Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

78/2012 Lindarbraut

Árið 2013, föstudaginn 22. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík.  Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 78/2012, kæra á afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 17. júlí 2012 um að hafast ekki frekar að vegna kröfu um að verkstæðisskúr er standi að hluta á lóð nr. 9 við Lindarbraut, Seltjarnarnesi, verði fjarlægður.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður: 

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 26. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag kærir H, eigandi lóðarinnar Lindarbrautar 9, Seltjarnarnesi þá afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness frá 17. júlí 2012 að aðhafast ekkert frekar vegna beiðni kæranda um að verkstæðisskúr, sem sé að hluta á lóðinni nr. 9 við Lindarbraut, yrði fjarlægður.  Gerir kærandi þá kröfu að umræddur skúr verði fjarlægður og að þeim hluta lóðar hans sem skúrinn standi á verði komið í eðlilegt horf, kæranda að kostnaðarlausu.

Málavextir:  Forsaga máls þessa er sú að árið 1976 var samþykkt á fundi byggingarnefndar Seltjarnarnesbæjar svonefnt bráðabirgðabyggingarleyfi til fimm ára fyrir viðbyggingu verkstæðis er tilheyra myndi Lindarbraut 11, sem er einbýlishúsalóð.  Var og sett það skilyrði fyrir útgáfu leyfisins að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi fyrir.  Síðar mun hafa komið upp ágreiningur milli leyfishafa og lóðarhafa Lindarbrautar 9 um staðsetningu skúrsins og lóðamörk og óskaði Seltjarnarnesbær eftir álitsgerð lögmanns um réttarstöðu lóðarhafa.  Niðurstaða álitsgerðarinnar, dags. 2. nóvember 2005, var sú að þinglýst samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 lægi ekki fyrir og að stærð lóðanna væri í samræmi við þinglýst lóðarblað frá árinu 1971.  Gæti eigandi lóðar nr. 11 ekki borið fyrir sig lóðarblað, dags. í júlí 1990, þar sem enginn samningur lægi fyrir milli eigenda lóðanna um breytt lóðamörk.  Stæði því umrædd viðbygging að Lindarbraut 11 að hluta til innan lóðar Lindarbrautar nr. 9 og bæri að víkja sem því næmi. 

Með bréfi til byggingarfulltrúa, dags. 8 maí 2008, fór þáverandi eigandi lóðarinnar nr. 9 við Lindarbraut fram á að hin umdeilda viðbygging yrði fjarlægð af lóð hans.  Skipulagsyfirvöld svöruðu erindi þessu með bréfi, dags. 22. maí 2009.  Þar var m.a. tekið fram að hin umdeilda bygging hefði staðið um áratuga skeið og fyrirkomulag lóða verið óbreytt.  Jafnframt sagði svo:  „[Seltjarnarnesbær] lítur svo á að um sé að ræða ágreining um eignarhald og eignamörk sem hann á ekki aðild [að] og getur skorið úr um. [Seltjarnarnesbær] telur því að hann geti ekki aðhafst í málinu og […] verði að beina kröfum sínum að eiganda lóðarinnar nr. 11.“  Jafnframt var veittur 14 daga frestur til að koma að athugasemdum vegna fyrirhugaðrar afgreiðslu sveitarfélagins í málinu.  Þá var þess sérstaklega óskað að færð yrðu fram lagarök fyrir því á hvaða grundvelli Seltjarnarnesbær ætti að skera úr um ágreining milli lóðarhafa eða kveða á um niðurrif viðbyggingarinnar, teldi erindishafi að sveitarfélagið hefði heimildir til þess.  Ekki liggur fyrir að lóðarhafi Lindarbrautar 9 hafi svarað fyrrgreindu bréfi en með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 23. febrúar 2011, var lóðarhafanum veittur að nýju frestur til andmæla.  Málið var næst tekið fyrir á 157. fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 1. apríl 2011 og eftirfarandi bókað:  „Með vísan til þeirra raka sem fram koma í bréfi […], dags. 22. maí sl., og ekki hefur verið andmælt af hálfu lóðarhafa, telur skipulags- og mannvirkjanefnd ekki ástæðu til að aðhafast frekar í málinu, enda um [að ræða] einkaréttarlegan ágreining milli eigenda lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut.“. 

