Árið 2020, mánudaginn 30. mars, fundaði úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála í gegnum fjarfundabúnað. Þátt tóku Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.
Fyrir var tekið mál nr. 8/2020, kæra vegna eftirlits með bálförum gæludýra.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 7. febrúar 2020, er barst nefndinni sama dag, kærir eigandi, Hamrakór 9, Kópavogi, Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja vegna eftirlits með bálförum gæludýra. Gerir kærandi m.a. þá kröfu að skorið verði úr því hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna. Jafnframt er Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis kært fyrir að vísa ekki í gilt starfsleyfi til brennslu gæludýra í umdæminu. Loks er Dýraspítalinn í Víðidal kærður fyrir ætlaða sviksemi í þjónustu sinni við gæludýraeigendur.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjavíkurborg 2. mars 2020.
Málsatvik: Hinn 27. desember 2019 fór kærandi með hund sinn í aflífun til Dýraspítalans í Víðidal. Samkvæmt gögnum málsins borgaði kærandi fyrir sérbrennslu og þar til gert box fyrir ösku. Kærandi sendi fyrirspurn með tölvupósti 30. s.m. til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur og spurðist fyrir um hvort dýraspítalinn hefði starfsleyfi til bálfara eða fyrir bálstofu gæludýra. Var honum svarað því til að dýraspítalinn hefði gilt starfsleyfi. Bálstofan væri ekki tiltekin sérstaklega í því en væntanlega hefði verið litið svo á að hún félli þar undir. Brennsluofninn og skráningar sættu skoðun í reglubundnu eftirliti með starfsemi dýraspítalans. Kærandi sendi tölvupóst að nýju til eftirlitsins 2. janúar 2020 þar sem farið var fram á að það kannaði hvort brennsluofninn á dýraspítalanum hefði verið notaður á tímabilinu frá 28. desember 2019 til 6. janúar 2020. Vísaði kærandi til þess að hann hefði borgað 50.000 kr. fyrir förgun á hundinum sínum, en samkvæmt upplýsingum frá sorpeyðingarstöðinni Kölku í Reykjanesbæ brenni þeir gæludýr fyrir Dýraspítalann í Víðidal fyrir u.þ.b. 2.000 kr. Tiltók kærandi og að hann hefði ekki séð ofn dýraspítalans virkjaðan eða í gangi á tilgreindu tímabili.
Heilbrigðiseftirlitið svaraði erindi kæranda með tölvupósti 22. janúar 2020. Var vísað til þess að í reglubundnu eftirliti undanfarin ár hefði verið staðfest að brennsluofn dýraspítalans væri eingöngu starfræktur á nóttinni. Sjálfvirk tímastýring væri á ofninum. Dagbrennsla hefði ekki farið fram síðan árið 2016. Samhliða var kærandi í samskiptum við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis í þeim tilgangi að fá felld niður gjöld ársins 2020 vegna hundsins og krafðist hann þess jafnframt að kannað yrði hvort dýraspítalinn hefði látið bálför dýrsins fara fram hjá Kölku, Reykjanesbæ. Var honum svarað svo með tölvupósti 21. janúar 2020 að samkvæmt eftirgrennslan eftirlitsins væri dýraspítalinn með brennsluofn og sæi sjálfur um brennslu. Þá var kæranda tilkynnt að reikningur vegna gjalda ársins 2020 hefði verið felldur niður.
Málsrök kæranda: Kærandi bendir á að tilgangur kærunnar sé að fá úr því skorið hvort dýraspítalar á höfuðborgarsvæðinu hafi gilt starfsleyfi til reksturs bálfaraofna fyrir gæludýr eða hvort bálfaraofnar á þeirra vegum séu skraut til að blekkja gæludýraeigendur til að borga okurverð fyrir þjónustu sem sé ekki framkvæmd af þeim sjálfum heldur sorpbrennslustöðum annars staðar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur er farið fram á frávísun málsins þar sem engin stjórnvaldsákvörðun hafi verið tekin af hálfu eftirlitsins og því sé engin kæranleg ákvörðun fyrir hendi. Heilbrigðiseftirlitið vísar til þess að dýraspítalar séu starfsleyfis- og eftirlitsskyldir samkvæmt lögum nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir og reglugerðum byggðum á lögunum sem eigi við um slíka starfsemi. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur hafi eftirlit með Dýraspítalanum í Víðidal og sé hann með gilt starfsleyfi frá heilbrigðisnefnd Reykjavíkur, sem hafi verið endurnýjað 20. apríl 2010, og gildi það til 20. apríl 2022. Kalka á Suðurnesjum sé rekin á starfsleyfi útgefnu af Umhverfisstofnun. Dýraspítalanum beri að meðhöndla úrgang á fullnægjandi hátt, þ.m.t. geymslu, flutning og förgun hans. Dýrahræjum sé ýmist fargað á urðunarstaðnum í Álfsnesi eða þau brennd í brennsluofni á staðnum að ósk eigenda dýranna. Heilbrigðiseftirlitið hafi ekki eftirlit með þjónustu Dýraspítalans við brennslu á einstökum dýrum og beri ekki skylda til að hafa eftirlit með afdrifum einstakra dýra sem send séu til brennslu á Dýraspítalanum eða fargað á annan hátt að öðru leyti en því að skráningar yfir fjölda brennsla í brennsluofni og kvittanir fyrir förgun á dýrahræjum í Álfsnesi séu skoðaðar í reglubundnu eftirliti. Ekki hafi verið gerð athugasemd við meðferð og förgun dýrahræja undanfarin ár, en krafist hafi verið ítarlegri skráningar á brennslu dýrahræja, þ.e. fjölda dýra og þyngd, við eftirlit 31. ágúst 2016. Búið hafi verið að bæta úr því við síðasta eftirlit 1. nóvember 2018. Vegna kvartana um ólykt frá brennsluofni hafi brennsla dýrahræja aðeins farið fram á nóttunni síðustu ár.
Haft hafi verið samband við forsvarsmenn Dýraspítalans í kjölfar kærunnar og hafi engar breytingar orðið á meðferð og förgun dýrahræja frá síðasta eftirliti. Heilbrigðiseftirlitið hafi yfirfarið skráningar og komi þar fram að hundur kæranda hafi verið brenndur með sérbrennslu á Dýraspítalanum í Víðidal 28. desember 2019.
—–
Af hálfu Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja var upplýst að það hefði enga aðkomu að þessu máli, enda hefði það hvorki eftirlit með sorpeyðingarstöðinni Kölku né Dýraspítalanum í Víðidal.
—–
Niðurstaða: Starfsemi dýraspítala er starfsleyfisskyld skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. og V. viðauka laganna, og skal starfsleyfi til þeirrar starfsemi gefið út af heilbrigðisnefnd, sbr. 1. mgr. 7. gr. laganna. Samkvæmt 54. gr. sömu laga fer fram eftirlit með starfsleyfisskyldri starfsemi sem tekur til athugunar á öllum þáttum umhverfisáhrifa viðkomandi starfsemi sem máli skipta sem og hollustuhátta. Kæruheimild er að finna í 65. gr. laganna þar sem segir að stjórnvaldsákvarðanir sem teknar eru á grundvelli laganna, reglugerða settra samkvæmt þeim eða heilbrigðissamþykkta sveitarfélaga sæti kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, en samkvæmt 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur úrskurðarnefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði.
Kærandi gerir einkum að ágreiningsefni hvernig staðið hafi verið að brennslu gæludýrs hans af hálfu dýraspítala sem hann leitaði til um þá þjónustu. Ágreiningur þeirra á milli er einkaréttarlegs eðlis sem framangreind kæruheimild tekur ekki til og því er ekki á valdsviði úrskurðarnefndarinnar að fjalla um hann.
Kærandi leitaði jafnframt til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur sem eftirlitsaðila með starfseminni og svo sem greinir í málavaxtalýsingu var hann upplýstur um að fyrir lægi gilt starfsleyfi fyrir henni sem jafnframt tæki til brennsluofns. Einnig var kærandi upplýstur um að reglulegt eftirlit færi fram með starfseminni. Í kjölfar kæru hefur eftirlitið yfirfarið skráningar dýraspítalans þar sem fram kemur að hundur kæranda hafi verið brenndur þar með sérbrennslu 28. desember 2019. Aðspurt upplýsti Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis einnig að dýraspítalinn hefði starfsleyfi og að þar væri sinnt brennslu. Jafnframt felldi eftirlitið niður gjöld vegna hundahalds kæranda 2020. Verður ekki séð af þessari atburðarás eða gögnum málsins að öðru leyti að nein sú ákvörðun liggi fyrir sem kæranleg sé til úrskurðarnefndarinnar skv. 65. gr. laga nr. 7/1998, sbr. og 1. gr. laga nr. 130/2011, eða skv. almennri kæruheimild 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá kom Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja ekki að málinu.
Með vísan til alls þess sem að framan er rakið verður kærumáli þessu vísað frá úrskurðarnefndinni.
Úrskurðarorð:
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.