Árið 2014, fimmtudaginn 27. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 83/2012, kæra á afgreiðslu skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi leyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut í Kópavogi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 15. ágúst 2012, er barst nefndinni 17. s.m., kæra M og S, Kópavogsbraut 96 í Kópavogi, samþykkt skipulagsnefndar Kópavogs frá 17. júlí 2012 varðandi tvö gróðurhús á lóðinni að Kópavogsbraut 98 í Kópavogi. Hin kærða afgreiðsla var staðfest á fundi bæjarráðs hinn 26. s.m. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Byggingarleyfi fyrir húsunum var hins vegar ekki samþykkt af byggingarfulltrúa fyrr en 16. október sama ár. Með hliðsjón af framangreindu, og eins og hér stendur á, þykir verða að líta svo á að kæra þessi lúti að framangreindu byggingarleyfi húsanna enda þótt hún hafi borist fyrir samþykkt þess.
Skilja verður kröfugerð kærenda svo að gerð sé krafa um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar að hluta, þ.e. leyfis fyrir stærra gróðurhúsinu. Jafnframt er gerð krafa um að Kópavogsbæ verði gert að fjarlægja nefnt gróðurhús.
Úrskurðarnefndinni bárust gögn frá Kópavogsbæ 31. október 2012.
Málavextir: Á fundi byggingarfulltrúa í nóvember 2011 var tekin fyrir umsókn um byggingarleyfi fyrir tveimur gróðurhúsum á lóðinni að Kópavogsbraut 98, öðru 28 m² klæddu plasti og hinu 8 m² klæddu gleri. Vísaði byggingarfulltrúi erindinu til skipulagsnefndar til ákvörðunar um grenndarkynningu. Í apríl 2012 barst skipulagsnefnd bréf frá lóðarhöfum Kópavogsbrautar 98, ásamt yfirlýsingu frá 22 íbúum 12 húsa við vestanverða Kópavogsbraut, m.a. Kópavogsbrautar 100, er mæltu með því að veitt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu. Hinn 26. apríl s.á. samþykkti skipulagsnefnd að grenndarkynna erindið fyrir lóðarhöfum að Kópavogsbraut 96 og 100. Með bréfi kærenda til skipulagsnefndar, dagsettu 5. júní 2012, lögðust þeir gegn því að samþykkt yrði leyfi fyrir stærra gróðurhúsinu, en ekki fyrir því minna. Þá var bent á að húsin hefðu verið reist í óleyfi og að Kópavogsbæ bæri skylda til að fjarlægja stærra húsið.
Skipulagsnefnd tók erindið fyrir að nýju hinn 17. júlí 2012, ásamt umsögn skipulags- og byggingardeildar, dagsettri 27. júní s.á. Var erindið samþykkt og því vísað til bæjarráðs, sem staðfesti afgreiðslu skipulagsnefndar á fundi hinn 26. júlí s.á. Var kærendum tilkynnt um afgreiðsluna í bréfi, dagsettu 27. s.m., og tekið fram að hún væri kæranleg til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.
Með bréfi kærenda til Kópavogsbæjar, dagsettu 15. ágúst s.á., var greindri afgreiðslu mótmælt og farið fram á frekari rökstuðning. Ítarlegri rökstuðningur var lagður fram á fundi skipulagsnefndar hinn 18. september s.á. Var rökstuðningurinn samþykktur á þeim fundi, sem og á fundi bæjarstjórnar hinn 25. s.m. Byggingarfulltrúi tók umsókn um byggingarleyfi gróðurhúsanna fyrir á ný hinn 16. október 2012. Var umsóknin samþykkt og talin samrýmast mannvirkjalögum nr. 160/2010. Bæjarráð samþykkti fundargerð byggingarfulltrúa hinn 18. s.m. og bæjarstjórn hinn 23. s.m.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er vísað til þess að hið umdeilda gróðurhús sé allt of stórt til að geta talist gróðurhús til tómstundanota á lóð í miðju íbúðarhverfi. Útlit þess og stærð geri það verkum að helst líti út fyrir að gróðurhúsið hýsi einhvers konar iðnaðar- eða landbúnaðarstarfsemi. Húsið sé lýti á götumynd Kópavogsbrautar, einkum á árstíma er tré séu lítt eða ekki laufguð. Blasi byggingin við úr stofuglugga húss kærenda og sé af henni mikil sjónmengun.
