Skip to main content
Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

71/2021 Brákarbraut

Árið 2021, fimmtudaginn 15. júlí, tók Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, með heimild í 3. mgr. 3. gr. laga nr. 130/2011, fyrir:

Mál nr. 71/2021, kæra á ákvörðun byggingarfulltrúa Borgarbyggðar frá 17. febrúar 2021 um að loka hluta mannvirkis á lóðinni Brákarbraut 25-27.

Í málinu er nú kveðinn upp svofelldur

úrskurður:

Með bréfi til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, dags. 30. maí 2021, er barst nefndinni sama dag, kærir Ikan ehf., leigutaki rýmis að Brákarbraut 25-27, Borgarbyggð, þá ákvörðun byggingarfulltrúa frá 17. febrúar 2021 að loka þeim hluta mannvirkis á lóðinni Brákarbraut 25-27 sem kærandi er með starfsemi í. Er þess krafist að ákvörðunin verði felld úr gildi.

Gögn málsins bárust úrskurðarnefndinni frá Borgarbyggð 7. júlí 2021.

Málsatvik og rök: Hinn 5. febrúar 2021 var framkvæmd úttekt af eldvarnaeftirliti Slökkviliðs Borgarbyggðar og byggingarfulltrúa í húsum að Brákarbraut 25-27, sem eru í eigu Borgarbyggðar. Fór sú úttekt fram í kjölfar þess að forstöðukona félagsþjónustuúrræðis í húsnæðinu leitaði til slökkviliðsstjóra Borgarbyggðar vegna vatnsleka í rafmagnstöflu húsnæðisins. Að úttekt lokinni útbjó eldvarnareftirlitsmaður skýrslu, dags. 9. febrúar 2021, sem send var embætti byggingarfulltrúa sama dag. Niðurstaða úttektarinnar var sú að brunavarnir í báðum mannvirkjum væru í miklum ólestri og mannvirkin sjálf í slæmu ásigkomulagi að öðru leyti.

Eftir að hafa móttekið skýrsluna sendi byggingarfulltrúa bréf til sveitarstjóra, dags. 10. febrúar 2021, þar sem fram kom að byggingarfulltrúinn teldi að bæði mannvirkjunum og notkun þeirra hefði verið breytt án þess að tilskilin leyfi hefðu verið veitt. Væru mannvirkin því ólögleg í skilningi 55. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki og krafðist byggingarfulltrúinn þess að notkun þeirra yrði hætt innan tveggja sólarhringa frá dagsetningu bréfsins. Í kjölfarið var haldinn fundur með sveitarstjórn, byggingarfulltrúa, eldvarnareftirlitsmanni og leigutökum húsnæðisins 11. febrúar 2021. Á fundinum var staða málsins kynnt og leigutökum tilkynnt að starfsemi í húsinu yrði stöðvuð um óákveðinn tíma frá og 13. s.m. Með bréfi, dags. 17. s.m., tilkynnti byggingarfulltrúi sveitarstjóra að hann teldi sér skylt að aðstoða slökkviliðsstjóra við að knýja eiganda mannvirkisins til úrbóta, sbr. 29. gr. laga nr. 75/2000 um brunavarnir, og á þeim grundvelli ítrekaði hann kröfu sína til sveitarfélagsins þess efnis að húsunum yrði lokað. Sama dag sendi byggingarfulltrúi bréf til allra leigutaka í umræddum mannvirkjum þar sem þeim var tilkynnt um lokunina og að öll umferð um mannvirkin án samráðs við annaðhvort byggingarfulltrúa eða slökkviliðsstjóra væri óheimil. Í bréfinu voru leiðbeiningar um að sá þáttur ákvörðunar sem byggði á lögum nr. 160/2010 væri kæranlegur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála og að kærufrestur væri mánuður frá dagsetningu bréfsins.

Kærandi bendir á að af bréfi byggingarfulltrúa verði ekki annað ráðið en að hann sé að stöðva starfsemi og notkun en ekki tilkynna lokun. Lagagreinin sem byggingarfulltrúi reisi niðurstöðu sína og fyrirmæli á gangi ekki út á það að banna starfsemi og geti greinin ekki átt við í því tilfelli sem hér um ræði. Byggingarfulltrúi vísi til 55. gr. laga nr. 160/2010 um að starfsemi verði hætt en hann taki ekki ákvörðun um lokun. Eigi 55. gr. augljóslega ekki við heldur ákvæði 56. gr. sömu laga.

Af hálfu Borgarbyggðar kemur fram að hin kærða ákvörðun byggist á úttekt byggingarfulltrúa á umræddu mannvirki sem hann hafi ráðist í á grundvelli heimildar til eftirlits með byggðu umhverfi, sbr. gr. 3.10.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012. Hafi umrædd ákvörðun verið byggð á málefnalegum sjónarmiðum og verið gætt að rannsóknarskyldu við meðferð málsins, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá væri eðlilegt að taka það til skoðunar hvort kæran hafi borist innan lögboðins kærufrests skv. lögum nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála.

Niðurstaða: Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er kærufrestur til úrskurðarnefndarinnar einn mánuður frá því að kæranda varð kunnugt eða mátti vera kunnugt um ákvörðun þá sem kæra lýtur að. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er fjallað um áhrif þess ef kæra berst að liðnum kærufresti. Ber þá samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins að vísa kæru frá nema að afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til efnismeðferðar. Í 2. mgr. 28. gr. laganna kemur fram að kæru skuli ekki sinnt ef meira en ár sé liðið frá því að ákvörðunin var tilkynnt aðila.

Hin kærða ákvörðun var send kæranda með tölvupósti 17. febrúar 2021 og var þar að finna leiðbeiningar um kæruleið til úrskurðarnefndarinnar og eins mánaðar kærufrest. Kæra í máli þessu barst 30. maí 2021, eða um tveimur og hálfum mánuði eftir að kærufresti lauk. Verður máli þessu því óhjákvæmilega vísað frá úrskurðarnefndinni í samræmi við fyrirmæli 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga.

Úrskurðarorð:

Kærumáli þessu er vísað frá úrskurðarnefndinni.