Árið 2022, fimmtudaginn 1. desember 2022, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Borgartúni 21, Reykjavík. Mætt voru Arnór Snæbjörnsson formaður og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor. Geir Oddsson auðlindafræðingur tók þátt í fundi nefndarinnar í gegnum fjarfundabúnað.
Fyrir var tekið mál nr. 80/2022 kæra á ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 24. júlí 2022, kærir eigandi Efri-Tungu II og helmings hlutar í Efri-Tungu, þá ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022, að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og breytingu á hvíldartíma. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að úrskurðarnefndin taki nýja ákvörðun þess efnis að synja umsókn leyfishafa um breytingu á rekstrarleyfi. Til vara er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þess var jafnframt krafist að yfirvofandi framkvæmdir yrðu stöðvaðar á meðan málið væri til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Með úrskurði uppkveðnum 25. ágúst 2022 var þeirri kröfu kæranda hafnað.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Matvælastofnun 26. júlí 2022.
Málavextir: Skipulagsstofnun barst tilkynning 16. október 2020 frá Arctic Sea Farm ehf. og Fjarðalaxi ehf. um fyrirhugaða breytingu á eldissvæðum þeirra í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 6. gr. þágildandi laga nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Í breytingunni fólst tilfærsla á þremur eldissvæðum auk nýs eldissvæðis er nefnt var Háanes og mun liggja beint út af Örlygshöfn. Sömu félög sendu tilkynningu til Skipulagsstofnunar 11. maí 2021 um fyrirhugaða breytingu á hvíldartíma á eldissvæðum þeirra til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. áðurnefnda 6. gr. laga nr. 106/2000. Þá tilkynnti Arctic Sea Farm 16. september 2021 um breytt fyrirkomulag á eldissvæðum þess í Patreksfirði. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu framangreindra tilkynntra breytinga lá fyrir 8. nóvember s.á. Var niðurstaða stofnunarinnar sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hinn 12. desember s.á. kærði kærandi þá ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, sbr. kærumál nr. 180/2021, en kröfu hans um ógildingu ákvörðunarinnar var hafnað með úrskurði uppkveðnum 12. september 2022.
Skipulagsstofnun barst tilkynning 14. janúar 2022 vegna fyrirhugaðrar notkunar ásætuvarna í sjókvíaeldi Arctic Sea Farm í Patreksfirði og Tálknafirði til ákvörðunar um matsskyldu framkvæmdanna, sbr. 19. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana. Ákvörðun Skipulagsstofnunar um matsskyldu lá fyrir 31. mars 2022, en niðurstaða stofnunarinnar var sú að á grundvelli fyrirliggjandi gagna væri framkvæmdin ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Var sú ákvörðun einnig kærð til úrskurðarnefndarinnar, en í kærumáli nr. 41/2022 var kröfu um ógildingu hennar hafnað með úrskurði uppkveðnum 29. september 2022.
Hinn 20. apríl 2022 birti Matvælastofnun á heimasíðu sinni tillögu að breytingu á rekstrarleyfi Arctic Sea Farm fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og hvíldartíma. Kom kærandi að athugasemdum vegna tillögunnar. Hinn 15. júlí 2022 gaf Matvælastofnun út breytt rekstrarleyfi í samræmi við auglýsta tillögu.
Málsrök kæranda: Kærandi vísar til þess að hin kærða ákvörðun lúti að því að heimila Arctic Sea Farm ehf. að stunda sjókvíaeldi laxfiska 400 m utan við netlög fasteignar kæranda. Jörðin Efri-Tunga njóti umfangsmikillar verndar á grundvelli 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd, en þar að auki sé æðarvarp meðal hlunninda jarðarinnar. Hagsmunir kæranda byggi á því að jörðin verði ekki fyrir tjóni vegna umhverfisáhrifa sem leiði af breytingum rekstrarleyfisins. Eigi hann því beinna, verulegra, sérstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af úrlausn málsins og uppfylli því skilyrði kæruaðildar skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.
Byggt sé á því að skort hafi á það í umsókn um breytingar á eldissvæði að framvísað væri heimildum til hagnýtingar þess særýmis sem stækkun eldissvæðisins taki til. Af þeim sökum hafi Matvælastofnun farið út fyrir valdmörk sín, en skylt hefði verið að krefjast gagna um að gætt hefði verið þeirrar málsmeðferðar sem geti í 4. gr. a. í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi, sbr. 3. gr. laga nr. 101/2019, þar sem kveðið sé á um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra.
Með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengist fiskeldi, hafi verið mælt fyrir um lagaskilaákvæði sem orðið hafi að ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008. Ákvæðið hljóði svo: „Um meðferð og afgreiðslu umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem hafa verið metin til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, er lokið fyrir gildistöku þessa ákvæðis eða frummatsskýrslu hefur verið skilað fyrir gildistöku þessa ákvæðis til Skipulagsstofnunar skv. 9. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum, fer eftir eldri ákvæðum laganna.“ Núverandi starfsemi leyfishafa byggi á umsóknum sem hafi haldið gildi sínu vegna þessa ákvæðis.
Í nefndaráliti meiri hluta atvinnuveganefndar eftir 1. umræðu á Alþingi hafi komið fram að bráðabirgðaákvæðið lyti að því „hvernig fara skuli með umsóknir sem þegar liggja fyrir um rekstrarleyfi til fiskeldis.“ Auk þess komi fram að með gagnályktun frá ákvæðinu sé ljóst að um „umsóknir sem berast eftir gildistöku laganna á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols fer samkvæmt þeirri málsmeðferð sem mælt er fyrir í lögunum og því á úthlutunarregla 4. gr. a við um þau svæði og þau svæði sem ekki hafa verið metin til burðarþols.“ Sambærilegar athugasemdir hafi verið í nefndaráliti með breytingartillögu eftir 2. umræðu.
Með lögum nr. 101/2019 hafi verið innleidd í lög um fiskeldi nýtt ákvæði um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, auglýsingu og úthlutun þeirra, sbr. 4. gr. a. laganna. Ákvæðið geri ráð fyrir að til þess að taka í notkun ný eldissvæði þurfi framkvæmdaraðili fyrst að afla sér réttar yfir viðkomandi hafsvæði, síðan óska eftir áliti Skipulagsstofnunar um hvort viðkomandi framkvæmd þyrfti að undirgangast mat á umhverfisáhrifum og að lokum sækja um rekstrarleyfi til Matvælastofnunar. Fái sá skilningur stoð í almennum athugasemdum frumvarps því er orðið hafi að lögum nr. 101/2019. Jafnframt sé ljóst að málsmeðferð 4. gr. a. eigi við hvort sem um sé að ræða nýtt eldissvæði eða breytingar á þegar úthlutuðu svæði og sé allur vafi um það atriði tekinn af í athugasemdum við 3. gr. frumvarps þess sem orðið hafi að lögum nr. 101/2019.
Í 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi sé fjallað um breytingar á gildandi rekstrarleyfum til fiskeldis. Í 1. mgr. greinarinnar komi fram að Matvælastofnun sé heimilt að fenginni viðhlítandi umsókn að gera breytingar á eldistegundum, staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma. Ákvörðunarvald um þessa þætti sé þó ekki undir stofnuninni komið heldur þurfi atbeina annarra stjórnvalda eftir því í hverju breytingarnar felist hverju sinni. Breyting á staðsetningu eldissvæðis þurfi þannig að byggja á því að Hafrannsóknastofnun hafi skilgreint viðkomandi svæði sem eldissvæði og umsækjandi hafi fengið hinu breytta svæði úthlutað á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 71/2008, sbr. 1. tl. 2. mgr. 13. g. reglugerðar nr. 540/2020. Engin gögn þar að lútandi hafi fylgt umsókn leyfishafa og því hafi Matvælastofnun borið að hafna umsókninni, sbr. 9. gr. laga nr. 71/2008. Með því að fallast á stækkun eldissvæðis við Kvígindisdal hafi stofnunin farið út fyrir valdmörk sín.
Breytingin á eldissvæðinu við Kvígindisdal feli í raun í sér úthlutun á nýju svæði til viðbótar við önnur eldissvæði leyfishafa. Upphaflega hafi leyfishafi sótt um stækkun svæðisins við Kvígindisdal auk nýs svæðis við Tungurif. Vegna matsskyldufyrirspurnar hafi Skipulagsstofnun bent á að úthlutun nýs eldissvæðis væri utan valdmarka stofnunarinnar, en hafi talið sér heimilt að taka til matsskylduákvörðunar tillögu um stækkun sem næði yfir bæði svæðin. Í kjölfarið hafi leyfishafi sótt um eina stækkun á eldissvæðinu við Kvígindisdal sem næði til beggja svæða og alls særýmisins þar á milli. Í athugasemdum leyfishafa við kæru kæranda í máli nr. 180/2021 segi að breytingin sé „eingöngu til þess fallin að koma auka kvíum fyrir og það á sama stað og ef um auka eldissvæði væri að ræða.“ Af þessu megi skýrlega ráða að umsókn leyfishafa um gríðarstóra stækkun á eldissvæði, þegar ófært hafi verið að óska eftir nýju svæði, hafi í raun hvort tveggja verið umsókn um stækkun á fyrra svæði og umsókn um nýtt eldissvæði sem ávallt yrðu aðskilin innbyrðis af grynningum sem geri særýmið milli svæðanna ótækt til fiskiræktar. Bersýnilegt sé að Matvælastofnun hafi ekki haft heimild að lögum til töku slíkrar ákvörðunar. Stofnunin hafi því farið út fyrir valdmörk sín og um leið brotið gegn lögmætisreglunni og hinni almennu efnisreglu stjórnsýsluréttar um bann við misbeitingu valds á leiðum til úrlausnar máls.
Þá sé á því byggt að hin kærða ákvörðun byggi á ógildum matsskylduákvörðunum Skipulagsstofnunar.
Málsrök Matvælastofnunar: Matvælastofnun gerir kröfu um frávísun málsins þar sem skorti lögvarða hagsmuni, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Af fyrri úrskurðum nefndarinnar sé ljóst að nálægð ein og sér geti tæplega verið grundvöllur kæruaðildar, sbr. úrskurð í máli nr. 3/2020. Einnig sé rétt að benda á niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-100/2020, en úrskurðurinn hafi verið staðfestur af Landsrétti, sbr. mál nr. 174/2021. Stofnunin fái ekki séð að jörðin Efri-Tunga hafi verið færð inn í náttúruminjaskrá í samræmi við lög nr. 60/2013 um náttúrvernd auk þess sem bent sé á að starfsemin verði í meira en 250 m frá helgunarsvæði æðarvarps, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 252/1996 um friðun tiltekinna villtra fuglategunda, friðlýsingu æðarvarps, fuglamerkingar, hamskurð o.fl. Vart verði séð að hin kærða ákvörðun Matvælastofnunar hafi nein áhrif á hagsmuni kæranda sem nokkru nemi umfram þá hagsmuni sem almennir teljist.
Með lögum nr. 101/2019 hafi verið gerðar umfangsmiklar breytingar á lögum nr. 71/2008 um fiskeldi. Fyrirkomulagi úthlutunar eldissvæða hafi verið breytt í þá veru að eldissvæði skyldu fyrst burðarþolsmetin og áhættumetin með tilliti til erfðablöndunar, þeim skipt á grundvelli tillögu Hafrannsóknastofnunar og loks auglýst opinberlega til úthlutunar. Þær breytingar hafi ekki enn raungerst í stjórnsýsluframkvæmd vegna ákvæðis II til bráðabirgða í lögum um fiskeldi sem kveði á um að meðferð og afgreiðsla umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem metin hafa verið til burðarþols og þar sem málsmeðferð samkvæmt lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum sé lokið fyrir gildistöku ákvæðisins eða frummatsskýrslu skilað fyrir gildistöku þess ákvæðis til Skipulagsstofnunar fari eftir eldri ákvæðum laganna. Hið kærða rekstrarleyfi hafi verið gefið út í samræmi við bráðabirgðaákvæðið.
Það hafi ekki verið ætlun löggjafans að ráðast í skiptingar á svæðum sem þegar væru í nýtingu, þ.m.t. í Patreksfirði. Í kæru séu rakin ummæli í nefndarálitum, en þar sé vissulegt nefnt að úthlutunarregla samkvæmt breytingalögum nr. 101/2019 eigi einnig við þau hafsvæði sem ekki séu nýtt á grundvelli burðarþolsmats. Þar sé hins vegar svo að Patreksfjörður teljist vera fullnýtt sjókvíaeldissvæði m.t.t. útgefins burðarþolsmats og áhættumats erfðablöndunar. Breyting á rekstrarleyfi kæranda feli ekki í sér úthlutun á frekari réttindum og þar af leiðandi sé ekki gengið á möguleika nokkurs aðila til uppbyggingar á fiskeldi í firðinum. Tilgangur þess sé að bæta rekstrarskilyrði þegar útgefins leyfis sem samræmist markmiði laga um fiskeldi, sbr. 1. gr. þeirra laga.
Í kæru sé vísað til 1. tl. 2. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 540/2012 um fiskeldi þar sem kveðið sé á um að í umsókn um breytingu á rekstrarleyfi skuli tiltaka hvort hún sé í samræmi við margnefnda skiptingu Hafrannsóknastofnunar í eldissvæði. Reglugerðin taki ekki til málsmeðferðar vegna umsókna leyfishafa vegna gildistökuákvæðis 64. gr. reglugerðarinnar. Efnislega fari um meðferð umsóknar um breytingu á rekstrarleyfinu eftir ákvæðum eldri reglugerðar nr. 1170/2015.
Athugasemdir leyfishafa: Af hálfu leyfishafa er þess krafist að sá hluti kröfugerðar kæranda þar sem þess er krafist að úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála taki nýja ákvörðun um synjun umsóknar leyfishafa verði vísað frá. Lesa megi úr stjórnsýsluframkvæmd úrskurðarnefndarinnar að nefndin taki almennt ekki nýjar efnisákvarðanir í málum sem bornar séu undir hana. Þá sé þess krafist að kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar verði hafnað.
Málsmeðferð Matvælastofnunar hafi verið vönduð og að öllu leyti í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og sérlaga sem um stofnunina gildi. Stofnunin hafi auglýst tillögu að breyttu rekstrarleyfi en við þá málsmeðferð hafi ein athugasemd borist og hafi hún verið frá kæranda. Í greinargerð hinnar kærðu ákvörðunar séu athugasemdir kæranda raktar sem og rökstuðningur Matvælastofnunar, þar sem sjónarmið kæranda séu hrakin. Gætt hafi verið að andmælarétti og áhrif breytinganna rannsökuð til hlítar. Hvorki séu form- né efniságallar á hinni kærðu ákvörðun.
Krafa kæranda sé reist á þeim forsendum að tilfærsla á staðsetningu fiskeldis leyfishafa í Patreksfirði feli í raun í sér úthlutun á nýju eldissvæði á grundvelli 4. gr. a. laga nr. 71/2008 um fiskeldi og að breyting á tilhögun úthlutunar hafsvæða til fiskeldis sem tekin hafi verið upp með lögum nr. 101/2019, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, eigi við um öll hafsvæði sem tekin verði undir fiskeldi eftir gildistöku laganna. Báðar forsendurnar séu rangar. Fyrir það fyrsta feli hin kærða ákvörðun ekki í sér aukningu á framleiðslu eldisfisks og þegar af þeirri ástæðu geti ekki falist í breytingunni „úthlutun eldissvæðis“ eins og það hugtak sé skilgreint í áðurnefndri 4. gr. a., en augljóst sé af ákvæðinu að þar sé fjallað um aðferð við úthlutun á heimildum til að ala tiltekið magn eldisfisks á skilgreindu eldissvæði. Ákvæðið eigi ekki við um breytta staðsetningu.
Í þeim nefndarálitum atvinnuveganefndar sem kærandi vísi til sé vikið að nýjum umsóknum sem bærust eftir gildistöku laga nr. 101/2019 á hafsvæðum sem þá hefðu verið metin til burðarþols. Segir í báðum nefndarálitum að gagnályktun frá ákvæðinu leiði til þess að um slíkar úthlutanir fari samkvæmt 4. gr. a. laga nr. 71/2008. Engin slík regla komi þó fram í ákvæðinu sjálfu. Þá sé bent á að umfjöllunin lúti að nýjum umsóknum um eldi á lífmassa sem ekki hafi verið úthlutað með rekstrarleyfi, en ekki breytingar á gildandi leyfum. Hvað sem líði þýðingu framangreindra ummæla í álitum atvinnuveganefndar sé ljóst að sú regla, sem nefndin taldi eiga við með gagnályktun frá bráðabirgðaákvæði II og kærandi byggi á, eigi ekki við í dag. Löggjafinn hafi breytt lögum um fiskeldi með breytingalögum nr. 59/2021 og tekið þar af öll tvímæli um hvaða reglur gildi um útgáfu nýrra rekstrarleyfa á hafsvæðum sem metin hafi verið til burðarþols þegar breytingalög nr. 101/2019 hafi tekið gildi, sbr. bráðabirgðaákvæði IX í lögum um fiskeldi.
Hafsvæðið sem breytingin taki til sé hið sama og hafsvæðið sem núverandi starfsemi sé á að því leyti að þar gildi sama burðarþolsmat, það teljist til sama „fiskeldissvæðis“ og sama „sjókvíaeldissvæðis“, eins og þau hugtök séu skilgreind og notuð í lögum nr. 71/2008. Engar reglur mæli fyrir um að ekki megi stækka það svæði þar sem heimilað sé að stunda fiskeldi með breytingu á rekstrarleyfi. Stærð svæðisins, lögun og staðsetning innan viðkomandi hafsvæðis ráðist alfarið af þeim sjónarmiðum sem kveðið sé á um í lögum um fiskeldi og gildandi reglugerðum, sem fyrst og fremst lúti að því að lágmarka umhverfisáhrif og tryggja velferð eldisdýra. Ítarlegar og áralangar rannsóknir hafi sýnt að hin breytta staðsetning sé til þess fallin, jafnvel þó það feli í sér að stærri hafflötur sé tekinn undir starfsemi leyfishafa. Það eitt og sér geti aldrei leitt til ógildingar ákvörðunarinnar.
Viðbótarathugasemdir kæranda: Kærandi gerir athugasemd við að Matvælastofnun krefjist tiltekinna málsúrslita. Aðilar að stjórnsýslumáli eigi almennt rétt á gera kröfu um málsúrslit en stjórnvald sem taki ákvörðun í máli sé ekki talinn aðili máls. Matvælastofnun hafi því engan rétt til að gera kröfu í málinu. Umsögn stofnunarinnar beri ekki með sér það hlutleysi sem stjórnsýslulög, sannleiksregla stjórnsýsluréttar og aðrar almennar efnisreglur stjórnsýsluréttarins leggi á stjórnvöld, þ.e. að gæta hlutleysis í málum og leita hinnar réttu lagalegu niðurstöðu. Vegna þeirra ummæla stofnunarinnar að ekki verði séð að jörðin Efri-Tunga hafi verið færð í náttúruminjaskrá sé bent á að leirurnar í Hafnarvaðli og skeljasandsfjörur Tungurifs, sem séu hluti af jörðinni Efri-Tunga, hafi verið færð í náttúruminjaskrá undir svæði nr. 308 og njóti því verndar skv. 61. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd. Ummælin stafi annað hvort af þekkingarleysi eða vítaverðri vankunnáttu.
Matvælastofnun telji að meðferð umsóknar leyfishafa eigi að fara eftir eldri reglugerð um fiskeldi nr. 1170/2015 vegna gildistökuákvæðis 64. gr. reglugerðar nr. 540/2020 um sama efni. Hér þurfi að líta til lögmætisreglu og reglna um rétthæð réttarheimilda. Þegar réttarheimildum af mismunandi rétthæð lýsti saman ráði rétthæð þeirra hvernig með skuli fara. Gildistökuákvæði reglugerðar nr. 540/2020 þurfi því að túlka með hliðsjón af bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 71/2008 um fiskeldi.
Því sé andmælt að úrskurðarnefndin hafi ekki valdheimild til að taka nýja ákvörðun. Niðurstaða kærumáls hjá æðra stjórnvaldi eða úrskurðarnefnd geti verið frávísun, staðfesting, ógilding, breyting eða heimvísun. Ekkert í lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála bendi til þess að einhver sérsjónarmið gildi um valdmörk nefndarinnar.
Leyfishafi haldi því fram að í greinargerð Matvælastofnunar með hinni kærðu ákvörðun hafi athugasemdir kæranda verið hraktar. Þær athugasemdir hafi að mestu lotið að fyrirsjáanlegum áhrifum hins nýja eldissvæðis á Örlygshafnarsvæðið. Engar rannsóknir eða umsagnir liggi fyrir sem lúti að þeim þáttum sem kærandi hafi bent á. Eina gagnið sem tengist beint áhrifum sjókvíaeldisins á umrætt svæði sé umsögn Hafrannsóknastofnunar, dags. 9. júní 2022, varðandi fyrirspurn um hvort villtir stofnar laxfiska með sjálfbæra nýtingu væru í Örlygshöfn, en þar sé ekki að finna neitt mat á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis á svæðið.
Leyfishafi dragi þá ályktun af almennum athugasemdum í frumvarpi því er varð að lögum nr. 101/2019 að úthlutunarregla 4. gr. a. í lögum um fiskeldi taki aðeins til hafsvæða sem ekki hefðu verið burðarþolsmetin við gildistöku laganna. Sú ályktun sé án tengingar við texta bráðabirgðaákvæðisins og gangi gegn því. Ákvæðið feli í sér undantekningu frá þeirri meginreglu að stjórnvaldsákvörðun skuli lúta málsmeðferð samkvæmt gildandi rétti og beri því að túlka það þröngt. Reglan feli eingöngu í sér að tilteknar umsóknir sem hafi verið komnar á tiltekið stig málsmeðferðar við gildistöku breytingalaga nr. 101/2019 skyldu hljóta málsmeðferð samkvæmt eldri ákvæðum laganna. Ákvæðið geti ekki haft þá þýðingu að rekstrarleyfin sjálf og breytingar á þeim yrðu föst í eldra lagaumhverfi um ókomna tíð.
Bráðabirgðaákvæði III fjalli um þær aðstæður þegar rekstrarleyfi, byggt á umsókn sem hlotið hafi málsmeðferð eldri ákvæða laganna, sé fellt úr gildi vegna annmarka í málsmeðferð þeirrar tilteknu umsóknar. Eðli málsins samkvæmt eigi í slíkum tilvikum að endurupptaka málið á sömu forsendum og verið hafi til staðar í fyrri málsmeðferð. Reglan sé sanngjörn og skynsamleg en hafi ekki réttaráhrif út fyrir orðanna hljóðan.
Bráðabirgðaákvæði IX í lögum nr. 71/2008, sem bætt hafi verið við lögin með lögum nr. 59/2021, hafi verið sett til að mögulegt væri að fullnýta gildandi burðarþolsmat á tilteknum svæðum. Þar sem Hafrannsóknastofnun hafi ekki verið búin að afmarka eldissvæði, sbr. 1. mgr. 4. gr. a. laga nr. 71/2008, hafi ekki verið mögulegt að nýta þessar heimildir með því að úthluta nýjum eldissvæðum á grundvelli ákvæðisins. Ekkert í frumvarpinu eða hinum endanlega texta ákvæðisins mæli fyrir um að eldissvæði í Patreksfirði skuli fara eftir öðrum reglum en gildandi rétti hverju sinni.
Ljóst sé hver afstaða löggjafans hafi verið með hinum umdeildu lagaskilum og ítreki kærandi þau ummæli sem finna megi í nefndaráliti atvinnuveganefndar sem athugasemdir við 3. gr. í frumvarpi því er orðið hafi að lögum nr. 101/2019. Við túlkun lagaskilareglnanna beri að líta til markmiðs og tilgangs laganna, en lög nr. 101/2019 hafi verið sett með þann tilgang í forgangi að koma á nýju úthlutunarkerfi sjókvíaeldissvæða.
Gera verði greinarmun á þeim tilvikum þegar sótt sé um ný rekstrarleyfi annars vegar og þegar sótt sé um breytingu á gildandi rekstrarleyfi hins vegar. Bent sé á að samkvæmt skilgreiningu 5. tl. 3. gr. laga nr. 71/2008 sé eldissvæði skilgreint sem svæði þar sem fiskeldi sé leyft og afmarkað með sérstökum hnitum. Ef Matvælastofnun væri heimilt að gera breytingu á eldissvæði rekstrarleyfa án þess að fyrir lægi heimild frá ráðherra fyrir breyttu eldissvæði þá yrði tilgangur laga nr. 101/2019 hafður að engu, réttaráhrif 4. gr. a. myndu falla niður og engir rekstrarleyfishafar yrðu bundnir af hinu nýja úthlutunarkerfi.
Í kæru sé byggt á því að ákvörðun Matvælastofnunar hafi falið í sér hvort tveggja breytingu á eldissvæði og úthlutun nýs eldissvæðis. Hafi Matvælastofnun ekki haft heimild til að úthluta viðbótar eldissvæði vestan við grynningarinnar við Hafnarmúla, í mynni Örlygshafnar, hafi stofnuninni bersýnilega ekki verið heimilt að úthluta til leyfishafa risastóru eldissvæði sem náði til svæðis beggja megin við grynningarnar. Að fella ónothæft svæði fyrir sjókvíaeldi undir eldissvæði til þess eins að komast hjá flóknari málsmeðferð brjóti skýrlega gegn almennri efnisreglu stjórnsýsluréttar um bann við misbeitingu valds á leið til úrlausnar máls.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar staðsetningu eldissvæða og breytingu á hvíldartíma.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til úrskurðarnefndarinnar sem eiga lögvarinna hagsmuna að gæta nema í undantekningartilvikum sem þar eru greind. Verður að skýra þetta ákvæði í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins um aðild að kærumálum þar sem áskilið er að kærandi eigi einstaklingsbundinna hagsmuna að gæta af úrlausn máls umfram aðra og jafnframt að þeir hagsmunir séu verulegir. Almennt ber að gæta varfærni við að vísa frá málum á þeim grunni að kæranda skorti lögvarða hagsmuni tengda kærðri ákvörðun nema augljóst sé að það hafi ekki raunhæfa þýðingu fyrir lögvarða hagsmuni þeirra að fá leyst úr þeim ágreiningi sem stendur að baki kærumálinu.
Kærandi er eigandi jarðarinnar Efri-Tungu II og helmings hlutar í jörðinni Efri-Tungu, en báðar jarðirnar eru í Örlygshöfn í Patreksfirði. Hin kærða ákvörðun lýtur m.a. að breytingu á staðsetningu eldissvæðis framkvæmdaraðilans Arctic Sea Farm ehf. við Kvígindisdal, en með þeirri breytingu munu eldiskvíar verða staðsettar út af Örlygshöfn. Vegna nándar landareigna kæranda við það eldissvæði og með hliðsjón af hinum sérstöku landfræðilegu aðstæðum á svæðinu, þ.m.t. vegna sjónrænna áhrifa, er ekki hægt að útiloka að kærandi verði fyrir áhrifum af sjókvíaeldinu umfram aðra. Að virtum framangreindum sjónarmiðum um aðild að kærumálum verður kærandi því talinn eiga þá lögvörðu hagsmuni sem krafist er skv. 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011.
_ _
Í kæru eru færð þau rök fram að matsskylduákvarðanir Skipulagsstofnunar frá 8. nóvember 2021 um breytta staðsetningu eldiskvía og hvíldartíma og frá 31. mars 2022 um heimild til notkunar ásætuvarna, séu haldnar ógildingarannmörkum. Kröfu um ógildingu þessara ákvarðana var hafnað í úrskurðum nefndarinnar uppkveðnum 12. september 2022 og 29. s.m. í kærumálum nr. 180/2021 og 41/2022. Verður þessum sjónarmiðum því hafnað.
_ _
Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála er markmið þeirra að vernda vatn og vistkerfi þess, hindra frekari rýrnun vatnsgæða og bæta ástand vatnavistkerfa til þess að vatn njóti heildstæðrar verndar. Jafnframt er lögunum ætlað að stuðla að sjálfbærri nýtingu vatns og langtímavernd vatnsauðlindarinnar. Mat á yfirborðsvatnshloti skal byggjast á fyrirliggjandi gögnum hverju sinni og taka fyrir hverja vatnshlotsgerð mið af skilgreindum líffræðilegum gæðaþáttum auk vatnsformfræðilegra og efna- og eðlisefnafræðilegra þátta eftir því sem við á. Umhverfismarkmið eru skilgreind eftir gerðum vatnshlota og skulu vera samanburðarhæf, sbr. 11. gr. laganna.
Í vatnavefsjá Umhverfisstofnunnar, sem Veðurstofan rekur, kemur fram að Patreksfjörður og Tálknafjörður séu sérstök vatnshlot strandsjávar. Fram kemur að bæði vistfræðilegt og efnafræðilegt ástand fjarðarins sé óflokkað.
Samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 15. gr. laga um stjórn vatnamála, skyldi ná umhverfismarkmiðum samkvæmt 11. gr. laganna eigi síðar en sex árum eftir að fyrsta vatnaáætlunin hefði verið staðfest og var gefinn frestur til þess, í ákvæði til bráðabirgða við lögin, að setja hana til 1. janúar 2018. Það dróst nokkuð uns vatnaáætlun var staðfest þann 4. apríl 2022 sem tekur til áranna 2022–2027. Þar eru upplýsingar um stöðu skilgreindra vatnshlota ásamt því að þar eru sett umhverfismarkmið fyrir þau og gerð áætlun um nauðsynlegar verndaraðgerðir til þess að ná eða viðhalda góðu ástandi einstakra vatnshlota.
Í vatnaáætluninni er um viðmiðunarmörk fyrir ástand strandsjávar vísað til skýrslunnar Gæðaþættir og viðmiðunaraðstæður strandsjávarvatnshlota sem Hafrannsóknastofnun gerði á árinu 2019. Með þeirri skýrslu eru prentuð bréfaskipti milli Hafrannsóknastofnunnar og Umhverfisstofnunnar vegna undirbúnings fyrstu vatnaáætlunar. Fjallað er um stöðu þekkingar og lagt til að nota fyrst og fremst styrk næringarefna til að skilgreina mörkin milli góðs ástands strandsjávar og ekki viðunandi ástands. Um leið verði beitt sérfræðimati vegna annarra þátta, þar sem þess verði þörf. Fram kemur að á þeim tíma hafi ekki verið hægt að búa til fimm flokka vistfræðilega ástandsflokkun á öllum gæðaþáttum þar sem nær öll gögn sem fyrirliggjandi væru kæmu frá vatnshlotum þar sem álag væri lítið.
Ákvæði laga nr. 71/2008 um fiskeldi sem varða burðarþol eru nátengd lögum um stjórn vatnamála. Í 6. mgr. 10. gr. laga um fiskeldi segir að Matvælastofnun skuli hafna útgáfu rekstrarleyfis til sjókvíaeldis sem feli í sér meiri framleiðslu en viðkomandi sjókvíaeldissvæði þolir samkvæmt burðarþolsmati. Mat á burðarþoli er skilgreint sem mat á þoli fjarða eða afmarkaðra hafsvæða til að taka á móti auknu lífrænu álagi án þess að það hafi óæskileg áhrif á lífríkið þannig að viðkomandi vatnshlot uppfylli umhverfismarkmið sem sett eru samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þar segir ennfremur að hluti burðarþolsmats sé að meta óæskileg staðbundin áhrif af eldisstarfsemi. Burðarþolsmat skal framkvæmt af Hafrannsóknastofnun eða aðila sem ráðuneytið samþykkir, að fenginni bindandi umsögn stofnunarinnar. Hafrannsóknastofnun skal vakta lífrænt álag þeirra svæða sem þegar hafa verið metin til burðarþols og endurskoða matið svo oft sem þurfa þykir að mati stofnunarinnar. Skylt er að endurskoða rekstrarleyfi fiskeldis sé burðarþolsmat lækkað, sbr. 6. gr. b í lögum um fiskeldi.
Á vefsíðu Hafrannsóknastofnunar má nálgast fyrirliggjandi burðarþolsmat Patreksfjarðar og Tálknafjarðar m.t.t. sjókvíaeldis sem síðast var endurskoðað í febrúar 2022. Þar segir að forsendur mats á burðarþoli séu reiknaðar með umhverfislíkani sem byggi á mati á áhrifum eldisins á gæðaþætti strandsjávarvatnshlota, sbr. reglugerð nr. 535/2011 um flokkun vatnshlota, eiginleika þeirra, álagsgreiningu og vöktun. Horft sé sérstaklega til eðlisefnafræðilegra gæðaþátta, svo sem súrefnisstyrks og styrks næringarefna, og líffræðilegra gæðaþátta, svo sem botndýra. Einkum sé það álag á hafsbotn og áhrif þess á lífríki botns nærri eldissvæðum sem hafi rík áhrif á mat á burðarþoli. Með tilliti til stærðar fjarðanna og varúðarnálgunar varðandi raunveruleg áhrif eldisins einkum á botndýralíf og súrefnisstyrk telur Hafrannsóknastofnun að hægt sé að leyfa allt að 20 þúsund tonna eldi í Patreksfirði og Tálknafirði á ári. Gert er ráð fyrir að heildarlífmassi verði aldrei meiri en 20 þúsund tonn og að nákvæm vöktun á áhrifum eldisins fari fram samhliða því. Slík vöktun yrði forsenda fyrir hugsanlegu endurmati á burðarþoli fjarðarins, til hækkunar eða lækkunar, sem byggt yrði á raungögnum. Jafnframt er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í fjörðunum en innar.
Í skýrslu óháðrar nefndar þriggja sérfræðinga um athugun á aðferðafræði, áhættumati og greiningum á fiskeldisburðarþoli á vegum Hafrannsóknastofnunar, sem prentuð var á 150. löggjafarþingi (þskj. 2029) og er dagsett 21. maí 2020, eru athugasemdir sem benda má á til nánari skýringar. Þar segir að skilja ætti „burðarþol“ samkvæmt áætlun Hafrannsóknastofnunar, einungis sem efri mörk sem byggi á takmörkuðum fjölda viðmiða sem tengist lífrænu álagi, þ.e. súrefni, stöðu næringarefna og vistfræði sjávarbotnsins. Áætlað burðarþol teljist vera sá hámarkslífmassi sem haldi áhrifunum á botnvistkerfi, súrefnisstigi og uppsöfnun næringarefna neðan við viðmiðunarmörk. Í athugasemdum Hafrannsóknastofnunnar í skýrslunni er tekið undir þetta og segir þar að stofnunin hafi horft til þess að halda öllum þessum þáttum innan tilgreindra marka þeirra.
Í nóvember 2022 birti Hafrannsóknastofnun nýja skýrslu, „Vistfræðileg viðmið við ástandsflokkun strandsjávar“, sem unnin var samkvæmt samningi við Umhverfisstofnun. Ráðgert er að hagnýta skýrslu þessa við ástandsflokkun strandsjávar á Íslandi eins og kveðið sé á um í lögum um stjórn vatnamála nr. 36/2011. Eru í henni lögð fram viðmið þriggja ástandsflokka fyrir strandsjó sem lýsa mjög góðu, góðu og ekki viðunandi ástandi. Við gerð skýrslunnar var lögð áhersla á að útbúa viðmið fyrir alla líffræði‐ og eðlisefnafræðilega gæðaþætti í strandsjó sem Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að nota við ástandsflokkun í fyrsta vatnahring, á árunum 2022 til 2027.
Í gildandi burðarþolsmati fyrir Patreksfjörð er bent á að æskilegra sé að meiri eldismassi sé frekar utar í firðinum en innar. Þá hefur framkvæmdaraðili vísað til eigin mælinga á straumum. Er framkvæmdin því líkleg til að draga úr umhverfisálagi í firðinum miðað við óbreytt framleiðslumagn. Um leið verður að líta til þeirra verulegu krafna sem gerðar eru með leyfisveitingu til framkvæmdaraðila, um vöktun lífræns álags, sem byggja á forsendum um að náð sé umhverfismarkmiðum í samræmi við lög um stjórn vatnamála. Jafnframt skal bent á heimildir til að endurskoða burðarþol, svo oft sem þurfa þykir, sbr. 2. og 3. mgr. 6. gr. b. í lögum nr. 71/2008. Verður því ekki talið að skorti á fullnægjandi grundvöll að hinni kærðu ákvörðun hvað þennan þátt varðar.
_ _
Kærandi byggir kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að Matvælastofnun hafi ekki haft lagaheimild til að gera hinar kærðu breytingar á eldissvæðum í rekstrarleyfi, en skilja hefði átt umsókn leyfishafa sem beiðni um nýtt rekstrarleyfi fiskeldis, sem þá hefði borið að fara með samkvæmt 4. gr. a. laga nr. 71/2008.
Með lögum nr. 101/2019 voru gerðar ýmsar breytingar á lögum nr. 71/2008, m.a. um skiptingu hafsvæða í eldissvæði, opinbera auglýsingu svæðanna og um úthlutun þeirra samkvæmt hagstæðasta tilboði, sbr. 4. gr. a. Í b-lið 24. gr. breytingalaganna, sbr. ákvæði II til bráðabirgða í lögum nr. 71/2008, var af þessu tilefni mælt fyrir um lagaskil, þannig að kveðið var á um að um „meðferð og afgreiðslu“ umsókna um rekstrarleyfi fyrir sjókvíaeldi á hafsvæðum sem þá hefðu verið metin til burðarþols færi eftir eldri ákvæðum laganna að uppfylltum nánar tilgreindum skilyrðum. Útgáfa rekstrarleyfis leyfishafa til sjókvíaeldis í Patreksfirði og Tálknafirði hvíldi á þessum fyrirmælum.
Með téðum breytingarlögum, nr. 101/2019, var gert ráð fyrir því, svo sem segir í skýringum með þeim, að Matvælastofnun muni „breyta ákvæðum rekstrarleyfa í samræmi við breytingar á útgefnu áhættumati erfðablöndunar eða breytingar á útgefnu burðarþoli“, sem um voru settar nýjar reglur með lögunum. Á þessum grunni eru fyrirmæli í lögunum og í 10. gr., sbr. 24. gr., reglugerðar nr. 540/2020 um fiskeldi. Má til hliðsjónar einnig vísa til 2. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða við lögin, þar sem segir að gilt rekstrarleyfi á hafsvæði sem ekki er búið að meta til burðarþols haldi gildi sínu, en „skuli taka breytingum þegar burðarþolsmat hefur farið fram.“ Síðan segir: „Að öðru leyti gilda ákvæði laganna um slík rekstrarleyfi.“ Með þessu er gert ráð fyrir því að þær heimildir, sem í rekstrarleyfi felast, til að ala tiltekið magn af fiski, taki þeim breytingum sem leitt geta af lögum eða skilmálum leyfisveitingar, s.s. um breytingar á áhættumati erfðablöndunar og burðarþoli fjarðar.
Með 1. mgr. 13. gr. reglugerðar nr. 540/2020 er kveðið á um að Matvælastofnun sé heimilt, að undangenginni umsókn, að gera breytingar á rekstrarleyfi fiskeldis varðandi eldistegundir, staðsetningu eldissvæða eða hvíldartíma. Meðal skilyrða þessa eru að framkvæmdinni sé lýst nægilega, þ.m.t. hvort hún sé í samræmi við skiptingu Hafrannsóknastofnunnar í eldissvæði, en slíkri skiptingu er ekki til að dreifa í Patreksfjarðarflóa. Stendur því slík ákvörðun ekki í vegi þess að afmörkun eldissvæðis í rekstrarleyfi sé breytt til þess vegar, sem gert var með hinni kærðu ákvörðun, en svo sem segir í umsögn Matvælastofnunar telst Patreksfjörður vera fullnýtt sjókvíaeldissvæði með tilliti til útgefins burðarþols og áhættumats erfðablöndunar.
_ _
Í gildi eru lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða. Með þeim var mörkuð stefna um að sett yrði strandsvæðisskipulag á afmörkuðum svæðum við Ísland. Var tekið fram í ákvæði I. til bráðabirgða að vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum skyldi hefjast 1. september 2018. Tillaga að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði, skv. 12. gr. laganna, var auglýst 15. júní 2022. Í 3. mgr. 4. gr. a. laga um fiskeldi er heimilt að fresta afgreiðslu á leyfisumsókn hafi tillaga að standsvæðisskipulagi verið auglýst þegar umsókn var lögð fram, en svo hagar ekki til í máli þessu og því ekki skilyrði til að taka til athugunar hvort ástæða hefði verið til að fresta útgáfu hins kærða leyfis uns skipulagið öðlaðist gildi.
Á uppdrætti greindrar tillögu að strandsvæðisskipulagi fyrir Vestfirði má sjá að lega hins kærða leyfis hefur verið mörkuð sem „staðbundin nýting“ (SN), en með því er gert ráð fyrir starfsemi svo sem fiskeldi, skeldýrarækt, efnistöku og ræktun og slætti sjávargróðurs. Í greinargerð með tillögunni eru nánari ákvæði um reitinn, sem nefnist SN1 Kvígindisdalur. Þar segir m.a.: „Á skipulagsreitnum er leyfi til fiskeldis. Áformað er aukið fiskeldi innan reitsins.“ Síðar segir: „Reiturinn er að hluta innan siglingageira Ólafsvita sem hefur áhrif á fyrirkomulag búnaðar innan reitsins þar sem ekki má sigla nær jaðri sjókvíaeldisstöðva en 50 metra samkvæmt reglugerð um fiskeldi nr. 540/2020.“ Að lokum segir: „Við ákvörðun um leyfisveitingar skal leita umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga.“
Svo sem þarna kemur fram hagar svo til að hið kærða leyfi er að hluta til innan siglingageira Ólafsvita. Varðar þetta þann hluta þess sem nær til ráðgerðs nýs kvíastæðis utan Örlygshafnar. Af þessu tilefni vísast til 4. gr. laga nr. 132/1999 um vitamál, en þar segir að óheimilt sé að byggja hús eða mannvirki sem skyggt gætu á leiðarmerki frá sjónum á þeim boga sjóndeildarhringsins þar sem því er ætlað að þjóna sjófarendum, og hæfilega langt til beggja handa. Getur Vegagerðin látið rífa húsið eða mannvirkið á kostnað eiganda þess ef brotið er á móti þessu. Í sömu lagagrein segir að óheimilt sé að setja upp ljós eða önnur merki sem kynnu að villa um fyrir sjófarendum. Þá vísast einnig til 6. mgr. 10. gr. sömu laga þar sem segir að leita skuli umsagnar Samgöngustofu um legu og merkingu hvers kyns fljótandi mannvirkja á sjó, svo sem fiskeldiskvía, mælitækja í sjó og veðurdufla. Gildir þetta um öll mannvirki í sjó, einnig þau sem eru utan svæðis sem tilgreint er í 4. gr.
Nefndin leitaði upplýsinga hjá Matvælastofnun um hvort aflað hafi verið umsagnar Landhelgisgæslunnar og Samgöngustofu um staðsetningu sjókvíaeldisstöðvar og festinga samkvæmt hinu kærða leyfi. Svo var ekki samkvæmt svari stofnunarinnar. Tekið var um leið fram að umræddur ljósgeisli frá vita hafi einnig náð inn á eldissvæðið, fyrir stækkun þess, „þótt að það liggi í eðli hluta að um sé að ræða stærra svæði sem falli undir ljósgeisla með stækkun.“ Af þessu leiði, segir í bréfi stofnunarinnar, að leita þurfi lausna á því viðfangsefni að sætta saman siglingaleiðir á svæðinu og heimilaðan atvinnurekstur, óháð því hvort að umrædd breyting á rekstrarleyfi hefði verið heimiluð eður ei.
Telja verður að botnföst mannvirki í sjó, svo sem fastar fiskeldiskvíar og tengd mannvirki, fóðurprammar og/eða aðstöðuhús á flotkví teljist til mannvirkja skv. 4. gr. laga nr. 132/1999, en mannvirki á eða í hafi, vötnum og ám sem hafa fasta staðsetningu teljast til mannvirkja skv. 13. tl. 3. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010. Þá var við undirbúning hins kærða rekstrarleyfis ekki leitað álits hins sérfróða stjórnvalds, Samgöngustofu, um legu og merkingu þeirra mannvirkja, sem hér um ræðir, þrátt fyrir skýrt orðalag 6. mgr. 10. gr. laga nr. 132/1999 og þær sérstöku landfræðilegu aðstæður sem eru fyrir hendi. Í þessu fólst slíkur annmarki við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar að fella verður hana úr gildi.
Úrskurðarorð:
Felld er úr gildi ákvörðun Matvælastofnunar frá 15. júlí 2022 um að breyta rekstrarleyfi Arctic Sea Farm ehf. fyrir sjókvíaeldi í Patreksfirði og Tálknafirði að því er varðar breytta staðsetningu eldissvæðis sem kennt er við Kvígindisdal, en ákvörðun staðfest að öðru leyti.