Hinn 5. október 2011 mat forvarnarsvið slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, að beiðni kæranda, aðstæður að Lindarbraut 9 vegna umrædds skúrs.  Var niðurstaðan sú að nokkur sambrunahætta væri milli bílskúrs á lóð Lindarbrautar 9 og verkstæðisskúrs úr timbri á lóð Lindarbrautar 11.  Í framhaldi af því, eða með bréfi, dags. 11. s.m., óskaði kærandi eftir því að Seltjarnarnesbær beitti þeim úrræðum sem bærinn hefði yfir að ráða til að umræddur skúr yrði fjarlægður eða minnkaður þannig að hann yrði allur inni á lóðinni Lindarbrautar 11 og í lögboðinni fjarlægð frá mörkum lóðar kæranda.  Einnig var farið fram á að sveitarfélagið upplýsti um og merkti mörk lóða Lindarbrautar 9 og 11 eins og þau væru samkvæmt fyrirliggjandi gögnum.  Þá var óskað skýringa teldi sveitarfélagið mörkin vera önnur en fram kæmi í þinglýstum skjölum, fasteignaskrá eða mæliblaði frá árinu 1971.  Erindi kæranda var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 18. október 2011 og fært til bókar að óska skyldi eftir skýringum lóðarhafa Lindarbrautar 11 á því hvers vegna viðbyggingin hefði ekki verið fjarlægð og var það gert með bréfi skipulags- og byggingarfulltrúa, dags. 15. nóvember s.á.  Jafnframt var í bréfinu skorað á lóðarhafann að bæta eldvarnir á lóðinni í samræmi við athugasemdir slökkviliðsins.

Engin svör munu hafa borist frá lóðarhöfum Lindarbrautar 11 við bréfi þessu og var erindi kæranda næst tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar hinn 17. júlí 2012 og afgreitt með svofelldri bókun:  „Lóðamörk eru samkvæmt þinglýstu mæliblaði.  Mæliblaði sem gert var 1991 (sic) hefur ekki verið þinglýst og er því ekki í gildi.  Varðandi spurningu um að fjarlægja verkstæðisskúr vísast til svars nefndarinnar til eiganda Lindarbrautar 9 frá 157. fundi.“ 

Hefur kærandi skotið nefndri afgreiðslu til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kæranda:  Kærandi vísar til þess að aldrei hafi verið fullnægt skilyrðum um samþykki lóðarhafa Lindarbrautar 9 sem áskilið hafi verið fyrir samþykkt hins tímabundna byggingarleyfis fyrir skúrnum.  Standi skúrinn nánast alveg upp við hús kæranda og sé af honum sambrunahætta.  Rýri það gæði lóðar hans að á henni sé skúr sem sé kæranda óviðkomandi og til almennrar óprýði.  Þá sé bent á að í hinni kærðu afgreiðslu hafi hvorki verið fjallað um greinda sambrunahættu né útskýrt hvernig skúrinn, sem sé óleyfisbygging og hýsi starfsemi sem ekki eigi heima í íbúðarhverfi, sé skipulagsyfirvöldum óviðkomandi. 

Málsrök Seltjarnarnesbæjar:  Sveitarfélagið gerir kröfu um að máli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni eða að hin kærða ákvörðun verði staðfest.  Úrskurðarnefndin úrskurði í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmála vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum nr. 130/2011.  Álitaefni það sem hér sé til meðferðar feli í sér úrlausn ágreinings um réttindi sem leidd séu af samningi einkaréttarlegs eðlis.  Sé ekki á færi Seltjarnarnesbæjar að aðhafast í slíkum málum og enn síður á færi úrskurðarnefndarinnar að skera úr slíkum ágreiningi enda nefndin ekki til þess bær að taka stjórnvaldsákvörðun um þetta.

Fallist nefndin ekki á frávísun málsins byggi sveitarfélagið á því að það eigi ekki aðild að kröfu um fjarlægingu skúrsins.  Um sé að ræða ágreining um eignarhald og eignamörk milli einkaaðila.  Slíkur einkaréttarlegur ágreiningur milli eigenda lóða, á grundvelli einkaréttarlegra kaupsamninga, stofni ekki til athafnaskyldu af hálfu sveitarfélagsins.

Þá vilji sveitarfélagið benda á að það sé á ábyrgð eiganda mannvirkis að það fullnægi kröfum um brunavarnir, sbr. 1. mgr. 23. gr. laga um brunavarnir nr. 75/2000.  Þá sé eiganda jafnframt skylt að hlíta fyrirmælum eftirlitsmanna sveitarfélaga og opinberra stofnana um úrbætur, sbr. 2. mgr. sama ákvæðis.  Hafi Seltjarnarnesbær skorað á eiganda Lindarbrautar 11 að bæta úr eldvörnum á lóð sinni í samræmi við athugasemdir slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. 

Málsrök lóðarhafa Lindarbrautar 11:  Lóðarhafar benda á að hin umdeilda verkstæðisbygging standi inni á lóð Lindarbrautar 11 og vísa til mæliblaðs sem undirritað sé af byggingarfulltrúanum á Seltjarnarnesi í júlí 1990 máli sínu til stuðnings.  Megi þetta vera hverjum manni ljóst þar sem áratuga gömul tré varði lóðarmörk Lindarbrautar 11 við lóð nr. 9.  Á téðum lóðarmörkum sé verkstæðishluti og geymsluhluti en ekki verði séð hvaða byggingu kærandi vilji láta fjarlægja enda sé kæran það ruglingsleg og ónákvæm að henni hljóti að verða vísað frá. 

Hafi lóðin að Lindarbraut 9 verið í eigu föður lóðarhafa sem hafi átt margar byggingarlóðir á svæðinu og hafi ráðið ráðstöfun þeirra.  Einnig hafi hann haft talsvert með að segja um stærð, skipulag og lögun lóða á svæðinu.  Sé bent á að þarna hafi verið starfrækt trésmíðaverkstæði í meira en fimm áratugi og hafi verkstæðið verið reist áratugum á undan húsinu að Lindarbraut 9.  Þá sé tekið fram að í vetur muni veggur er snúi að Lindarbraut 9 verða gerður eldþolinn.  

Niðurstaða:  Með hinni kærðu samþykkt ákváðu bæjaryfirvöld Seltjarnarness bregðast ekki við kröfu kæranda um að fjarlægja óleyfismannvirki af lóð hans.  Var ákvörðunin studd þeim rökum að um væri að ræða einkaréttarlegan ágreining milli eigenda lóða nr. 9 og 11 við Lindarbraut.
Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki ber sveitarstjórn ábyrgð á að stjórnsýsla og eftirlit byggingarfulltrúa sé í samræmi við ákvæði laganna og annast byggingarfulltrúi eftirlit með mannvirkjagerð er fellur undir 1. og 2. mgr. 9. gr. sömu laga.  Jafnframt skal byggingarfulltrúi eftir föngum hafa eftirlit með því að viðhald húsa og mannvirkja í umdæmi hans sé viðhlítandi, sbr. gr. 3.10.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012.  Þá er samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 óheimilt að skipta jörðum, löndum eða lóðum eða breyta landamerkjum og lóðamörkum nema samþykki sveitarstjórnar komi til. 
Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að hinn umdeildi skúr sé án tilskilins byggingarleyfis.  Ekki er í gildi deiliskipulag fyrir umrætt svæði en í gildi er hnitsett mæliblað, m.a. fyrir lóðir 9 og 11 við Lindarbraut, dags. í ágúst 1971, þar sem sýndir eru byggingarreitir, fjarlægð þeirra frá lóðarmörkum og mörk lóða.  Stendur skúr sá sem um er deilt í málinu út fyrir byggingarreit lóðarinnar nr. 11 við Lindarbraut og jafnframt út fyrir mörk lóðarinnar og inn á lóð nr. 9.  Er því þá hafnað að breyting á mörkum lóðanna nr. 9 og 11 við Lindarbraut í júlí 1990 hafi nokkra þýðingu enda lá ekki fyrir þinglýstur samningur lóðarhafa.

Fyrir liggur í málinu álit slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins um að sambrunahætta sé milli bílskúrs á lóð kæranda og umdeilds timburskúrs á lóð nr. 11.  Verður ekki á það fallist að bæjaryfirvöld hafi getað synjað erindi kæranda um afskipti af málinu með þeim rökum að um einkaréttarlegan ágreining væri að ræða þegar litið er til þess að erindi hans var stutt haldbærum rökum um gæslu öryggishagsmuna og eftirfylgni skipulags- og byggingarmálefna sem sveitarfélagið fer með að lögum.  Var rökstuðningi hinnar kærðu ákvörðunar að þessu leyti verulega áfátt og leiðir þessi annmarki til ógildingar hennar.  Það fellur hins vegar utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar að mæla fyrir um úrbætur og kemur krafa kæranda í því efni ekki til álita í málinu.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem liggja fyrir úrskurðarnefndinni. 

Úrskurðarorð: 

Ákvörðun skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarnesbæjar frá 17. júlí 2012 um að bregðast ekki við kröfu kæranda um að fjarlægja óleyfismannvirki af lóð hans er felld úr gildi.

____________________________________
Hjalti Steinþórsson

______________________________                _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                     Þorsteinn Þorsteinsson