Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

84/2005 Miklabraut

Ár 2007, miðvikudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.

Fyrir var tekið mál nr. 84/2005, kæra á undirbúningi og framkvæmd við breikkun Miklubrautar í Reykjavík. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 4. nóvember 2005, er barst nefndinni sama dag, kærir H, Skaftahlíð 18, Reykjavík undirbúning og framkvæmd við breikkun Miklubrautar í Reykjavík á árinu 2005. 

Skilja verður kröfugerð kæranda á þann veg að gerð sé krafa um að ákvarðanir borgaryfirvalda um undirbúning og framkvæmd við breikkun Miklubrautar verði felldar úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Sumarið 2005 var unnið að umfangsmiklum framkvæmdum við stækkun gatnamóta Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar.  Voru framkvæmdirnar unnar á tímabilinu 17. maí til 29. ágúst sama ár. 

Af hálfu kæranda er vísað til þess að hann hafi haft vitneskju um framangreindar framkvæmdir en honum hafi aftur á móti ekki verið kynnt sú fyrirætlan að setja inn auka akrein á Miklubraut fyrir umferð strætisvagna frá Kringlunni að Lönguhlíð.  Við birtingu greinar í Morgunblaðinu hinn 19. apríl 2005 hafi kæranda fyrst orðið ljóst að slík framkvæmd stæði fyrir dyrum, beint fyrir framan garð fjölbýlishúss þess er hann búi í. 

Hinn 2. maí hafi kærandi sent Vegagerðinni fyrirspurn um framkvæmdina og í kjölfarið hafi verið haldinn fundur með kæranda og fulltrúum framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar.  Á þeim fundi hafi verið ákveðið að framkvæmdasvið myndi kanna frekar áhrif hljóðstigs vegna hinnar nýju akreinar fyrir strætisvagna.  Kærandi hafi átt í samskiptum við borgina fram eftir ári 2005 um mögulegar hljóðvarnir.  Hinn 5. október s.á. hafi honum borist tölvupóstur frá aðstoðarsviðsstjóra framkvæmdarsviðs þar sem eftirfarandi hafi komið fram:  „Frá mínum bæjardyrum séð hafa framkvæmdir tekist vel og mér sýnist að vel haldi sú aðgreining að strætó fari einn eftir merktri viðbótarakbraut og aukið álag vegna hávaða í þínu nágrenni sé lítið.  Varðandi hljóðvarnir hjá þér og öðrum við stærstu umferðaræðarnar þá sýnist mér líklegt að auknar fjáveitingar verið lagðar til þess á næsta ári og framundan er að vinna áætlun til að forgangsraða og ráðstafa þeim fjármunum.  Þar kemur þitt mál til skoðunar.“  Kærandi telji að þessi afstaða hafi ekki verið í samræmi við væntingar hans og þar sem fyrrgreindur tölvupóstur sé það síðasta sem komið hafi frá Reykjavíkurborg telji kærandi kæruna vera innan kærufrests. 

Af hálfu kæranda er því og haldið fram að ekki hafi farið fram lögformleg grenndarkynning á hinni nýju strætisvagnaakrein við Miklubraut og því hafi íbúar á svæðinu orðið af réttmætum andmælarétti.  Þá hafi Reykjavíkurborg ekki aflað nægilegra upplýsinga um áhrif framkvæmdarinnar áður en í þær hafi verið ráðist.  Hljóðvörnum hafi verið komið fyrir í efri hluta Skaftahlíðar en ekki á þeim kafla sem næstur sé kæranda og stangist það á við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Framkvæmdin hafi það í för með sér að hvorki hann né fjölskylda hans eða aðrir íbúar hússins geti nýtt sér garðinn og þann eignarrétt sem yfirráðum yfir honum fylgi.

Ekki hafa borist gögn eða greinargerð vegna máls þessa frá Reykjavíkurborg.  

Niðurstaða:  Í máli þessu er deilt um breikkun Miklubrautar er hafist var handa við í maí 2005.  Kærufrestur til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála samkvæmt þágildandi ákvæði 4. mgr. 39. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. nú 5. mgr. 8. gr. tilvitnaðra laga, er einn mánuður frá því kæranda var kunnugt um eða mátti vera kunnugt um hina kærðu ákvörðun. 

Fram er komið af hálfu kæranda að honum hafi verið kunnugt um fyrirhugaða akrein í apríl 2005.  Kæra í máli þessu barst úrskurðarnefndinni þó ekki fyrr en hinn 4. nóvember 2005 eða rúmu hálfu ári eftir að framkvæmdir hófust og tveimur mánuðum eftir að þeim var að fullu lokið.  Var því kærufrestur liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni.  Ber því að vísa máli þessu frá samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, enda verður ekki ráðið af málsatvikum að rétt sé að taka málið til efnismeðferðar að liðnum kærufresti samkvæmt undanþáguákvæðum 1. eða 2. tl. tilvitnaðs lagaákvæðis. 

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna anna hjá úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

 

____________________________________
Ásgeir Magnússon

 

 _____________________________                   ______________________________
 Þorsteinn Þorsteinsson                                 Geirharður Þorsteinsson