Árið 2012, mánudaginn 10. september, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 74/2012, kæra á samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012 um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18 í Reykjavík.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður:
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 23. júlí 2012, er barst nefndinni sama dag, kæra S, Þingholtsstræti 15, H og S, Þingholtsstræti 15a og G, L og S, Þingholtsstræti 17, Reykjavík, þá samþykkt byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012 að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis 18.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi. Þá krefjast þeir þess að kveðinn verði upp úrskurður til bráðabirgða um stöðvun framkvæmda á meðan beðið sé endanlegs úrskurðar í málinu. Með hliðsjón af því sem þegar liggur fyrir í málinu þykir það nú nægjanlega upplýst til að það verði tekið til endanlegs úrskurðar og verður því ekki tekin afstaða til stöðvunarkröfu kærenda.
Málavextir: Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 17. apríl 2012 var tekin fyrir umsókn Fasteigna ríkisins um leyfi til að endurbyggja austur- og vesturhlið húss Menntaskólans í Reykjavík við Þingholtsstræti 18. Kom fram í umsóknargögnum að tengibygging á milli umrædds húss og Casa Nova, sem einnig er á reit menntaskólans, hafi verið reist fyrir 13-14 árum. Hafi húsið sjálft þá einnig verið endurskipulagt og arkitekt hússins samþykkt breytingarnar. Hins vegar hafi timburbyggðir útveggir með stórum svokölluðum Kardagluggum ekki verið endurgerðir þótt lélegir væru. Nú væri kominn tími á endurbætur og yrðu útveggirnir úr áli og gleri í svipuðum dúr og sjá megi í gluggum tengibyggingarinnar. Var afgreiðslu málsins frestað. Það var síðan tekið fyrir á fundi byggingarfulltrúa 29. maí 2012 og umsóknin samþykkt. Skutu kærendur þeirri ákvörðun til úrskurðarnefndarinnar hinn 23. júlí 2012. Var þá lokið við uppsetningu glerklæðningar á þeirri hlið hússins er veit að Þingholtsstræti, að undanskildum frágangi á listum og opnanlegum fögum.
Málsrök kærenda: Af hálfu kærenda er á það bent að Þingholtsstræti 18 hafi verið byggt á sjöunda áratugi síðustu aldar og hafi öll götuhlið hússins borið með sér stíl þess tíma. Menn geti endalaust deilt um fagurfræðina í þessum byggingarstíl, en sennilega séu menn nokkuð sammála um að byggingin hafi verið stílbrot í Þingholtsstrætinu. Hún sé þó farin að falla inn í umhverfið og sé ágætt dæmi um byggingarstíl tímabilsins.
Þar sem byggingin sé komin til ára sinna þurfi hún eðlilegt viðhald. Framkvæmdir hafi hafist í júní 2012 og hafi nágrannar talið að þær fælust fyrst og fremst í því að skipta út fúnum gluggarömmum fyrir nýja, enda hafi þeim ekki verið gerð grein fyrir hvað til stæði að gera. Það hafi ekki verið fyrr en 13. júlí 2012 að í ljós hafi komið að verið væri að gjörbreyta hlið hússins með því að klæða hana alla með dökku gleri, sem virki eins og spegill gagnvart íbúum gegnt húsinu. Með þessu séu íbúarnir berskjaldaðir gagnvart gangandi umferð og ennfremur hver gagnvart öðrum, þar sem þeir horfi nánast beint inn um glugga hvers annars. Feli þetta í sér verulega röskun á hagsmunum kærenda og óþolandi inngrip í friðhelgi einkalífs þeirra. Þingholtsstrætið sé þröng gata, innan við níu metrar á milli húsaraða, og því sé spegilhlið sem hér um ræði viðkvæmari en ella.
Fram hafi komið í tölvupósti skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkur frá 13. júlí 2012 að skoða þyrfti málið betur því ef útliti húss væri breytt væri ekki aðeins um viðhald að ræða. Finna megi skilgreiningu á viðhaldi í reglugerð nr. 483/1994 þar sem segi að viðhald teljist það sem gera þurfi til að halda eignum eða einstökum hlutum þeirra í svipuðu ástandi og þær hafi verið þegar rekstraraðili hafi eignast þær, hvort heldur þær hafi verið gamlar eða nýjar. Alveg sé ljóst að með þeim breytingum sem nú standi yfir sé verið að gjörbreyta útliti hússins. Því hafi átt að grenndarkynna heimilaðar breytingar.
Málsrök Reykjavíkurborgar: Reykjavíkurborg krefst þess að úrskurðarnefndin hafni kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.
Eftir að kvörtun hafi borist til byggingarfulltrúa frá kærendum 13. júlí 2012 hafi þeim verið send orðsending með tölvupósti, þar sem fram komi að byggingarfulltrúi hafi farið yfir uppdrætti að lagfæringum byggingarinnar og skoðað aðstæður. Mat hans sé í samræmi við afgreiðslu málsins að um viðhald og endurbætur sé að ræða en ekki eiginlegar útlitsbreytingar. Glerið sem verið sé að setja í glugga hússins sé einsleitt yfir flötinn í stað glers sem hafi verið misleitt. Því verði birta frá fletinum mun jafnari en frá fyrra gleri. Ekki sé um spegil að ræða en dökkleiki glersins muni draga í sig orku sólarljóss og varpa lægra hlutfalli þess inn og frá sér samanborið við fyrra gler. Glerið sé til mikilla bóta fyrir þá starfsemi sem fram fara í byggingunni, svo sem varðandi hitaleiðni.
Mál þetta snúist um það hvort þörf hafi verið á grenndarkynningu eða ekki áður en byggingarfulltrúi heimilaði umdeildar framkvæmdir. Í skipulagslögum nr. 123/2010 sé fjallað um grenndarkynningu í 43. og 44. gr. laganna. Í 2. mgr. 43. gr. sé fjallað um þá stöðu þegar sveitarstjórn telji að gera þurfi óverulegar breytingar á gildandi deiliskipulagi og eigi þá grenndarkynning við. Á umræddu svæði sé í gildi deiliskipulag frá 2. júní 2008 fyrir miðborgarsvæði Reykjavíkur, staðgreinireit 1.180.0, og komi þar m.a. fram að Þingholtsstræti 18 sé yngsta byggingin í götumyndinni og stingi mjög í stúf við aðrar byggingar við götuna. Í skilmálum deiliskipulagsins segi í kafla 4.2 um hönnun viðbygginga og breytinga að stærðarhlutföll, hönnun og efnisnotkun skuli að jafnaði vera í samræmi við stíl og aldur upphaflegrar byggingar nema sérstakar ástæður og aðstæður leiði til annars. Þá skuli hanna viðbyggingar og breytingar með þeim hætti að þær hafi sem minnst neikvæð áhrif á umhverfið og gæði nálægra bygginga. Jafnframt segi að heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum, s.s. svalir og litlar útbyggingar og lagfæringar, án þess að komi til breytinga á deiliskipulagi, séu þær í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Breytingar skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar.
Það hafi verið mat Reykjavíkurborgar að þær endurbætur á húsinu nr. 18 við Þingholtsstræti sem samþykktar hafi verið í maí 2012 hafi ekki kallað á breytingar á deiliskipulagi. Hafi þar af leiðandi ekki verið ástæða til grenndarkynningar. Hér verði að hafa í huga að umrætt hús sé langyngsta byggingin á þessum reit og hafi ætíð stungið mjög í stúf við aðrar byggingar við götuna. Það geri húsið vissulega enn að endurbótum loknum en færa megi þó rök fyrir því að það raski götumyndinni ekki alveg jafnmikið og það hafi gert áður. Um það megi þó vissulega deila.
Erfitt sé að átta sig á því hvaða íbúar verði berskjaldaðir gagnvart gangandi umferð við þessar endurbætur. Væntanlega sé átt við þá sem dvelji í Þingholtsstræti 18 þar sem gluggaflötur þess húss sé sagður aukast, en það sé eins og kunnugt sé ekki íbúðarhús. Þar að auki aukist ekki eiginlegur gluggaflötur hússins þótt það sé klætt með gleri að utan. Þeir sem þar dvelji séu því ekkert berskjaldaðri fyrir gangandi umferð en þeir hafi verið. Þá sé það ekki hlutverk kærenda að gæta hagsmuna þeirra að þessu leyti. Hafi íbúar á þessum stað við Þingholtsstræti getað horft beint inn um glugga hvers annars þá hvorki aukist né minnki möguleikar á slíku þótt eitt hús handan götu sé klætt með glerklæðningu. Erfitt sé því að sjá að hagsmunum kærenda sé raskað verulega með þessum endurbótum. Það kunni þó að vera að kærendur eigi við að gluggar nágranna þeirra fyrir ofan þá eða neðan muni speglast í hinni nýju glerklæðningu hússins á móti og að þeir muni þannig sjá óbeint inn í íbúðir þeirra. Kærendur hljóti þó að þurfa að skýra þetta atriði nánar.
Reykjavíkurborg telji að umdeilt byggingarleyfi víki ekki frá gildandi deiliskipulagi. Eingöngu sé um að ræða leyfi til viðhaldsframkvæmda, sem kalli ekki á breytingu á deiliskipulagi reitsins.
Málsrök byggingarleyfishafa: Af hálfu byggingarleyfishafa er kröfum kærenda og málatibúnaði mótmælt og vísað til fyrirliggjandi gagna.
Vettvangsskoðun: Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér aðstæður á vettvangi.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um lögmæti byggingarleyfis sem heimilar endurnýjun á ytra byrði hússins nr. 18 við Þingholtsstræti. Bera kærendur fyrir sig að ný glerklæðning á húsinu virki sem spegill andspænis fasteignum þeirra, sem valdi verulegri röskun á hagsmunum þeirra sem fasteignareigenda.
Á svæði því er hér um ræðir er í gildi deiliskipulag frá 2. júní 2008 fyrir staðgreinireit 1.180.0, Menntaskólareit, sem afmarkast af Lækjargötu, Amtmannsstíg, Þingholtsstræti og Bókhlöðustíg. Deiliskipulagið er sett fram á uppdrætti með áritaðri greinargerð, en á uppdrættinum er jafnframt tekið fram að nánari skilmálar, markmið og forsendur deiliskipulagsins komi fram í heftinu „Miðborgarsvæði Reykjavíkur. Greinargerð og deiliskipulagsskilmálar fyrir staðgreinireit 1.180.0.“ Í skilmálum sem þar koma fram segir m.a. í gr. 4.2 að heimilt sé að gera minni háttar breytingar á húsum, s.s. svalir og litlar útbyggingar og lagfæringar án þess að koma þurfi til breytinga á deiliskipulagi, séu þær í samræmi við ákvæði byggingarreglugerðar. Breytingar skuli ávallt miðast við aðstæður og geti þarfnast grenndarkynningar. Í samræmi við ákvæði þetta verður að telja að sú endurgerð götuhliðar Þingholtsstrætis 18, sem um er deilt í málinu, feli í sér lagfæringar sem heimilt hafi verið að ráðast í án þess að gera þyrfti breytingar á deiliskipulagi svæðisins. Hins vegar er kveðið á um það í skilmálunum að slíkar breytingar, sem gera má án breytinga á deiliskipulagi, geti þarfnast grenndarkynningar. Hvort grenndarkynningar sé þörf hlýtur að ráðast af þeim grenndaráhrifum sem breytingin hefur og séu þau umtalsverð leiðir af tilvitnuðu ákvæði að grenndarkynning þarf að eiga sér stað. Telur úrskurðarnefndin að umdeildar breytingar á götuhlið Þingholtsstrætis 18 hafi slík grenndaráhrif gagnvart eignum kærenda, einkum vegna mikillar speglunar, að borið hefði að grenndarkynna þær í samræmi við það ákvæði í skilmálum deiliskipulagsins sem að framan er rakið.
Gerð er grein fyrir hinu kærða byggingarleyfi á aðaluppdráttum og í byggingarlýsingu á þeim. Þykir skorta þar skýringar og glögga lýsingu á framkvæmdinni þannig að betur megi af gögnum þessum ráða um breytt útlit hússins að framkvæmdum loknum. Er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að þar sem grenndarkynning hafi ekki farið fram í samræmi við skipulagsskilmála, og að ekki hafi heldur verið unnt að ráða af hönnunargögnum hver yrðu áhrif umdeildra breytinga á húsinu að Þingholtsstræti 18, beri að fallast á kröfu kærenda um ógildingu hins kærða byggingarleyfis.
Úrskurðarorð:
Ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 29. maí 2012, um að veita byggingarleyfi til að endurbyggja úr gleri og áli austur- og vesturhlið Þingholtsstrætis18, er felld úr gildi.
____________________________________
Hjalti Steinþórsson
____________________________ ___________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson