Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2016 Unnarbraut

Árið 2016, föstudaginn 2. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættar voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Hólmfríður Grímsdóttir héraðsdómari.

Fyrir var tekið mál nr. 76/2016, kæra vegna dráttar byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar á afgreiðslu erindis um að koma húsinu á lóðinni Unnarbraut 32 í upprunalegt horf eftir framkvæmdir. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 1. júlí 2016, er barst nefndinni sama dag, kæra A, Unnarbraut 32, Seltjarnarnesi, drátt á afgreiðslu erindis kærenda frá 27. apríl 2016 um að koma fasteigninni að Unnarbraut 32 aftur í fyrra horf í kjölfar framkvæmda. Skilja verður málskot kærenda svo að krafist sé að lagt verði fyrir Seltjarnarnesbæ að taka fyrrgreint erindi kærenda til efnislegrar afgreiðslu.

Gögn málsins bárust frá Seltjarnarnesbæ 5. ágúst 2016.

Málavextir: Síðsumars 2014 mun byggingarfulltrúi Seltjarnarness hafa stöðvað framkvæmdir í kjallara að Unnarbraut 32. Framkvæmdirnar voru á vegum eigenda neðri hæðar hússins sem beindu fyrirspurn, dags. 25. október 2014, til byggingarfulltrúa um breytingar á kjallaranum. Því var nánar lýst í hverju breytingar væru fólgnar, en samþykki kærenda sem meðeigenda fylgdi ekki. Með umsókn, dags. 17. ágúst 2015, sem móttekin var 18. september s.á., var sótt um byggingarleyfi vegna endurbóta á ósamþykktu kjallararými. Fundist hefði raki í rýminu sem til stæði að lagfæra auk þess sem endurgera og bæta þyrfti áður gerðar breytingar á kjallaranum. Var tekið fram að ítrekað hefði verið óskað eftir samþykki meðeigenda en án árangurs.

Með bréfi, dags. 27. apríl 2016, fóru kærendur fram á það við byggingarfulltrúa að hlutast til um það að koma umræddum kjallara í upprunalegt horf. Var skorað á byggingarfulltrúa að beita þvingunarúrræðum í því skyni. Var og tekið fram að framkvæmdir hefðu verið unnar í óleyfi, án samþykkis kærenda, og hefðu þær valdið skemmdum á sameiginlegu burðarvirki hússins. Með bréfi, dags. 26. maí s.á. gaf byggingarfulltrúi umsækjanda byggingarleyfis kost á að tjá sig um erindi kærenda og benti jafnframt á heimildir byggingarfulltrúa skv. 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki til að knýja á um aðgerðir og úrbætur. Í svarbréfi umsækjanda frá 8. júní s.á. kom fram að sumarið 2014 hefði orðið vart við umfangsmiklar rakaskemmdir og sveppamyndun sem ættu upptök sín út frá botnplötu í kjallara hússins. Hefði þurft að bregðast skjótt við. Jafnframt kom fram að vilji væri til þess að fallast á bróðurpart þeirra krafna sem fram kæmu í bréfi kærenda í góðri sátt og án afskipta sveitarfélagsins. Loks var bent á nauðsyn þess að settar yrðu jarðvatnslagnir undir kjallarann og vísað þar um til sérfræðiálits byggingartæknifræðings og húsasmíðameistara sem fram kæmi í greinargerð um regnvatnslagnir í húsinu, en nefnd greinargerð hafði áður borist embætti byggingarfulltrúa. Byggingarfulltrúi framsendi svarbréfið til kærenda með tölvupósti 9. júní 2016 með beiðni um að athugað yrði hvort ekki væri grundvöllur til sátta. Hinn 1. júlí s.á. barst úrskurðarnefndinni kæra í máli þessu, svo sem áður greinir.

Málsrök kærenda: Kærendur árétta að kæra þeirra snúi að óleyfisframkvæmdum sem þurfi að koma í upprunalegt horf. Jafnframt hvort störf byggingarfulltrúa í ferlinu hafi verið lögum samkvæmt. Kærendur hafi ekki getað nýtt sér sinn hluta kjallarans og séu allar fyrirhugaðar framkvæmdir þeirra í bið vegna þessa máls. Raki hafi myndast hjá kærendum og aukist hratt eftir að hitablásara hafi verið komið fyrir í kjallaranum í lok árs 2015. Burðarsúlur í kjallara beri auk þess merki um að átt hafi verið við þær. Ítrekað sé að samþykki kærenda hafi ekki legið fyrir og svo hafi verið frá upphafi málsins.

Málsrök Seltjarnarnesbæjar: Af hálfu sveitarfélagsins er á það bent að frá því að þetta mál hafi komið upp hafi mikið verið reynt að ná sáttum milli aðila. Á tímabili hafi verið fenginn lögfræðingur til sáttargerðar. Til séu margir tölvupóstar og minnispunktar sem sýni að sveitarfélagið hafi lagt mikið á sig og eytt miklum tíma í þessum tilgangi, en það ekki haft erindi sem erfiði. Allan tímann hafi þáverandi og núverandi byggingarfulltrúa verið kunnugt um stöðu mála og vonast eftir því að aðilar gætu náð sáttum. Það hafi líka verið stefnan í þessu máli hjá byggingarfulltrúa að beita sem mildustum stjórnvaldsaðgerðum og best væri ef aðilar næðu sáttum án afskipta sveitarfélagsins.

———-

Aðilar hafa gert ítarlegri grein fyrir sjónarmiðum sínum sem ekki verða rakin nánar hér, en úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

Niðurstaða: Forsaga þessa máls varðar þegar gerðar og fyrirhugaðar framkvæmdir í kjallara Unnarbrautar 32. Kærendur, sem eiga íbúð í nefndu húsi, krefjast þess að erindi þeirra til byggingarfulltrúa, dags. 27. apríl 2016, um að kjallara hússins verði komið í upprunalegt horf, verði tekið til afgreiðslu hjá embættinu.

Samkvæmt 4. mgr. 9. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er heimilt að kæra óhæfilegan drátt á afgreiðslu máls til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til. Svo sem fram hefur komið beindi byggingarfulltrúi þeirri fyrirspurn til kærenda hvort grundvöllur væri til sátta sama dag og kæra í máli þessu barst nefndinni, eða rúmum tveimur mánuðum eftir að kærendur settu fram kröfur sínar með formlegum hætti. Á því tímabili var einnig gætt andmælaréttar umsækjanda og allur dráttur á afgreiðslu málsins því óverulegur í þeim skilningi. Hins vegar verður af gögnum málsins ráðið að byggingarfulltrúi hefur frá árinu 2014 án árangurs reynt að ná sáttum milli aðila, en allt frá þeim tíma hafa samskipti átt sér stað milli kærenda, byggingarleyfisumsækjanda, bæjarstjóra og byggingarfulltrúa. Með hliðsjón af því og þar sem mál þetta hefur verið kært til úrskurðarnefndarinnar verður að telja ólíklegt að sættir muni nást milli aðila. Eins og atvikum er háttað verður því að telja drátt á afgreiðslu málsins orðinn óhæfilegan, enda ekki séð að efni séu til þess að slá á frest ákvörðun um erindi kærenda. Verður því lagt fyrir byggingarfulltrúa að taka erindið til efnislegrar meðferðar án frekari tafa.

Úrskurðarorð:

Lagt er fyrir byggingarfulltrúa Seltjarnarnesbæjar að taka erindi kærenda, dags. 27. apríl 2016, til efnislegrar afgreiðslu.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Hólmfríður Grímsdóttir