Ár 2007, miðvikudaginn 15. ágúst, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík. Mættir voru, Ásgeir Magnússon héraðsdómari, varaformaður, Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur og Geirharður Þorsteinsson arkitekt og skipulagshönnuður.
Fyrir var tekið mál nr. 74/2007, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 um að heimila byggingu húss á lóðinni nr. 8-16 við Borgartún.
Í málinu er nú kveðinn upp til bráðabirgða svofelldur
úrskurður
um kröfu kæranda um stöðvun framkvæmda:
Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 24. júlí 2007, er barst nefndinni hinn 26. sama mánaðar, kæra H og A, bæði til heimilis að Miðtúni 2 í Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 19. júní 2007 að heimila byggingu 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi ásamt því að kveðinn verði upp til bráðabirgða úrskurður um stöðvun framkvæmda þar til endanleg niðurstaða liggi fyrir í kærumálinu. Verður krafan um stöðvun framkvæmda nú tekin til úrskurðar.
Málsatvik og rök: Á fundi skipulagsráðs hinn 30. ágúst 2006 var samþykkt að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi svæðis er tekur til Borgartúns, Höfðatúns, Skúlagötu og Skúlatúns, svonefnds Höfðatorgs, en fyrir var í gildi deiliskipulag frá árinu 2003. Kynningartími var frá 29. september til og með 24. nóvember 2006 og bárust athugasemdir við tillöguna, meðal annars frá kærendum. Á fundi skipulagsráðs hinn 7. febrúar 2007 var tillagan samþykkt og staðfesti borgarstjórn þá afgreiðslu á fundi hinn 20. febrúar s.á. Skipulagsstofnun staðfesti með bréfi, dags. 3. apríl 2007, að stofnunin gerði ekki athugasemdir við málsmeðferðina og birtist auglýsing um gildistöku deiliskipulagsins í B-deild Stjórnartíðinda hinn 10. apríl 2007. Deiliskipulagsbreytingin fól m.a. í sér breytt landnot á svæði því er hér um ræðir, aukið byggingarmagn á lóðunum og hækkun húsbygginga. Hafa kærendur kært þá skipulagsbreytingu til úrskurðarnefndarinnar.
Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 19. júní 2007 var samþykkt að heimila byggingu fjórða áfanga 7 til 19 hæða þjónustu- og skrifstofuhúss á lóðinni að Borgartúni 8-16. Borgarráð staðfesti afgreiðslu skipulagsráðs á fundi sínum hinn 28. júní 2007. Hafa kærendur nú kært það byggingarleyfi til úrskurðarnefndarinnar og krafist stöðvunar framkvæmda eins og að framan greinir.
Af hálfu kærenda er m.a. vísað til þess að þau hafi kært til úrskurðarnefndarinnar deiliskipulagsbreytingu Höfðatorgs og krafist ógildingar hennar þar sem þau telji að ekki hafi verið sýnt fram á með raunhæfu umhverfismati hver verði áhrif fyrirhugaðra bygginga. Ekki hafi verið sýnt fram á áhrif vindhviða eða aukinnar bílaumferðar og mengunar. Ástandinu við heimili þeirra megi líkja við margra ára heimilisgíslingu, enginn vilji búa á stað þar sem verið sé að brjóta gíg að stærð sem minni á framkvæmdir við Kárahnjúka. Byggingarleyfishafi hafi boðist til að kaupa fasteign kærenda, langt undir markaðsvirði, sem kærendur túlki sem svo að nota eigi viðkvæmt ástand vegna framkvæmdarinnar.
Af hálfu Reykjavíkurborgar er þess krafist að kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda verði synjað enda sé hið kærða byggingarleyfi í samræmi við skipulag svæðisins. Því sé hafnað að framkvæmd sú er um ræði sé háð mati á umhverfisáhrifum enda sé ekki um að ræða matskylda framkvæmd í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum nr. 106/2000. Í svörum skipulagsfulltrúa við athugasemdum kærenda við deiliskipulag svæðisins hafi verið greint frá áætlaðri bílaumferð um svæðið ásamt því að byggingarnar séu hannaðar sérstaklega með vind og veðurfar í huga.
Í ljósi alls ofangreinds, meginreglu 1. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og með hliðsjón af hagsmunum byggingarleyfishafa, telji Reykjavíkurborg að hafna beri kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Byggingarleyfishafi mótmælir framkominni stöðvunarkröfu og hafnar því að þær byggingarframkvæmdir sem heimilaðar hafi verið með hinu kærða byggingarleyfi þurfi að sæta mati á umhverfisáhrifum. Í 1. mgr. 3. gr. laga nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana komi fram að lögin eigi aðeins við um umhverfismat skipulags- og framkvæmdaáætlana, en ekki einstakar byggingarframkvæmdir. Þá komi einnig fram í ákvæðinu að lögin lúti aðeins að áætlunum er marki stefnu varðandi leyfisveitingar til þeirra framkvæmda sem tilgreindar séu í lögum nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum. Ljóst sé að þær framkvæmdir er um ræði séu ekki matsskyldar skv. 5. gr. fyrrnefndra laga og teljist ekki heldur framkvæmdir sem hugsanlega geti verið háðar umhverfismati skv. 6. gr. laganna.
Stöðvun framkvæmda muni valda byggingarleyfishafa miklu tjóni og með vísan til 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verði að vega og meta hina andstæðu hagsmuni sem tekist sé á um.
Niðurstaða: Fyrir hina umdeildu skipulagsbreytingu á Höfðatorgsreit mátti reisa allt að 16 hæða byggingu á skipulagsreitnum. Skipulagsbreytingin sem hið kærða byggingarleyfi styðst við heimilar allt að 19 hæða byggingu og nokkru hærra nýtingarhlutfall en áður.
Með hliðsjón af byggingarheimildum deiliskipulags umrædds reits fyrir umþrætta breytingu þykja hagsmunir kærenda ekki knýja á um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi. Af þeim sökum og þar sem á þessu stigi liggur ekki fyrir að umrætt byggingarleyfi sé haldin augljósum ógildingarannmörkum þykja ekki efni til að verða við kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda.
Úrskurðarorð:
Kröfu kærenda um stöðvun framkvæmda samkvæmt hinu kærða byggingarleyfi er hafnað.
___________________________
Ásgeir Magnússon
_____________________________ ____________________________
Þorsteinn Þorsteinsson Geirharður Þorsteinsson