Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

79/2012 Engidalur á Ísafirði

Árið 2013, föstudaginn 24. maí, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Hildigunnur Haraldsdóttir arkitekt.

Fyrir var tekið mál nr. 79/2012, kæra á ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar frá 16. júlí 2012 um að veita Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. leyfi til að nota fyrir starfsemi sína landspildu milli lóðar félagsins að Kirkjubóli 3 í Engidal og svonefnds Kirkjubólslands til næstu fimm ára, og ákvörðun bæjaryfirvalda um að leyfa Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. að hækka spilduna. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kærir H, fyrir hönd Aðstöðunnar sf., Kirkjubólslandi, Engidal, leyfi sem bæjarráð Ísafjarðar veitti Gámaþjónustu Vestfjarða ehf. hinn 16. júlí 2012 til að nota til næstu fimm ára landspildu sem er milli lóðanna Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands.  Þá kærir hann ákvörðun um að leyfa hækkun á landinu milli lóðanna.  Kærandi krefst þess að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi. 

Gögn í málinu bárust úrskurðarnefndinni frá Ísafjarðarbæ 5. september 2012.

Málavextir: Kærandi er til húsa að Kirkjubólslandi í Engidal á Ísafirði.  Á aðliggjandi lóð við Kirkjuból 3 er rekin gámaþjónusta.  Á milli lóðanna er 8,4 metra breið spilda og er það sú spilda sem deilt er um í málinu.  Fram kemur í gögnum málsins að lóðarhafi Kirkjubóls 3 hafi notað svæðið milli lóðanna fyrir gáma. 

Í málinu liggur fyrir tölvupóstur, frá sviðsstjóra umhverfissviðs Ísafjarðarbæjar til lóðarhafa Kirkjubóls 3, dags. 6. júní 2007.  Þar er vísað til samtals sviðsstjórans og fyrirsvarsmanns lóðarhafa um að ákveðið hafi verið að sviðsstjórinn sendi staðfestingu á því að Ísafjarðarbær gerði ekki athugasemd við að plan við Kirkjuból 3 yrði stækkað og að gerð yrði mön við endann á því sem tengdist síðan mön við brotajárnssvæði Funa. Taka mætti efni í planið og mönina ofan við brotajárnshauginn og innan við núverandi plan Funa.  Með þessu móti væri unnt að stækka plan Funa og Gámaþjónustunnar með einni framkvæmd, mönin gerði það að verkum að ásýnd svæðisins yrði mun betri.  Kvaðst sviðsstjórinn fagna framkvæmdinni og veita Gámaþjónustunni heimild fyrir henni.

Með bréfi til umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar, dags. 17. maí 2012, sótti lóðarhafi Kirkjubóls 3 um að fá að leigja umrædda spildu.  Á fundi umhverfisnefndar 4. júlí sama ár var bókað að með erindinu væri sótt um lóð til afnota í 15 ár en nefndin féllst á að veita umsækjanda leyfi til að nota lóðina til næstu fimm ára, með sama hætti og gert hefði verið fram að því.  Fundargerð nefndarinnar var á dagskrá bæjarráðs 16. júlí 2012 og var þá bókað að bæjarráð samþykkti nýtingu á lóð í Engidal og að fundargerðin væri staðfest í heild sinni. Fundargerðin var lögð fram til kynningar í bæjarstjórn 6. september 2012.

Málsrök kæranda:  Vísað er til þess að hin umdeilda ákvörðun um að veita leyfi til að nota lóðina milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands geri það að verkum að kærandi hafi ekki aðgengi að lóð sinni og húsi að ofanverðu og komi þannig í veg fyrir fyrirhugaða notkun á lóðinni.  Enn fremur komi hún í veg fyrir ætlaða starfsemi í húsinu þar sem nauðsynlegt sé að hafa umferð gegnum húsið.  Jarðvegsupphækkun fyrir neðan Kirkjuból 3 sé um 1 m og hafi hún verið gerð í leyfisleysi.  Spildan hafi áður verið í sömu hæð og lóð kæranda, en sé nú í sömu hæð og lóðin Kirkjuból 3.  Hafi kærandi vakið athygli bæjaryfirvalda á þessum breytingum á árinu 2011.  Kærandi krefst þess einnig að lóðin verði aðkomusvæði fyrir húsin og bannað verði að hefta aðgengi um hana með gámum, vörubílum og öðrum tækjum.

Málsrök Ísafjarðarbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er farið fram á að kröfum kæranda í málinu verði hafnað.  Fyrirsvarsmaður kæranda hafi sent byggingarfulltrúa Ísafjarðarbæjar tölvupóst 9. ágúst 2011 vegna upphækkunar lóðarinnar milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands.  Í samtölum við fyrirsvarsmanninn hafi komið fram af kæranda hálfu að ekkert annað kæmi til greina en að lóðin yrði sléttuð niður í sömu hæð og hún sé í á ljósmynd sem hann hafi látið byggingarfulltrúa hafa, en ljósmyndin hafi verið tekin á árinu 1991.  Af hálfu lóðarhafa Kirkjubóls 3 hafi byggingarfulltrúa verið tjáð að leyfi hafi fengist til að lagfæra svæðið á milli lóðanna og í því sambandi vísað í tölvupóst frá sviðsstjóra umhverfissviðs hinn 6. júní 2007.  Í ljósi ágreiningsins hafi lóðarhafa Kirkjubóls 3 verið bent á að sækja um lóðina, þannig að bæjaryfirvöld myndu úrskurða um hvernig notkun hennar yrði háttað.  Það hafi hann gert hinn 17. maí 2012 og 4. júlí sama ár hafi umhverfisnefnd síðan úrskurðað að hann skyldi hafa sömu afnot næstu fimm ár og verið hefðu.

Vísað sé til þess að í bréfi til úrskurðarnefndarinnar hafi kærandi gert athugasemd varðandi það að hann hafi ekki sama aðgang og áður að lóð sinni og húsi að ofanverðu, og komið sé í veg fyrir að hann geti notað lóðina eins og hann hafi haft í hyggju að gera.  Þá komi þetta í veg fyrir starfsemi sem kalli á umferð gegnum húsið.  Í samtölum við kæranda hafi hins vegar ekki verið minnst á framkvæmdir á lóð, í húsi eða rekstri.  Veggurinn sem snúi að hinni umdeildu lóð sé ekki nema tæplega tveggja metra hár og hæpið að unnt sé að setja á hann dyr. Á norður- og vesturhlið hússins séu hins vegar stórar dyr sem notaðar séu til inn- og útaksturs, einnig sé tvöföld hurð á suðurhlið hússins. Fjarlægð frá húsi að svæðinu sem deilt sé um sé 3 m og á þeirri hlið hússins séu hvorki gluggar né dyr eða annað sem geri gegnumakstur mögulegan.  Sé athafnasvæði kæranda því ekki mikið og hafi aðalathafnasvæðið verið norðan og vestan við húsið. Á grundvelli þessara gagna hafi bókun umhverfisnefndar Ísafjarðarbæjar 4. júlí 2012 verið gerð. 
 
Málsrök lóðarhafa Kirkjubóls 3:  Lóðarhafi kveðst hafi eignast húsið að Kirkjubóli 3 árið 1996 og hafi á árinu 2006 ráðist í að stækka það og setja á það þrjár innkeyrsludyr.  Gert hafi verið munnlegt samkomulag við bæjartæknifræðing um að fá að nota lóð sem bærinn eigi, allt að mörkum lóðar kæranda.  Því sé mótmælt að fyrirtækið hafi hækkað lóðina í leyfisleysi og sé hvað það varði vísað í myndir og í munnlegt leyfi bæjartæknifræðings.  Samkvæmt eldra skipulagi hafi þarna átt að vera gata en þar sem húsin séu á snjóflóðasvæði sé búið að breyta skipulaginu og ekki verði byggt þar frekar.

Niðurstaða:  Svæðið sem deilt er um, á milli lóða Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands, er skilgreint á þéttbýlisuppdrætti aðalskipulags Ísafjarðar 2008-2020 sem opið svæði til sérstakra nota, en ekki er þar sýnt athafnasvæði við Hafrafell, Engidal, sem getið er í greinargerð aðalskipulagins.  Þá er svæðið einnig á skilgreindu snjóflóðahættusvæði.  Samkvæmt skipulagsreglugerð nr. 400/1998, gr. 4.12.1, sem við á í málinu, eru opin svæði til sérstakra nota skilgreind sem svæði sem hafa útivistargildi á einn eða annan hátt þar sem gert er ráð fyrir mannvirkjagerð í tengslum við starfsemi sem þar er stunduð, s.s. tjald- og hjólhýsasvæði, skrúðgarðar, kirkjugarðar, leiksvæði, íþróttasvæði, golfvellir, sleða- og skíðasvæði, skautasvæði, siglingaaðstaða, hesthús og reiðvellir, rallýbrautir og skotvellir. Einnig garðlönd og trjáræktarsvæði.  Deiliskipulag fyrir Engidal skilgreinir ekki landnotkunarflokka sérstaklega, en deiliskipulag getur hins vegar ekki veitt heimild til að víkja frá aðalskipulagi, sbr. 3. mgr. 37. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Starfsemi sú sem heimiluð var á spildunni með hinni kærðu ákvörðun um nýtingu hennar til reksturs gámaþjónustu samræmist ekki skilgreindri landnotkun svæðisins.  Þá er umrædd spilda ekki afmörkuð sem lóð í deiliskipulagi.  Var bæjaryfirvöldum því óheimilt að ráðstafa spildunni til þeirra nota sem gert var með hinni kærðu ákvörðun og verður sú ákvörðun því felld úr gildi.

Ekki liggur fyrir að tekin hafi verið formleg stjórnvaldsákvörðun af þar til bæru stjórnvaldi um að heimila hækkun umræddrar spildu.  Liggur því ekki fyrir kæranleg ákvörðun um það efni og verður kröfu kæranda er það varðar því vísað frá nefndinni.  Þá er það ekki á færi nefndarinnar að mæla fyrir um að spildan verði aðkomusvæði og að bannað verði að hefta umferð um hana með stöðu gáma eða tækja og verður þeim kröfulið því einnig vísað frá nefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð: 

Felld er úr gildi ákvörðun bæjarráðs Ísafjarðar frá 16. júlí 2012 um að heimila lóðarhafa Kirkjubóls 3 að nota svæði milli Kirkjubóls 3 og Kirkjubólslands fyrir áframhaldandi óbreytta notkun.

Kröfum um að fellt verði úr gildi leyfi til að hækka lóð og að úrskurðað verði um tiltekin not umdeildrar spildu er vísað frá úrskurðarnefndinni.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Ásgeir Magnússon                                              Hildigunnur Haraldsdóttir