Árið 2018, fimmtudaginn 14. júní, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Ómar Stefánsson varaformaður og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 78/2018, kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september og 4. desember 2017 um að veita byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2018, er barst nefndinni 28. s.m., kærir A, lóðarhafi Reykjahvols 25, Mosfellsbæ, þær ákvarðanir byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september og 4. desember 2017 að veita byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að ákvarðanirnar verði felldar úr gildi.
Þess er jafnframt krafist að framkvæmdir samkvæmt hinum kærðu ákvörðunum verði stöðvaðar á meðan málið er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni. Verður málið nú tekið til úrskurðar um þá kröfu kæranda.
Gögn málsins bárust frá Mosfellsbæ 1. júní 2018.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 1. september 2017 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Var fært til bókar að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis þegar fullnægjandi gögn hefðu borist byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. september 2017 var fyrrnefnd umsókn samþykkt. Málið var á dagskrá á fundi skipulagsnefndar 13. október s.á. þar sem bókað var að ekki væru gerðar athugasemdir við stærð hússins, en deiliskipulag svæðisins heimilaði ekki aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Á afgreiðslufundi 4. desember 2017 samþykkti byggingarfulltrúi umsókn um leyfi til að breyta staðsetningu og fyrirkomulagi innanhúss áður samþykkts einbýlishúss á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Byggingarfulltrúi gaf út byggingarleyfi, dags. 17. maí 2018, til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á umræddri lóð.
Kærandi vísar til þess að samkvæmt teikningum verði heimilað hús 226 m2 að stærð en hámarksstærð samkvæmt deiliskipulagi sé 220 m2. Hæð hússins samkvæmt teikningum sé 7,49 m en deiliskipulag kveði á um 6 m hámarkshæð frá inngangskóta. Neðsta hæðin sé 2,70 m á hæð og sé ekki tekin inn í hæð hússins. Á teikningum og í byggingarlýsingu sé gert ráð fyrir aukaíbúð en óheimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að gera aukaíbúðir í einbýlishúsum við F-götu. Fyrirhugað hús verði mun hærra en hús kæranda og muni rýra notagildi lóðar hans vegna skuggavarps og skerðingar á útsýni, auk þess að vera í miklu ósamræmi við hús hans vegna stærðar og hæðar. Breyting hafi verið gerð á deiliskipulagi svæðisins 28. júní 2006 en hún hafi ekki verið birt í Stjórnartíðindum fyrr en 27. júní 2008.
Af hálfu Mosfellsbæjar er tekið fram að byggingarleyfi hafi verið gefið út á grundvelli deiliskipulags, ákvæða laga nr. 160/2010 um mannvirki og ákvæða byggingarreglugerðar nr. 112/2012. Stöðvun framkvæmda muni valda eiganda miklu fjárhagslegu tjóni og óþægindum og leggist bærinn gegn því að orðið verði við þeirri kröfu kæranda.
Leyfishafi tekur fram að bygging á lóð hans sé hafin í samræmi við útgefið byggingarleyfi. Búið sé að grafa og setja púða fyrir grunn og kjallara og sé uppsteypa grunns áætluð á næstu dögum. Einingahús sé tilbúið til afhendingar um leið og grunnur sé risinn, en leyfishafi hafi selt núverandi húsnæði sitt. Hann hafi töluverðra fjárhagslegra hagsmuna að gæta ef framkvæmdir verði stöðvaðar og muni leyfishafi gera kæranda ábyrgan fyrir þeim kostnaði sem af henni hljótist, ef af henni verði.
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar, en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Fyrir liggur að byggingarleyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hefur verið gefið út og að framkvæmdir eru hafnar og eru skilyrði greinds lagaákvæðis uppfyllt að því leyti.
Ýmis álitaefni eru uppi í málinu sem áhrif geta haft á gildi hinnar kærðu ákvörðunar svo sem um samræmi hins kærða byggingarleyfis við gildandi deiliskipulag. Þarf úrskurðanefndin tóm til kanna málsatvik frekar og eftir atvikum að afla frekari gagna.
Í ljósi greindra atvika og fyrirliggjandi gagna þykir rétt að fallast á kröfu kæranda um stöðvun þeirra framkvæmda sem hin kærða ákvörðun heimilar á meðan mál þetta er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni.
Framkvæmdir samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi skulu stöðvaðar á meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Nanna Magnadóttir (sign)
______________________________ _____________________________
Ómar Stefánsson (sign) Þorsteinn Þorsteinsson (sign)