Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

80/2021 Stórikriki

Árið 2021, fimmtudaginn 12. ágúst, tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, fyrir mál nr. 80/2021 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:

Kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Mosfellsbæjar frá 15. maí 2019 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 59 við Stórakrika.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. júní 2021, er barst nefndinni sama dag, kæra eigendur Stórakrika 57, Mosfellsbæ,  þá ákvörðun bæjarstjórnar Mosfells­bæjar frá 15. maí 2019 að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar nr. 59 við Stórakrika. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 8. júlí 2021.

Málsatvik og rök:  Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 10. maí 2019 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi Krikahverfis vegna lóðarinnar Stórakrika 59 með vísan til 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í breytingunni fólst að lóðinni yrðu breytt úr lóð fyrir einbýlishús í lóð fyrir parhús. Bæjarstjórn samþykkti þá afgreiðslu á fundi sínum 15. s.m. og var tillagan í kjölfarið auglýst til kynningar 24. júní s.á. á vefsíðu sveitarfélagsins og í Fréttablaðinu. Var athugasemdafrestur til 6. ágúst s.á. Skipulagsfulltrúi tók tillöguna fyrir á afgreiðslufundi sínum 14. s.m. og bókaði að tillagan skoðist samþykkt með vísan til þess að engar athugasemdir hafi borist, sbr. 41. gr. skipulagslaga. Auglýsing um samþykkt deiliskipulagsbreytingarinnar var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. nóvember 2019.

Kærendur telja að bæjarstjórn Mosfellsbæjar hafi við meðferð hinnar kærðu deiliskipulags-breytingar ekki gætt lögbundinna ákvæða skipulagslaga og skipulagsreglugerðar nr. 90/2013 um samráð og kynningu á skipulagsáætluninni fyrir almenning og lóðarhafa nærliggjandi lóðar. Sveitarstjórn beri að sjá til þess að þeir sem geti haft hagsmuni af breytingu á skipulagi fái tilkynningu um það á fullnægjandi hátt, t.d. með dreifibréfi. Grenndarkynna hafi átt deiliskipulagstillögunni þar sem bæjarstjórn hafi litið á breytinguna sem óverulega skv. 2. mgr. 43. gr. skipulagslaga. Þá hafi ekki verið gætt að ákvæði 3. mgr. 40. gr. skipulagslaga og gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð og því hafi ekki verið fullnægjandi að auglýsa breytinguna í Fréttablaðinu á lítt áberandi hátt. Það sé afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, sbr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en strax og kærendum hafi orðið kunnugt um deiliskipulags-breytinguna í október 2020 hafi þeir leitast við að fá sveitarfélagið til að fella  ákvörðunina úr gildi. Það að bæjarstjórn hafi ekki farið að lögum við meðferð málsins leiði til þess að veigamiklar ástæður séu fyrir hendi til að kæran verði tekin til meðferðar. Það hafi fyrst verið í tölvupósti skipulagsfulltrúa 10. mars 2021 sem kærendum hafi verið leiðbeint um að skjóta máli sínu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á frávísun málsins þar sem kærufrestur sé liðinn, sbr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Um sé að ræða ákvörðun sem sæti opinberri birtingu og hafi því kærufrestur í öllu falli liðið 13. desember 2019. Ljóst megi vera að löggjafinn hafi litið svo á að með opinberri birtingu eigi ákvörðun að vera almenningi kunn. Það myndi því skjóta skökku við ef fallist yrði á að afsakanlegt væri að kæra í máli þessu hafi ekki borist fyrr. Jafnvel þótt fallist yrði á það liggi fyrir að kærendum hafi í öllu falli verið kunnugt um ákvörðunina síðla árs 2020. Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skuli kæru ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því ákvörðun var tilkynnt aðila. Í þessu tilviki var hin kærða ákvörðun birt opinberlega 13. nóvember 2019 og því meira en ár frá því hin lögmælta opinbera birting fór fram. Þá sé því hafnað að með tölvupósti skipulagsfulltrúa 10. mars 2021 hafi kærendum verið leiðbeint um að hægt væri að kæra deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndarinnar þar sem um hafi verið að ræða leiðbeiningar um kæruheimild vegna útgáfu byggingarleyfis.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda verð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Sé um að ræða ákvörðun sem sætir opinberri birtingu telst kærufrestur frá birtingu ákvörðunar. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess að kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var birt í B-deild Stjórnartíðinda 13. nóvember 2019. Tók kærufestur því að líða 14. nóvember, sbr. 1. mgr. 8. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og mátti kærendum vera kunnugt um hina kærðu deiliskipulagsákvörðun frá opinberri birtingu hennar. Kæra í máli þessu barst 7. júní 2021, eða um 18 mánuðum eftir að kærufresti lauk. Verður því að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni samkvæmt skýrum fyrirmælum 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.