Ár 2011, föstudaginn 30. desember, kom úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála saman til fundar í húsnæði nefndarinnar að Skúlagötu 21, Reykjavík. Mætt voru Hjalti Steinþórsson forstöðumaður, Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og Þorsteinn Þorsteinsson byggingarverkfræðingur.
Fyrir var tekið mál nr. 72/2011, kæra á ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. ágúst 2011 um að samþykkja að framlengja áður útgefið framkvæmdaleyfi fyrir lagningu hluta þjóðvegar 1 um land Hjarðarhaga og Skjöldólfsstaða I og byggingu nýrrar brúar á Ysta-Rjúkanda á Jökuldal.
Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur
úrskurður
Með ábyrgðarbréfi til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála, dags. 22. september 2011, er barst úrskurðarnefndinni 23. s.m., kæra V og Þ, eigendur Skjöldólfsstaða I, og H ehf., eigandi Hjarðarhaga, þá ákvörðun bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. ágúst 2011 að samþykkja að framlengja áður útgefið framkvæmdaleyfi fyrir lagningu hluta þjóðvegar um land Hjarðarhaga og Skjöldólfsstaða I og byggingu nýrrar brúar á Ysta-Rjúkanda á Jökuldal.
Gera kærendur þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að framkvæmdir samkvæmt hinu kærða leyfi verði stöðvaðar til bráðabirgða á meðan málið er til meðferðar hjá úrskurðarnefndinni. Þar sem málið þykir nægjanlega upplýst verður það nú tekið til endanlegs úrskurðar og verður því krafan um stöðvun framkvæmda ekki tekin til umfjöllunar.
Málavextir: Hinn 30. apríl 2009 sótti Vegagerðin um framkvæmdaleyfi fyrir endurbyggingu um eins kílómetra kafla þjóðvegar 1 við ánna Ysta-Rjúkanda á Jökuldal og byggingu nýrrar brúar. Umræddur vegakafli liggur í landi kærenda. Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti endanlega veitingu leyfisins hinn 22. júlí 2009.
Vegamálastjóri ákvað hinn 11. maí 2011 að taka eignarnámi nauðsynleg réttindi undir vegstæði, áningarstað og brúarmannvirki í landi kærenda skv. heimild í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007. Kærendur skutu þeirri ákvörðun til innanríkisráðuneytisins. Málinu var jafnframt vísað til matsnefndar eignarnámsbóta sem ákvað að veita Vegagerðinni umráð hins eignarnumda gegn framlagningu tryggingar fyrir væntanlegum eignarnámsbótum og kostnaði.
Með bréfi, dags. 29. júní 2011, sótti Vegagerðin um að framkvæmdaleyfið frá árinu 2009 yrði framlengt sökum þess að framkvæmdir hefðu tafist og málum vegna landeigenda væri ólokið. Skipulags- og mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs samþykkti að framlengja leyfið þegar mál varðandi landeigendur hefðu verið leyst. Bæjarstjórn samþykkti að framlengja áður útgefið leyfi fyrir vega- og brúargerðinni hinn 17. ágúst 2011 án skilyrða.
Málsrök kærenda: Kærendur benda á að áður útgefið leyfi fyrir umdeildum framkvæmdum hafi verið úr gildi fallið í síðasta lagi hinn 22. júlí 2011, en þá hafi tvö ár verið liðin frá útgáfu þess. Við meðferð umsóknar um nýtt framkvæmdaleyfi hafi kærendur átt andmælarétt að lögum og samkvæmt ákvæðum í gildandi aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs. Sá réttur kærenda hafi verið fyrir borð borinn þrátt fyrir formlega ósk þeirra um að fá að tjá sig áður en framkvæmdaleyfisumsóknin yrði afgreidd.
Þá liggi fyrir að við framlengingu framkvæmdaleyfisins hafi verið byggt á sömu gögnum og við upphaflega samþykkt þess, en í máli fyrir matsnefnd eignarnámsbóta hafi verið lagðir fram nýjir uppdrættir að framkvæmdunum. Kærendur hafi eftir atvikum getað sætt sig við afgreiðslu skipulags- og mannvirkjanefndar um skilyrta framlengingu framkvæmdaleyfisins en með hinni kærðu afgreiðslu sveitarstjórnar hafi gróflega verið brotið á rétti kærenda.
Andmæli framkvæmdaleyfishafa: Af hálfu framkvæmdaleyfishafa er gerð krafa um að kærumáli þessu verði vísað frá úrskurðarnefndinni en ella að ógildingakröfu kærenda verði hafnað.
Vísað er til þess að hinn 23. ágúst 2011 hafi innanríkisráðuneytið kveðið upp úrskurð í kærumáli vegna umdeilds eignarnáms þar sem kröfu um frestun réttaráhrifa hins kærða eignarnáms hafi verið hafnað. Með eignarnámsákvörðuninni og yfirfærslu umráða á eignarnumdum fasteignaréttindum kærenda til framkvæmdaleyfishafa verði að telja að kærendur eigi nú ekki kæruaðild í máli þessu.
Hin kærða ákvörðun lúti að framkvæmdum á landi í umráðum leyfishafa en kærendur hafi ekki sýnt fram á hvaða lögvörðu hagsmunir þeirra réttlæti kæruaðild. Ekki verði séð að kærendur verði fyrir réttarspjöllum gangi heimilaðar framkvæmdir eftir. Framkvæmdirnar hafi á sínum tíma verið kynntar kærendum og lögmælts andmælaréttar verið gætt en engar athugasemdir hafi komið fram af þeirra hálfu. Deilur leyfishafa og kærenda í máli þessu snúist um hvers eðlis eignarhald eigi að vera á landi undir umrædd samgöngumannvirki en ekki um legu þeirra eða umfang.
———-
Bæjarstjórn Fljótsdalshéraðs var tilkynnt um kærumál þetta og kallað eftir málsgögnum. Jafnframt var bæjaryfirvöldum gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum sínum og sjónarmiðum um kæruefnið. Svar hefur ekki borist við því erindi úrskurðarnefndarinnar en gögn er málið varða bárust með greinargerð framkvæmdaleyfishafa.
Niðurstaða: Kærendur í máli þessu hafa sætt eignarnámi að því landi sem ætlað er undir hliðrun þjóðvegar 1 vegna byggingar nýrrar brúar yfir Ysta-Rjúkanda á Jökuldal, en ekki liggur fyrir í málinu að innanríkisráðuneytið hafi kveðið upp úrskurð í kærumáli um lögmæti þess eignarnáms. Upplýst hefur verið að matsnefnd eignarnámsbóta hefur fært umráð hins eignarnumnda til framkvæmdaleyfishafa og úrskurðað um eignarnámsbætur til handa kærendum í máli þessu sem hafa veitt þeim bótum viðtöku með fyrirvara.
Kærendur eiga land að umræddu vegstæði og samgöngumannvirkjum og geta þau mannvirki haft áhrif á lögvarða hagsmuni þeirra svo sem af hagnýtingu lands í næsta nágrenni við framkvæmdasvæðið. Verða kærendur af þeim sökum taldir uppfylla skilyrði stjórnsýsluréttar fyrir kæruaðild í máli þessu. Þá liggur ekki fyrir að kærendum hafi verið tilkynnt um veitingu umdeilds framkvæmdaleyfis og verður því við það miðað að kæra í málinu hafi borist innan eins mánaðar frests svo sem kveðið er á um í 5. mgr. 52. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Verður því ekki fallist á framkomna frávísunarkröfu.
Bæjarráð Fljótsdalshéraðs samþykkti veitingu framkvæmdaleyfis fyrir hliðrun þjóðvegar 1 og byggingu nýrrar brúar sem kærumál þetta snýst um hinn 22. júlí 2009 og var leyfishafa tilkynnt um það með bréfi, dags. 24. s.m. Í 9. mgr. 27. gr. þágildandi skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 var kveðið á um að framkvæmdaleyfi félli úr gildi tveimur árum eftir útgáfu þess ef framkvæmdir væru þá ekki hafnar. Engar framkvæmdir voru hafnar á grundvelli leyfisins þegar hin kærða ákvörðun var tekin hinn 17. ágúst 2011 og var framkvæmdaleyfið þá fallið úr gildi. Fól hin kærða ákvörðun því í sér nýja ákvörðun um útgáfu framkvæmdaleyfis á grundvelli núgildandi skipulagslaga nr. 123/2010, sama efnis og eldra leyfi.
Samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal aðili máls eiga kost á að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða að slíkt sé augljóslega óþarft. Í málinu liggur fyrir að kærendum var kunnugt um efni framkvæmdaleyfis þess sem veitt var á árinu 2009 vegna umdeildra samgöngumannvirkja auk þess sem samningaumleitanir og samskipti höfðu átt sér stað milli kærenda og leyfishafa vegna þeirra. Lágu sjónarmið þeirra fyrir í málsgögnum og verður ekki fallist á að brotið hafi verið gegn andmælarétti þeirra við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar.
Þegar ekki er til að dreifa deiliskipulagi getur sveitarstjórn, með stoð í 5. mgr. 13. gr. skipulagslaga, veitt framkvæmdaleyfi að undangenginni grenndarkynningu ef fyrirhugaðar framkvæmdir eru í samræmi við aðalskipulag hvað varðar landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Ákvæði þetta verður að skýra svo að átt sé við framkvæmdir sem að öðru jöfnu væru háðar deiliskipulagi. Í 28. gr. vegalaga nr. 80/2007 er fjallað um vegi og skipulag og í gr. 4.16.2 í skipulagsreglugerð nr. 400/1998 er kveðið á um samgöngur í skipulagsáætlunum og verður af þessum ákvæðum ráðið að utan þéttbýlis ráðist gerð þjóðvega í aðalskipulagi að fengnum tillögum Vegagerðarinnar um legu þeirra. Er gerð grein fyrir þjóðvegi 1 á umræddu svæði í Aðalskipulagi Fljótsdalshéraðs 2008-2028 og var hvorki þörf á grenndarkynningu né atbeina Skipulagsstofnunar samkvæmt 1. tl. bráðabirgðaákvæðis skipulagslaga nr. 123/2010 við undirbúning hinnar kærðu ákvörðunar og verður hún því ekki talin haldin þeim annmörkum að þessu leyti að ógildingu varði.
Umræddar framkvæmdir fela aðeins í sér hliðrun þjóðvegar á stuttum kafla og gerð nýrrar brúar í stað eldri. Verður ekki séð að mannvirkin raski að marki hagsmunum kærenda enda hefur ekki verið á það bent. Í máli þessu er ekki tekið til skoðunar lögmæti eignarnáms gagnvart kærendum í tengslum við framkvæmdirnar en endurskoðun slíkrar ákvörðunar á ekki undir úrskurðarnefndina.
Að öllu framangreindu virtu verður ekki fallist á ógildingarkröfu kærenda.
Úrskurðarorð:
Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar bæjarstjórnar Fljótsdalshéraðs frá 17. ágúst 2011 um að samþykkja framkvæmdaleyfi fyrir lagningu hluta þjóðvegar 1 um land Hjarðarhaga og Skjöldólfsstaða I og byggingu nýrrar brúar á Ysta-Rjúkanda á Jökuldal.
________________________________
Hjalti Steinþórsson
______________________________ _____________________________
Aðalheiður Jóhannsdóttir Þorsteinn Þorsteinsson