Fyrir var tekið mál nr. 73/2015, kæra á ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar frá 1. júlí 2015 um að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19, Selfossi.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 4. september 2015, er barst nefndinni 7. s.m., kærir ÞGÁ trésmíði slf., Selfossi, þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar sveitarfélagsins Árborgar frá 1. júlí 2015 að beita ekki þvingunarúrræðum vegna framkvæmda í atvinnuhúsnæði að Gagnheiði 19 á Selfossi. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.
Gögn málsins bárust frá Sveitarfélaginu Árborg 30. október 2015.
Málsatvik og rök: Árið 2009 fékk einn eigenda í fjöleignarhúsinu Gagnheiði 19 byggingarleyfi fyrir gerð innkeyrsludyra í séreign sína. Ekki var ráðist í framkvæmdir og féll byggingarleyfið því úr gildi ári eftir útgáfu þess skv. þágildandi 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997.
Sótt var um byggingarleyfi fyrir sömu framkvæmd á árinu 2013 en hún fékkst ekki samþykkt þar sem samþykki meðeigenda skorti. Þrátt fyrir það munu framkvæmdir hafa byrjað og eru nú fyrrgreindar innkeyrsludyr í séreign umsækjanda. Einn sameigenda fjöleignarhússins gerði í kjölfar þess þá kröfu á hendur sveitarfélaginu að innkeyrsludyrnar yrðu fjarlægðar. Skipulags- og byggingarfulltrúi sveitarfélagsins aflaði álits tveggja byggingatæknifræðinga af því tilefni og var niðurstaða þeirra sú að framkvæmdirnar hafi ekki teljandi áhrif á burðarvirki hússins. Einnig var öllum eigendum hússins að Gagnheiði 19 tilkynnt um málið og þeim veittur andmælaréttur. Athugasemdir bárust og á fundi skipulags- og byggingarnefndar hinn 1. júlí 2015 var tekin sú ákvörðun að ekki væri tilefni til þess að beita þvingunarúrræðum skv. 55. og 56. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Sú ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 7. ágúst 2015, og fór hann fram á rökstuðning fyrir henni með bréfi, dags. 20. s.m. Umbeðinn rökstuðningur barst honum með bréfi, dags. 21. september s.á. Var ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar í kjölfarið kærð til úrskurðarnefndarinnar, svo sem að framan greinir.
Kærandi tekur fram að á árinu 2009 hafi eigandi rýmis 103 í húsinu að Gagnheiði 19 fengið útgefið byggingarleyfi, að því er virðist m.a. á grundvelli fundarboðs húsfundar en ekki með samþykki sameigenda. Fram komi í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús að ytra byrði húss sé sameign allra eigenda þess. Engu að síður hafi verið ráðist í framkvæmdir og umþrættar innkeyrsludyr settar á húsið án þess að lögboðið samþykki sameigenda lægi fyrir.
Sveitarfélagið tekur fram að þegar til álita komi að beita þvingunarúrræðum laga um mannvirki sé hvert tilvik metið sjálfstætt, m.a. með tilliti til meðalhófs, enda sé um íþyngjandi heimildarákvæði að ræða. Skipulags- og byggingarfulltrúi hafi skoðað umdeilda framkvæmd ásamt sérfræðingum og hafi það verið niðurstaða þeirra að breytingarnar hefðu ekki haft umtalsverð áhrif á burðarvirki hússins og að ekki stafaði hætta af þeim. Ekki verði séð að umræddar breytingar á húsnæðinu valdi kæranda óþægindum, ónæði eða skaða. Um sé að ræða iðnaðarhúsnæði þar sem nágrannar verði almennt að þola umferð vinnuvéla, bifreiða o.fl. Á umræddu húsnæði hafi þegar verið innkeyrsludyr, þannig að gera megi ráð fyrir að notkun þess hafi ekki tekið breytingum frá því sem áður hafi verið.
Niðurstaða: Í máli þessu er deilt um þá ákvörðun skipulags- og byggingarnefndar Árborgar að hafna kröfu kæranda um beitingu þvingunarrúrræða til að knýja fram að innkeyrsludyr á ytra byrði hússins að Gagnheiði 19 yrðu fjarlægðar.
Í 2. mgr. 55. gr. laga um mannvirki nr. 160/2010 kemur fram að sé byggingarframkvæmd hafin án þess að leyfi sé fengið fyrir henni eða brjóti hún í bága við skipulag geti byggingarfulltrúi, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, krafist þess að hið ólöglega mannvirki eða byggingarhluti sé fjarlægt. Sinni eigandi ekki þeirri kröfu er heimilt að vinna slík verk á hans kostnað. Sambærilegt ákvæði er að finna í 2. mgr. gr. 2.9.1. í byggingarreglugerð nr. 112/2012, þar sem leyfisveitanda eru veittar sömu heimildir. Í nefndri reglugerð er leyfisveitandi skilgreindur sem það stjórnvald sem gefur eða á að gefa út byggingarleyfi samkvæmt reglugerðinni. Er jafnframt tekið fram að þar sé um að ræða byggingarfulltrúa viðkomandi sveitarfélags eða Mannvirkjastofnun, sbr. 48. tl. gr. 1.2.1. í nefndri reglugerð.
Samkvæmt ótvíræðu orðalagi tilvitnaðra ákvæða mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar er byggingarfulltrúum, eða eftir atvikum Mannvirkjastofnun, falið það vald að taka ákvörðun um hvort umræddum þvingunarúrræðum verði beitt í hverju tilviki eða ekki. Til þess ber og að líta að í athugasemdum með frumvarpi því sem varð að mannvirkjalögum kemur fram að lögð sé til sú grundvallarbreyting frá fyrri lögum að sveitarstjórn staðfesti að meginreglu ekki lengur ákvarðanir byggingarfulltrúa og að tilvist byggingarnefnda verði háð gerð sérstakrar samþykktar viðkomandi sveitarstjórnar. Ekki liggur fyrir í málinu að slík samþykkt hafi verið gerð af hálfu Árborgar eftir gildistöku laga um mannvirki og er slík samþykkt ekki á skrá hjá Mannvirkjastofnun í samræmi við fyrirmæli 6. mgr. 7. gr. nefndra laga.
Svo sem áður er lýst tók skipulags- og byggingarnefnd þá ákvörðun að beita ekki þvingunarúrræðum vegna hinna umþrættu framkvæmda, en ekki liggur fyrir að byggingarfulltrúi hafi tekið slíka ákvörðun í málinu. Var hin kærða ákvörðun því ekki tekin af þar til bæru stjórnvaldi samkvæmt áðurgreindum ákvæðum mannvirkjalaga og byggingarreglugerðar. Verður málinu af þeim sökum vísað frá úrskurðarnefndinni, með vísan til 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, þar sem ekki liggur fyrir í málinu ákvörðun sem bindur endi á mál og borin verður undir úrskurðarnefndina.
Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.
Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.
Ómar Stefánsson
______________________________ _____________________________
Ásgeir Magnússon Þorsteinn Þorsteinsson