Fyrir var tekið mál nr. 82/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 12. ágúst 2012, er barst nefndinni 16. s.m., kærir A, ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu álagningar sorphirðugjalda vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2. Þá hefur kærandi gert þá kröfu fyrir úrskurðarnefndinni að hætt verði innheimtu þjónustugjalda fyrir þjónustu sem ekki er veitt og endurgreidd verði oftekin gjöld. Verður að skilja málatilbúnað kæranda svo að hann geri þá kröfu að ákvörðun um álagningu sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árunum 2011 og 2012 og fyrir Syðra-Hvarf á árunum 2007 og 2008 verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Dalvíkurbyggð 29. ágúst 2014, 3. og 24. september, sem og 14. október s.á.
Málavextir: Fasteignirnar Syðra-Hvarf og Melar 2 í Dalvíkurbyggð eru í eigu kæranda. Kærandi bjó að Melum 2 þar til hann flutti búferlum til Noregs og var lögheimili hans breytt á þann veg síðla árs 2010. Með bréfi til Dalvíkurbyggðar, dags. 29. apríl 2011, fór kærandi fram á endurskoðun á álagningu og innheimtu fasteignagjalda af greindum fasteignum. Var í erindi hans gerð athugasemd við álagningu og innheimtu þess liðar fasteignagjaldanna er varðar sorphirðu. Vísaði kærandi til þess að engin slík þjónusta hefði verið veitt um nokkurra ára skeið vegna greindra eigna. Hinn 11. maí s.á. var erindi kæranda tekið fyrir á fundi umhverfisráðs og það afgreitt með svohljóðandi bókun: „Umhverfisráð hafnar erindinu en bendir umsækjanda á að óska eftir endurmati húseignanna hjá Þjóðskrá séu húseignirnar ekki með rétt matsstig. Einnig er rétt að það komi fram að öll íbúðarhúsnæði í Dalvíkurbyggð bera sorphirðugjald því er ekki hægt að verða við erindinu.“ Fundargerð umhverfisráðs var lögð fyrir fund bæjarstjórnar hinn 17. s.m.
Kærandi mótmælti þessari afgreiðslu erindis síns með bréfi, dags. 28. júní 2011, og tók bæjarráð málið til nýrrar afgreiðslu á fundi sínum 29. júlí s.á. Samþykkti ráðið að fella niður sorphirðu- og fráveitugjald af fasteigninni Syðra-Hvarfi, afturvirkt frá 1. janúar 2009, og endurgreiða kæranda þau gjöld sem greidd höfðu verið. Bæjarráð hafnaði því hins vegar að fella niður sambærileg gjöld vegna Mela 2. Bent var á að kærandi hefði haft lögheimili að Melum 2 til ársins 2010 og að kærandi hefði sorpílát til umráða frá Dalvíkurbyggð. Færa mætti rök fyrir því að þrátt fyrir erlenda búsetu nyti kærandi þjónustu sveitarfélagsins við sorphirðu þegar hann kæmi til landsins til lengri eða skemmri dvalar. Var niðurstaða bæjarráðs tilkynnt kæranda 4. nóvember 2011. Með bréfi, dags. 3. júní 2012, gerði kærandi athugasemdir við framangreinda ákvörðun bæjarráðs. Varðandi fasteignina Syðra-Hvarf fór kærandi fram á endurgreiðslu greiddra gjalda frá og með miðju ári 2007. Varðandi fasteignina Mela 2 benti kærandi á að hann hefði skilað sorpílátinu og gerði kröfu um endurgreiðslu gjalda frá ársbyrjun 2011. Bæjarstjóri Dalvíkurbyggðar svaraði bréfi kæranda með tölvubréfi, dags. 25. júlí 2012. Þar sagði: „Miðað við þær upplýsingar sem fyrir liggja hefur ekkert nýtt komið fram sem breytir niðurstöðu bæjarráðs […]“ og fylgdi bókun bæjarráðs frá árinu 2011 í tölvubréfinu.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að enginn hafi búið á Syðra-Hvarfi síðan 2007 og að sorpílát fyrir Mela 2 hafi verið í geymslu frá því í desember 2009. Engin sorphirðuþjónusta hafi verið veitt síðan þá. Hins vegar hafi sorphirðugjöld einungis verið felld niður í tilfelli Syðra-Hvarfs og þá eingöngu afturvirkt frá 1. janúar 2009 en ekki 2007. Starfsmenn hjá tæknideild Dalvíkurbyggðar hafi bent kæranda á dæmi þess að sorphirðugjöld væru ekki lögð á íbúðarhús í sveitarfélaginu þar sem enginn væri með búsetu. Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á að samkvæmt lögum sé sveitarfélögum heimilt að inniheimta gjald á hverja fasteignareiningu fyrir meðhöndlun úrgangs og að slíkt gjald skuli miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig. Gjald það sem sé innheimt skuli þó aldrei vera hærra en nemi þeim kostnaði sem falli til hjá sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi er samræmist markmiðum laganna. Gjaldskrá fyrir sorphirðu í Dalvíkurbyggð hafi verið staðfest af hálfu bæjarstjórnar Dalvíkurbyggðar með vísan til 8. gr. samþykktar um sorphirðu á Norðurlandi eystra nr. 541/2000. Í 8. gr. samþykktarinnar komi fram að gjöld megi aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði við veitta þjónustu.
Málsrök Dalvíkurbyggðar: Af hálfu Dalvíkurbyggðar er þess krafist að kröfu kæranda verði hafnað. Í 5. mgr. 4. gr. laga nr. 55/2003 segi m.a. að sveitarstjórn skuli ákveða fyrirkomulag söfnunar heimilis- og rekstrarúrgangs í sveitarfélaginu. Sveitarstjórn beri ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs og skuli sjá um að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem falli til í sveitarfélaginu. Bent sé á að í 8. gr. samþykktar um sorphirðu á Norðurlandi eystra nr. 541/2000 komi fram að kostnaður sveitarfélagsins sé ekki eingöngu bundinn við að útvega íbúum sveitarfélagsins sorpílát og annast losun þeirra. Einnig þurfi að safna úrganginum saman og ganga endanlega frá honum. Sveitafélagið hafi lagt til sorpílát fyrir Mela 2. Það sé á valdi kæranda hvort hann nýti sér þjónustuna. Ákvörðun kæranda um að nýta sér ekki þjónustu sveitarfélagsins leysi hann ekki frá þeirri skyldu sem hvíli á öllum fasteignaeigendum sveitarfélagsins að greiða sinn hlut í þeim kostnaði sem sé samfara sorphirðu. Varðandi Syðra-Hvarf vísi sveitarfélagið til mats byggingafulltrúa þess efnis að húsið hafi orðið óíbúðarhæft við lok árs 2008.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um niðurfellingu sorphirðugjalda vegna fasteigna kæranda, en ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 þar um var tilkynnt kæranda 4. nóvember s.á. Var þar tekið fram að afgreiðsla ráðsins væri gerð með fyrirvara um staðfestingu bæjarstjórnar. Eins og áður er lýst gerði kærandi athugasemd við niðurstöðu bæjarráðs með bréfi, dags. 3. júní 2012, og var honum svarað með tölvupósti 25. júlí s.á. Athugasemdir kæranda báru glögglega með sér að hann væri ósáttur við afgreiðslu máls síns og ítrekar hann í erindi sínu þær kröfur sem hann hafði áður gert við meðferð málsins, þ.e. endurgreiðslu greiddra gjalda allt frá miðju ári 2007 vegna Syðra-Hvarfs og frá ársbyrjun 2011 vegna Mela 2. Með hliðsjón af forsögu þeirra samskipta sem þarna áttu sér stað var sveitarfélaginu rétt að líta á athugasemdir kæranda sem beiðni um endurupptöku málsins. Ber enda svar bæjarstjóra með sér það mat að ekki sé ástæða til athafna þar sem ekkert nýtt hefði komið fram sem breytti niðurstöðu málsins, en það er eitt skilyrða fyrir endurupptöku máls, sbr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Bæjarstjóri var hins vegar ekki bær til að afgreiða erindi kæranda með þessum hætti enda gilda almennar málsmeðferðarreglur um endurupptöku máls. Þannig skal stjórnvald það sem hefur ákvörðunarvaldið, sveitarstjórn í þessu tilviki, leysa úr slíkri beiðni í samræmi við málsmeðferðarreglur stjórnsýslulaga. Þar sem beiðni kæranda um endurupptöku hefur ekki hlotið lögformlega afgreiðslu verður þeim hluta kærumálsins vísað frá úrskurðarnefndinni.
Einnig er deilt um álagningu sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árunum 2011 og 2012 og fyrir Syðra-Hvarf á árunum 2007 og 2008. Verður ekki ráðið af gögnum málsins að kæranda hafi í samskiptum sínum við sveitarfélagið verið gerð grein fyrir kæruheimild eða kærufresti vegna þeirrar álagningar. Þá er slíkar leiðbeiningar ekki að finna á álagningarseðlum þeim er finna má í gögnum málsins. Kærufrestur til úrskurðarnefndar er einn mánuður frá því að ákvörðun var tilkynnt, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011. Kæra barst úrskurðarnefndinni 16. ágúst 2012 og var því kærufresturinn liðinn. Hins vegar verður, með vísan til þess að kæranda var ekki leiðbeint í samræmi við 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, að telja það afsakanlegt að kæra í máli þessu hafi borist að liðnum kærufresti, sbr. 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna. Verður málið því tekið til efnismeðferðar að því er varðar lögmæti álagningar sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árinu 2012. Álagning fyrri ára kemur ekki til skoðunar með vísan til 2. mgr. 28. gr. laganna og verður þeim þætti kærunnar vísað frá úrskurðarnefndinni.
Um sorphirðu gilda ákvæði laga nr. 55/2003 um meðhöndlun úrgangs og reglugerð nr. 737/2003 um meðhöndlun úrgangs. Samkvæmt þágildandi 5. mgr. 4. gr., nú 1. mgr. 8. gr., laganna er sveitarstjórn skylt að ákveða fyrirkomulag söfnunar á heimilisúrgangi. Ber hún ábyrgð á flutningi hans og skal sjá til þess að starfræktar séu móttöku- og söfnunarstöðvar fyrir úrgang sem til fellur í sveitarfélaginu. Í þágildandi 11. gr., nú 23. gr., nefndra laga er mælt fyrir um heimildir sveitarfélaga til gjaldtöku fyrir meðhöndlun úrgangs. Unnt er að miða gjaldið við mælanlega þætti sem hafa áhrif á kostnað sveitarfélagsins, svo sem magn úrgangs, en einnig má ákveða fast gjald á hverja fasteignareiningu miðað við fjölda sorpíláta og/eða þjónustustig, sbr. 2. mgr. 11. gr. Gjaldið skal aldrei vera hærra en nemur kostnaði sem fellur til í sveitarfélaginu við meðhöndlun úrgangs og tengda starfsemi, sbr. 3. mgr. 11. gr. Í Dalvíkurbyggð gildir auk þess samþykkt um sorphirðu sveitarfélaga á Norðurlandi eystra nr. 541/2000, sbr. breytingasamþykkt nr. 483/2011. Í 8. gr. samþykktarinnar segir að sveitarstjórn sé heimilt að setja gjaldskrá og innheimta sorphirðugjöld til að standa straum af öllum kostnaði við sorphirðu og megi gjöld aldrei vera hærri en sem nemi rekstrarkostnaði við veita þjónustu og að gjöld miðist við stærð og fjölda íláta, magn úrgangs og tíðni sorphirðu. Þá hefur sveitarfélagið á ári hverju sett sér gjaldskrá fyrir sorphirðu í Dalvíkurbyggð og um álagningu 2012 gilti gjaldskrá nr. 1053/2011, sem birt var í B-deild Stjórnartíðinda 16. nóvember 2011. Kveður 2. gr. hennar á um að gjaldið sé lagt á hverja íbúð í lögsagnarumdæmi byggðarinnar.
Meðhöndlun sorps er grunnþjónusta í sveitarfélagi. Hún þarf að vera í föstum skorðum og er þess eðlis að hún má ekki falla niður þótt einhverjir íbúar nýti sér hana ekki. Almennt getur sá sem greiðir þjónustugjöld ekki krafist þess að sá kostnaður sem hlýst af því að veita þjónustuna sé reiknaður nákvæmlega út. Sveitarfélagi er þannig ekki talið skylt að reikna út kostnað við meðhöndlun sorps hvers íbúa eða fasteignar, heldur heimilt að jafna heildarfjárhæð niður á áætlaðan fjölda notenda, eins og skýrt er tekið fram í 2. mgr. 11. gr. laga nr. 55/2003. Verður að telja að heimilt sé, með vísan til framangreinds, sem og til 2. gr. gjaldskrár þeirrar er Dalvíkurbyggð hefur sett sér um sorphirðu, að haga gjaldtöku svo að um sé að ræða jafnaðargjald á hverja gjaldskylda fasteign og óháð búsetu. Loks er leitt í ljós að gjald vegna sorphirðu var lagt á kæranda vegna Mela 2 árið 2012 í samræmi við gjaldskrá nr. 1053/2011 og að heildarkostnaður sveitarfélagsins á árinu 2012 samkvæmt framlögðum gögnum var 32.175.739 krónur en álögð þjónustugjöld 19.098.071 króna. Var álagningin samkvæmt því í samræmi við það skilyrði laganna að álagning umræddra gjalda fari ekki fram úr kostnaði sveitarfélagsins við veitta þjónustu, sbr. 3. mgr. 11. gr. nefndra laga og fyrrgreindrar 8. gr. samþykktar nr. 541/2000. Með vísan til framangreinds verður hafnað kröfu kæranda um ógildingu álagningar sorphirðugjalds fyrir Mela 2 á árinu 2012.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni að því er varðar ákvörðun bæjarráðs Dalvíkurbyggðar frá 29. júlí 2011 um að synja um niðurfellingu sorphirðugjalds vegna fasteignanna Syðra-Hvarfs og Mela 2 og einnig að því er varðar kærða álagningu áranna 2007, 2008 og 2011.
Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu álagningar sorphirðugjalds vegna Mela 2 á árinu 2012.
Nanna Magnadóttir
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson