Ár 2011, fimmtudaginn 24. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 76/2011, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 23. ágúst 2011 um að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Laufhaga á Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 21. október 2011, er barst nefndinni sama dag, kærir S, Laufhaga 15, Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 23. ágúst 2011 að veita leyfi til byggingar einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Laufhaga. Hin kærða samþykkt var staðfest á fundi bæjarstjórnar Árborgar hinn 21. september 2011. Gerir kærandi þá kröfu að afgreiðsla nefndarinnar verði felld úr gildi. Jafnframt krefst kærandi þess að framkvæmdir sem hafnar séu með stoð í hinu kærða byggingarleyfi verði stöðvaðar meðan málið sé til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulags- og byggingarnefndar Árborgar hinn 23. ágúst 2011 var samþykkt umsókn lóðarhafa að Laufhaga 17 á Selfossi um leyfi til að byggja einbýlishús með innbyggðum bílskúr á lóðinni. Áður mun þó hafa verið rifið þar hús og bílskúr sem sambyggður var bílskúr kæranda við lóðamörk.
Á umræddu svæði er ekki í gildi deiliskipulag en byggingarleyfishafi hafði aflað samþykkis nágranna, þar á meðal kæranda, fyrir byggingu hússins. Mun þetta samþykki m.a. hafa verið lagt til grundvallar við afgreiðslu umsóknar um byggingarleyfi og fór ekki fram grenndarkynning vegna umsóknarinnar.
Kærandi kveðst hafa bundið vonir við að samhliða byggingu húss að Laufhaga 17 yrðu gerðar ráðstafanir til að bæta tjón er orðið hafi á bílskúr sínum vegna niðurrifs skúrsins að Laufhaga 17, en engin svör hafi fengist frá bæjaryfirvöldum þar að lútandi. Hafi kærandi því afturkallað samþykki sitt og vísað málinu til úrskurðarnefndarinnar. Byggi kærandi aðallega á því að hið umdeilda byggingarleyfi sé ólögmætt þar sem ekki hafi farið fram grenndarkynning svo sem áskilið sé að lögum.
Af hálfu sveitarfélagsins Árborgar er þess krafist að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni. Kæranda hafi fljótlega verið kunnugt um hina kærðu ákvörðun og þær framkvæmdir sem átt hafi sér stað á grundvelli hennar. Hafi eins mánaðar kærufrestur því verið liðinn er kæran barst úrskurðarnefndinni. Ekki séu fyrir hendi neinar þær aðstæður er réttlæti að kæran verði tekin fyrir að liðnum kærufresti og beri því að vísa málinu frá. Þá séu ekki efni til að stöðva framkvæmdir við hina umdeildu byggingu, enda hafi kærandi samþykkt hana, auk þess sem ekki verði séð að hún valdi kæranda neinu tjóni.
Af hálfu byggingarfulltrúa hefur verið upplýst að 21. nóvember 2011 hafi enn ekki verið gefið út skriflegt byggingarleyfi þar sem öll skilyrði fyrir því hafi þá ekki verið uppfyllt. Byggingarfulltrúi hafi hins vegar gefið munnlegt leyfi fyrir þeim framkvæmdum sem lokið hefði verið við og hafi það leyfi takmarkast við samþykkt hönnunargögn.
Af hálfu byggingaleyfishafa er kröfum kæranda mótmælt. Vísa eigi málinu frá þar sem kærufrestur hafi verið liðinn þegar málinu hafi verið skotið til úrskurðarnefndarinnar. Þá sé einsýnt af málatilbúnaði kæranda að ágreiningur hans sé við sveitarfélagið Árborg, vegna bílskúrs sem rifinn hafi verið eftir jarðskjálfta árið 2008. Tengist sá ágreiningur ekki á beinan hátt framkvæmdum þeim er hafnar séu og hafi verið samþykktar og sé ekki réttmætt að hann bitni á hagsmunum byggingarleyfishafa.
Niðurstaða: Eins og mál þetta liggur nú fyrir verður ekki með vissu ráðið á hvaða grundvelli hin kærða ákvörðun var reist. Verður ekki séð að byggingarfulltrúi hafi fjallað um málið samkvæmt 11. og 13. gr. mannvirkjalaga nr. 160/2010, en fyrir liggur að framkvæmdir hafa stuðst við munnlegt takmarkað byggingarleyfi. Er sú tilhögun í andstöðu við ákv. 2. mgr. 13. gr. mannvirkjalaga. Þá liggur ekki fyrir að gerð hafi verið sérstök samþykkt um störf skipulags- og byggingarnefndar í sveitarfélaginu Árborg, sbr. 7. gr. mannvirkjalaga, en til er samþykkt um afgreiðslur byggingarfulltrúa sveitarfélagsins, staðfest af umhverfisráðherra 30. maí 2000. Verði talið að þrátt fyrir þetta megi leggja hina kærðu samþykkt skipulags- og byggingarnefndar til grundvallar í málinu yrði það gert með vísan til framkvæmdar samkvæmt eldri lögum og yrði þá litið svo á að hún hefði verið háð staðfestingu sveitarstjórnar. Yrði þá að miða upphaf kærufrests við staðfestingu sveitarstjórnar hinn 21. september 2011 sem leiðir til þeirrar niðurstöðu að kæran hafi borist innan kærufrests. Þykir rétt, með tilliti til þess vafa sem uppi er um lögmæti hinnar kærðu ákvörðunar, að fallast á kröfu kæranda um að framkvæmdir samkvæmt henni skuli stöðvaðar.
Úrskurðarorð:
Framkvæmdir sem hafnar eru við byggingu einbýlishúss að Laufhaga 17, Selfossi, skulu stöðvaðar meðan mál þetta er til meðferðar fyrir úrskurðarnefndinni.
_____________________________
Hjalti Steinþórsson
_____________________________ ____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson