokastígur sé á íbúðarsvæði samkvæmt aðalskipulagi og því sé aðeins unnt að veita leyfi til reksturs veitingahúsa á slíkum svæðum að starfsemin valdi ekki óþægindum fyrir nágranna.  Með vísan til þessa og þeirra fjölmörgu athugasemda sem frá íbúum hafi borist telji ráðið að þeim skilyrðum verði ekki fullnægt svo unnt sé að una við.

Í gr. 4.2.1 skipulagsreglugerðar nr. 400/1998 segir að á íbúðarsvæðum skuli fyrst og fremst gera ráð fyrir íbúðarhúsnæði.  Þar megi þó einnig gera ráð fyrir starfsemi sem eðlilegt sé að þar sé til þjónustu við íbúa viðkomandi hverfis, s.s. verslunum, hreinlegum iðnaði, handiðnaðarfyrirtækjum, þjónustustarfsemi og leiksvæðum, eða annarri starfsemi sem hvorki verði ætlað að muni valda óþægindum vegna lyktar, hávaða eða óþrifnaðar né dragi að sér óeðlilega mikla umferð.  Þurftu byggingaryfirvöld, við afgreiðslu umsóknar kæranda, að meta hvort fyrirhuguð starfsemi sem um var sótt rúmaðist innan tilgreindra marka.  Ræðst það mat m.a. af staðháttum og starfsemi á nærliggjandi lóðum.
 
Húsið að Lokastíg 28 stendur á horni Lokastígs og Njarðargötu í jaðri þéttbyggðs svæðis.  Bílaumferð er þarna mikil.  Auk íbúðarhúsa eru Hallgrímskirkja, Listasafn Einars Jónssonar og Gistiheimili Leifs Eiríkssonar í nágrenni við húsið.  Í umsókn kæranda, sem synjað var með hinni kærðu ákvörðun, er óskað leyfis til að nýta aðra hæð hússins að Lokastíg 28 til kaffiveitinga og er veitingasalurinn um 50 fermetrar og eldhús 11 fermetrar.  Gluggar veitingasalar snúa að mestu í austur í átt að Hallgrímskirkju og torginu við hana.  Eldvarnarveggur er á lóðarmörkum að Lokastíg 28a.

Í umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 8. maí 2006, sem gerð var í tilefni af fyrri umsókn kæranda um leyfi til að koma fyrir veitingaaðstöðu að Lokastíg 28, kom fram það mat embættisins að umrædd starfsemi myndi ekki hafa í för með sér aukið ónæði frá því sem þá var, en í umsögninni sagði m.a.  „Á jarðhæð húseignarinnar að Lokastíg 28 hefur lengi verið rekin „sjoppa“.  Kaffihús yrði rekið með aðkomu um sömu dyr.  Hægt er að fullyrða að ekki eru líkur á að ofangreint áreiti muni aukast vegna kaffihúss með sama opnunartíma og án vínveitingarleyfis.“  

Síðari umsókn kæranda, sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar, fylgdi undirskriftarlisti þar sem því var lýst yfir að þeir er rituðu nöfn sín á listann væru því ekki mótfallnir að kaffihús yrði á miðhæð hússins en nýting þess að öðru leyti óbreytt.  Mótmæli við þessari nýtingu húsnæðisins bárust einnig m.a. í formi undirskriftarlista og má finna þess dæmi að sami aðili hafi ritað undir báða listana.  Verður að telja að varhugavert hafi verið að leggja þessi gögn til grundvallar þegar skipulagsráð synjaði erindinu, en við afgreiðslu málsins var m.a. vísað til þeirra fjölmörgu athugasemda sem frá íbúum hefðu borist.

Úrskurðarnefndin telur að skort hafi á að skipulagsráð rannsakaði málið af sjálfsdáðum með fullnægjandi hætti.  Jafnframt verður að telja ekki hafi verið færð fram haldbær rök fyrir hinni kærðu ákvörðun, sérstaklega þegar litið er til áður nefndrar umsagnar embættis skipulagsfulltrúa frá 8. maí 2006.  Var því ekki gætt með fullnægjandi hætti ákvæðis 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um rannsókn máls auk þess sem rökstuðningi var áfátt þegar hin kærða ákvörðun var tekin og þykja þessir annmarkar eiga að leiða til ógildingar hennar.

Kærandi gerir einnig þá kröfu að úrskurðarnefndin úrskurði um heimild til breytinga á nýtingu fasteignarinnar að Lokastíg 28 í samræmi við umsókn þar að lútandi.  Til þess brestur úrskurðarnefndina vald og verður þeirri kröfu því vísað frá nefndinni.   

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils málafjölda sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð:

Synjun skipulagsráðs Reykjavíkur frá 27. september 2006 á umsókn um að innrétta kaffihús á annarri hæð hússins að Lokastíg 28 í Reykjavík er felld úr gildi.

Vísað er frá úrskurðarnefndinni kröfu um að úrskurðarnefndin heimili breytt not fasteignarinnar að Lokastíg 28 í Reykjavík. 

 

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

 

 

______________________________                  _____________________________
    Ásgeir Magnússon                                           Þorsteinn Þorsteinsson