Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

77/2019 Heiðarholt

Árið 2020, fimmtudaginn 27. febrúar kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingar­verkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 77/2019, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 18. júní 2019 um að synja umsókn um stækkun lóðarinnar Heiðarholts 27.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 6. ágúst 2019, kæra eigendur, Heiðarholti 27, Reykjanesbæ, þá ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 18. júní 2019 að synja umsókn þeirra um stækkun lóðarinnar Heiðarholts 27. Er þess krafist að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Reykjanesbæ 2. september 2019.

Málavextir: Með bréfi til umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar, dags. 18. febrúar 2019, óskuðu eigendur Heiðarholts 27 eftir stækkun þeirrar lóðar. Farið var fram á að lóðarmörk yrðu færð um fjóra metra til suðurs frá gafli hússins að Heiðarholti 27 en núverandi lóðarmörk eru við gaflinn. Sú hlið hússins snýr út að opnu svæði við Heiðarskóla og liggur göngustígur meðfram húsinu í um fimm metra fjarlægð. Til stóð af hálfu lóðarhafa að setja upp girðingu við ný lóðarmörk. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 1. mars 2019 var umsókninni um lóðarstækkunina hafnað. Sú ákvörðun var staðfest á fundi bæjarstjórnar 5. s.m. og lóðarhöfum tilkynnt sú niðurstaða með bréfi, dags. 6. s.m. Í kjölfar þeirrar ákvörðunar fóru lóðarhafar á fund með starfsmanni bæjarins.

Með bréfum, dags. 15. mars og 1. apríl 2019, ítrekuðu lóðarhafar umsókn sína um stækkun umræddrar lóðar. Á fundi umhverfis- og skipulagsráðs 5. apríl 2019 var afgreiðslu málsins frestað og staðfesti bæjarstjórn þá afgreiðslu á fundi sínum 16. s.m. Var lóðarhöfum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 23. s.m. Lóðarhafar leituðu í kjölfarið til Húseigendafélagsins, sem ítrekaði erindi þeirra um lóðarstækkunina með bréfi til umhverfis- og skipulagsráðs, dags. 16. maí 2019. Á fundi ráðsins 7. júní 2019 var málið tekið fyrir að nýju og umsókninni hafnað þar sem girðing meðfram göngustíg á þessu svæði samræmdist ekki yfirbragði hverfisins. Var sú afgreiðsla staðfest í bæjarstjórn 18. s.m. og lóðarhöfum tilkynnt um þá afgreiðslu með bréfi, dags. 19. s.m. Hafa kærendur skotið þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar, eins og að framan greinir.

Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er tekið fram að á þeirri hlið húss þeirra sem um ræði og snúi að skólalóðinni séu tveir gluggar. Verði kærendur fyrir miklu ónæði vegna þessa en skólalóðin sé ekki girt af. Sett hafi verið í byggingarreglugerð um 1980 regla þess efnis að húseigandi skuli hafa aðgang að útveggjum húseignar sinnar, en raðhúsin á svæðinu hafi verið byggð um 1982-1984. Þá sé að auki til staðar fordæmi fyrir samskonar stækkun lóðar og kærendur hafi óskað eftir, en á bæjarstjórnarfundi 4. september 2018 hafi verið samþykkt að grenndarkynna umsókn um stækkun lóðarinnar Lágseylu 3 um fjóra metra til suðurs.

Loks sé á það bent að bæjaryfirvöld hafi ekki sinnt leiðbeiningaskyldu sinni samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en kærendum hafi ekki verið leiðbeint um kæruheimild eða kærufrest í tilkynningum til þeirra um afgreiðslu málsins.

Málsrök Reykjanesbæjar: Af hálfu bæjaryfirvalda er tekið fram að beiðni kærenda byggi ekki á lögmætum sjónarmiðum. Útilokað sé að fallast á beiðnina eins og hún hafi verið sett fram. Ekki sé að sjá að kærendur finni kröfum sínum stað í gildandi lögum eða reglum. Sveitarfélagið byggi á því að há girðing við göngustíg á þessu opna svæði samrýmist ekki yfirbragði hverfisins og yrði lýti á því. Mikilvægt sé að halda því til haga að umsókn um lóðarstækkun leiði ekki sjálfkrafa til þess að lóðin sé girt. Fylgja skuli skilmálum sem bæjarstjórn setji í skipulagi og ljóst sé að enginn möguleiki sé á að fallast á það með kærendum að girt sé meðfram göngustíg á umræddu svæði.

