Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

8/2002 Sultartangavirkjun

Ár 2002, fimmtudaginn 19. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Ásgeir Magnússon hrl., formaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Ingibjörg Ingvadóttir lögfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 8/2002, erindi Ríkisbókhalds, dags. 9. apríl 2002, og Landsvirkjunar, dags. 29. apríl 2002, um úrlausn ágreinings um álagningu skipulagsgjalds á stöðvarhús Sultartangavirkjunar að fjárhæð kr. 7.104.849,-  samkvæmt reikningi, dags. 27. 12. 2001. 

Á málið er nú lagður svofelldur

úrskurður:

Með bréfi, dags. 9. apríl 2002, til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála vísar Ríkisbókhald efnislegum ágreiningi um greiðslu á skipulagsgjaldi af stöðvarhúsi Sultartangavirkjunar til nefndarinnar til þóknanlegrar meðferðar.  Álagningu sama gjalds kærir Landsvirkjun með bréfi til úrskurðarnefndarinnar, dags. 24. apríl 2002, og krefst þess að álagning gjaldsins verði felld niður og að réttaráhrifum álagningarinnar verði frestað meðan málið sé til meðferðar hjá nefndinni.  Voru erindi þessi sameinuð og tekin til meðferðar sem eitt mál.

Málavextir:  Skipulagsgjald var lagt á stöðvarhús Sultartangavirkjunar sem er í eigu Landsvirkjunar með reikningi dags. 27. desember 2001, að fjárhæð kr. 7.104.849,-.  Við álagninguna var lögð til grundvallar fyrirliggjandi brunabótavirðing mannvirkisins. 

Með bréfi, dags. 24. janúar 2002, til innheimtumanns gjaldsins, Sýslumannsins á Selfossi mótmælti Landsvirkjun kröfu um greiðslu gjaldsins með vísan til þess að mannvirki sem ekki  væru háð byggingarleyfi væru undanþegin skipulagsgjaldi samkvæmt 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.  Nánar væri kveðið á um þetta í 37. gr. laganna og væru virkjanir þar á meðal.  Stöðvarhúsið væri órjúfanlegur hluti virkjunarinnar og því undanþegið gjaldinu.

Erindi þetta framsendi innheimtumaður til Fasteignamats ríkisins sem aftur framsendi málið til Ríkisbókhalds.  Óskaði Ríkisbókhald úrlausnar úrskurðarnefndarinnar um þann ágreining sem gerður hafði verið um gjaldskyldu Landsvirkjunar með bréfi dags. 2. apríl 2002.  Síðar barst nefndinni kæra Landsvirkjunar um saman efni eins og að framan er rakið.

Ekki hefur komið til úrskurðar um frestun réttaráhrifa hinnar kærðu ákvöðunar.  Var þess vænst að innheimtuaðgerðum yrði frestað meðan málið væri til meðferðar fyrir nefndinni með hliðsjón af því að upphaflega var úrlausn ágreinings aðila um gjaldið vísað til úrskurðarnefndarinnar af hálfu ríkisvaldsins.

Málsrök:  Af hálfu innheimtumanns er álagning og innheimta gjaldsins rökstudd með tilvísun til réttarheimilda, sem prentaðar eru á bakhlið reiknings fyrir gjaldinu.  Landsvirkjun hefur, svo sem að framan er rakið, mótmælt gjaldtökunni með vísan til ákvæða 35. og 36. gr. skipulags- og byggingarlaga.

Niðurstaða:  Samkvæmt 2. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 skal greiða skipulagsgjald af nýbyggingum sem virtar eru til brunabóta.  Telst nýbygging hvert nýreist hús sem virt er til brunabóta, svo og viðbyggingar við eldri hús ef virðingarverð hinnar nýju viðbyggingar nemur a.m.k. 1/5 verðs eldra húss.  Í 3. mgr. sömu greinar segir að skipulagsgjald falli í gjalddaga þegar virðingargjörð hafi farið fram og Fasteignamat ríkisins hafi tilkynnt hana innheimtumanni ríkissjóðs.  Þá segir í nefndu ákvæði að gjaldinu fylgi lögveð í eigninni.

Nánar er kveðið á um álagningu, innheimtu og ráðstöfun gjaldsins í reglugerð nr. 737/1997 um skipulagsgjald.  Er í 7. gr. þeirrar reglugerðar kveðið á um að úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála skeri úr ágreiningi sem upp kunni að koma um álagningu og innheimtu gjaldsins.  Verður erindi málshefjenda samkvæmt þessu tekið til efnisúrlausnar í nefndinni.

Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 með síðari breytingum er skipulagsgjald sérstakt gjald af mannvirkjum sem innheimta skal í ríkissjóð og er því ætlað að standa straum af kostnaði við gerð skipulagsáætlana.  Heimild var til innheimtu sambærilegs gjalds í 35. gr. eldri skipulagslaga nr. 19/1964 og var með stoð í því heimildarákvæði sett reglugerð um álagningu og innheimtu gjaldsins nr. 167/1980.  Var sú reglugerð við lýði allt til ársins 1994 er ný reglugerð um það var sett.  Nú er í gildi reglugerð nr. 737/1997 um sama efni.

Með lögum nr. 60/1981 um raforkuver m.s.br. sbr. l. nr. 48/1999 er  Landsvirkjun veitt heimild, að fengnu samþykki ríkistjórnarinnar, til þessa að virkja á ármótum Þjórsár og Tungnaár við Sultartanga (Sultartangavirkjun), sbr. 2. gr. laganna.   Í 5. gr. sömu laga, svo sem henni hefur verið breytt með lögum nr. 108/1988 og 48/1999 segir svo:  „Virkjunar- og rekstraraðili skv. 1. og 2. gr. er undanþeginn tekjuskatti, stimpilgjöldum, útsvari, aðstöðugjaldi og öðrum gjöldum til ríkis og sveitarfélaga að því er varðar framkvæmdir skv. 1. og 2. gr.  Þó skal greiða sveitarfélögum þau gjöld sem rekstraraðila er gert að greiða vegna húseigna samkvæmt öðrum lagafyrirmælum.“

Þar sem umdeilt skipulagsgjald rennur í ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 73/1997 sbr. og 7. gr. l. nr. 170/2000, leiðir af tilvitnuðu ákvæði 5. gr. l. nr. 60/1981 að Landsvirkjun er, sem virkjunar- og rekstraraðili  Sultartangavirkjunar, undanþegin gjaldinu.  Ber því að fella niður hina umdeildu álagningu skipulagsgjalds af stöðvarhúsi virkjunarinnar. 

Af framangreindri niðurstöðu leiðir að óþarft er að taka afstöðu til kröfu Landsvirkjunar um frestun réttaráhrifa og upphafstíma dráttarvaxta.

 
Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi álagning skipulagsgjalds af stöðvarhúsi Sultartangavirkjunar samkvæmt reikningi, dags. 27. desember 2001, að fjárhæð kr. 7.104.849,-

______________________________
Ásgeir Magnússon

___________________________             _____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson                                 Ingibjörg Ingvadóttir