Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

74/2016 Suður-Reykir

Árið 2017, fimmtudaginn 23. febrúar, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mætt voru Nanna Magnadóttir forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Ásgeir Magnússon dómstjóri.

Fyrir var tekið mál nr. 74/2016, kæra á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 um að fjarlægja beri tvo hana af lóðinni Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 20. júní 2016, er barst nefndinni 21. s.m., kærir A, Suður-Reykjum 3, Mosfellsbæ, þá ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 að gera kæranda að fjarlægja hana af lóð sinni. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis 29. júlí 2016.

Málavextir: Kærandi hefur um nokkurt skeið haldið hænsni á fasteign sinni í Mosfellsbæ, hænur og tvo hana.

Með bréfi, dags. 17. mars 2016, skoraði Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis á kæranda að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og fjarlægja hanana þegar í stað í samræmi við ákvæði samþykktar nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Með bréfi, dags. 14. apríl s.á., var áskorun þessi ítrekuð og kom fram að frestur væri gefinn til 28. s.m. til að verða við henni. Ella yrðu fuglarnir fjarlægðir á kostnað kæranda, með aðstoð lögreglu ef með þyrfti.

Á fundi heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis 18. maí 2016 var bókað að samkvæmt minnisblaði lögfræðings sveitarfélagsins væri fasteign kæranda, Reykjahvoll 5, ekki skráð í lögbýlaskrá og því bæri honum að fara að fyrirmælum samþykktar nr. 971/2015. Ítrekaði nefndin að kæranda bæri að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og væri jafnframt skylt að fjarlægja nefnda hana af fasteigninni fyrir 1. júní s.á. Var kæranda kynnt ákvörðunin með bréfi, dags. 19. maí 2016.

Málsrök kæranda: Kærandi kveður það ósannað að lóð sín að Suður-Reykjum 3, sem hýsi hænsnarækt hans, hafi verið skilin frá lögbýlinu Suður-Reykjum 2 og þannig misst lögbýlisrétt sinn. Ef gögn málsins séu skoðuð sé ekki hægt að sjá að gætt hafi verið 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 við skiptingu jarðarinnar eða töku lands úr landbúnaðarnotum, hafi það einhvern tíma gerst. Af þessu leiði að upplýst ákvörðun hafi ekki verið tekin og hefði Mosfellsbær þurft að rannsaka þennan þátt málsins betur.

Málsrök heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis:
Heilbrigðisnefndin tekur fram að ítrekaðar kvartanir hafi borist vegna ónæðis af völdum tveggja hana sem haldnir séu á lóðinni Reykjahvoli 5. Samkvæmt samþykkt nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða, sé með öllu óheimilt að halda hana utan skipulagðra landbúnaðarsvæða. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisnefndarinnar sé lóðin Reykjahvoll 5 ekki á landbúnaðarsvæði og ekki lögbýli. Hafi því verið tekin ákvörðun, að veittri viðvörun og andmælarétti, um að hanarnir yrðu að fara. Við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi verið óskað eftir sjónarmiðum kæranda, sem hafi lagt fram ýmis gögn er hann hafi talið sýna að umræddir hanar væru haldnir á lögbýli. Gögnin hafi hins vegar ekki sýnt það, heldur þvert á móti. Hafi verið tekið tillit til þessara gagna og opinberrar skráningar Reykjahvols 5.

Álíti heilbrigðisnefndin að hún hafi fylgt stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við málsmeðferð sína. Kærandi hafi haft tækifæri til að tjá sig um málið, sbr. 13. gr. laganna, og málið hafi verið nægilega rannsakað, sbr. 10. gr. Ekki sé hægt að ætlast til þess að heilbrigðisnefnd vefengi og rannsaki málsmeðferð annarra stjórnvalda heldur hljóti hún að geta treyst upplýsingum sem henni séu gefnar, t.d. varðandi stöðu skipulags og bygginga sem og upplýsinga um lögbýli. Ef vafi leiki á því hvort farið hafi verið eftir ákvæðum 12. gr. jarðalaga nr. 65/1976 við skiptingu jarðarinnar ætti það fyrst og fremst að vera á ábyrgð málsaðila að færa sönnur á það, með leit í skjölum á Þjóðskjalasafni ef með þurfi.

Niðurstaða: Kærandi heldur því fram að fasteign sín, þar sem hann sé búsettur og haldi hanana, sé hluti af lögbýlinu Suður-Reykjum 2, þar sem lóðinni hafi ekki verið skipt út úr lögbýlinu í samræmi við reglu 12. gr. þágildandi jarðalaga nr. 65/1976. Kærandi er skráður til lögheimilis að Suður-Reykjum 3, sem í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands er tilgreind sem jörð að stærð 0 m² og eru þar ekki tilgreindir neinir matshlutar. Hús kæranda er parhús, sem í deiliskipulagi er auðkennt sem Suður-Reykir 3 og stendur það við götuna Reykjahvol skv. deiliskipulagsuppdrætti, en húsið er tilgreint í fasteignaskrá Þjóðskrár Íslands sem Reykjahvoll 5. Er því um eina og sömu eignina að ræða. Í lögbýlaskrá 2015 voru tilgreindar þær eignir sem voru skráð lögbýli 31. desember 2015 og var Suður-Reyki 2 og Suður-Reyki 3 að finna á skránni, en ekki Reykjahvol 5.

Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis vísaði til minnisblaðs lögmanns Mosfellsbæjar við ákvörðunartöku sína, en þar kemur fram að eftir því sem næst verði komist hafi lóðin Reykjahvoll 5 áður tilheyrt Suður-Reykjum 2, sem sé lögbýli. Samkomulag hafi verið gert um skipti Suður-Reykja 2, dags. 29. desember 1991, og eigendur samið um skiptingu landsins og stofnun fasteigna um þær lóðir sem þar hafi verið skipt. Það virðist hins vegar hafa dregist og fyrst verið lokið á árinu 2016. Í kjölfar þessa hafi lóðin, þar sem hanarnir séu haldnir, fengið nýtt landnúmer og heiti, þ.e. Reykjahvoll 5, landnr. 224041. Kemur og fram í minnisblaðinu að samkvæmt upplýsingum frá ráðuneyti landbúnaðarmála, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, færist lögbýlisréttur ekki yfir á hinar nýju lóðir sjálfkrafa heldur verði að sækja um lögbýlisrétt vilji aðilar sem eigi lóðir sem slitnar hafi verið frá lögbýli halda þeim rétti. Reykjahvoll 5 sé ekki skráð á lögbýlaskrá.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem úrskurðarnefndin hefur aflað frá Þjóðskrá Íslands mun í byrjun marsmánuðar 2016 hafa farið fram vinna hjá stofnuninni vegna misræmis í skráningu Suður-Reykja 2. Þinglýsingabækur og fasteignaskrá hafi ekki verið samhljóða, en samkvæmt skiptayfirlýsingu frá 9. nóvember 1989 hafi verið búið að skipta Suður-Reykjum 2 upp í margar smærri lóðir, sem í dag séu númeraðar frá 1 til 41 við Reykjahvol. Nefndin hefur einnig undir höndum bréf stofnunarinnar, dags. 18. janúar 2017, þar sem fram kemur að stofnunin hafi lokið samræmingu á skráningu þegar þinglýstra skjala við upplýsingar í fasteignaskrá vegna jarðarinnar Suður-Reykja 2 og lóða sem stofnaðar hafi verið úr þeirri jörð. Á meðal fasteigna sem taldar eru upp í bréfinu er Reykjahvoll 5 með fastanúmerið 208-2401 og landnúmer 224041 og lögbýlið Suður-Reykir 2 með landnúmer 123793.

Að öllu framangreindu virtu þykir ekki varhugavert að leggja til grundvallar að við töku hinnar kærðu ákvörðunar hafi fasteign kæranda ekki verið skráð sem lögbýli og því réttmætt af heilbrigðisnefnd að byggja á því að ákvæði samþykktar nr. 971/2015 um hænsnahald í Mosfellsbæ, utan skipulagðra landbúnaðarsvæða, ættu við um hænsnahald hans. Verður ekki séð að tilefni hafi verið til ítarlegri rannsóknar hvað þetta varðaði, en rétt er að benda á að kærandi hafði og hefur möguleika á, samkvæmt 3. mgr. 26. gr. jarðalaga nr. 81/2004, að fara fram á að ráðherra skeri úr ágreiningi um skráningu jarðar á lögbýlaskrá.

Nefnd samþykkt nr. 971/2015 er sett með stoð í 25. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir. Í 1. gr. hennar kemur fram að hún gildi um hænsnahald í Mosfellsbæ á svæðum öðrum en skipulögðum landbúnaðarsvæðum og skráðum lögbýlum. Sé samþykktin sett til að tryggja öryggi, hollustuhætti, góða umgengni og fullnægjandi mengunarvarnir vegna hænsnahalds í þéttbýli Mosfellsbæjar. Í 2. gr. kemur fram að sækja skuli um leyfi fyrir hænur á bæjarskrifstofu Mosfellsbæjar á þar til gerðum eyðublöðum áður en hænsnahald hefjist. Telji bæjarstjórn að skilyrði til hænsnahalds séu fyrir hendi þá geti hún veitt lögráða einstaklingi eða lögaðila leyfi til tiltekins tíma, að jafnaði til 5 ára. Í lokamálsgrein 2. gr. segir að leyfilegt sé að halda allt að sex hænsni á hverri lóð, en að óheimilt sé með öllu að halda hana.

Ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis um að gera kæranda að sækja um leyfi fyrir hænum sínum og fjarlægja tvo hana af fasteign sinni er í samræmi við áður tilvitnuð ákvæði samþykktarinnar um hænsnahald í Mosfellsbæ. Andmælaréttar kæranda var gætt og honum gefinn rúmur frestur til að framfylgja ákvörðun heilbrigðisnefndarinnar. Þegar litið er til alls þess sem að framan er rakið verður ekki annað séð en að niðurstaða nefndarinnar hafi byggst á lögmætum og málefnalegum forsendum og að málsmeðferð hennar hafi verið í samræmi við lög.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu á ákvörðun heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis frá 18. maí 2016 um að fjarlægja beri tvo hana af lóð kæranda að Reykjahvoli 5, Mosfellsbæ.

____________________________________
Nanna Magnadóttir

______________________________              _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir                                      Ásgeir Magnússon