Umrædd bygging hafi verið reist í tíð laga nr. 73/1997 og byggingarreglugerðar nr. 441/1998 og hafi lóðarhafar við bygginguna farið gegn ákvæðum 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðarinnar. Séu tilvitnuð ákvæði að megininntaki samhljóða gr. 2.3.1. og gr. 2.3.2. í núgildandi byggingarreglugerð nr. 112/2012, sem sett hafi verið með stoð í mannvirkjalögum nr. 160/2010 og 4. mgr. 24. gr. laga nr. 75/2000, sem og 1. og 2. mgr. 9. gr. mannvirkjalaga. Í ljósi ofangreindra lagaraka, og með vísan til 2. mgr. 55. gr. laga nr. 160/2010, sé það skylda Kópavogsbæjar að sjá til þess að byggingin verði fjarlægð sem fyrst.
Málsrök Kópavogsbæjar: Af hálfu Kópavogsbæjar er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði staðfest. Um formlega og efnislega rétta ákvörðun sé að ræða.
Skírskotað sé til þess að skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 skuli skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu þegar sótt sé um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar í þegar byggðu en ódeiliskipulögðu hverfi og hafi svo verið gert hér. Skuli við mat á því hvort veita skuli byggingarleyfi einkum líta til fyrrnefndra þátta og verði þær framkvæmdir sem séu í meginatriðum í samræmi við þá þætti að teljast óverulegar. Í því sambandi þurfi að líta til þess hvort og að hvaða marki sé um að ræða skerðingu á hagsmunum kærenda.
Hagsmunir kærenda sé í engu skertir hvað varði útsýni, skuggavarp eða innsýn. Eingöngu hafi verið bent á að út frá fagurfræðilegu sjónarmiði kunni hagsmunir kærenda að vera skertir, þ.e. að um sjónmengun sé að ræða. Hvort þannig hátti til sé matskennt og við slíkt mat verði m.a. að líta til sjónarmiða annarra lóðarhafa og þeirra sem eigi lögvarða hagsmuni og hafi látið málið til sín taka. Fjölmargir íbúar hafi lýst sig samþykka byggingarleyfi fyrir gróðurhúsinu. Þá standi það í töluverði fjarlægð frá lóðamörkum og á laufgunartíma trjágróðurs sé húsið ekki sýnilegt kærendum.
Almennt sé viðurkennt að grenndarsjónarmið vegi þungt við mat á því hvort breyta skuli deiliskipulagi eða samþykkja byggingarleyfi í hverfum sem ekki hafi verið deiliskipulögð. Það hafi verið mat skipulagsnefndar og byggingarfulltrúa að taka bæri undir sjónarmið nágranna um grenndaráhrif og að tilvist hússins hefði engin neikvæð heldur einungis mjög jákvæð grenndaráhrif. Komi fram í umsögn skipulags- og byggingardeildar að umrætt gróðurhús sé í 28 m fjarlægð frá stofuglugga húss kærenda, það hafi ekki áhrif á götumynd, ekki sé um varanlega byggingu að ræða, það sé snyrtilegt og því sé vel við haldið. Þá hafi gróðurhúsið í afar litlum mæli áhrif á landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar og um eðlilega og hóflega nýtingu á lóðinni sé að ræða.
Málsrök leyfishafa: Leyfishafar vekja athygli á því að hið umdeilda gróðurhús hafi verið á lóðinni í rúmlega ár án þess að komið hafi verið á framfæri athugasemdum vegna þess.
Nauðsynlegt sé að setja stærðarhlutföll í samhengi. Lóð leyfishafa sé 950 m². Íbúðarhús og bílskúr séu um 170 m² og nýtingarhlutfall 0,17. Ef bætt sé við léttbyggingum á lóðinni, gróðurhúsum og geymsluskúr sem séu samtals 41 m², verði nýtingarhlutfall 0,22. Miðað við lóðir í nýrri byggingarhverfum Kópavogs sé það mjög lágt.
Álit kærenda á stærð, útliti og notagildi gróðurhúsanna sé huglægt mat og styðjist ekki við lög og reglugerðir. Vísað sé til yfirlýsingar annarra íbúa í næsta nágrenni. Segi þar m.a. að gróðurhúsið sé einstaklega snyrtilegt og vel staðsett á lóðinni. Húsið og garður leyfishafa sé til sóma fyrir hverfið og ræktunarstarf til fyrirmyndar. Margir þessara nágranna búi nær gróðurhúsinu og í mun beinni sjónlínu við það en kærendur.
Ofmælt sé að tala um að gróðurhúsið blasi við út um stofuglugga á heimili kærenda og að af því sé sjónmengun. Húsið sjáist en það skyggi ekki á útsýni. Ekki verði séð að það valdi nokkru óhagræði fyrir kærendur, enda langt frá stofugluggum þeirra, og um 15 m séu frá mörkum lóðar þeirra að gróðurhúsinu. Þar að auki sé mikill og fallegur gróður í garði leyfishafa sem skýli húsinu að verulegu leyti. Krafa um niðurrif gróðurhússins virðist sett fram í þeim eina tilgangi að valda leyfishöfum fjárhagslegu tjóni og leiðindum. Spurt sé hvaða lögmætu hagsmunir geti legið að baki nefndri kröfu.
——-
Færð hafa verið fram frekari rök í málinu og hefur úrskurðarnefndin haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins þótt þau verði ekki rakin nánar hér.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um gildi leyfis fyrir 28 m² gróðurhúsi á lóðinni nr. 98 við Kópavogsbraut. Lóðin er í grónu hverfi í Kópavogi sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt mannvirkjalögum nr. 160/2010 skal byggingarleyfisskyld framkvæmd vera í samræmi við skipulagsáætlanir viðkomandi svæðis og er unnt að veita byggingarleyfi, að undangenginni grenndarkynningu, í þegar byggðum hverfum þar sem ekki er í gildi deiliskipulag, sbr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Það er þó gert að skilyrði að framkvæmdin sé í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar, sbr. lokamálslið 1. mgr. 44. gr.
Í hinu kærða tilviki er um að ræða gróðurhús á íbúðarhúsalóð sem telja verður að samræmist landnotkun svæðisins. Umrætt gróðurhús er klætt plasti og er hæð þess 2,42 m þar sem það er hæst. Það er staðsett á vesturhluta lóðarinnar, um 15 m frá mörkum lóðar kærenda. Eru lóðir kærenda og leyfishafa nokkuð stórar og er þar töluverður gróður. Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að nýtingarhlutfall lóðarinnar að Kópavogsbraut 98 sé 0,19 en verði eftir samþykkta breytingu 0,23. Sé litið til upplýsinga úr fasteignaskrá Þjóðskrár er nýtingarhlutfall Kópavogsbrautar 98 sambærilegt því sem er á næstu lóðum. Þannig er nýtingarhlutfall lóðar kærenda 0,18, nýtingarhlutfall er 0,20 á lóðinni nr. 100 og 0,22 á lóðinni nr. 102 við Kópavogsbraut. Úrskurðarnefndin fellst á að hið umdeilda gróðurhús sé nokkuð stórt og geti af þeim sökum haft einhver grenndaráhrif en telur þó í ljósi fyrrgreindra staðhátta að það raski ekki með slíkum hætti grenndarhagsmunum kærenda að ógildingu varði. Þá skal tekið fram að þrátt fyrir stærð og staðsetningu gróðurhússins hefur Kópavogsbær metið það svo að það falli að byggðamynstri svæðisins og m.a. vísað til þess í rökstuðningi til kærenda að hefðbundin gróðurhús, klædd plastdúk eða gleri, séu algeng í eldri hverfum bæjarins, enda sé ræktun grænmetis og blóma gömul hefð á Kársnesi í anda sjálfbærni, sem mikils sé metin í bæjarfélaginu. Eins og hér stendur á eru ekki efni til endurskoðunar á því mati sveitarfélagsins.
Með hliðsjón af framangreindu, og þar sem aðrar ástæður liggja ekki fyrir í máli þessu er leitt geta til ógildingar, er kröfu kærenda hafnað.
Kærendur vísa máli sínu til stuðnings m.a. til ákvæða 11., sbr. 13. gr., byggingarreglugerðar nr. 441/1998, en þar er meðal annars kveðið á um að óheimilt sé að reisa hús nema að fengnu leyfi viðkomandi sveitarstjórnar. Samkvæmt 2. mgr. 55. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 er byggingarfulltrúa heimilt að mæla fyrir um niðurrif óleyfisframkvæmdar. Eins og að framan greinir hefur Kópavogsbær nú samþykkt byggingarleyfi fyrir téðum gróðurhúsum. Kemur því af þeim sökum ekki til álita að beita áðurnefndu lagaákvæði.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu byggingarleyfis frá 16. október 2012 fyrir 28 m² gróðurhúsi klæddu plasti á lóðinni Kópavogsbraut 98 í Kópavogi.
____________________________________
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson