Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2023 Vogar vatnstaka

Árið 2023, föstudaginn 21. júlí, tók Arnór Snæbjörnsson, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 72/2023, kæra á ákvörðun Orkustofnunar frá 4. maí 2023 um að samþykkja nýtingarleyfi  til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

úrskurður

um kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda:

Með ódagsettu bréfi, er barst nefndinni 8. júní 2023 kæra  Reykjaprent ehf., a, b og c,  ákvörðun Orkustofnunar  frá 4. maí 2023 um veitingu nýtingarleyfis til Benchmark Genetics Iceland hf. til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum.  Þess er krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi sem og að nýting grunnvatns á grundvelli leyfisins verði stöðvuð til bráðabirgða að frágreindri tilgreindri vinnslu neysluvatns til þarfa Sveitarfélagsins Voga.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Orkustofnun 6. júlí 2023.

Málsatvik og rök: Leyfishafi hefur frá árinu 2005 nýtt 350 l/s af fersku grunnvatni og 600 l/s af söltu grunnvatni (jarðsjó) við fiskeldisstöð sína í Vogum. Munu þær borholur sem með því eru hagnýttar hafa verið boraðar á árunum 1984-1989. Félagið hefur sótt eftir heimild til þess að auka þessa nýtingu sem nemur 126 l/s af fersku grunnvatni og 346 l/s af söltu grunnvatni en það er þáttur í áformum um aukna framleiðslu í eldisstöð félagsins í Vogavík. Álit Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum þeirrar framkvæmdar lá fyrir 10. maí 2021.

Kærendur, sem eru meðal eigenda óbyggðs lands á Reykjanesskaga, Heiðarlands Vogajarða, færa fram þær málsástæður að leyfishafi njóti ekki fullnægjandi eignarheimildar og að rannsókn máls hafi verið ábótavant með tilliti til heildarmats á vatnstökunni og áhrifa hennar á vatnshlot og vatnstökusvæði það sem nýtingin lúti að. Þá eru færð fram sjónarmið sem varða málsmeðferð við undirbúning leyfisveitingarinnar og skort á rökstuðningi fyrir ákvörðun. Um kæruaðild vísa kærendur til eignarhalds á landi og takmarkana á umráðarétti vegna vatnsverndar. Hvað snertir kröfu um stöðvun framkvæmda er tekið fram að hún lúti aðeins að vatnstöku leyfishafa í þágu eigin atvinnustarfsemi, en ekki að töku neysluvatns.

Leyfishafi gerir kröfu um að kæru þessari verði vísað frá úrskurðarnefndinni vegna skorts á lögvörðum hagsmunum og til vara að kröfum kærenda verði hafnað og eru færð fram nánari sjónarmið er það varðar. Varðandi kröfu um stöðvun framkvæmda er bent á að leyfishafi starfræki seiðaeldisstöð og sé upptaka og nýting á grunnvatni forsenda fyrir þeirri starfsemi. Verði hann  fyrir verulegu fjárhagslegu tjóni ef fallist yrði kröfur kærenda. Séu hagsmunir þeirra af stöðvun framkvæmda  óljósir og ósannaðir, ekkert óafturkræft tjón sé yfirvofandi þótt vatnstakan sé ekki stöðvuð og ólíklegt sé að fallist verði á kröfur þeirra í málinu.

Af hálfu Orkustofnunar er staðhæft að ekki sé teljandi hætta á því að yfirvofandi sé óafturkræft umhverfistjón sem ónýta muni þá vatnstöku er um ræðir, en engin gögn hafi verið lögð fram sem styðja mundu það. Þvert á móti sé umrætt vatnshlot og næsta nágrenni þess afar vel rannsakað. Um þetta sé einnig vísað til álits Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar, þar sem segi að ólíklegt sé að aukin vatnsvinnsla komi til með að hafa neikvæð áhrif á grunnvatn sem nokkru nemi, að því gefnu að eftirlit tryggi að ekki raskist jafnvægi á milli ferskvatnsvinnslu og saltvatnsvinnslu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið sé til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan sé sú að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir frestun framkvæmda kærðrar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra beri þröngt. Verða því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um stöðvun framkvæmda.

Tekið er fram í athugasemdum um 5. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 130/2011 að ákvæði greinarinnar byggist á almennum reglum stjórnsýsluréttar um réttaráhrif kæru og heimild úrskurðaraðila til að fresta réttaráhrifum ákvörðunar, sbr. 29. gr. stjórnsýslulaga. Í athugasemdum með þeirri grein í frumvarpi til stjórnsýslulaga er tiltekið að heimild til frestunar réttaráhrifa þyki nauðsynleg þar sem kæruheimild geti ella orðið þýðingarlaus. Þar kemur einnig fram að almennt mæli það á móti því að réttaráhrifum ákvörðunar sé frestað ef fleiri en einn aðili sé að máli og þeir eigi gagnstæðra hagsmuna að gæta. Það mæli hins vegar með því að fresta réttaráhrifum ákvörðunar ef aðili máls sé aðeins einn og ákvörðun sé íþyngjandi fyrir hann, valdi honum t.d. tjóni. Þetta sjónarmið vegi sérstaklega þungt í þeim tilvikum þar sem erfitt yrði að ráða bót á tjóninu enda þótt ákvörðunin yrði síðar felld úr gildi af æðra stjórnvaldi.

Mál þetta snýst um gildi leyfis til töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn og hafa verið færð fram sjónarmið af hálfu leyfishafa um að stöðvun framkvæmda mundi valda honum tjóni. Þá er sýnt að hagsmunir málsaðila eru ólíkir, en tekið skal um leið fram að nefndin hefur ekki tekið afstöðu til kæruaðildar kærenda. Að þessu virtu og þegar litið er til framangreindra lagaákvæða og hagsmuna kærenda, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu um stöðvun framkvæmda. Verður kröfu kærenda þess efnis því hafnað, en frekari framkvæmdir eru á áhættu leyfishafa um úrslit málsins.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda við töku grunnvatns til fiskeldis og fyrir neysluvatn á tilgreindu svæði við Vogavík, Sveitarfélaginu Vogum, samkvæmt hinni kærðu ákvörðun.