Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

72/2015 Flókagata

Árið 2017, fimmtudaginn 16. mars, kom úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skuggasundi 3, Reykjavík. Mættir voru Ómar Stefánsson varaformaður, Ásgeir Magnússon dómstjóri og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.

Fyrir var tekið mál nr. 72/2015, kæra á synjun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 á umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með ódagsettu bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, er barst nefndinni 3. september 2015, kærir A, Flókagötu 67, Reykjavík, þá ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir byggingarfulltrúa að veita umsótt leyfi.

Gögn málsins bárust frá Reykjavíkurborg 12. október 2015.

Málavextir: Á árinu 2005 fékk kærandi samþykkta umsókn um byggingarleyfi, m.a. fyrir stækkun bílskúrs á lóðinni Flókagötu 67 um 20,3 m2 og breytingu þaks skúrsins úr flötu í valmaþak. Við breytinguna yrði hámarkshæð þaks 1,4 m meiri en áður. Var leyfið veitt að undangenginni grenndarkynningu skv. þágildandi heimild í 3. mgr. 23. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, en ekki varð af framkvæmdum.

Ný byggingarleyfisumsókn var lögð fram árið 2013, sem laut að stækkun bílskúrsins um 18,3 m2 og sömu breytingu á þaki og áður hafði verið samþykkt. Þeirri umsókn var synjað af hálfu byggingarfulltrúa með vísan til neikvæðrar umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 9. desember 2013. Í þeirri umsögn kom fram að hækkun á efsta punkti þaks um 1,4 m myndi skerða útsýni frá Flókagötu 65 til austurs og að hærra þak myndi auka skuggavarp á lóðir sunnanmegin við hús. Þá væru ekki til nýleg fordæmi í hverfinu fyrir stækkun bílskúrs. Kærandi lagði inn nýja umsókn um byggingarleyfi í maí 2014 og mun ætlun hans hafa verið að lækka þak skúrsins frá fyrri umsókn. Sú lækkun kom hins vegar ekki fram á innsendum teikningum og var umsókninni hafnað. Í júní 2015 var aftur sótt um byggingarleyfi fyrir 18,3 m2 stækkun bílskúrs og gerð valmaþaks á skúrinn, þar sem hámarkshæð var lækkuð um 0,4 m frá fyrri umsóknum. Umsókninni fylgdi greinargerð þar sem vísað var til fordæma fyrir stækkun bílskúra og hækkun á þökum í hverfinu. Með bréfi byggingarfulltrúa, dags. 11. ágúst 2015, var kæranda tilkynnt um synjun umsóknarinnar, með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa, dags. 22. júlí 2015, þar sem lagst var gegn erindinu.

Málsrök kæranda: Kærandi tekur fram að við afgreiðslu á umsókn hans, dags. 14. júní 2005, hafi komið fram að fallist væri á umbeðið byggingarleyfi að teknu tilliti til sjónarmiða nágranna um að takmarka hækkun bílskúrsþaks. Með framlögðum arkitektateikningum með umsókn þeirri er synjað var hinn 11. ágúst 2015 hafi verið komið til móts við ýtrustu kröfur nágranna. Jafnframt hafi verið sýnt fram á að hækkun þaksins hefði óveruleg áhrif á skuggavarp og útsýni.

Þau sjónarmið, sem skipulagsfulltrúi færi fram sem rök fyrir neikvæðri afstöðu sinni til umsóknar kæranda, séu síðar til komin og brjóti gegn skýrum fordæmum, bæði hvað varði stækkun bílskúra og hækkun á þökum á svæðinu. Sama gildi um afstöðu skipulagsfulltrúa til jafnræðisreglna stjórnsýsluréttar. Ekki sé gætt jafnræðis þegar lögð séu til grundvallar sjónarmið um „nýleg fordæmi“ þegar afstaða sé tekin til stækkunar bílskúrs. Þá sé ekki fjallað um fjölda fordæma um hækkun á þökum bílskúra. Túlkun skipulagsfulltrúa sé handahófskennd og brjóti gegn jafnræðisreglu.

Málsrök Reykjavíkurborgar: Af hálfu borgaryfirvalda er tekið fram að afgreiðsla erindis kæranda frá 2005 sé úr gildi fallin og veiti kæranda ekki sjálfkrafa réttindi. Það sé mat skipulagsyfirvalda nú að þak bílskúrsins muni virka framandi í umhverfinu. Bílskúrar á svæðinu séu með flötum þökum og einhalla og ekki sé þörf á að lyfta þakinu til að laga leka. Flókagata 67 sé virðulegt hús í grónu hverfi, byggt árið 1952. Bílskúrinn á lóðinni sé tvöfaldur og 56 m2  að stærð. Hann sé einn sá stærsti í götunni, en bílskúrar séu þar almennt frá 20 til 40 m2. Ef fallist yrði á stækkun bílskúrs kæranda um 18 m2 yrði hann alls 74 m2, sem sé langt umfram það sem gangi og gerist í götunni og á næstu lóðum.

Hvorki þyki nauðsyn á stækkun skúrsins né vilji skipulagsyfirvöld gefa þau skilaboð eða það fordæmi að almennt megi stækka bílskúra í götunni, en ekki hafi nýlega verið heimilaðar stækkanir af þeirri stærðargráðu sem kærandi hafi óskað eftir. Bílskúrinn á lóðinni nr. 35 við Flókagötu, sem kærandi vísi til máli sínu til stuðnings, sé 67 m2, en heimiluð hafi verið stækkun á honum árið 1994. Byggingar sem leyfðar hafi verið fyrir rúmum 20 árum skapi þó engin réttindi til handa öðrum lóðarhöfum. Bílskúrinn á lóðinni nr. 59 við Flókagötu, sem kærandi vitni til, sé 55 m2, eða 1 m2 minni en bílskúr kæranda. Tilvísanir kæranda til breytinga í öðrum götum, s.s. Sigtúni og Hamrahlíð, hafi enga þýðingu í málinu og skapi heldur ekki fordæmi fyrir uppbyggingu á lóð kæranda. Synjun skipulagsyfirvalda hafi því verið málefnaleg og ekki brotið gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Það sé mat Reykjavíkurborgar að hin umþrætta byggingarleyfisumsókn hafi falið sér breytingu sem hvorki væri í samræmi við byggðamynstur hverfisins né þéttleika byggðarinnar. Því hafi ekki verið skilyrði til að grenndarkynna umsóttar breytingar skv. 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga.

Kærandi hafi tvívegis áður fengið synjun á stækkun bílskúrsins, þ.e. árið 2013 og 2014. Þær afgreiðslur hafi ekki verið kærðar til úrskurðarnefndarinnar og verði því ekki annað séð en að kærandi hafi fyrirgert kærurétti vegna stækkunar skúrsins nú. Beri af þeim sökum að vísa máli þessu frá úrskurðarnefndinni.

Niðurstaða: Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur nefndin það hlutverk að úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana og ágreiningsmálum vegna annarra úrlausnaratriða á sviði umhverfis- og auðlindamála eftir því sem mælt er fyrir um í lögum á því sviði. Í samræmi við þetta tekur úrskurðarnefndin lögmæti kærðrar ákvörðunar til endurskoðunar en tekur ekki nýja ákvörðun í málinu. Af þessum sökum tekur nefndin aðeins til úrlausnar kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar en telur það falla utan valdheimilda sinna að ákveða að leggja fyrir byggingarfulltrúa að veita hið umsótta byggingarleyfi, verði hinni kærðu ákvörðun hnekkt. Verður því ekki tekin afstaða til þess hluta kröfugerðar kæranda.

Í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030, bls. 252-254, kemur fram að svæðið sem hér um ræðir sé fullbyggt og fastmótað. Þar er og tekið fram að í fastmótaðri byggð megi gera ráð fyrir breytingum á núverandi húsnæði, viðbyggingum og öðrum endurbótum eftir því sem ákveðið er í hverfis- og/eða deiliskipulagi. Umrætt svæði hefur hvorki verið deiliskipulagt né er þar í gildi hverfisskipulag.

Þegar sótt er um byggingarleyfi á svæði þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn, eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála samkvæmt 6. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ákveðið að veita leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Byggingarleyfisumsókn kæranda, sem hafnað var með hinni kærðu ákvörðun, fól í sér stækkun á bílskúr um 18,3 m2 og hækkun þaks skúrsins um 1 m við að breyta því úr flötu þaki í valmaþak. Við þá stækkun yrði bílskúr kæranda 74 m2 að flatarmáli. Í umsögn skipulagsfulltrúa, sem lá til grundvallar hinni kærðu ákvörðun, voru þau efnisrök færð fram fyrir synjuninni að bæði þakgerð og stærð bílskúrsins eftir breytingu yrði úr takti við það sem gangi og gerist í næsta umhverfi við hús kæranda.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að efnisrök hafi legið að baki hinni kærðu ákvörðun.  Var byggingarfulltrúa því rétt að synja umsókn kæranda. Verður kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar því hafnað.

Uppkvaðning úrskurðar í máli þessu hefur dregist verulega sökum mikils fjölda mála sem skotið hefur verið til úrskurðarnefndarinnar.

Úrskurðarorð:

Hafnað er kröfu kæranda um ógildingu hinnar kærðu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 11. ágúst 2015 um að synja umsókn um byggingarleyfi fyrir stækkun bílskúrs og hækkun á þaki hans á lóðinni Flókagötu 67.

____________________________________
Ómar Stefánsson

______________________________              _____________________________
Ásgeir Magnússon                                                  Þorsteinn Þorsteinsson