Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:
Mál nr. 80/2023, kæra á synjun Skipulagsstofnunar frá 31. maí 2023 á að staðfesta óverulega breytingu á Aðalskipulagi Borgarbyggðar 2010-2022 vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi, dags. 29. júní 2023, sem móttekið var sama dag hjá úrskurðarnefndinni kæra eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð synjun Skipulagsstofnunar frá 31. maí 2023 um að staðfesta óverulega breytingu á aðalskipulagi Borgarbyggðar vegna mælimasturs á Grjóthálsi í landi Sigmundarstaða.
Þess er krafist að synjun Skipulagsstofnunar verði felld úr gildi og að breyting á aðalskipulagi Borgarbyggðar sem samþykkt var í sveitarstjórn 13. apríl 2023, þess efnis að heimila tímabundið mælimastur, til 12 mánaða, á Grjóthálsi í landi Sigmundastaða, verði staðfest.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Skipulagsstofnun 29. júní 2023.
Málsatvik: Að því greinir í kæru áforma eigendur jarðanna Hafþórsstaða og Sigmundarstaða í Borgarbyggð að reisa rannsóknar- eða mælimastur fyrir vindafl í landi Sigmundarstaða. Muni hæð mastursins verða allt að 98 metrar og mælingar standa í allt að 12 mánuði, en mastrið verði þá fjarlægt.
Framkvæmdin hefur tvisvar áður komið til umfjöllunar hjá úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 28. desember 2021 í máli nr. 169/2021 var álitið að mastrið væri ekki háð framkvæmdarleyfi samkvæmt reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Í framhaldi þessa var tilkynnt um uppsetningu mastursins til Borgarbyggðar með vísan til gr. 2.3.6. í byggingarreglugerð, þar sem mælt er fyrir um að tímabundin rannsóknarmöstur séu tilkynningarskyld. Synjað var á hinn bóginn um framkvæmdina á fundi skipulags- og byggingarnefndar Borgarbyggðar 4. nóvember 2022, þar sem álitið var að hún væri ekki samrýmanleg aðalskipulag sveitarfélagsins og var byggingafulltrúa falið að synja um heimild til framkvæmdarinnar, sem hann gerði 11. sama mánaðar. Með úrskurði úrskurðarnefndarinnar uppkveðnum 7. mars 2023, í máli nr. 136/2022, var því hafnað að fella þá ákvörðun úr gildi.
Með bréfi til Borgarbyggðar, dags. 29. mars 2023, óskuðu kærendur eftir því að gerð yrði breyting á aðalskipulagi vegna mælimastursins. Var af því tilefni vísað til 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, sem varðar óverulegar breytingar á aðalskipulagi. Á fundi sveitarstjórnar Borgarbyggðar 13. apríl 2023 var slík breyting á aðalskipulagi samþykkt og með bréfi, dags. 2. maí s.á., var hún send Skipulagsstofnun til staðfestingar. Með bréfi, dags. 31. s.m. tilkynnti Skipulagsstofnun um synjun á staðfestingu þeirrar breytingar á aðalskipulagi.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Skipulagsstofnunar um að synja um staðfestingu á óverulegri breytingu sveitarfélags á aðalskipulagi skv. 2. mgr. 36. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, en þar er mælt fyrir um að fallist stofnunin ekki á að um óverulega breytingu sé að ræða skuli hún tilkynna sveitarstjórn um það og fari þá um málsmeðferð eins og um gerð aðalskipulags sé að ræða.
Samkvæmt 1. mgr. 52. gr. skipulagslaga sæta stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra laga kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Ákvarðanir sem Skipulagsstofnun og ráðherra ber að skipulagslögum að staðfesta verða þó ekki bornar undir úrskurðarnefndina. Í 3. mgr. 29. gr. sömu laga kemur fram að aðalskipulag sé háð samþykki sveitarstjórnar og staðfestingu Skipulagsstofnunar eða ráðherra. Breyting á aðalskipulagi er að sama skapi háð staðfestingu Skipulagsstofnunar eða eftir atvikum ráðherra, sbr. 1. mgr. 36. gr. laganna. Gildir einnig hið sama um óverulegar breytingar sbr. 2. mgr. 36. gr. laganna.
Samkvæmt greindum fyrirmælum skipulagslaga brestur úrskurðarnefndina vald til að endurskoða lögmæti ákvarðana um aðalskipulag og breytingar á því og verður af þeirri ástæðu að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.