Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

133/2007 Birnustaðir

Ár 2007, mánudaginn 29. október, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 133/2007, kæra á ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður
um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 5. október 2007, er barst nefndinni hinn 8. sama mánaðar, kærir Björn Jóhannesson hrl., f.h. M, G, Þ og Á, eigenda fasteignar í landi Birnustaða, Súðavíkurhreppi, þá ákvörðun sveitarstjórnar Súðavíkurhrepps frá 4. október 2007 að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum. 

Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að úrskurðarnefndin kveði upp til bráðabirgða úrskurð um stöðvun framkvæmda þar til niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu.  Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.

Málsatvik og rök:  Mál þetta á sér nokkurn aðdraganda en hinn 26. júlí 2007 felldi úrskurðarnefndin úr gildi ákvörðun byggingarnefndar Súðavíkurhrepps frá 30. apríl 2007 um að veita byggingarleyfi fyrir vélageymslu að Birnustöðum í Súðavíkurhreppi.  Í kjölfar úrskurðarins var á  fundi byggingarnefndar Súðavíkurhrepps hinn 27. ágúst 2007 lagt fram erindi þar sem óskað var eftir byggingarleyfi fyrir vélageymslu og ákvað byggingarnefnd að leita meðmæla Skipulagsstofnunar á grundvelli 3. tl. bráðabirgðaákvæðis laga nr. 73/1997 þar sem ekki var fyrir hendi samþykkt deiliskipulag fyrir svæðið.  Í bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, var ekki gerð athugasemd við að sveitarstjórn veitti leyfi fyrir staðsetningu vélageymslunnar á þeim stað sem umsóknin tók til.  Byggingarnefnd Súðavíkurhrepps ákvað á fundi hinn 18. september 2007 að leggja til við sveitarstjórn að umbeðið byggingarleyfi yrði veitt auk þess sem veitt var leyfi til að loka vélaskemmunni en bygging hennar var þá á lokastigi.  Á fundi sveitarstjórnar hinn 4. október 2007 samþykkti sveitarstjórn fundargerð  byggingarnefndar frá 18. september 2007.  Kærendur hafa nú skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir.

Af hálfu kærenda er vísað til þess að þeir hafi kært niðurstöðu Skipulagsstofnunar frá 13. september 2007 til úrskurðarnefndar þar sem gerð hafi verið krafa um að hún yrði felld úr gildi.  Ekki verði séð að hægt sé að byggja útgáfu byggingarleyfis fyrir vélageymslunni á 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 þar sem forsenda fyrir hinu kærða byggingarleyfi sé lögmælt meðmæli Skipulagsstofnunar.   Í því sambandi sé bent á að byggingarleyfishafi hafi byrjað framkvæmdir við byggingu vélageymslunnar án þess að hafa til þess tilskilin leyfi byggingaryfirvalda og sveitarstjórnar.  Byggingarleyfið, sem gefið hafi verið út hinn 11. júní 2007, hafi verið fellt úr gildi með úrskurði úrskurðarnefndarinnar.  Samkvæmt  2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga beri að stöðva byggingarframkvæmdir sem hafnar séu án þess að leyfi sé fengið fyrir þeim eða ef bygging brjóti í bága við skipulag.  Síðan skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægð og jarðrask afmáð.  Hafa beri í huga að 3. tl. til bráðabirgða í lögum sé undantekningarákvæði.  Samkvæmt því beri að leita meðmæla Skipulagsstofnunar áður en framkvæmdir hefjist enda séu meðmæli stofnunarinnar skilyrði þess að sveitarstjórn geti leyft einstakar framkvæmdir.  Ekki verði séð að  hægt  sé að beita fyrrgreindu bráðabirgðaákvæði til að afla eftir á meðmæla frá Skipulagsstofnun þegar fyrir liggi að framkvæmdir hafi verið hafnar án leyfis og byggingarleyfi þegar verið fellt úr gildi.

Þá bendi kærendur á að í gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 um byggingarreiti fyrir sumarhús komi fram að í deiliskipulagi svæða fyrir frístundabyggð skuli þess gætt að byggingarreitir séu ekki staðsettir nær lóðarmörkum en tíu metra.  Í því tilviki sem hér um ræði sé vélageymslan einungis 2,42 metra frá girðingu, sem kærendur hafi hingað til talið að væri á lóðarmörkum, en girðingin sé 7,82 metra frá sumarhúsi kærenda, þannig að einungis 10,24 metrar séu frá sumarhúsi kærenda að vélageymslunni.  Ný afstöðumynd af lóð sumarhússins sem kærendur hafi látið vinna bendi til að þess vélageymslan sé byggð langt inn á lóð sumarhússins.  Þó svo að miðað væri við að lóðarmörkin væru þar sem núverandi girðing sé, þá séu ekki nema 2,42 metrar frá girðingunni að vélageymslunni og slíkt sé í andstöðu við skýr ákvæði gr. 4.11.2 í skipulagsreglugerð. 

Þá telji kærendur að líta beri til sjónarmiða um meðalhóf þegar tekin sé afstaða til staðsetningar vélageymslunnar og að sumarhús kærenda hafi verið byggt fyrir um 20 árum.  Óumdeilt sé að völ sé á annarri staðsetningu fyrir vélageymsluna þar sem tekið væri jafnt tillit til sjónarmiða kærenda sem og byggingarleyfishafa. 

Kærendur vísi einnig til grenndarsjónarmiða og haldi því fram að byggingin muni valda þeim útsýnisskerðingu, varpa skugga á hús og lóð þeirra, snjósöfnun á lóðinni muni verða veruleg ásamt því að valda þeim miklu ónæði sökum hávaða, vélaumferðar og mengunar frá vélum. 

Af hálfu sveitarfélagsins er vísað til þess að ekki hafi fyrr verið gerð athugasemd við lóðarmörk sumarhúss kærenda, er þeir hafi sjálfir ákvarðað án nokkurra afskipta byggingaryfirvalda.  Byggingaryfirvöld hafi ekkert á móti því að lóðarmörk verði ákvörðuð á annan hátt en verið hafi en slíkt þurfi þó að gerast í samráði við og með samþykki landeiganda.    

Því hafi aldrei verið í móti mælt að hin umrædda bygging hefði nokkur umhverfisáhrif en því sé mótmælt að hún hafi svo mikil áhrif sem kærendur telji og alls ekki svo mikil að leiða eigi til ógildingar byggingarleyfisins. 

Þá sé litið svo á að úrskurður úrskurðarnefndarinnar í málinu nr. 47/2007, er varðað hafi umþrætt byggingarleyfi, hafi eingöngu byggst á þeim sjónarmiðum að hvorki hafi verið fyrir hendi heimild til útgáfu byggingarleyfis, með stoð í grenndarkynningu, né að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar með fullnægjandi hætti, með vísan til 3. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulags- og byggingarlaga, nr. 73/1997.  Ekki hafi af hálfu úrskurðarnefndarinnar verið gerðar efnislegar athugasemdir varðandi byggingarframkvæmdirnar, svo sem að þær brytu í bága við grenndarsjónarmið o.þ.h., og því verði að álykta sem svo að nefndin hafi ekki talið slíka annmarka á framkvæmdunum.  Komið hafi verið til móts við athugasemdir úrskurðarnefndarinnar að þessu leyti, með því að leitað hafi verið umsagnar Skipulagsstofnunar á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis í kjölfar umsóknar um byggingarleyfi vegna umræddrar vélaskemmu.  Með bréfi Skipulagsstofnunar, dags. 13. september 2007, hafi ekki verið gerð athugasemd við að byggingarleyfi yrði veitt vegna staðsetningar umræddrar vélaskemmu á þeim stað sem tilgreindur hafi verið í byggingarleyfisumsókn.

Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda mótmælt og bent á að verði krafa um stöðvun framkvæmda tekin til greina verði hann fyrir fjárhagslegu tjóni áður en efnisleg niðurstaða liggi fyrir hjá nefndinni.  Mál þetta hafi nú dregist í meira en tvö ár og hafi byggingarleyfishafi í einu og öllu fylgt fyrirmælum byggingarfulltrúa varðandi framkvæmdir og haldið að sér höndum.  Hafi á þeim tíma orðið tjón á vélarkosti sem hafi staðið óvarinn og erfitt sé að sinna viðhaldi hans vegna skorts á aðstöðu.  Byggingarleyfishafi eigi ríka hagsmuni af því að halda framkvæmdum áfram og stöðvun framkvæmda nú hefði slæm áhrif á uppbyggingu og rekstur jarðarinnar.  Sjónarmið kærenda, eins og þau komi fram í kæru til nefndarinnar, styðji ekki þá niðurstöðu að hagsmunir þeirra séu ríkari að þessu leyti og sé athygli vakin á því að ekki séu lögð fram nein haldbær gögn um þau áhrif sem kærendur telji að framkvæmdin hafi.  Vegist þannig á hagsmunir sumarhúsaeigenda, sem eiga sumarhús á bæjarhellu lögbýlis, og nýti það yfir sumartímann og eigenda jarðarinnar sem leitist við að reka jörð sína sómasamlega og með hagnaði allt árið um kring.  Þá sé bygging hússins langt komin og augljóst að fjárhagslegt tjón leiði af stöðvun framkvæmda nú.  Kærendur eigi önnur úrræði gagnvart sveitarfélaginu telji þeir á rétt sinn gengið.  Með hliðsjón af meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli stjórnvald aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði sem að sé stefnt verði ekki náð með öðru og vægara móti.  Sé gerð sú krafa af hálfu byggingarleyfishafa að ekki verði farið strangar í sakirnar en nauðsyn beri til. 

Niðurstaða:  Samkvæmt 6. mgr. 8. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 getur kærandi krafist þess að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurð um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða meðan mál er til meðferðar fyrir nefndinni.  Er ákvæðinu ætlað að gera nefndinni kleift að tryggja að réttarstöðu aðila verði ekki breytt til muna meðan mál er þar til meðferðar án þess að afstaða hafi verið tekin til efnis máls.  Felur ákvæðið hins vegar ekki í sér viðurlög af neinu tagi enda um þau fjallað í VI. kafla laganna.

Í máli þessu liggur fyrir að vélaskemma sú, sem hin kærða samþykkt heimilar, er risin og að unnið er að lokafrágangi hennar.  Verður ekki séð að stöðvun framkvæmda hafi hér eftir neina sérstaka þýðingu með tilliti til hagsmuna kærenda, enda verða allar framkvæmdir við umrædda byggingu að teljast unnar á ábyrgð og áhættu byggingarleyfishafa meðan kærumál um lögmæti byggingarleyfisins er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. 

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða hafnað.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um að framkvæmdir við byggingu vélageymslu að Birnustöðum, Súðavíkurhreppi, skuli stöðvaðar meðan kærumál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

__________________________           ___________________________
     Ásgeir Magnússon                                 Þorsteinn Þorsteinsson