Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

73/2006 Njálsgata

Ár 2007, þriðjudaginn 13. nóvember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21 í Reykjavík.  Mættir voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Ásgeir Magnússon héraðsdómari og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur. 

Fyrir var tekið mál nr. 73/2006, kæra á afgreiðslu byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2006 á fyrirspurn um hvort íbúð fáist samþykkt í kjallara hússins á lóðinni nr. 50 við Njálsgötu. 

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 14. september 2006, er barst úrskurðarnefndinni samdægurs, kærir Erla S. Árnadóttir hrl., f.h. R, Njálsgötu 20 í Reykjavík, svar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 15. ágúst 2006 við fyrirspurn um hvort íbúð fáist samþykkt í kjallara hússins að Njálsgötu 50.

Gerir kærandi þá kröfu að hið kærða svar við fyrirspurninni verði fellt úr gildi. 

Málsatvik og rök:  Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 14. júlí 2006 var lögð fram fyrirspurn kæranda þess efnis hvort samþykki bæjarstjórnar og byggingarnefndar Reykjavíkur frá árinu 1916 fyrir íbúð í kjallara hússins að Njálsgötu 50 væri enn í gildi.  Var svar byggingarfulltrúa við fyrirspurninni eftirfarandi:  „Nei.  Ekki miðað við framlögð gögn.“  Í kjölfarið lagði kærandi fram nýja fyrirspurn ásamt frekari gögnum og var ákveðið á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 25. júlí 2006 að fram skyldi fara  íbúðarskoðun áður en unnt væri að taka afstöðu til erindisins.  Íbúðar¬skoðun var framkvæmd hinn 1. ágúst 2006 og fjallað um málið að nýju á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa hinn 15. ágúst 2006.  Var þá eftirfarandi bókað:  „ Nei.  Uppfyllir ekki ákvæði um íbúðir hvað niðurgröft og lofthæð varðar.“  

Framangreindri afgreiðslu hefur kærandi skotið til úrskurðar¬nefndarinnar svo sem fyrr greinir. 

Af hálfu kæranda er m.a. vísað til þess að kjallarinn hafi verið samþykktur til íbúðar á árinu 1916 og hafi sú samþykkt aldrei verið felld úr gildi eða henni breytt með nokkrum hætti.  Synjun byggingarfulltrúa á samþykkt íbúðarinnar sé án allra lagaheimilda og fáist ekki staðist.  Í henni felist eignaskerðing, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944.  

Af hálfu byggingarfulltrúans í Reykjavík er vísað til þess að embætti hans hafi í tilviki því er hér um ræði aðeins fjallað um fyrirspurn kæranda en ekki byggingarleyfisumsókn og því hafi ekki verið um að ræða synjun á byggingarleyfi.  Ekki séu því skilyrði til málskots til úrskurðarnefndarinnar með vísan til 10. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998.  Af þessum sökum sé þess krafist að málinu verði vísað frá úrskurðar¬nefndinni.  

Niðurstaða:  Erindi kæranda til byggingarfulltrúa, dags. 17. júlí 2006, er ritað á hefðbundið eyðublað fyrirspurnar og var það meðhöndlað sem slíkt af hálfu embættis byggingarfulltrúa en ekki sem byggingarleyfisumsókn.  Munu slíkar fyrirspurnir tíðkaðar fyrir hallkvæmnissakir. 

Með vísan til þessa verður hið kærða svar ekki talið hafa falið í sér annað en afstöðu embættis byggingarfulltrúa til fyrirspurnar um hvort leyfi fengist fyrir tilteknum framkvæmdum ef byggingarleyfisumsókn þar að lútandi yrði lögð fram.  Svar við slíku erindi verður ekki lagt að jöfnu við afgreiðslu formlegrar byggingarleyfisumsóknar, sem tilskildir uppdrættir og hönnunargögn fylgja.  Þar af leiðandi er hin umdeilda afgreiðsla byggingarfulltrúa ekki lokaákvörðun sem bindur enda á meðferð máls og er hún því ekki kæranleg til úrskurðarnefndarinnar, sbr. 2. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.  Verður  máli þessu því vísað frá úrskurðarnefndinni.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega vegna mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni. 

 

___________________________
Hjalti Steinþórsson

 

______________________________                ________________________
         Ásgeir Magnússon                                         Þorsteinn Þorsteinsson