Rangt sé að með heimild til stækkunar lóðarinnar Lágseylu 3 hafi einnig verið heimiluð þar girðing enda komi það hvorki fram í fundargerð né umsókn lóðarhafa. Lóðarhafar Lágseylu 3 hafi tekið umrædda landræmu í fóstur með ræktun og umhyggju og óskað eftir því að hún yrði formlega hluti af þeirra lóð. Hafi bæjaryfirvöld síðan í kjölfar grenndar­kynningar fallist á þá beiðni. Annað sambærilegt dæmi sé lóðarstækkun Lerkidals 13 þar sem óskað hafi verið eftir stækkun að göngustíg vegna áhuga á jarðrækt. Hins vegar séu engin áform uppi um að reisa þar girðingar.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála nr. 130/2011 er kærufrestur til nefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram sú meginregla að vísa skuli kæru frá berist hún að liðnum kærufresti. Þær undantekningar eru gerðar frá nefndri meginreglu í 1. og 2. tl. ákvæðisins að taka megi mál til meðferðar að liðnum kærufresti þegar afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kærendur fengu tilkynningu um hina kærðu ákvörðun með bréfi, dags. 19. júní 2019, en kæra barst úrskurðar­nefndinni 6. ágúst s.á., eða tæpum sjö vikum síðar. Hins vegar fengu kærendur ekki leið­beiningar um kæruheimild eða kærufrest með tilkynningu um hina kærðu ákvörðun, svo sem bar að gera skv. 2. tl. 2. mgr. 20. gr. stjórnsýslulaga, og verður kæran því tekin til efnismeðferðar með hliðsjón af 1. tl. 1. mgr. 28. gr. laganna.

Í máli þessu er deilt um ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 18. júní 2019 um að synja umsókn kærenda um stækkun lóðarinnar Heiðarholts 27 um fjóra metra til suðurs. Samkvæmt 48. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er óheimilt að breyta lóðamörkum nema með samþykki sveitarstjórnar. Sveitarstjórn fer með skipulagsvald innan marka sveitarfélags eins og fram kemur í 3. mgr. 3. gr. skipulagslaga. Í því felst tæki sveitarstjórnar til að hafa áhrif á og þróa byggð og umhverfi með bindandi hætti. Á svæðinu sem um ræðir er hins vegar ekki í gildi deiliskipulag. Þrátt fyrir það verður að játa sveitarstjórn svigrúm til þess að hafa áhrif á þróun og útlit hverfisins með þeim hætti sem hér um ræðir, þ.e. að synja kærendum um lóðarstækkun og girðingu sem hefði áhrif á útlit svæðisins. Að mati bæjaryfirvalda samrýmdist girðingin ekki yfirbragði umrædds svæðis og yrði til lýta. Hafa því verið færð fram skipulagsrök fyrir hinni kærðu ákvörðun. Hafa verður og í huga að landræma sú sem félli innan lóðar kærenda við umbeðna stækkun er í eigu sveitarfélagsins og yrði ráðstafað með samningi milli aðila en ekki með einhliða stjórnvaldsákvörðun.

Það fordæmi sem kærendur hafa vísað til á ekki við í þessu máli enda var þar aðeins um að ræða tilfærslu á lóðarmörkum gegn því að lóðarhafar Lágseylu 3 tækju að sér ræktun og umhirðu á landræmu þeirri sem stækkuninni nam og ekki liggur fyrir að þar hafi verið gert ráð fyrir girðingu við hin nýju lóðarmörk. Þá snýr sú lóð ekki að opnu svæði með leiksvæði grunnskóla eins og á við um lóð kærenda og eru aðstæður því ekki sambærilegar. Í beiðni kærenda um lóðarstækkun fólst að reist yrði girðing við umsótt lóðamörk eins og fram kemur í erindi þeirra, dags. 16. maí 2019, sem var undanfari hinnar kærðu ákvörðunar.

Með vísan til þess sem að framan er rakið eru ekki efni til að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Reykjanesbæjar frá 18. júní 2019 um að synja umsókn þeirra um stækkun lóðarinnar Heiðarholts 27, Reykjanesbæ.