Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

112/2021 Traðarreitur eystri

Árið 2021, fimmtudaginn 22. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 112/2021, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 um að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri.

Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur

 

úrskurður

um kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa og stöðvun framkvæmda:

Með kæru sem barst úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála 5. júlí 2021 kærir íbúi að Digranesvegi 38, Kópavogi, ásamt fleiri íbúum í nágrenninu, þá ákvörðun bæjarstjórnar Kópavogsbæjar frá 24. nóvember 2020 að samþykkja nýtt deiliskipulag fyrir Traðarreit eystri sem auglýst var í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2021. Er þess krafist að hið kærða deiliskipulag verði fellt úr gildi. Krafa um að réttaráhrifum deiliskipulagsins verði frestað á meðan á málsmeðferð  fyrir nefndinni standi barst 7. júlí s.á og krafa um stöðvun framkvæmda barst 20. s.m. Verður nú tekin afstaða til síðarnefndra krafa kærenda

Málsatvik: Hinn 9. júní 2021 tók gildi breyting á deiliskipulagi fyrir Traðarreit eystri sem nánar tiltekið afmarkast af Álftröð í austur, Digranesvegi í suður, lóðarmörkum Kópavogsskóla í vestur og Hávegi í norður. Í auglýsingu í B-deildar Stjórnartíðinda kemur fram að „[s]tærð skipulagssvæðisins er um 9.000 m2 og á því standa nú 8 íbúðarhús með samtals 12 íbúðum sem byggð voru á árunum 1952 til 1955. Í deiliskipulaginu er gert ráð fyrir að byggðar verði allt að 180 íbúðir í tveggja til fjögurra hæða fjölbýlishúsum með kjallara og inndreginni þakhæð. Gert er ráð fyrir allt að 200 m2 atvinnuhúsnæði á jarðhæð með aðkomu frá Álftröð.“

Kærendur telja sveitarfélagið ekki hafa farið eftir gr. 5.2.1. í skipulagsreglugerð nr. 90/2013 þar sem m.a. sé fjallað um samvinnu við íbúa og aðra hagsmunaaðila í gegnum skipulagsferlið. Kópavogsbær hafi hunsað athugasemdir íbúa sem tengist t.d. fjölda íbúða, hæð húsa og öryggi skólabarna. Þá fari samþykkt bæjarins á deiliskipulagi Traðarreits eystri gegn þeim markmiðum sem sett hafi verið fram í Aðalskipulagi Kópavogs 2012-2024 um að halda í yfirbragð gamalla og rótgróinna hverfa með tilliti til aðliggjandi byggðar, götumyndar, hönnunar húsa og hlutfalla.

Af hálfu Kópavogsbæjar er vísað til 1. mgr. 5. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlinda­mála þar sem fram komi að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en kæranda sé þó heimilt að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Kærð sé deiliskipulagsákvörðun sem feli ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þurfi til þess sérstakt leyfi í formi framkvæmda- eða byggingar­leyfis. Engin slík leyfi hafi verið veitt og framkvæmdir því hvorki hafnar né yfirvofandi að svo stöddu.

Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar. Þá getur úrskurðarnefndin að sama skapi frestað réttaráhrifum ákvörðunar sem felur ekki í sér heimild til framkvæmda, komi fram krafa um það af hálfu kæranda, sbr. 3. mgr. nefndrar 5. gr. Með sama hætti er kveðið á um það í 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 að kæra til æðra stjórnvalds fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar en þó sé heimilt að fresta réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar til bráðabirgða meðan málið er til meðferðar hjá kærustjórnvaldi þar sem ástæður mæli með því. Tilvitnuð lagaákvæði bera með sér að meginreglan er sú að kæra til æðra stjórnvalds frestar ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar og eru heimildarákvæði fyrir stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa kærðar ákvörðunar undantekning frá nefndri meginreglu sem skýra ber þröngt. Verði því að vera ríkar ástæður eða veigamikil rök fyrir ákvörðun um frestun réttaráhrifa.

Mál þetta snýst um gildi deiliskipulagsákvörðunar. Gildistaka deiliskipulags felur ekki í sér heimildir til að hefja framkvæmdir heldur þarf til að koma sérstök stjórnvaldsákvörðun sem kæranleg er til úrskurðarnefndarinnar, s.s. veiting byggingar- eða framkvæmdaleyfis, sbr. 11. gr. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010 og 13., 14. og 15. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Í kærumáli vegna greindra stjórnvaldsákvarðana er eftir atvikum unnt að gera kröfu um stöðvun framkvæmda eða frestun réttaráhrifa til bráðabirgða skv. 5. gr. laga nr. 130/2011. Að jafnaði er því ekki tilefni til að beita heimild til stöðvunar framkvæmda eða frestunar réttaráhrifa í kærumálum er varða gildi deiliskipulagsákvarðana.

Þegar litið er til fyrrgreindra lagaákvæða og eðlis deiliskipulagsákvarðana, verður ekki séð að knýjandi nauðsyn sé á að fallast á kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulagsbreytingar. Komi til þess að byggingaráform verði samþykkt á grundvelli hinnar kærðu skipulagsákvörðunar getur kærandi hins vegar komið að kröfu um stöðvun framkvæmda, svo sem áður er rakið.

Úrskurðarorð:

Kröfu kæranda um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu deiliskipulags­ákvörðunar og stöðvun framkvæmda á grundvelli hennar er hafnað.