Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2016 Grashagi

Árið 2018, miðvikudaginn 25. apríl, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 78/2016, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis vegna byggingar bílskúrs að Grashaga 10, Selfossi.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 5. júlí 2016, er barst nefndinni 6. s.m., kæra A og B, Grashaga 12, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 að samþykkja byggingarleyfi fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi. Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 16. ágúst 2016.

Málavextir: Forsaga þessa máls er sú að á lóðunum Grashaga 10 og 12 standa einbýlishús sem byggð voru árið 1973. Á árinu 1981 var reistur bílskúr við húsið að Grashaga 12, við lóðamörkin að Grashaga 10. Á svipuðum tíma voru steyptir sökklar og botnplata vegna fyrirhugaðs bílskúrs að Grashaga 10 við hlið bílskúrsins að Grashaga 12. Frá því að þessum framkvæmdum lauk hafa orðið eigendaskipti á báðum eignunum. Umræddar lóðir eru á ódeiliskipulögðu svæði.

Lögð var fram umsókn um byggingarleyfi hjá Sveitarfélaginu Árborg, dags. 10. apríl 2015, þar sem óskað var eftir leyfi til byggingar bílskúrs við Grashaga 10. Fyrir væru steyptir sökklar og plata ásamt brunavegg REI-120 á lóðamörkum. Bílskúr hafi þegar verið reistur við Grashaga 12 og að leitast verði eftir að fylgja þeirri hönnun. Umsóknin var síðar samþykkt á fundi skipulags- og byggingarnefndar 6. maí s.á. með fyrirvara um samþykki meðeiganda bílgeymslu.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er því haldið fram að samþykkis meðeigenda bílgeymslunnar, sem áskilið hafi verið við samþykkt hinnar kærðu ákvörðunar, hafi aldrei verið aflað. Þegar þeir hafi komið að heimili sínu eftir páskafrí vorið 2016 hafi framkvæmdir við bílskúrinn verið hafnar, m.a. með uppslætti útveggjar sem væri framlenging á útvegg þeirra eigin bílskúrs inni á þeirra lóð. Haft hefði verið samband við byggingarfulltrúa í framhaldinu og þess krafist að hann hlutaðist til um að samþykkis þeirra yrði aflað fyrir framkvæmdinni. Sú krafa hafi verið ítrekuð við embætti byggingarfulltrúa, þ. á m. í bréfi, dags. 24. apríl 2016. Viku áður en kæra hafi verið send til úrskurðarnefndarinnar hafi kærendur tjáð byggingarfulltrúa ásetning sinn um að kæra byggingarleyfið, en hann hafi þá loks brugðist við með því að tilkynna um stöðvun framkvæmda og að von væri á svari frá bæjarlögmanni við fyrrgreindu bréfi kærenda frá 24. apríl. Óásættanlegt sé að útveggur bílskúrs þeirra sé notaður án þeirra samþykkis og að hann hafi verið framlengdur innan lóðar þeirra án samþykkis. Þess sé krafist að byggingarleyfið verði fellt úr gildi og að bílskúrinn við Grashaga 10 verði byggður með sjálfstæðum útvegg.

Málsrök Sveitarfélagsins Árborgar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að samþykki það sem áskilið hafi verið við samþykkt byggingaráforma umrædds bílskúrs hafi ekki borist til byggingarfulltrúa, en framkvæmdir engu að síður hafist. Eigendum Grashaga 10 hafi verið kunnugt um athugasemdir byggingarfulltrúa vegna þessa en hafi ekki bætt úr. Samkvæmt upplýsingum frá upphaflegum eigendum Grashaga 10 og 12 hafi útveggur bílskúrs Grashaga 12 verið byggður og fjármagnaður sameiginlega, enda hafi ætlunin verið að nýta hann einnig fyrir bílskúr sem rísa ætti að Grashaga 10. Þessar upplýsingar hafi fengist á fundi sem haldinn hafi verið með fyrri eigendum 11. ágúst 2016.

Athugasemdir leyfishafa: Leyfishafar krefjast frávísunar málsins þar sem  kærufrestur hafi verið liðinn er kæra barst úrskurðarnefndinni. Til vara er þess krafist að kröfum kærenda verið hafnað.

Leyfishafar hafi í byrjun árs 2015 hafið undirbúning að því að reisa bílskúr á lóð sinni Grashaga 10, en til staðar hafi verið samþykktir aðaluppdrættir frá byggingartíma hússins, dags. 8. apríl 1973, sem geri ráð fyrir slíkum bílskúr. Umsókn þar um hafi verið samþykkt af skipulags- og byggingarnefnd Áborgar hinn 6. maí 2015. Ekki hafi verið á það minnst við leyfishafa að þeim bæri að afla samþykkis kærenda. Um sumarið 2015 hafi framkvæmdir hafist með vinnu í sökkli og með hreinsun málningar af hinum sameiginlega millivegg. Kærendur hafi engar athugasemdir gert þótt augljóst væri að til stæði að reisa bílskúr þar sem hinn sameiginlegi veggur yrði nýttur. Framkvæmdir hafi hafist að nýju vorið 2016, en þá hafi aðstoðarbyggingarfulltrúi haft samband og greint frá umkvörtun kærenda og farið fram á að samþykkis þeirra yrði aflað. Það samþykki hafi ekki fengist.

Leyfishafar telji að kærendum hafi mátt vera ljóst hvað til stæði þegar sumarið 2015 þegar framkvæmdir hófust. Óskað hafi verið eftir skriflegu samþykki þeirra 31. mars 2016 og hafi kærendur sent erindi vegna byggingarleyfisins til skipulags- og byggingarfulltrúa 24. apríl s.á. Kæran sé hins vegar dagsett 5. júlí 2016 og móttekin 6. s.m. og hafi því borist utan kærufrests. Ekki séu uppi neinar ástæður sem afsaki að kæran sé svo seint fram komin.

Mikið óhagræði og umtalsverður kostnaður fylgi því að reisa annan útvegg. Brjóta þyrfti gólfplötu, steypa nýjan sökkul, rjúfa þak og útvegg og stytta stálbita sem haldi uppi þaki. Gólfflötur bílskúrsins myndi í kjölfarið minnka. Ekki sé teljanlegt óhagræði af sameiginlegum notum milliveggjarins fyrir kærendur.

Niðurstaða: Kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar er einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um hina kæranlegu ákvörðun, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála. Kærendur hafa sjálfir lýst því sem svo að þeir hafi fyrst orðið varir við framkvæmdir upp úr páskum vorið 2016. Þeir hafi í kjölfarið leitað upplýsinga hjá skipulags- og byggingarfulltrúa en fá svör fengið. Fyrir liggur að kærendur sendu formlegt erindi um málið til skrifstofu skipulags- og byggingardeildar Árborgar með bréfi, dags. 24. apríl 2016, og má af því ráða að þeim var á þeim tíma kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæra barst úrskurðarnefndinni hins vegar ekki fyrr en 6. júlí 2016, eða meira en mánuði eftir að kærendum varð sannanlega kunnugt um efni hinnar kærðu ákvörðunar. Kæran barst því að liðnum kærufresti.

Samkvæmt 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal vísa kæru frá sem berst að liðnum kærufresti, nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Eins og hér stendur á verður ekki séð að yfirvöld sveitarfélagsins hafi leiðbeint kærendum um kæruleiðir þegar þeir tóku að grennslast fyrir um þær framkvæmdir sem hafnar voru við bílskúrsbyggingu við lóðarmörk þeirra og að hluta innan lóðar þeirra. Kærendur höfðu ástæðu til þess að ætla að samþykkis þeirra þyrfti að afla áður en framhald yrði á framkvæmdum og að það væri yfirvalda sveitarfélagsins að sjá til þess að því skilyrði sem þau sjálf settu við samþykkt byggingaráforma yrði fullnægt. Því hefur ekki verið mótmælt af hálfu sveitarfélagsins að kærendur hafi ítrekað leitað viðbragða sveitarfélagsins við þeirri stöðu sem upp var komin og ekki verður séð að brugðist hafi verið við þeirri málaleitan kærenda með markvissum hætti. Í ljósi framangreindra atvika verður að telja afsakanlegt að kæran hafi ekki borist fyrr en raun ber vitni og verður hún því tekin til efnislegrar meðferðar með vísan til 1. tl. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Fyrir liggur að umræddar lóðir tilheyra svæði sem ekki hefur verið deiliskipulagt. Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er heimilt að veita byggingarleyfi án þess að fyrir liggi deiliskipulag ef framkvæmdin samræmist landnotkun, byggðamynstri og þéttleika byggðar. Í slíkum tilvikum skal þó viðkomandi skipulagsnefnd grenndarkynna áformin fyrir nágrönnum sem taldir eru eiga hagsmuna að gæta af framkvæmdinni. Óumdeilt er að kærendur eiga hagsmuna að gæta af þeim framkvæmdum sem hér um ræðir, enda snúa þær að nýtingu útveggjar bílgeymslu þeirra og framlengingu veggjarins innan lóðar þeirra. Hefði því skipulagsnefnd sveitarfélagsins borið að grenndarkynna áformin áður en þau voru samþykkt. Ekki liggur fyrir að slík kynning hafi farið fram. Telst það verulegur annmarki á hinni kærðu ákvörðun, enda hefði slík kynning getað dregið tímanlega fram upplýsingar sem hefðu getað skipt þar máli.

Með hliðsjón af framangreindu verður að telja hina kærðu ákvörðun slíkum annmörkum háða að varði ógildingu hennar.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Felld er úr gildi ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 6. maí 2015 um veitingu byggingarleyfis fyrir bílskúr að Grashaga 10, Selfossi.