Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

76/2007 Klapparstígsreitur

Ár 2010, fimmtudaginn 15. apríl, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 76/2007, kæra á ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0, sem markast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 29. júlí 2007, er barst nefndinni 31. sama mánaðar, kæra E og Ö, eigendur fasteignar að Klapparstíg 42, Reykjavík, þá ákvörðun borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0, sem markast af Skólavörðustíg, Vegamótastíg, Grettisgötu og Klapparstíg.  Hin kærða ákvörðun tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 27. júní 2007.  Gera kærendur þá kröfu að hún verði felld úr gildi. 

Málavextir:  Á árinu 2003 samþykkti borgarráð Reykjavíkur nýtt deiliskipulag fyrir umræddan staðgreinireit, 1.182.0, og var auglýsing um gildistöku skipulagsins birt í B-deild Stjórnartíðinda 18. júlí 2003.  Kærendur máls þessa kærðu deiliskipulagið til úrskurðarnefndarinnar.  Með úrskurði, uppkveðnum 27. júlí 2006, felldi úrskurðarnefndin deiliskipulagið úr gildi þar sem vafi lék á um efni skipulagsins varðandi byggingarheimildir á lóðinni að Klapparstíg 40 að lóðarmörkum fasteignar kærenda að Klapparstíg 42.  Í kjölfar þess var unnið nýtt deiliskipulag sem byggt var á hinu fyrra og var þar gert ráð fyrir byggingu húss að Klapparstíg 40, að lóðarmörkum Klapparstígs 42. 

Á fundi skipulagsráðs 18. október 2006 var lögð fram áðurgreind tillaga að deiliskipulagi reits 1.182.0, dags. 10. október 2006, og samþykkti skipulagsráð að auglýsa hana til kynningar.  Málið var síðan tekið fyrir á fundi ráðsins 9. maí 2007 þar sem fyrir lágu athugasemdabréf er borist höfðu á kynningartíma tillögunnar, m.a. frá kærendum, ásamt breyttri skipulagstillögu, dags. 4. maí 2007, og umsögn skipulagsstjóra.  Var hin breytta skipulagstillaga samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsstjóra og málinu vísað til borgarráðs, sem samþykkti tillöguna á fundi hinn 16. maí 2007.  Deiliskipulagið tók gildi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda hinn 27. júní sama ár, að undangenginni lögmæltri yfirferð Skipulagsstofnunar. 

Í deiliskipulaginu er m.a. heimilað að reisa tveggja hæða hús með kjallara og risi á vesturhluta lóðarinnar að Klapparstíg 40, að lóðarmörkum Klapparstígs 42, en næst lóðamörkunum skal húsið vera ein hæð og kjallari.  Skutu kærendur deiliskipulagsákvörðuninni til úrskurðarnefndarinnar eins og að framan greinir. 

Málsrök kærenda:  Af hálfu kærenda er skírskotað til þess að ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda þeirra við kynningu umdeilds skipulags þess efnis að færa fyrirhugaða byggingu að Klapparstíg 40 frá lóðarmörkum fasteignar kærenda, t.d. um þrjá metra.  Athugasemdirnar hafi þó verið studdar sömu rökum og lotið að sömu kröfu sem eigendur Skólavörðustígs 15 hafi gert við skipulagsgerðina vegna Skólavörðustígs 13 og 13a og tekið hafi verið tillit til.  Telja verði þennan afgreiðslumáta brjóta gegn jafnræðisreglu.

Fyrir liggi að heimild fyrir umdeildri nýbyggingu á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg hafi komið til vegna fyrirspurnar frá aðila sem vafasamt sé að eigi nema mjög takmarkaðan, ef nokkurn, eignarrétt að lóðinni og það gegn andmælum þess sem eigi stærstan hluta lóðarinnar.  Staðfest sé í bréfi Reykjavíkurborgar, dags. 10. júlí 2000, að sá aðili sem lagt hafi fram nefnda fyrirspurn sé ekki skráður eigandi að fasteignaréttindum að Klapparstíg 40 samkvæmt gögnum hjá Reykjavíkurborg og Fasteignamati ríkisins.  Velta megi því upp hvort það standist lög að taka til efnislegrar meðferðar beiðni um byggingu húss á eignarlóð annars manns. 

