Árið 2018, föstudaginn 13. júlí tók Ómar Stefánsson, varaformaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála fyrir mál nr. 78/2018 með heimild í 3. mgr. 3. gr., sbr. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 130/2011:
Kæra á ákvörðunum byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september og 4. desember 2017 um að veita byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Skilja verður málskot kæranda svo að krafist sé að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 27. maí 2018, er barst nefndinni 28. s.m., kærir Vígmundur Pálmarsson, lóðarhafi Reykjahvols 25, Mosfellsbæ, ákvörðun byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ frá 15. september 2017, að samþykkja umsókn um byggingarleyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Gerir kærandi þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Mosfellsbæ 2. júlí 2018.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar 1. september 2017 var tekin fyrir umsókn um leyfi til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol í Mosfellsbæ. Var fært til bókar að nefndin gerði ekki athugasemd við útgáfu byggingarleyfis þegar fullnægjandi gögn hefðu borist byggingarfulltrúa. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 15. september 2017 var fyrrnefnd umsókn samþykkt. Málið var á dagskrá fundar skipulagsnefndar 13. október s.á. þar sem bókað var að ekki væru gerðar athugasemdir við stærð hússins, en deiliskipulag svæðisins heimilaði ekki aukaíbúð á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Á afgreiðslufundi 4. desember 2017 samþykkti byggingarfulltrú umsókn um leyfi til að breyta staðsetningu og fyrirkomulagi innanhúss áður samþykkts einbýlishúss á lóð nr. 23a við Reykjahvol. Byggingarfulltrú gaf út byggingarleyfi 17. maí 2018, til að byggja tveggja hæða einbýlishús með bílgeymslu og aukaíbúð á umræddri lóð.
Kærandi bendir á að samkvæmt teikningum verði húsið 6 m2 stærra en heimilt sé samkvæmt deiliskipulagi. Hæð hússins verði 7,49 m en deiliskipulag kveði á um 6 m hámarkshæð frá inngangskóta, auk þess sem neðri hæðin sé 2,70 m á hæð og ekki tekin inn í hæð hússins. Þá komi fram aukaíbúð á samþykktum teikningum en óheimilt sé samkvæmt deiliskipulagi að gera aukaíbúðir í einbýlishúsum við F-götu. Fyrirhugað hús verði mun hærra en hús kæranda og muni rýra notagildi lóðar hans vegna skuggavarps og skerðingar á útsýni auk þess sem húsið sé í miklu ósamræmi við hús hans vegna hæðar og stærðar.
Af hálfu bæjaryfirvalda er meðal annars bent á að kallað hafi verið eftir leiðréttum hönnunargögnum, að beiðni um leiðrétt byggingarleyfi hafi verið send byggingarfulltrúa og að leiðrétt byggingarleyfi verði gefið út innan skamms.
Niðurstaða: Í gögnum málsins kemur fram að eftir hina kærðu samþykkt byggingarfulltrúans í Mosfellsbæ á byggingarleyfi vegna Reykjahvols 23a sætti málið frekari málsmeðferð. Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 22. júní 2018 lagði leyfishafi fram aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu og var hann samþykktur. Liggur því fyrir að ný byggingaráform hafa verið samþykkt fyrir lóðina Reykjahvol 23a.
Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála geta þeir einir kært stjórnvaldsákvarðanir til nefndarinnar sem eiga lögvarða hagsmuni tengda þeirri ákvörðun sem kærð er.
Eftir að byggingarfulltrúi samþykkti aðaluppdrátt með leiðréttri byggingarlýsingu 22. júní 2018 hafa hinar kærðu ákvarðanir byggingarfulltrúa frá 15. september og 4. desember 2017 ekki réttarverkan að lögum. Á kærandi af þeim sökum ekki lengur lögvarða hagsmuni af því að fá skorið úr um gildi þeirra enda stæði hin nýja ákvörðun allt að einu óhögguð. Verður kærumáli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ómar Stefánsson