Kærendur mótmæli því að áratuga umferðarréttur þeirra inn á lóðina nr. 42 við Klapparstíg sé frá þeim tekinn en eðlilegt hefði verið að tryggja hann í skipulaginu.  Telja kærendur að þetta rýri verðgildi lóðar þeirra þar sem tvö bílastæði tapist sem séu dýr á þessum stað. 

Málsrök Reykjavíkurborgar:  Borgaryfirvöld fara fram á að ógildingarkröfu kærenda verði hafnað.  Á það sé bent að með hinu samþykkta deiliskipulagi sé gert ráð fyrir einnar hæðar viðbyggingu á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg sunnan við núverandi hús og geymslu við vesturhlið.  Gert sé ráð fyrir byggingarreit fyrir tveggja hæða húsi með risi og kjallara.  Sá hluti hússins sem liggi að lóðarmörkum Klapparstígs 42 sé á einni hæð og ekki verði heimilt að nýta þak einnar hæðar hlutans til útivistar.  Heimild til nýbyggingar sé háð því skilyrði að núverandi skúrar á suðurlóðamörkum verði rifnir. 

Ólíkar forsendur eigi við um lóðirnar Klapparstíg 40 og Skólavörðustíg 13.  Á lóðinni nr. 40 við Klapparstíg hafi verið skúr sem liggi að lóðarmörkum Klapparstígs 42.  Með hinu samþykkta deiliskipulagi verði veggur nýbyggingarinnar einnig að lóðamörkum, en styttri en sá sem fyrir sé.  Húsið verði á einni hæð, eins og eldri bygging.  Tvílyfti hluti nýbyggingarinnar verði í a.m.k. þriggja metra fjarlægð frá lóðarmörkum að Klapparstíg 42.  Staðsetning og umfang heimilaðs húss teljist samræmast byggðamynstri reitsins, sbr. umsögn skipulagsfulltrúa og þeirra ráðgjafa er tillöguna hafi unnið.  Aðstæður á lóðinni nr. 13 við Skólavörðustíg séu aðrar.  Þar hafi verið um að ræða tveggja hæða hús, alveg út í lóðarmörkin, sem hefði verið talsverð breyting frá fyrra ástandi, sem ekki eigi við í tilfelli kærenda.  Aðstæður og forsendur séu því mismunandi á lóðunum.  Ætíð þurfi að meta hverja lóð fyrir sig þegar nýting þeirra sé ákveðin og sé því ekki fallist á að jafnræðis hafi ekki verið gætt við hina kærðu ákvörðun þótt ekki hafi verið orðið við athugasemdum kærenda við meðferð málsins. 

Í byrjun árs 2001 hafi fyrirspurn borist byggingaryfirvöldum í Reykjavík um hvort leyft yrði að rífa byggingu, skráða sem vörugeymslu, og byggja í hennar stað verslunarhúsnæði á tveimur hæðum á lóðinni að Klapparstíg 40.  Þar sem þá hafi farið fram vinna við deiliskipulagningu umrædds reits hafi fyrirspurninni verið komið á framfæri við þá sem unnið hafi að skipulagstillögunni og ekkert þótt því til fyrirstöðu að gera ráð fyrir nýbyggingunni.  Hafi byggingin verið talin falla vel að byggðamynstri reitsins.  Ekki sé gerð sú krafa að fyrirspurnir varðandi skipulagsmál stafi frá þinglýstum eigendum einstakra lóða heldur sé almennt litið svo á að hver sem er geti fengið svör við fyrirspurnum sínum á þeim vettvangi.  Hins vegar sé gerð sú krafa að umsóknir um byggingarleyfi stafi frá þar til bærum aðilum. 

Lóðamörk á deiliskipulagsuppdráttum séu byggð á gögnum frá landupplýsingadeild framkvæmdasviðs Reykjavíkurborgar, áður lóðarskrárritara.  Ekki sé mögulegt að byggja lóðamörk og stærðir lóða í eldri hverfum Reykjavíkur á öðrum gögnum.  Eins og fram komi í skilmálum umdeildrar skipulagstillögu sé ekki tekið tillit til kvaða í tillögunni eða annarra einkaréttarlegra gerninga sem aðilar kunni að hafa gert sín á milli.  Ekki verði séð að einhliða færsla girðinga inn á nágrannalóð skapi rétt samkvæmt lögum um hefð.  Í 33. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 sé kveðið á um bótarétt vegna tjóns er deiliskipulag kunni að valda borgurunum, en álitaefni um slíkan bótarétt verði hér ekki til lykta leidd þar sem það falli utan valdsviðs úrskurðarnefndarinnar. 

Niðurstaða:  Kærendur byggja kröfu sína um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar á því að heimild í hinu kærða deiliskipulagi, fyrir byggingu húss að Klapparstíg 42 að lóðarmörkum þeirra að Klapparstíg 40, fari gegn hagsmunum þeirra og að ekki hafi í skipulaginu verið gert ráð fyrir ætluðum umferðarrétti þeirra um lóðina að Klapparstíg 42. 

Samkvæmt fyrirliggjandi skipulagsuppdrætti er fyrir á lóðinni að Klapparstíg 40 skúrbygging sem stendur á lóðamörkum Klapparstígs 40 og 42 á um ellefu metra kafla.  Hin kærða ákvörðun felur í sér að reisa megi nýtt hús að umræddum lóðamörkum á um átta metra bili þar sem skúrinn er nú.  Um er að ræða tvílyft hús með kjallara og risi sem lækki í eina hæð, a.m.k. þremur metrum frá lóðamörkunum til norðurs frá Klapparstíg 42.  Þá er heimiluð þriggja hæða viðbygging með kjallara og risi á sameinaðri lóð Skólavörðustígs 13 og 13A.  Í skipulagstillögu var gert ráð fyrir að viðbyggingin næði að lóðarmörkum Skólavörðustígs 15, en vegna framkominna athugasemda við kynningu skipulagstillögunnar var sú bygging færð þrjá metra frá lóðarmörkunum. 

Ekki verður fallist á að farið hafi verið gegn jafnræðisjónarmiðum við skipulagsgerðina þótt ekki hafi verið farið að kröfum um að færa áformaða byggingu frá lóðarmörkum Klapparstígs 42 eins og gert var vegna áformaðrar viðbyggingar að Skólavörðustíg 13.  Verður að líta til þess að lengri bygging, sem mun víkja ef til nýbyggingar kemur, stendur nú þegar á lóðarmörkum Klapparstígs 40 og 42 og að heimiluð nýbygging verður aðeins ein hæð við lóðarmörkin.  Að Skólavörðustíg 13 var hins vegar um að ræða heimild fyrir viðbyggingu að lóðamörkum, þrjár hæðir og ris, þar sem engin bygging hafði áður staðið.  Eru aðstæður í þessum tilvikum því ekki sambærilegar.

Samkvæmt 1. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 bera sveitarstjórnir ábyrgð á og annast gerð deiliskipulags og skal eftir föngum leita eftir sjónarmiðum og tillögum íbúa og annarra þeirra sem hagsmuna eiga að gæta um mörkun stefnu og markmið við skipulagsgerðina, sbr. 4. mgr. 9. gr. laganna.  Þessi ákvæði verða ekki skilin svo að rétthafar einstakra lóða hafi úrslitavald um skipulag lóða sinna en þess ber að geta að það er í valdi lóðarhafa á hverjum tíma hvort og hvenær ráðist er í byggingarframkvæmdir á þeirra lóð þar sem þeir þurfa að standa saman að byggingarleyfisumsókn, sbr. 4. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingalaga.  Það verður því ekki talið andstætt lögum þótt einstakar byggingar séu heimilaðar í skipulagi án samþykkis viðkomandi lóðarhafa. 

Ekki liggja fyrir í málinu gögn um meintan umferðarrétt kærenda um lóðina að Klapparstíg 40 og verður það því ekki talinn annmarki á hinu kærða deiliskipulagi að þar sé ekki að finna slíka kvöð. 

Með hliðsjón af nefndum atvikum, og að um er að ræða miðsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024, þykir hið kærða deiliskipulag ekki raska hagsmunum kærenda með þeim hætti að varði ógildingu þess.  Verður kröfu kærenda þar að lútandi hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar. 

Úrskurðarorð: 

Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar borgarráðs Reykjavíkur frá 16. maí 2007 um að samþykkja tillögu að deiliskipulagi staðgreinireits 1.182.0. 

_____________________________
Hjalti Steinþórsson

_____________________________                 ____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson